12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (3256)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef heyrt till. hér um að vísa fram kominni rökstuddri dagskrá í þessu máli til n. Það tel ég algerlega óvenjulegt og hef aldrei vitað það, hvorki utan þings né innan, að þegar fram komin er rökstudd dagskrá í máli, sé hún ekki borin upp og um hana greidd atkv., þar sem gert er ráð fyrir því í till. að taka fyrir næsta mál á dagskrá, en taka ekki upp á því að vísa slíkri till. til n. Og ég tel, að það sé ekki fordæmi fyrir slíku hér á Alþ., að þegar rökstudd dagskrá hefur komið fram í máli, sé henni vísað til n. til athugunar. Það er að vísu langalgengast, að rökstudd dagskrá komi fram frá n., en vissulega er um það að ræða, að hægt er að flytja samkvæmt þingsköpum rökstudda dagskrá um mál, hvenær sem er. Er þá sem sagt lagt til, að málið verði afgreitt, án þess að það fari til n. Ég vil benda hæstv. forseta á það, að í rauninni tel ég, að þetta komi einnig fram í 42. gr. þingskapa. Þar er í fyrri mgr. gert ráð fyrir því, að fram geti farið atkvgr. umræðulaust um mál, ef tilskilinn meiri hl. á þingi fellst á það og í síðari mgr. 42. gr. er fjallað um rökstudda dagskrá og kemur þar greinilega fram, að hægt er að flytja rökstudda dagskrá um afgreiðslu á máli á öllum stigum málsins. Og þar sem ég ætla, að ekki sé fordæmi fyrir því að fara að vísa rökstuddri dagskrá í máli til n. og það sé nokkurn veginn viðtekin regla i fundarsköpum alls staðar, að þegar rökstudd dagskrá hefur komið fram um afgreiðslu á máli, beri að greiða atkv. um hana, þá fer ég eindregið fram á, að hæstv. forseti athugi þetta mál að nýju og hafi þann hátt á í þessum efnum, sem algengastur er, þannig að till. um rökstudda dagskrá verði borin upp og þannig greitt atkv. um það, hvort þannig skuli ljúka afgreiðslu málsins án nefndarsendingar.