16.12.1968
Neðri deild: 30. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Frv. það á þskj. 112, sem hér er til umræðu, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzku krónunnar hefur verið rætt hér nokkuð í þessari hv. d. Eftir að hæstv. sjútvmrh. hafði lokið máli sínu, hafa tveir hv. þm. úr stjórnarandstöðunni, þeir hv. 4. þm. Austf. og hv. 2. þm. Reykn., talað í málinu og lýst sig að vísu ekki alveg afdráttarlaust en þó á móti málinu, a.m.k. vissum þáttum.

Frv. það, sem hér er um að ræða, er fram komið vegna þess mikla vanda, sem gengið hefur yfir íslenzkt þjóðfélag og mæðir þá að vissu leyti mest á íslenzkum sjávarútvegi. Frv. er í þremur köflum, og er það í fyrsta lagi um sérstaka ákvörðun fiskverðs; í öðru lagi um Stofnfjársjóð og um útflutningsgjald af sjávarafurðum; í þriðja lagi um ráðstöfun gengishagnaðar. Við þm. höfum allir gert okkur fulla grein fyrir því, að það var mikill vandi, er blasti við Alþ., að leiða íslenzku þjóðina í gegnum þau miklu áföll, sem hún hefur orðið fyrir nú á undanförnum tveimur árum, má segja, sem orsökuðust fyrst og fremst af aflabresti og lækkandi verðlagi á íslenzkum afurðum. Þegar farið var að rannsaka hvaða leiðir kæmu til greina út úr þessum vanda, ræddu menn um þrjár leiðir. Í fyrsta lagi verðuppbótaleið, sem við þekkjum nú mjög frá undanförnum árum, því að oftast hefur verið gripið til hennar. Í öðru lagi var rætt um niðurfærsluleiðina og í þriðja lagi stöldruðu menn við gengisbreytinguna og var sú leið farin, þegar búið var að kanna hinar leiðirnar og það kom í ljós, að talið var, að þær væru óframkvæmanlegar eins og sakir stæðu, bæði niðurfellingarleiðin og uppbótaleiðin. Frv. þetta er þess vegna nauðsynlegt til þess að tryggja það, að atvinnurekstur til sjávarins geti haldið áfram og er virðingarverð tilraun til þess að hleypa nýju lífi í íslenzkan sjávarútveg og þar með efla atvinnulíf í landinu, því að ef íslenzkur sjávarútvegur getur ekki verið rekinn á svona viðunandi heilbrigðum grundvelli, bresta aðalstoðirnar undir atvinnurekstri þjóðarinnar.

Að ég tók til máls við þessa umræðu, var vegna ummæla hv. 4. þm. Austf. og þá í sambandi við það þegar hann rakti uppbótaleiðina, sem byrjaði ekki 1951, eins og hann sagði, bátagjaldeyriskerfið, heldur er það allt frá 1947, þegar Jóhann Þ. Jósefsson var sjútvmrh. og svo kallaður hrognagjaldeyrir var settur á stofn, þ.e.a.s. útvegsmenn fengu leyfi til að fá hluta af gjaldeyrinum og selja þær vörur, sem voru fluttar inn, sem voru háðar ákveðnum lista, og með ákveðnu álagi og fengu hagnað af því. En hvers vegna var þetta? Það var vegna þess, að skiptakjörin voru þannig og viðurkennt var af stjórnarvöldum þá þegar, að nauðsynlegt væri að hlaupa undir bagga í sambandi við þessi mál. Og eins og ég segi, það var 1947 frekar en 1948, sem þetta byrjaði og það voru einmitt þau málaferli, sem hv. þm. minntist á áðan að voru einmitt í sambandi við þetta kerfi. Það voru ekki mörg mál, sem farið var í í sambandi við þetta. Vestmanneyingar fóru í eitt mál í sambandi við það, en samkomulag varð að öðru leyti um þessa hluti.

Skiptakjörin hafa breytzt mjög verulega á þessum tíma, ef við lítum til baka um 20 ár, og þó að margir tali um helmingaskiptin sem svo mjög nauðsynleg og sjálfsögð og miða þó við allt annað heldur en er í dag, þá hefur það verið viðurkennt af löggjafanum í einu eða öðru formi, að það hefur þurft að hlaupa undir bagga með útgerðinni til þess einmitt, að þeir gætu greitt sínum hásetum og öðrum, sem þeir skipta við, umsamin laun og aðrar nauðsynjar til útvegsins.

