05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

96. mál, atvinnulýðræði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Till. þessi er flutt af Ragnari Arnalds, formanni Alþb., en þar sem hann á ekki sæti á Alþ. nú, þá mun ég mæla hér nokkur orð fyrir þessari till.

Aðalefni till. er, að skipuð verði 11 manna n., sem hafi það verkefni að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja, sem þeir starfa hjá. Í till. segir, að löggjöfin skuli í 1. áfanga vera miðuð við áætlun, sem gerð verði til tveggja áratuga um aukið lýðræði í íslenzkum atvinnuvegum og ber sérstaklega að stefna að því í fyrstu lotu að veita launþegum ríkisfyrirtækja og þá einkum iðnfyrirtækja veruleg bein áhrif á stjórn þeirra, en starfsmönnum í einkarekstri víðtæk ráðgefandi áhrif, eins og segir í till. Gert er ráð fyrir því, að atvinnurekendur fái aðstöðu til þess að tilnefna af sinni hálfu 3 menn í þessa n. og launþegasamtökin 3 menn, þingflokkarnir 4 tilnefni sinn manninn hver, en síðan skipi ráðh. einn í n., sem verði formaður hennar.

Þessari þáltill. fylgir mjög ýtarleg grg., þar sem m.a. er vikið nokkuð að því, hvernig unnið hefur verið að framkvæmd á þessu máli og hliðstæðum málum í öðrum löndum, m.a. í Englandi, Noregi og Júgóslavíu, en í öllum þessum löndum hefur verið unnið að því með ýmsum hætti að reyna að koma á atvinnulýðræði, þ.e.a.s. að gefa starfsmönnum hinna einstöku fyrirtækja rétt til þess að hafa veruleg áhrif á stjórn fyrirtækjanna. Í þessari ýtarlegu grg. er einn kafli, sem mér þykir rétt að lesa hér upp, en hann skýrir nokkuð nánar, hvað hér er um að ræða. Þar segir:

„Krafan um fullkomið lýðræði er krafan um jafnrétti þegnanna á öllum sviðum þjóðlífsins. Jafnt og þétt hefur þessi krafa náð fram að ganga á fleiri sviðum og í æ fleiri löndum.

Pólitískt lýðræði og lýðræði í félagsmálum eru hvort tveggja kröfur, sem óðum eru að ná almennri viðurkenningu sem grundvallarréttindi hvers manns. Er þá átt við prentfrelsi, málfrelsi, félagsfrelsi, almennan kosningarrétt, jafnrétti kynjanna o. s. frv.

Jafnrétti í menntamálum er gömul réttlætiskrafa. Er þá átt við jafna aðstöðu manna í uppeldis og menntamálum án tillits til uppruna eða aðstæðna og jöfn skilyrði til að njóta gæða menningarlífsins. Krafan um skólalýðræði er nú mjög til umr., og hafa stúdentar þar forystu. Er þess að vænta, að nemendaráð verði sett á stofn í öllum æðri skólum innan skamms.

Krafan um efnahagslegt lýðræði er tvíþætt: Annars vegar er átt við, að lífskjör manna og fjárhagsleg afkoma sé sem jöfnust, svo að allir hafi jafna möguleika til að njóta lífsgæðanna. Hér er því átt við fjárhagslegt jafnrétti allra manna. Hins vegar er átt við jafna aðstöðu manna til að hafa áhrif á stjórn efnahagslífsins og þá um leið til að vinna gegn fjárhagslegu misrétti. Einokun fárra manna á, stjórntækjum efnahagskerfisins hefur og í för með sér drottnun þeirra yfir atvinnulífinu. Efnahagslegt lýðræði er því nátengt atvinnulýðræði. Munurinn er sá, að hið fyrra beinist að efnahags– og atvinnulífinu í heild sinni, en atvinnulýðræði er fyrst og fremst bundið við vinnustaðinn, fyrirkomulag rekstrarins á hverjum stað.

Það er vissulega óeðlilegt, að þjóðfélagið viðurkenni lýðræði sem grundvallarreglu, en neiti að framfylgja þessari reglu í mikilvægasta þætti þjóðlífsins — atvinnulífinu. Þess vegna er það ein helzta krafa verkalýðshreyfingarinnar víða um heim í dag, að sigurganga lýðræðisins sé ekki stöðvuð við dyr vinnustaðanna.“

Auk þessa, sem ég hef nú rakið um almenn atriði þessa máls, er svo í grg. vikið í allýtarlegu máli að því, hvernig mætti vinna að því að koma á atvinnulýðræði, þ.e.a.s. auknu áhrifavaldi hins vinnandi fólks í atvinnulífinu. Þar er m.a. drepið á, að það sé hægt að vinna að þessu í áföngum, þ.e.a.s. veita starfsfólkinu ýmis tiltölulega takmörkuð réttindi á fyrsta stígi til áhrifa á það, hvernig staðið er að atvinnurekstrinum eða hvernig búið er um alla hnúta á vinnustöðum og við atvinnureksturinn, en síðan er hægt að veita starfsfólkinu enn aukin réttindi, þar til að því kemur, að starfsfólkið fær beinan rétt til þess að ráða hinum þýðingarmestu málum varðandi rekstur fyrirtækjanna.

Þetta mál hefur verið flutt hér á Alþ. áður og flm. þess, sá, sem flytur þetta mál hefur þá mælt hér fyrir því all ýtarlegu máli og því sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það í öllu lengra máli hér að þessu sinni. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og ég hygg, að menn úr öllum stjórnmálaflokkum viðurkenni, að vissum hluta a.m.k., að hér sé hreyft mikilvægu máli, sem nauðsynlegt er að vinna að. Till. gerir sem sagt ráð fyrir því, að sett verði á fót allstór nefnd, sem undirbúi löggjöf, sem miðar að því að koma á auknu atvinnulýðræði hér í fyrirtækjarekstri í okkar landi.

Að lokinni þessari umr. legg ég svo til, herra forseti, að till. verði vísað til allshn.