26.02.1969
Sameinað þing: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

94. mál, skólaskip og þjálfun sjómannsefna

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur 3 þm. að flytja till. til þál. um skólaskip og þjálfun sjómannsefna. Ég vil leyfa mér að lesa till., sem hljóðar þannig:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að vinna að því í samráði við sérfróða menn, að tekin verði upp skipuleg þjálfun sjómannsefna, m.a. með rekstri hentugs skólaskips, eins eða fleiri, eftir því sem tiltækt þætti. Skal í því sambandi m.a. athuga, hvort ekki muni hagkvæmt að nýta í þessu skyni þau varðskip, sem kynnu að vera eða verða til sölu.“

Það er skoðun okkar flm., að miklu varði að auka verkmenningu þjóðarinnar ekki síður en almenna skólamenntun. Í því sambandi er hvað brýnast að auka menntun og verkþjálfun framleiðslustéttanna, þess fólks, sem vinnur mikilvægustu undirstöðuverkin í landinu, bæði til sjós og lands.

Því miður skortir mjög á, að almenn verkþjálfun sé á háu stígi í landi okkar, væri miklu nær að segja, að hún sé stórlega vanrækt og raunar ekki í nokkru samræmi við kröfur tímans eða nútímaaðstæður. Vegna skipulagsleysis á þessum sviðum, má búast við, að vinnuafl nýtist illa og ýmsir hæfileikar fari forgörðum. Flest störf á sjó og landi eru þannig vaxin að til þess að inna þau vel af hendi, þarf þjálfun og starfsreynslu. Hér þarf ekki endilega að vera um að ræða flókin störf og vandasöm í sjálfu sér, en til þess að vinna þau vel, þarf þekkingu og þjálfun. Sá einn verður leikinn í starfi, að hann sé því vel kunnur og hafi vanizt að vinna það. Allir þekkja muninn á kunnandi starfsmanni og fákunnandi, vönum manni og óvönum. Jafnvel í hinum einföldustu störfum kemur þessi munur í ljós .

Það er ekkert efamál, að það hefur ómetanlegt þjóðhagslegt gildi, að þjóðin eigi á að skipa sem flestum vel verki förnum mönnum og röskum mönnum og vandvirkum, í hvaða stétt eða starfi sem er. Allur okkar þjóðarbúskapur stendur og fellur með því, að þjóðin kunni vel til verka sinna. Þetta hlýtur að eiga hvað helzt við þá, sem vinna að undirstöðuframleiðslunni, sjómönnum, bændum, iðnaðarfólkinu og starfsmönnum við fiskiðnaðinn. Hversu dýrmætt er það ekki, að þjálfað starfslið sé í þessum greinum? Þetta fólk öðlast ekki atvinnuréttindi út á neins konar próf, það hefur yfirleitt engin sérréttindi vegna kunnáttu sinnar og starfsþekkingar. Æfður og afkastamikill, óbreyttur starfsmaður, verkamaður á sjó eða landi, hlýtur oft litla umbun fyrir vinnuhæfni sína umfram hina, sem minna kunna og minni hafa reynslu. Verkþjálfun er stórlega vanrækt og vanmetin og starfsreynslu og verkhæfni ekki gert eins hátt undir höfði og eðlilegt og sanngjarnt væri.

Í okkar gamla bændaþjóðfélagi var síður þörf á skipulegri verkþjálfun og starfskynningu en nú er. Þar er yfirleitt ólíku saman að jafna. Fólkið ólst upp við fastmótuð framleiðslu– og búskaparstörf kynslóð eftir kynslóð. Hver kynslóð kenndi annarri sömu störfin lítt eða ekki breytt. Faðir kenndi syni, enda var það nokkurn veginn víst, að sonurinn hlaut að erfa starfsvettvang föður síns. Við skulum ekki miða við þessar aðstæður, við skulum ekki miða við, að börn okkar nú á tímum erfi af sjálfu sér starfsvettvang feðra sinna. Það gera þau sjaldnast, a.m.k. er það enginn sjálfsagður hlutur. Mikill og vaxandi fjöldi uppvaxandi barna elst upp í borg og bæjum. Þau vita lengi vel lítið sem ekkert um starfsvettvang feðra sinna. Þau vita það eitt, að feður þeirra eru í vinnu. Þau vita oft ekkert hvað þeir eru að vinna og varla hvar þeir eru að vinna. Barn, sem vex upp í íbúðahverfi eða háhýsi í stórborg, lifir í ákaflega óraunverulegum heimi, sem heita má „steriliseraður“ af öllu, sem heitir eiginlegt þjóðlíf. Einkum og sér í lagi fara þessi börn á mis við æskileg kynni af framleiðslustörfunum, sem svo eru nefnd. Þau verða ýmsum borgarbörnum og þeim, sem vaxa upp í stærri bæjum, meira og minna óraunveruleg og fjarlæg. Ég held, að í þessu felist mikil hætta, sem fer vaxandi með ári hverju. Það, sem ég á við, er þetta. Sú hætta er fyrir hendi, að sístækkandi hundraðshluti barna og unglinga, sem vex upp í landinu, verði ókunnugur ýmsum nauðsynlegum framleiðslustörfum til lands og sjávar, m.a. sjómennsku. Í þessu er fólgin miklu meiri hætta en menn gera sér almennt grein fyrir.