Bátagjaldeyriskerfið byrjaði samkv. ráðuneytisbréfi 24. janúar 1951 og það sýndi sig, þegar frá leið, að það var alveg nauðsynlegt að semja um ákveðið skiptaverð. Það var 1954 fyrir forgöngu Alþýðusambandsins og Landssambandsins, sem þessir samningar voru teknir upp, þ.e.a.s. þá var annað skiptaverð, en útgerðarmenn fengu uppbætur í ýmsu formi, hvort sem það var í gegnum bátagjaldeyriskerfið eða síðar með útflutningsuppbótum, sem var endurtekið af vinstri stjórninni, en áður hafði þekkzt svo kallað ábyrgðarverð og var ekkert annað en uppbætur. Vegna þess að hv. þm. vildi telja, að þetta væri allt annað fyrirkomulag og kerfi, sem nú er verið að innleiða, heldur en var á þeim árum, sem hann fór með sjávarútvegsmál, þá vil ég aðeins segja nokkur orð um það.

Það er raunverulega frá mínu sjónarmiði séð nokkuð sama, hvort millifærsluleiðin er farin eða gengisbreyting. Það eru viss undirstöðuatriði, sem þurfa að vera fyrir hendi til þess, að útgerðin geti gengið. Það er staðreynd, að á árunum 1956–1959, þegar hv. þm. fór með sjávarútvegsmál, þá varð talsverður munur á skiptaverði og því, sem útgerðarmenn fengu, og bæði sú stjórn og aðrar stjórnir, sem hafa komið nærri þessum málum, hafa viðurkennt þetta. Þær hafa vitað, að það var nauðsynlegt að gera þetta, til þess að reksturinn gæti haldið áfram.

Ég vil aðeins vitna hér í skýrslu Landssambands íslenzkra útvegsmanna í árslok 1957 eða seinni hluta ársins 1957. Það á við verðið fyrir árið 1958. Þar segir í þessari skýrslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Samningaumleitanir stóðu yfir þar til á aðfangadagsmorgun og lauk þá með samkomulagi, sem fulltrúar L.Í.Ú. töldu sér fært að mæla með við fulltrúaráðsfundinn. Aðalefni samkomulagsins varðandi áætlun L.Í.Ú. var í fyrsta lagi, að fiskverð til skipta skyldi hækka um 10 aura pr. kg, miðað við slægðan þorsk með haus og tilsvarandi fyrir aðrar tegundir, en útgjaldaaukningu fyrir útvegsmenn, 6 aura, fengu útgerðarmenn bætta í hækkuðu fiskverði frá kaupendum, úr kr. 1.15pr.kg í 1.21.

2. Beituverð, sem átti að hækka um 20 aura pr. kg, skyldi vera óbreytt, þó þannig, að skráð verð skyldi vera 2.55 kr. pr. kg af pakkaðri síld, en fiskkaupendur skyldu greiða það niður um 20 aura. Hækkaðar voru tekjur útvegsmanna úr útflutningssjóði úr 32% og 16% í 35.3% og 17.65% eða um ca. 10%. Hins vegar fengust ekki upp borin þau 10% af brúttóafla, sem útvegsmenn höfðu gert kröfu til vegna áhættu og sem hefur sýnt sig, að full þörf er á, og þar að auki þurftu útgerðarmenn að taka á sig fullkomlega hækkun á tryggingu og vertíðinni skyldi skipt í tvö tryggingatímabil, þegar skipt er um veiðiaðferðir, ef sjómannafélögin gerðu kröfu um það.“

Þarna er einmitt verið að skýra frá niðurstöðum og þetta staðfestist einnig í bréfi frá sjútvmrn. þann 30. desember 1957. Það voru 13 liðir í þessu bréfi um það, sem gengið var til móts við útveginn, en 14. liðurinn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrirheit þau, sem að framan eru gefin, eru bundin því skilyrði, að samkomulag takist milli Landssambands íslenzkra útvegsmanna eða félagsdeildar þess annars vegar og samtaka sjómanna hins vegar um eftirgreind atriði: a. Að skiptaverð, fiskverð til sjómanna, hækki úr kr. 1.38 pr. kg í 1.48 pr. kg miðað við þorsk og hlutfallslega fyrir aðrar fisktegundir. b. Lágmarkskauptrygging sjómanna frá 1. janúar til 15. maí verði kr. 2530 í grunn á mánuði og gildi þessi kauptrygging á svæðinu frá og með Breiðafirði og austur að Djúpavogi nema samkomulag verði um annað. Ef skipt er yfir á net á vetrarvertíð, skal sjómannafélögum heimilað að telja, að nýtt tryggingatímabil hefjist.“

Undir þetta skrifaði núv. hv. 4. þm. Austf. ásamt ráðuneytisstjóranum.

