12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur í raun og veru tekið af mér ómakið, en það er að sjálfsögðu algengt, að fluttar séu till. um rökstudda dagskrá hér á Alþ., en ég hygg, að það séu engin dæmi um það, að þessar till. séu bornar upp, fyrr en þeirri umr. er lokið, þegar þær koma fram. Ég gerði mér það til dundurs að fletta í gegnum nokkra árganga af þingtíðindum rétt til að ganga úr skugga um þetta, og það er alveg ljóst . Enda eru önnur ákvæði í þingsköpum um það, hvernig hægt er að knýja fram atkvgr. án frekari umr. um málið.

Það er algengt, að till. um rökstudda dagskrá komi hér fram við 2. umr., þegar um tvær eða fleiri umr. um mál er að ræða. Langflestar eru þessar till. frá n. Það hefur komið fyrir, að fluttar hafa verið till. um rökstudda dagskrá við fyrri eða 1. umr., en þær ganga þó a.m.k. til enda þeirrar umr. og koma þá til atkv. Ef svo hefði farið, að það hefðu verið ákveðnar tvær umr. um þessa þáltill., þá hefði rökstudda dagskráin auðvitað verið borin upp í lok þeirrar fyrri. En eins og málið liggur nú fyrir, er augljóst, að það verður að bera upp till. um tilvísun til n. fyrst. Ef sú till. er samþ., þá bíður rökstudda dagskráin þangað til n. skilar af sér og atkvgr. fer fram við lok umr. Ef það er fellt að vísa málinu til n. og umr. lýkur, þá kemur rökstudda dagskráin strax til atkv.