12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3269)

84. mál, eignakönnun

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt þremur hv. þm. till. til þál. um eignakönnun. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja og leggja fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er frumvarp til laga um eignakönnun. Skal tilgangur frumvarpsins sá að afla sem gleggstrar vitneskju um eignaskiptingu hér á landi og sérstaklega um eignasöfnun af völdum verðbólgu og gengislækkana, svo að síðar sé unnt að nota þá vitneskju til þess að afla fjár til aukins atvinnuöryggis og tekjujöfnunar.“

Fyrir rúmum tveimur árum stóð hæstv. forsrh. í þessum stól og ræddi um efnahagsmál. Hann komst þá m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Loks vil ég gefa þá afdráttarlausu yfirlýsingu, að núv. ríkisstj. kemur ekki til hugar að fella gengið. Það er að vísu rétt, að þannig getur staðið á í þjóðfélagi, að það sé nauðsynlegt að fella gengi, eins og dæmin sýna bæði hér og annars staðar. Og það væri auðvitað alveg fásinna, ef ég ætlaði að segja, að aldrei kæmi til mála að fella gengi á Íslandi.

Slíkt mun ég ekki segja, einfaldlega af því að ég ræð því ekki og það mundi enginn maður trúa mér. Hitt segi ég, og við það skal ég standa, að ég skal aldrei verða með gengislækkun framar, nema því aðeins, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þeir, sem ætla sér að knýja fram gengislækkun til þess að græða á henni, fái að borga sinn brúsa fyllilega.“

Þetta sagði hæstv. forsrh. fyrir rúmum tveimur árum hér á Alþ. Eftir þessi ummæli er búið að framkvæma tvær gengislækkanir, sem hafa hækkað verðlag á erlendum gjaldeyri um meira en 100%. En ég hef ekki orðið var við þær ráðstafanir, sem hæstv. forsrh. boðaði til þess, að þeir, sem græða á gengislækkun, fengju að borga sinn brúsa fyllilega. Engin slík frv. hafa verið lögð fyrir Alþ., engar slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar. Ekkert slíkt fylgdi gengislækkuninni 1967 og ekkert slíkt hefur séð dagsins ljós í sambandi við þá gengislækkun, sem nú er nýbúið að framkvæma. Samt fundust mér þessi ummæli hæstv. forsrh., sem ég vitnaði til áðan, hafa verið mælt af þeirri skapþykkju, sem stundum fylgir ummælum hæstv. forsrh. Maður hefði mátt vænta þess, að hann léti athafnir fylgja eftir slíkum orðum.

Allir vita að gengislækkanir eru ákaflega áhrifarík aðferð til að færa til fjármuni í þjóðfélaginu. Og það eru til aðilar í þjóðfélaginu, sem hagnast mjög verulega á gengislækkun, einnig aðilar, sem ekki er ætlun löggjafans að aðstoða. Hér er hópur af mönnum, sem kann að hagnast sérstaklega á verðbólguþróun og aðferð þeirra hefur verið mjög ríkjandi einkenni á efnahagsþróuninni á Íslandi á undanförnum árum. Gildi peninganna hefur ekki verið mikils metið af skiljanlegum ástæðum og því hafa menn keppzt við að reyna að komast yfir fjármuni í bönkum, komast yfir lánsfé og festa það í fasteignum, alveg án tillits til þess oft og einatt, hvort þessar fasteignir hafa verið skynsamlegar eða ekki. Þessir aðilar hafa haft hag af því að magna verðbólguna og þeir hafa unnið að því vitandi vits. Ef verkafólk hefur samið um kauphækkun, hefur henni jafnharðan verið velt út í verðlagið, og síðan hafa útflutningsatvinnuvegirnir eftir tiltekinn tíma komizt í þrot og ríkisstj. talið sig vera að bjarga með enn einni gengislækkun.

Hversu stórfelld tilfærsla fólgin er í gengislækkun, má marka af því, að á síðasta ári munu heildarlaun greidd á Íslandi, laun og hlutur sjómanna og aðrar hliðstæðar greiðslur, hafa numið 15—20 milljörðum króna. Talið er, að gengislækkun sú, sem nú var framkvæmd síðast, muni hækka verðlag um 20%, og það er ætlun stjórnarvalda, að fyrir það komi engar bætur. Sem sé, að raunverulegt kaup verði skert um 20%. Þetta jafngildir hvorki meira né minna en 3–4 milljörðum króna, sem eru fluttir frá launafólki til atvinnurekenda, sem sumir þurfa vafalaust á slíkum fjármunum að halda, en aðrir alls ekki. Á sama hátt er gengislækkun hliðstæð tilfærsla á sparifé þjóðarinnar. Hún skerðir sparifjáreign landsmanna, þessar litlu eignir, sem halda uppi bönkum og sparisjóðum á Íslandi. En að sama skapi hækka þær fasteignir, sem eignamenn hafa komizt yfir með aðstoð þessa sparifjár. Krónurnar, sem eignamennirnir hafa fengið að láni til þess að koma sér upp hvers kyns fasteignum, halda áfram að minnka. Þeir borga skuldir sínar með síminnkandi krónum, en ágóðinn verður eftir í fasteigninni.

Þetta er þróun sem allir þekkja og stundum verða af þessu dálítið einkennilegir atburðir, eins og fyrir rúmum áratug, þegar lagður var á stóreignaskattur. Í ljós kom, að Einar Sigurðsson útgerðarmaður var talinn vera ríkasti maður landsins og hefur síðan gengið undir nafninu Einar ríki. Það var alkunna, að Einar hafði átt í miklum vanda með atvinnurekstur sinn. Það kom víst út á bókhaldi ár eftir ár, að halli var á fyrirtækjunum. Engu að síður hafði verðbólguþróunin gert það að verkum, að þær eignir, sem hann hafði komizt yfir, voru orðnar svona verðmiklar, að hann var talinn vera ríkasti maður landsins.

