05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (3253)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er rétt hermt hjá hv. 5. þm. Vesturl., að þegar þetta mál komst til umr. rétt fyrir jól, lagði ég til, að því yrði vísað til utanrmn., því ég gerði mér vonir um, að það kæmist þá til n. og unnt mundi vera að hafa þann hátt á, sem gerð er till. um í þáltill., en eins og ég gerði grein fyrir áðan, tel ég það algjörlega vonlaust, að þau vinnubrögð muni takast, ef málinu verður vísað til n. nú. Því dreg ég að sjálfsögðu þá till. mína til baka, þegar ég legg til, að málið verði afgreitt með hinni rökstuddu dagskrá. Ég tel, að þetta mál hafi verið það lengi á borðum hv. alþm., að það eigi að vera ákaflega auðvelt fyrir þá að taka um það ákvörðun, hvort um það eigi að hafa þessi þinglegu og málefnalegu vinnubrögð eða ekki.

Hv. þm. kvaðst telja, að hér hefði farið fram þingleg afgreiðsla með því að 2 hæstv. ráðh. hefðu lýst skoðun sinni þegar í fyrra og ítrekað þessa skoðun nú aftur. Auðvitað er það engin þingleg afgreiðsla, þótt ráðh. lýsi yfir skoðunum. Það, sem fram á er farið í till., er, að safnað sé gögnum, röksemdum, með tilliti til hinnar sérstöku aðstöðu Íslands. Þetta hafa öll þau ríki Atlantshafsbandalagsins, sem ég þekki til, gert að undanförnu, vegna þess að nú eru fram undan þau tímamót, að hvert ríki, sem vill, getur sagt sig úr bandalaginu. Sum ríkin hafa þegar framkvæmt mjög verulega og gagngera endurskoðun í verki, eins og við ræddum um á dögunum, þegar við fjölluðum um skýrslu hæstv. utanrrh. Frakkar hafa slitið allri hernaðarsamvinnu við bandalagið og þessa dagana berast aftur og aftur fregnir um, að annað ríki, Kanada, sé að hugsa um að slíta allri hernaðarsamvinnu við bandalagið, jafnvel segja sig úr því. Önnur ríki hafa talið það skyldu sína að safna mjög ýtarlegum gögnum, t.d. hefur utanrrn. Dana birt hvorki meira né minna en 3 þykk bindi um Danmörku og Atlantshafsbandalagið. Sami háttur hefur verið hafður á í Noregi og þeim ríkjum yfirleitt, þar sem eru þingræðisleg vinnubrögð innan Atlantshafsbandalagsins.

Hv. þm. taldi, að við hefðum ekki starfskrafta til þess að vinna slík verk, en mér er spurn: Til hvers höfum við menn í býsna mörgum stofnunum, sem eru í tengslum við Atlantshafsbandalagið? Við stofnuðum fyrir nokkrum árum sérstakt sendiráð, sem er tengt Atlantshafsbandalaginu. Ég held, að það væri ekki nein ofætlun, þótt Alþ. færi fram á, að þetta sendiráð gerði Alþ. eitthvert gagn, t.d. með því að safna af sinni hálfu þeim gögnum, sem sendiráðið heldur að skipti Alþ. máli. Hér við utanrrn. er starfandi sérstök varnarmáladeild. Mér fyndist ekkert óeðlilegt, að það yrði farið fram á, að sú deild legði Alþ. til vinnukrafta í þessu sambandi. Hér er starfandi varnarmálan. eftir því, sem ég veit bezt. Ég tel, að sú n. hefði vel getað unnið að þessu máli einnig. Hér er ekki um að ræða skort á vinnuafli, heldur einvörðungu það, að þótt nú séu ýmsir tilburðir til þess að gera meðferð utanríkismála eðlilegri og málefnalegri, heldur en var um sinn, þá vantar samt skilning á því, hvernig á að vinna að slíkum málefnum. Hv. utanrrh. og ýmsir þm. virðast halda, að það sé nægilegt að standa hér einu sinni á ári og flytja yfirborðslega skýrslu. En það þarf miklu meira til. Og sérstaklega þurfum við á því að halda, að skoðuð sé sérstaklega aðstaða Íslands innan þessa hernaðarbandalags. Það er staðreynd, sem enginn maður getur á móti borið, að staða okkar innan þessa bandalags er ákaflega annarleg, vegna þess að við erum vopnlaus friðarþjóð og það liggur í hlutarins eðli, að okkur ber að kanna öllum öðrum fremur, hvort við eigum að vera í þessu bandalagi og hvenær skynsamlegt kunni að vera fyrir okkur að losa okkur úr því. Þess vegna verðum við að vera menn til þess að meta málin af íslenzkum sjónarhóli ævinlega og það gerum við því aðeins, að við séum menn til þess að láta framkvæma málefnalegar rannsóknir og leggja vandamálin hér fyrir með fullum rökstuðningi allra aðila.

Það hefur verið sagt stundum, að hér séu aðeins uppi 2 stefnur í þessu máli. En ég hygg, að þær séu fleiri. Ef vandlega væri skoðað, hygg ég, að allir stjórnmálaflokkarnir hafi mismunandi skoðanir á þessu máli. Ég held, að það sé raunar ástæðulaust að vera að reyna að halda uppi yfirborðslegri einingu, þegar ekki er um raunverulega einingu að ræða. Ég efast ekkert um, að það er um raunverulegan ágreining að ræða, t.d. á milli stjórnarflokkanna í þessu máli. Sérstaklega af hálfu ungra Alþýðuflokksmanna hefur það komið mjög greinilega í ljós, að þar er mjög vaxandi gagnrýni á afstöðu Íslands í þessu máli.

Þessi mál á öll að kanna og þessi mál á öll að ræða á málefnalegan hátt, ekki með einhverjum tilfinningarökum, heldur eins og hver önnur vandamál, sem að okkur ber. Till. okkar hv. þm. Gils Guðmundssonar var einvörðungu um þetta. Ég tel, að það sé ekki til of mikils mælzt að fara fram á það við hv. alþm., að þeir segi til um það á þessu þingi, hvort þeir vilja hafa þennan hátt á eða ekki. Fari málið til hv. utanrmn., kemur það ekki hingað aftur á þessu þingi, það er ég sannfærður um.