Ég dreg þetta ekki fram vegna þess, að ég sé að álasa þessum hv. þm. Síður en svo. Hann hefur bara, eins og bæði fyrirrennarar hans og þeir, sem tóku við á eftir, viðurkennt, að það þurfi að gera þarna breytingar á. Sama er það, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert og komið til móts við útveginn í ýmsum uppbótum, vegna þess að kerfið hafði skekkzt og það mjög verulega. Ég ætla ekkert að fara að tala um það, hverjum það er að kenna eða hvaða orsakir liggja til þess, að kerfið hefur skekkzt. En það er staðreynd. Og þarna, eins og þið heyrðuð, var skiptaverð til sjómanna 1.48 kr., en endanlega mun á þessu ári hafa komið til útgerðarinnar 1.71 kr. pr. kg. Hæstv. sjútvmrh. sagði, að á þessum árum og ég efast ekki um, að það sé rétt, að hann hefur heimildina frá öruggum aðila, að það hafi verið munur frá 14–24% á þessum árum, sem hann sérstaklega talaði um.

Ég vil draga þetta fram, vegna þess að það var alltaf talsverður vandi að koma þessum málum í viðunandi horf á þessu tímabili. Bæði árið fyrir og næsta ár eftir að vinstri stjórnin var við völd, þurfti að hafa þríþætta samninga. Það voru samningar við ríkisvaldið um, hvaða fríðindi útgerðin hefði til þess, að hún gæti rekið bátana, borgað laun og annað þess háttar. Í öðru lagi voru það fiskverðssamningar við sjómenn, og í þriðja lagi voru það svo kjarasamningarnir. Það er ekki alveg rétt túlkað að mínu áliti, þegar hv. þm. sagði það, að núv. hæstv. ríkisstj. hefði knúið útvegsmenn og sjómenn til þess að gera nýja samninga eftir 1961. Þetta er ekki alveg rétt. 1959 var leitað eftir því af samtökum útvegsmanna, að samningarnir væru endurskoðaðir með það fyrir augum, að sama verð væri til skipta eða það fiskverð sem tekjur sjómanna væru reiknaðar af, væri hið sama og útgerðin fengi greitt. Og þetta var gert, þó að það tæki vissulega hátt upp í 2 ár. Það var ekki fyrr en 1961, sem þessir samningar tókust, en þá bið ég ykkur hv. þm. að gera ykkur fulla grein fyrir, að þá er einmitt samið um þann grundvöll, sem þá var fyrir hendi.

Til þess að gera þessar umræður ekki allt of langar, þá ætla ég aðeins að benda a, að af 824 bátum, sem komu með þennan afla að landi á árinu 1961, er meðalverðmæti hvers báts 2 millj. 570 þús. kr. En í árslok 1968, í ár, eru það 750 bátar og meðalverðmæti hvers báts er 5 millj. og 700 þús. kr. Þarna sjáið þið, að það er nokkuð á annað hundrað prósent, sem meðalverð bátanna hefur vaxið á þessu tímabili, fyrir utan svo margt annað, sem hefur breytzt. Ég vil draga fram þessa köldu staðreynd til að gera það skiljanlegt, að það er þörf á því að endurskoðun eigi sér stað í sambandi við að reikna laun sjómanna, því að vissulega eru hlutaskiptin ekki annað en aðferð til þess að finna kaupgreiðslu til sjómanna.

Og svo er það, að einmitt í gegnum auknar bætur í einu eða öðru formi, þá hefur myndin vissulega skekkzt. Það frv., sem hér liggur fyrir, á að leysa af hólmi það kerfi — ef við getum kallað það svo — það kerfi, sem hefur verið í sambandi við uppbótagreiðslurnar og er gert ráð fyrir því, að þegar er búið að ákveða fiskverð, verði fiskkaupendum og síldarkaupendum, ef við viljum skilja þá í sundur, verði þeim gert að greiða ákveðna prósentu í svo kallaðan Stofnfjársjóð, sem er vissulega ekkert annað en hluti af útgjöldum útgerðarinnar, þ.e.a.s. afborganir og vextir. Og því til viðbótar er einnig gert ráð fyrir, að ákveðin prósenta verði einnig greidd af fiskkaupendum, sem á að ganga beint til útgerðarmanna til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af gengisbreytingunni leiðir. Ég vil segja það, að ég tel, að í frv. þessu sé farið alveg í lágkantinn á því, hver þessi prósenta er. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu, sem sýnir, að þessi aukni kostnaður miðað við ákveðið aflamagn á árinu 1969 muni vera frá 17.9% og upp í 29.4%. Það virðist því vera algerlega um lágkantinn að ræða, þar sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að þetta séu 17%, en hitt er svo annar kostnaður, sem af þessu leiðir.

