18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

34. mál, ferðamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ekki tefja fyrir málinu með löngu ræðuhaldi, en fyrst aðrir töluðu en 1. flm., þá langar mig til þess að segja hér nokkrar setningar.

Ég álít, að óðfluga stefni í þá átt að hreint loft, ómengað vatn og fjölbreytilegt og fagurt landslag verði einn sterkasti þáttur í þjóðarauði Íslendinga. Það þykir e.t.v. einkennilegt að taka svona til orða, en þetta er mín sannfæring. Það fækkar alltaf þeim löndum á jörðinni, sem geta boðið upp á þetta. Loftið á þeim þéttbýlu, stóru svæðum er að verða meira og minna mengað. Við sjáum dálítið sýnishorn af því, hvernig þetta er, þegar hann gerir sunnanátt og kolareykurinn frá Evrópu berst jafnvel alla leið hingað og þeir, sem hafa dálitla ferðareynslu, finna, hvernig það er að koma úr svækjunni og mengaða loftinu, sem víða er að verða í þéttbýlinu erlendis. Hvernig menn draga andann léttara, þegar hingað kemur, vegna þess að hér höfum við, sem betur fer hreint loft. Og það sama er að segja um vatnið og önnur atriði, sem þarna koma til greina.

Við höfum tæplega enn gert okkur ljóst, hve gífurlegt verðmæti við eigum í þessu og ég held, að Ísland, sem liggur einmitt á milli Evrópu og Ameríku, hafi þarna alveg sérstöku hlutverki að gegna, ef við förum skynsamlega að og skemmum ekki né mengum loftið og vatnið né náttúruna yfirleitt. Við það eigum við að geta ráðið og ekki sízt af því, að við höfum hér orkulindir eins og heita vatnið, sem gerir okkur mögulegt að koma þessum málum betur fyrir en nokkur önnur þjóð.

Ég vil taka undir það, sem ræðumaður hér á undan sagði, að ekki sé gerandi ráð fyrir, að við getum komizt ákaflega langt í því að heilla til okkar það ferðafólk, sem leggur mest upp úr lúxushóteldvöl og öðru slíku, en við eigum að geta fengið hingað mikinn fjölda fólks, sem vill fyrst og fremst sjá eitthvað sérkennilegt og jafnvel komast í ævintýri. Upp á þau ættum við að geta boðið, ævintýri af þeirri gerð, sem verða, þegar menn ferðast í alveg óvenjulegu og heillandi umhverfi. Ég hef oft vitnað til Kjalvegar í þessu sambandi t.d. og þess, sem þar er að finna. Hvað haldið þið, að margir staðir á jörðinni geti boðið upp á það, sem hægt er að fá á Kjalvegssvæðinu einu? Þar getur hvert barn gengið á jöklana svo að segja beint úr bifreiðunum. Þar er eitt mesta jarðhitasvæði landsins utan í jöklunum og má jafnvel finna dæmi þess, að jarðhitinn bræði jökulinn. Þá eru á þeim slóðum mikil stöðuvötn, þar sem jakar fljóta á sumrin og þar eru ákjósanlegir reiðvegir. Þar er aðstaða til þess að hafa skíðaiðkanir allt sumarið og fjallgöngur og sennilega allan veturinn líka, ef skynsamlega væri að farið og hafðar samgöngur loftleiðis t.d. í þyrlum.

Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um þá óhemju möguleika, sem er að finna hér á landi. Ef það væru lagðar t.d. 80—100 millj. í Kjalvegssvæðið með því að byggja þar ákjósanlega aðstöðu fyrir fólk, sem vildi dvelja í svo óvenjulegu umhverfi og komast í ævintýri af þessu tagi, þá mætti gera stórvirki. Það mætti svo í áföngum byggja hótel, sundlaugar og sundhallir úr gleri og hafa nægilegan hita allan ársins hring, því að segja má, að heita vatnið sé þarna alveg ótakmarkað fast við jöklana og snjóinn.

Hér er um náttúruauðæfi að ræða, sem eiga sér engan líka að ég hygg og með skynsamlegri notkun eiga þau að geta orðið ein hin traustasta stoð undir þjóðarbúskap okkar framvegis. Það mætti endalaust tilgreina dæmi af þessu tagi.

Það vakir ekki fyrir okkur flm. að flytja vantraust á ferðamálaráð eða nokkra aðra stofnun. Ég held, að okkur hafi alls ekki dottið ferðamálaráð í hug eða tæpast, nema þá sem einn aðila í þessu og þetta byggist ekki á vantrausti, heldur á því að koma ofurlítið meiri hreyfingu á þessi mál án þess að vanmeta nokkuð, sem í þeim hefur verið gert. Við teljum, að öll hreyfing og allar umr. um þetta séu til góðs. Það sé gott að opna gluggana í þessu tilliti og það geti verið ágætt fyrir ferðamálaráð eða fulltrúa frá því að setjast niður með fulltrúum frá öðrum samtökum.

Það er ekki leiðin til stórkostlegra átaka í þessu að vera sífellt að telja það fram, sem búið er að gera. Það kann að vera, að vel hafi verið gert og ástæða sé til þess að þakka það. Ég held, að það skipti þó mestu máli í þessu að horfa fram og það sé ekkert vanþakklæti í því fólgið með það, sem gert hefur verið. Og það er gott að leiða marga aðila saman, gott að hræra ofurlítið upp í þessu af og til og það er það, sem fyrir okkur vakir. Ég vona, að við nána athugun verði því vel tekið af öllum.

Síðast vil ég segja, að það er skylt að geta þess, að hingað hefur borizt til Alþ. meðmælabréf frá Sambandi matreiðslu— og framreiðslumanna, þar sem mælt er með því, að þessi athugun fari fram og samtökin láta í ljósi mikinn áhuga um þetta mál og vilja gjarnan fá að vera með í þeirri endurskoðun, sem þarna kemur til greina. Það finnst okkur flm. vel geta komið til, að þeir væru þarna með, því að þeir eiga þarna stóran hlut að og e.t.v. fleiri aðilar, sem ástæða væri til að taka með. Okkur er auðvitað alls ekki fast í hendi, að n. sé skipuð nákvæmlega eins og þarna er gert ráð fyrir, en hins vegar, að í þetta mál verði gengið og allir beztu kraftar virkjaðir til þess að gera yfirlit um, hvað skuli gera á næstunni til þess að notfæra sér þessa stórfelldu möguleika.