05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3302)

118. mál, efling iðnrekstrar

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 171 er till. til þál. frá mér og fjórum öðrum hv. alþm. um eflingu iðnrekstrar. Till. þessi er flutt af þeirri nauðsyn, að við Íslendingar hljótum, eins og aðrar þjóðir, að stefna að því að auka fjölbreytni atvinnuveganna. Þetta gildir náttúrlega því fremur hér á Íslandi, en með öðrum þjóðum vegna þess, að atvinnuvegirnir hafa frá upphafi verið einhæfir og útflutningsframleiðslan þar af leiðandi einskorðuð við sjávarafurðir og er svo enn.

Það eru litlar líkur á því, að landbúnaður og sjávarútvegur geti tryggt þjóðinni bæði næga atvinnu og góða afkomu á komandi árum, þó að auðvitað sé að stefna beri að því að efla þá með öllum tiltækum ráðum. En vandinn verður að okkar dómi ekki allur leystur með því, heldur þarf stóraukinn iðnaður til að koma og athygli manna beinist nú í vaxandi mæli einmitt að þeim þætti.

Við höfum oft talið hér, bæði á hv. Alþ. og annars staðar, að eðlilegast væri, að íslenzkur iðnaður ynni aðallega úr innlendu hráefni og vera má, að það sé affarasælast að einbeita sér að því. Þó ber að hafa i huga, að frá ýmsum nágrannaþjóðum liggja fyrir upplýsingar um það, að mikill hluti af útflutningsframleiðslu þeirra er framleiddur úr innfluttum hráefnum. Við flm. þessarar till. teljum, að ýmiss konar iðnaður ætti að geta haft svipaða aðstöðu hér á landi, þó að viðurkenna megi, að framleiðsla úr innlendum hráefnum verði okkur hagfelldust.

Því er ekki að neita, að á vissu skeiði reis hér upp talsverður iðnaður á síðari áratugum, en nú er mjög skipt sköpum í því, þar sem undanfarin ár hefur ríkt stöðnun og samdráttur á því sviði. Þær ástæður, sem valda því, eru eflaust margar, en þó aðallega tvær, þ.e. takmarkað fjármagn, sem iðnaðarfyrirtækin hafa haft yfir að ráða og taumlaus innflutningur á erlendum iðnaðarvörum. Markaðurinn hér er svo lítill, að það er tæpast starfsgrundvöllur fyrir nema kannske eins og eitt vel rekið fyrirtæki og þarf þá engum getum að því að leiða, hvaða óheppileg áhrif óheftur innflutningur sams konar varnings og þess, sem við getum sjálfir framleitt með góðum árangri, hefur á starfsemi iðnaðarfyrirtækjanna. Það vantar svo sem ekki, að margir hafa hér á undanförnum árum lýst stuðningi við eflingu iðnrekstrar. En þó er það svo, að þegar till. hafa verið fluttar hér á hv. Alþ. af okkur stjórnarandstæðingum a.m.k., hefur meiri hl. Alþ. ævinlega snúizt öndverður við þeim, fellt þær eða ekki afgreitt þær.

Fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt öðrum hv. þm. till. um rannsókn á samdrætti í iðnaði. Þeirri till. var vísað frá hér af meiri hl. Alþ. á þeim forsendum, að hér væri um fjarstæðu að tefla. Svo víðs fjarri færi því, að um nokkurn samdrátt í iðnaðinum væri að ræða. Nú held ég, að þessi viðbára sé ekki lengur uppi höfð, enda þýðingarlaust að berja höfðinu við steininn á þann hátt. Það hefur vissulega verið samdráttur hér í vissum tegundum iðngreina, mjög mörgum. Og þó að eitthvað kunni að hafa verið gert í öðrum greinum til þess að vega þar upp á móti, eins og t.d. skipasmíðinni fyrst og fremst, þá er það augljóst öllum, sem þessi mál skoða, að það hefur hvergi nærri dugað til að vega upp þann mismun, hvergi nærri. Það er einmitt þessi smái iðnaður, sem fólkið hefur atvinnu af, sem getur ekki eða illa unnið önnur störf, sem er þjóðhagslega hagkvæmt að reka. Ég minnist þess hérna fyrir nokkrum dögum, að verið var að ræða um efnahagsmál. Þá var einn hv. þm., sem hélt því fram, að það skipti ekki meginmáli, hvort framleitt væri fyrir innlendan eða erlendan markað. Því meira, sem notað væri innanlands af iðnaðarframleiðslu, þeim mun minna yrði til útflutnings. Þessari kenningu mótmæli ég algerlega, gerði það þá og geri enn, því að vitanlega er það staðreynd, að margt af því fólki, sem getur framleitt léttan iðnaðarvarning, fer ekki út á fiskimið og dregur þar afla úr sjó. Það fer ekki upp í sveit og heyjar handa dilkum, sem við getum svo selt kjötið af til annarra landa. Þetta er á algerum misskilningi byggt. Og þess vegna verðum við kannske fyrst og fremst af þessari ástæðu að snúa okkur að eflingu þess iðnrekstrar, sem við getum rekið hér með hagkvæmum hætti.