Íslendingar eru fiskveiða– og siglingaþjóð. Sjómennska er einn gildasti þátturinn í líftaug íslenzks þjóðfélags. Það verður að tryggja, að ávallt sé nægilegt framboð ungra og vaskra manna, sem vilja gefa sig að sjómennsku, hvort heldur er á fiskiflotanum eða kaupskipunum. Við Íslendingar höfum til þessa átt náttúrlegan skóla fyrir uppvaxandi sjómannastétt. Það eru sjávarþorpin okkar og raunar nærliggjandi sveitir — strandbyggðir í sveitum og þorpum. Sjávarbyggðirnar hafa verið sjómannastéttinni þrotlaus uppspretta endurnýjunar. Margar slíkar byggðir dragast nú saman. Þar fer fólkinu fækkandi, bæði beint og óbeint. Svo er a.m.k. um sjávarbyggðirnar á Austfjörðum og Vestfjörðum, við Eyjafjörð og Skjálfanda og víðar, sem lengst af hafa verið forðabúr fyrir sjómannastéttina. Það er ástæða til að óttast, að þjóðlífsbreyting og búsetuþróun kollvarpi þeim náttúrlegu skilyrðum, sem gerðu sjómennsku að sjálfsögðum og eðlilegum hlut í lífi fjölmargra drengja, sem vaxið hafa upp í flæðarmálinu að kalla. Flm. þessarar till. vilja benda á nauðsyn skipulegrar þjálfunar sjómannsefna sem andsvar við þessari hættu. Till. gerir ráð fyrir, að rekið verði skólaskip, eitt eða fleiri, til þess að framkvæma slíka þjálfun sjómannsefnanna. Að sjálfsögðu getur þjálfun sjómannsefna að nokkru leyti farið fram á landi, en skólaskip er forsenda þess, að fullnægjandi verkþjálfun geti átt sér stað.

Eins og fram kemur í grg. hefur vísir að skólaskiparekstri átt sér stað hér á landi á undanförnum árum. Ég ætla ekki að rekja þá starfsemi, en ég þori að fullyrða, að reynslan af henni bendir eindregið í þá átt, að rétt sé að koma á föstum skólaskiparekstri og árlegri sjómannaþjálfun.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mál fari til þn. til athugunar og ég vil þá mega beina því til væntanlegrar n. að kynna sér þá starfsemi, sem unnin hefur verið til þessa á þessu sviði. Ég hygg, að þessar tilraunir, sem eru mjög lofsverðar, styðji nauðsyn þess máls, sem hér er til umr. Á þessu sviði þurfum við að gera meira en hingað til og þá er ekki gert lítið úr þeirri starfsemi, sem Reykjavíkurborg og Akureyrarbær og fleiri aðilar hafa staðið að.

Þessi till. er borin fram í þeirri trú, að Alþ. vilji taka þetta mál til ákvörðunar og feli ríkisstj. að annast framkvæmd þess á þann hátt, að viðhlítandi sé. Íslenzk sjómannastétt hefur löngum verið talin dugmikil og vel verki farin. Má öðru fremur þakka það þeirri staðreynd, að nýliðar í sjómennsku hafa alla jafna alizt upp við hagstæð skilyrði, sem bæði hafa beint áhuga þeirra að sjómennsku og gert þá færari en ella til þess að tileinka sér sjómannsstörfin, sem vissulega eru vandasöm og krefjast bæði snerpu og áræðis auk lagvirkni. Þessara eiginleika mun verða þörf framvegis sem hingað til, og það skiptir miklu máli, hversu til tekst um undirbúningsþjálfun og framboð sjómannsefna.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði frestað um þetta mál og till. verði vísað til hv. fjvn.