Eignaaukning í höndum öllu óviðfelldnari fjármálamanna en Einars Sigurðssonar hefur verið ákaflega stórfelld, ekki sízt t.d. í miðborg Reykjavíkur, þar sem smálóðablettir hafa margfaldazt í verði ár eftir ár. Við sáum dæmið núna seinast um litlu lóðina undir Sjálfstæðishúsinu, sem er seld á 16 millj. kr. Á þessu sviði er um að ræða eignaaukningu, sem numið hefur hundruðum og aftur hundruðum millj. kr. á nokkrum árum. Þarna eru aðilar, sem eiga að borga brúsann í sambandi við gengislækkanir, eins og hæstv. forsrh. komst að orði. En þeir eru ekki látnir borga brúsann.

Þeir erfiðleikar, sem nú dynja yfir á Íslandi, koma ofan í mjög mikið góðæri, sem stóð árum saman. Þetta góðæri stafaði m.a. af því, að verðið fyrir útflutningsafurðir okkar hækkaði mjög mikið. Hækkunin á útflutningstekjum varð svo stórfelld, að á nokkrum árum áskotnuðust okkur nærri 20 milljarðar kr. á núverandi gengi umfram það, sem orðið hefði í meðalári. Tuttugu milljarðar kr. er engin smáupphæð. Það eru 100 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Það er hálf milljón á hverja fimm manna fjölskyldu ofan á þær tekjur, sem voru, áður en þetta góðæri kom. Auk þess var á þessu tímabili bætt stórlega við erlendar skuldir. Við tókum að láni erlendis milljarða og fluttum inn í landið, svo að skuldir okkar núna eru meiri en nokkru sinni fyrr. Og manni er eðlilega spurn: Hvar eru allir þessir milljarðar, sem okkur áskotnuðust vegna bættra viðskiptakjara og við höfum tekið að láni erlendis? Hvar hafa þeir stöðvazt eftir allt þetta veltutímabil? Ekki eru þeir í nýjum togurum, eins og menn vita. Ekki eru þeir í bátum, sem stunda bolfiskveiðar. Ekki eru þeir í þjóðarbókasafni eða listasafni, svo að ég nefni nokkur dæmi. Hluti þeirra hefur vissulega stöðvazt í gagnlegum atvinnutækjum og í nýjum íbúðum, innanstokksmunum, í heimilistækjum og einkabílum. Nokkur hluti launafólks átti um skeið kost á að njóta betri lífskjara en hann hafði notið áður með því að leggja á sig óhemjulega vinnu. En þótt þetta allt væri tíundað af stakri nákvæmni, væri þar aðeins að finna hluta af milljörðum þeim, sem streymt hafa um þjóðfélagið á undanförnum árum. Verulegur hluti hefur lent annars staðar eða hjá forréttindaaðilum í þjóðfélaginu, sem hafa getað hagnazt á þessu ástandi og safnað auði fyrir sig. Slík dæmi þekkja menn allt í kringum sig, t.d. hér í Reykjavík, hvernig verzlunar musterin hafa breytt Reykjavík í eina allsherjar kaupsýslumiðstöð, hvernig svolítill hópur manna hefur getað ástundað hér hliðstætt lúxuslíf og tíðkast í auðugustu þjóðfélögum, hvernig ríkisbankar og einkabankar hafa á nokkrum árum fjárfest upphæð, sem nemur hátt í einn milljarð kr. Samt held ég, að við þekkjum ekki nema hluta af þessari sögu. Hvað skyldi miklum fjármunum hafa verið komið til útlanda á þessu tímabili, þegar frelsið hefur verið ákaflega mikið og lítið eftirlit með því, hvernig farið var með gjaldeyri okkar og hvernig viðskiptasamböndum okkar við önnur lönd var háttað? Í þessu sambandi er raunar fróðlegt að minnast þess, að löngu áður en kom til gengislækkunarinnar síðustu, linnti ekki yfirlýsingum frá hæstv. ráðh. um, að gengislækkun væri yfirvofandi. Vissir aðilar í þjóðfélaginu fengu býsna langan umþóttunartíma og hann hefur vafalaust verið notaður mjög vel.

Ég tel, að þetta sé ákaflega veigamikið atriði í þjóðmálaumræðunum, eins og þær eru nú. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita, hvar milljarðar þeir, sem streymt hafa um þjóðfélagið, að undanförnu, eru niður komnir. Það er alveg af og frá, að þess sé nokkur kostur að tala um það við verkafólk, sem er með 10 þús. kr. mánaðarlaun, að það eigi að gefa eftir fimmta hluta af þessu kaupi án þess að áður hafi verið framkvæmd undanbragðalaus eignakönnun. Forsenda þess, að hægt sé að ætlast til þess, að launafólk taki á sig byrðar er, að það viti, að það hafi verið lagðar réttlátar byrðar á þá, sem hafa breiðari bök. Þess vegna höfum við flutt þessa þáltill. og ég vil vænta þess, að stjórnarflokkarnir bregðist við henni á jákvæðan hátt, ekki sízt hæstv. forsrh. eftir þau ummæli, sem hann viðhafði fyrir tveimur árum og ég fór hér með í upphafi máls míns.

Ég legg svo til, að till. verði vísað til allshn. og umr. frestað.