Fyrsti liður þessarar till. fjallar um það, að lagt verði fyrir Rannsóknaráð ríkisins í samráði við Iðnaðarmálastofnun Íslands að taka til rækilegrar athugunar og rannsókna, hvaða iðngreinar geti hérlendis haft jafngóðan eða betri starfsgrundvöll og hliðstæðar iðngreinar hafa í nágrannalöndum Íslands. Jafnframt verði kannað, hvaða ráðstafanir séu nauðsynlegar og tiltækar til þess að búa sem allra flestar iðngreinar þannig í stakk, að þær geti mætt samkeppni frá öðrum þjóðum. Áliti verði skilað sem fyrst og það birt almenningi, svo að orðið geti m.a. til leiðbeiningar þeim, sem vilja hefja nýjan iðnrekstur.

Þessi till. er ekki ný. Sams konar till. hefur áður verið flutt á Alþ. kannske oftar en einu sinni. En ég vitna til þess, að árið 1960 var till. um þetta efni flutt hér á hv. Alþ. af Karli Kristjánssyni, sem þá átti hér sæti. Þessa athugun hefði þurft að gera fyrir löngu og hafa niðurstöður hennar að leiðarljósi um það, hvaða iðngreinar ætti hér að leggja áherzlu á, og margt mundi vera hér á annan og betri veg, ef á þetta ráð hefði verið brugðið. En sérstaklega er þó augljóst, hversu brýn þessi athugun hefur verið nú, eftir að búið er að senda umsókn Íslands um inngöngu í Fríverzlunarbandalag Evrópu, því að á það hlýtur einmitt að reyna, ef eitthvað verður meira úr því máli heldur en orðið er, hvaða tegund iðnrekstrar við eigum að leggja áherzlu á. Hvaða iðngrein er það, sem hefur möguleika til þess að standast þá samkeppni, þá geysihörðu samkeppni, sem framundan er fyrir íslenzkan iðnaðarvarning?

Það er mikill misskilningur, ef menn halda, að 100 millj. manna, eins og maður heyrir stundum talað um, bíði eftir því, málþola að segja má, að íslenzkur varningur komi þar inn á markaðinn, tilbúinn til að kaupa allt, sem við getum losað okkur við. Nei, við þurfum svo sannarlega að vinna þessum vörum okkar markað og það verður ekkert létt verk í samkeppni við þann þróaða iðnað, sem í þessum löndum er fyrir. Þetta eru ekki nein nýlenduríki, sem við ætlum að fara að sameinast, sem ekki hafa hliðstæðan iðnað eða boðlegan iðnaðarvarning og sambærilegan við það, sem Íslendingar framleiða. Þvert á móti. Þetta eru þjóðir, sem í áratugi, árhundruð hafa verið einar fremstu iðnaðarþjóðir veraldar, sem við ætlum að taka upp samkeppnina við. Ég er ekki að segja endilega, að þetta sé vonlaust. Það getur vel verið, að okkur takist að framleiða þá vöru, sem margir vilja kaupa. En það verður áreiðanlega ekki gert án rækilegs undirbúnings og könnunar og það verður ekki gert öðruvísi, en með öflugri markaðsleit og að þessu þurfum við náttúrlega að fara að vinna og hefði átt að vera byrjað að vinna fyrir lifandi löngu. Mér dettur í hug, að helztu möguleikar íslenzks iðnaðar og það er nú eingöngu byggt á mínu leikmannssjónarmiði, séu fólgnir í því, að hér verði framleiddar fáar, vandaðar, verulega vandaðar vörutegundir. Það er margt fólk í Skotlandi, sem lifir á því að prjóna peysur. Það er varningur, sem alls staðar er seldur dýrt og gefur góðar tekjur. Þannig má margt telja. Ég skal ekki þreyta hv. þm. á því. En mér dettur í hug, að eitthvað slíkt mundi verða lausn Íslendinga í þessu máli, að einbeita sér að vöruvöndun, dýrum og vönduðum vörum, frekar en fara í samkeppni á ódýrri fjöldaframleiðslu við þá, sem þegar hafa betri skilyrði til þess, en við höfum enn og því miður eru litlar líkur á, að við öðlumst.

