05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. svör hans. Hann dregur í efa, að ég hafi farið með rétt mál, þegar ég sagði, að hv. 9. þm. Reykv. hafi lýst því yfir á stúdentafundi, að hann teldi, að við Íslendingar ættum að vera áfram í NATO. Þessi ummæli hans birtust í dagblöðum Reykjavíkur, gott ef ekki öllum og hann hefur ekki borið þau til baka. Það eru staðreyndir þessa máls.

En það gleður mig sannarlega að heyra, að félagi hans skuli ekki vera á sama máli varðandi þetta stórmál, eins og hv. 9. þm. Reykv. reyndist vera. Það gleður mig mjög, að svo mætur maður skuli enn halda við afstöðu okkar Alþb.—manna í þessu efni. En mér sýnist eftir svör hv. þm., að þingflokkur hans sé í þessu máli a.m.k. klofinn í eins smáar einingar og einn þingflokkur getur mögulega klofnað. — Svo endurtek ég þakkir til hans fyrir svör hans.