05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu orðaleikur, hvort talað er um, að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafi lýst skoðunum sínum eða lýst stefnu. Ég held, að það hafi engum dulizt, að í umrædd skipti lýstu þeir stefnu ríkisstj. Alþ. hefur vitað, hver þessi stefna er í rúmlega 1 ár. Af henni er augljóst, að hún kallar ekki á flutning á brtt. eða flutning á frv., til að henni verði framfylgt, heldur duga óbreyttar þær samþykktir, sem Alþ. hefur áður gert. Það er þess vegna verkefni þeirra, sem vilja breyta þessari stefnu, að hafa frumkvæði um flutning mála á Alþ. í þá átt. Það hafa þeir ekki gert nema á óbeinan hátt.

Ég hef ekki tekið því illa, að slík skýrsla, sem till. þessi fjallar um, væri gerð eða gagnasöfnun höfð í frammi um þetta mál. Það er mikill misskilningur, en ég hygg, að skýringar mínar á því, hvers vegna hér hefur ekki verið um eins umfangsmikla gagnasöfnun að ræða og í öðrum löndum, sé rétt. Það hljómar vel að tala um, að við höfum sendiráð, en þegar nánar er athugað, eru þetta 2 eða 3 menn á hverjum stað, þrír í Brüssel t.d. Varnarmáladeild hefur að ég hygg 3 starfsmenn og þeir hafa mikið að snúast í daglegum störfum, sem ég veit, að enginn vill, að verði vanrækt. Varnarmálanefnd er n. manna, sem allir sitja í öðrum störfum, eins og margar n. í þessu landi. Ég hygg því, að við mundum þurfa að gera sérstakar ráðstafanir, ef við óskuðum eftir því, að undirbúnar væru og gefnar út ýtarlegar skýrslur um mál sem þetta.

Þrátt fyrir það tel ég hæpið að segja, að þetta mál hafi ekki verið kannað og rætt á málefnalegan hátt. Fjöldi manns hefur kannað þetta mál ýtarlega og hugsað mikið um það, menn með mismunandi aðstöðu til þess, sumir mjög góða. Á sama hátt hafa farið fram í blöðum, hljóðvarpi, sjónvarpi og hér á Alþ. umr., sem oft hafa verið málefnalegar og að ég hygg málefnalegri í seinni tíð, heldur en oft fyrr á árum, t.d. um það bil, sem við gengum inn í Atlantshafsbandalagið. Ég tel því, að þróunin í þessum efnum miði í rétta átt og miðað við þau vinnubrögð, sem tíðkazt hafa hér á þinginu undanfarna áratugi, hafi verið stigið stórt skref í rétta átt, þegar hæstv. utanrrh. gaf mjög ýtarlega skýrslu um þessi mál og síðan var ótakmarkaður tími til umr. um málið, en framhald þeirrar umr. leiddi því miður ekki í ljós mjög almennan áhuga alþm. á að taka þátt í henni.

Ég vil að lokum, hr. forseti, taka upp till. flm., að málinu verði vísað til utanrmn. Ég tel, að það sé sjálfsögð og óhjákvæmileg afgreiðsla. Alþb. hefur fulltrúa í n. og getur rekið á eftir afgreiðslu till. hvort sem hún verður sjálf borin undir atkv. eða sú frávísunartill. sem hv. flm. hefur sjálfur flutt.