En það er auðvitað skylt að játa það, að núna á allra síðustu mánuðum hefur nokkur breyting orðið á afstöðu manna til þessara hluta. Bæði Félag ísl. iðnrekenda og Samband ísl. samvinnufélaga, iðnaðardeild, hafa komið auga á, að það þarf meira að gera en ganga í Fríverzlunarbandalagið til þess að selja vöruna, og hafa bæði þessi félagssamtök stofnað hjá sér sérstaka söludeild, sem á að hafa útflutningssjónarmiðin að markmiði. Það er auðvitað góðra gjalda vert, en ég tel og við flm. þessarar till., að opinber forusta verði hér til að koma. Þess vegna fjallar 1. liður till. um það atriði, eins og ég hef gert grein fyrir.

Annar töluliður till. fjallar um sérstaka lánafyrirgreiðslu til þeirra iðnfyrirtækja, sem keppa við erlend fyrirtæki, sem bjóða greiðslufresti og að komið verði upp sérstöku útflutningslánakerfi fyrir iðnaðinn.

Þriðji töluliður er um það, að rekstrarlán til iðnaðarins verði veitt með hliðstæðum hætti og til annarra atvinnugreina. Það hafa verið gerðar hér nokkrar samþykktir á Alþ. um, að iðnaðurinn fengi svipuð endurkaup á afurðavíxlum sínum og landbúnaður og sjávarútvegur búa við, en þrátt fyrir samþykktir Alþ. um það, hefur framkvæmdin ekki tekizt að neinu marki. T.d. minnist ég þess, að við s.l. áramót má ég segja, að það hafi verið, að þá var hlutur iðnaðarins í endurkeyptum afurðavíxlum eitthvað um 72 millj. kr., þegar heildarfjárhæð endurkeyptra víxla var 1.438 millj. kr., svo að menn sjá, að fyrirgreiðsla sú, sem iðnaðinum hefur tekizt að notfæra sér eftir þessum leiðum, er ekki mikil, svo að ekki sé meira sagt.

Það er skylt að kannast við, að núna á allra síðustu vikum hefur Seðlabankinn nokkuð breytt um stefnu í þessu máli. Og í bréfi til viðskiptabankanna, sem dags. er 14. febr. s.l., er skýrt frá því, að Seðlabankinn vilji veita fyrirgreiðslu eitthvað um 100—150 millj. kr. til aukningar á rekstrarfé iðnaðarins á næstu mánuðum. En þessi fyrirgreiðsla á að vera þannig, samkvæmt þessu bréfi, að lán til Seðlabankans verði öll veitt beint til viðkomandi viðskiptabanka, er endurlánar fé til viðskiptamanna sinna. Skal að jafnaði miða við það, að á móti láni Seðlabankans komi jafnmikið fé frá viðkomandi viðskiptabanka. Lánstíminn fer eftir aðstæðum og skal yfirleitt aldrei lengri en tvö ár. Skulu endurgreiðslur hefjast í síðasta lagi eftir 6 mánuði. Stefnt verður að því, að þessi lán geti að mestu greiðzt af auknu eigin rekstrarfé viðkomandi fyrirtækja, en að nokkru eiga viðskiptabankarnir að geta yfirtekið lánin, þegar aukning innlána kemst aftur í eðlilegra horf og fyrr í þessu bréfi er frá því sagt, að Seðlabankinn muni einungis taka þátt í lausn vandamála, er varða stærri fyrirtæki, sem einstakir viðskiptabankar eigi erfitt með að veita viðhlítandi fyrirgreiðslu.

