18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

34. mál, ferðamál

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða margorður um þá till., sem hér liggur fyrir, en ég tel, að hér sé enn á ný hreyft mjög merku máli. Það er áreiðanlega rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að Ísland á ýmis verðmæti, sem hingað til hefur ekki verið veitt mikil athygli, en munu reynast dýrmæt, þegar stundir líða, dýrmæt fyrir þá þjóð, sem landið byggir og einnig mikilsverð öðrum.

Ég hygg, að ferðamannastraumur sunnan að til hinna norðlægu landa muni fara vaxandi á komandi tímum. Það sem því veldur, er fyrst og fremst hið hreina og tæra loft þessa lands. Ég veit, að eitt af því, sem mesta athygli vekur hjá útlendum, sem slíku gefa gaum, þegar þeir koma hingað, er hið mikla útsýni yfir landið, vegna þess að loftið er tært. Við sjáum hér af íslenzkum fjöllum miklu lengra, miklu meiri víðáttu en við sjáum af t.d. fjöllum sunnar í álfunni, a.m.k. um sumartímann, vegna þeirrar móðu, sem þar er alltaf í lofti, en hér er loftið tært. Og það er líka þessi tærleiki loftsins, sem listamenn gefa gaum að og skapar hina sérkennilegu íslenzku náttúruliti.

Það hefur verið margt rætt um það á undanförnum áratugum, hvort stefna ætti að því, að Ísland yrði ferðamannaland eða ekki og ég ætla ekki að fara að rifja það upp. Fyrr eða síðar mun landið verða miklu meira ferðamannaland, en það er nú. Hvort sem hægt er að koma því í kring, eins og hér er orðað í till., að ferðamannastraumurinn margfaldist á komandi árum eða ekki, þá hlýtur Ísland að verða í framtíðinni miklu meira ferðamannaland en það er nú. Og þá þurfum við að sjálfsögðu, eins og tillögumenn segja, að gera mönnum kleift, sem hér vilja ferðast um, að kynnast því t.d., sem óbyggðir og öræfi landsins búa yfir, en við eigum þó fyrst og fremst að gera þeim kleift að kynnast því, sem hægast er að kynnast, þ.e.a.s. hinum byggða hluta landsins. Þó að ekki sé farið inn í óbyggðirnar, þá býr hinn byggði hluti Íslands yfir mikilli fegurð.

Það, sem ég vildi koma að í þessu sambandi, við verðum að hafa í huga í þessum efnum kannske fyrst og fremst, er, að Ísland er vanþróað land í vegamálum. Ferðamönnum, sem koma frá þeim löndum, þar sem samgöngur á landi eru komnar á venjulegt stig, hvort sem það er vestan eða austan Atlantshafsins, bregður mörgum hverjum í brún, þegar þeir sjá vegina hér á Íslandi, eins og þeir eru úti um byggðirnar og í ýmsum þeim héruðum, sem fegurst eru á landinu, — hvernig þeir geta orðið i misjafnri tíð, þótt um sumar sé. Og við getum ekki gert ráð fyrir því, að Ísland verði mikið ferðamannaland, fyrr, en bót er ráðin á þessari vanþróun í vegamálum. Það er þess vegna í raun og veru mjög vel til fallið, að ferðamálin skuli heyra undir sama ráðh. og samgöngumálin. Samgöngurnar á landi eru einmitt undirstaða þess, að Ísland geti orðið mikið ferðamannaland. Þessu megum við ekki gleyma. Það þarf að vera hægt að komast um landið, til þess að hægt sé að skoða það. Þó að við Íslendingar teljum okkur geta farið þessa vegi á bifreiðum, sem í raun og veru þola alls ekki slíka vegi, sem hér eru á landi, þá þykir annarra þjóða mönnum, sem öðru og betra eru vanir, þetta mörgum hverjum ekki fært. Ef Ísland á að verða mikið ferðamannaland, verðum við að hefja okkur upp úr þeirri vanþróun í vegamálum, sem enn er hér í landi.