Það er vissulega rétt, sem hv. þm. sagði, að tekjur útgerðarinnar og sjómanna hafa lækkað verulega og vitnar hann í ræðu formanns Landssambandsins í sambandi við það. Ég vil aðeins segja það til skýringar, að kauptryggingin, þótt hún sé vissulega ekki mikil laun og ekki fyrir þá, sem eru langt frá heimilum sínum það skal viðurkennt — langan tíma á árinu og verða að greiða sitt fæði, þá er hún ekki há í sumum tilfellum, því að það fer nokkuð eftir því, hvað menn hafa háan hundraðshluta af aflanum. Hjá vélstjórum er það hálf önnur trygging, en hjá skipstjórum er það 11/3 trygging. En þess vegna er það, að þegar er talað um 3 millj. kr. tekjumissi hjá sjómönnum, þá held ég, að það dæmi sé ekki alveg rétt einmitt vegna þess, að hjá mörgum bátum hafi verið um kauptryggingu að ræða en ekki hlut, svo að raunverulega skekkir það dæmið. En þessu til víðbótar verð ég að segja það, að vegna þeirrar nýbreytni, sem við höfð var nú í sumar, að síld var söltuð úti á sjó, þá höfðu sjómenn tekjur af söltuninni og þá bættist það við þeirra hlut, því að í þeim upplýsingum, sem var vitnað í, var eingöngu átt við síld upp úr sjó, en söltunarlaunin komu til viðbótar.

Hv. þm. virðist nú ekki að mínu viti vera óánægður með ýmislegt í frv., þó að hann teldi, að suma kafla frv. ætti að fella og m.a. minntist hann á vátryggingariðgjöldin og útflutningsgjaldið. Í sambandi við það vil ég segja það, að þetta er raunverulega mjög svo svipuð aðferð og var viðhöfð í sambandi við greiðslu vátryggingariðgjalda einmitt á þeim tíma, þegar Útflutningssjóður starfaði. Þá var iðgaldið greitt af sjóðnum, og það var að sjálfsögðu háð eftirliti, en núna er það með útflutningsgjaldi. Ég get alveg tekið undir það, að þetta kerfi geti boðið ýmsum göllum heim, en ég vil bara segja það, að hitt kerfið gat það einnig alveg á sama hátt eins og útflutningsgjaldið.

Ég vildi aðeins með því að koma hér upp árétta það, að þetta er ekki eins mikil breyting eins og menn hafa viljað vera láta, og ég vil undirstrika það, að þrátt fyrir það, þótt það yrði lögfest, að tekið yrði í Stofnfjársjóð og ákveðinn hluti yrði færður til útgerðarinnar til greiðslu á auknum kostnaði vegna gengisbreytingarinnar, þá er sami áhugi hjá útvegsmönnum og sjómönnum að fá hækkað fiskverð. Það vitum við, sem höfum fylgzt með þessum málum, að ráðgert er, að fiskverð hækki og renni til beggja aðila, og er það nákvæmlega sama aðferðin, sem viðhöfð var, þegar þessi hv. þm. var sjútvmrh. Þá var greitt úr Útflutningssjóði beint til framleiðslunnar eða fríðindi til hennar, sem ekki komu til skipta, en í þessu tilfelli á að taka það aftur af útflutningnum, en hlutur sjómanna ætti ekki að vera mun lægri eða lakari. Að sjálfsögðu fer það eftir aflabrögðum, því það eru aflabrögðin, sem ráða algerlega um afkomu útgerðarinnar og þegar sagt er, að þetta sé árás á sjómenn og til að lækka þeirra hlut, þá vil ég segja það að síðustu, að það eru fyrst og fremst aflabrögðin, sem ráða þessu, og ég vil alveg staðhæfa, að það eru hagsmunir sjómanná alveg eins og útvegsmanna, að fleyturnar geti verið reknar á skaplegan hátt.