Það er náttúrlega góðra gjalda vert, að hér hefur verið brugðið nokkuð við og komið til móts við endurteknar kröfur, sem fluttar hafa verið hér á hv. Alþ. um aukið rekstrarfjármagn til iðnaðarfyrirtækja. En þessar reglur eru áreiðanlega mjög erfiðar í framkvæmd og þungar í vöfum. Til marks um, að það er ekki bara mín skoðun, vil ég segja frá því hér, að atvinnumálanefnd Reykjavíkur gerði ákveðnar till. til úrbóta einmitt í þessu máli. Þær hafa nú verið lagðar fram á sérstöku þskj., þskj. 273 og skal ég ekki eyða tíma þm. í að rekja þær. En umsögn formanns atvinnumálanefndar Reykjavíkur um þær till., sem Seðlabankinn hefur nú gert til úrbóta í þessu, er á þann veg, að hér sé hvergi nærri viðhlítandi fyrirgreiðsla, sem um er að ræða og n. starfi áfram að því að fá betri úrlausn þessara mála, þannig að þrátt fyrir þessar aðgerðir, sem ég skal út af fyrir sig ekki vanmeta, þó að vankantar séu á, þá er sýnilegt, að meira að segja þeir, sem vinveittari eru stjórnarforystunni, heldur en ég og mínir líkar, telja, að hér sé ekki nægilega vel að unnið. Þess vegna eiga þær till., sem hér eru til umr., bæði í 3. og 4. lið þeirrar þáltill., sem ég er hér að mæla fyrir, ennþá fullan rétt á sér. Það er full ástæða til þess, að hv. Alþ. láti til sín taka um það, hvernig þessum málum er fyrir komið, en þeirri ábyrgð sé ekki allri varpað á aðra.

Fimmti liður þessarar till. er um það, að smíði fiskiskipa og flutningaskipa verði haldið áfram og hún aukin í landinu og jafnframt verði hafin smíði fiskibáta á vegum ríkisins með það fyrir augum að endurnýja og efla þann hluta fiskiflotans, sem einkum aflar hráefnis til vinnslu í hraðfrystihúsum. Hér er vikið að iðnaði, sem hefur sýnt, að hagkvæmt er að leggja stund á og er náttúrlega mjög slæmt, að ekki skuli hafa verið miklu fyrr brugðið á það ráð að smíða fiskiskip okkar hér innanlands. Ef það hefði verið gert á undanförnum árum, áratugum kannske, er enginn vafi á því, að íslenzkar skipasmíðastöðvar væru komnar langt og þær gætu framleitt vöru, sem fyllilega stæðist snúning því, sem bezt er gert annars staðar. Ég held, að á þessu leiki tæpast nokkur vafi. Það er hörmulegt til þess að vita, að við skulum hafa orðið að láta aðrar þjóðir — samkeppnisþjóðir okkar í þessum greinum — mata krókinn á því að smíða fyrir okkur okkar eigin báta.

Hér áður fyrr var það svo, að í flestum útgerðarbyggðarlögum voru menn, sem smíðuðu fiskiskipin. Það var enginn milliliður, sem tók af því ómældan gróða, að menn höfðu fley til að róa á. Nú er þetta allt öðru vísi. Á undanförnum árum hafa, eins og ég sagði, aðrar þjóðir annazt þetta fyrir okkur til ómælds óhagræðis fyrir íslenzkan iðnað og íslenzkar fiskveiðar og þar með íslenzku þjóðina í heild. Þessi mál hafa nokkuð verið rædd hér að undanförnu og m.a. með hliðsjón af þeim umr., svo og með tilvísun til þeirrar grg., sem er allýtarleg og fylgir þáltill., sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, nema þá tilefni gefist og leyfi ég mér að leggja til, að þessari umr. verði nú frestað og till. vísað til hv. allshn.