05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

121. mál, sparifjárbinding

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þessi till. er gamall kunningi hv. þm. Hún hefur verið flutt hér á öllum þingum að ég held síðan 1960, er fyrst var farið að beita ákvæðum seðlabankalaga um, að hluti af sparifjáraukningunni yrði bundinn í Seðlabankanum. Ég mun þess vegna hafa mjög stutta framsögu fyrir till. að þessu sinni.

Bundið fé bankanna og annarra peningastofnana á reikningum í Seðlabankanum er nú eitthvað um 2.000 millj. kr. Aðalröksemdin fyrir því, að sparifjárbindingunni hefur verið haldið uppi, hefur ávallt verið sú, að til þess að draga úr þenslu væri nauðsynlegt að taka einhvern hluta af sparifé landsmanna úr umferð. Nú hefur þessi kenning að vísu verið umdeild á undanförnum veltiárum, m.a. vegna þess, að menn hafa litið svo til, að þegar fyrirtæki eru rekin svo mjög með lánsfé, eins og hér er raun á, hafi ekki veitt af því, að atvinnureksturinn gæti fengið það sparifjármagn í sína þágu, sem nokkur tök eru á. En hvað sem segja má um þessa kenningu, þegar vel hefur gengið, eins og undanfarin ár, er þó alveg víst, að hún getur ekki átt við núna, þegar allir viðurkenna, að stórfelldur samdráttur hefur orðið í atvinnulífi landsmanna og vaxandi atvinnuleysi er staðreynd, sem hér er nýlega búið að ræða á hv. þingi. Það er auðvitað skylt að sporna gegn þessari óheillaþróun með því að örva atvinnureksturinn, m.a. með auknu fjármagni, enda er þetta viðurkennt af öllum. Þess vegna tel ég, að þrátt fyrir það, að þessi till. hafi verið felld á undanförnum 8 eða 9 þingum, hljóti hún að verða samþykkt núna. Ef hv. stjórnarliðar gera það ekki, eru þeir að bregðast þeirri efnahagsmálakenningu, sem þeir hafa fylgt undanfarin 10 ár — að draga inn, þegar verðbólga er, þegar vöxtur er, en láta út, þegar samdráttur er, og ætti þess vegna ekki að þurfa að eyða mörgum orðum að þessu.

En það er svolítið fleira í þessari till. núna, heldur en verið hefur. Það er það, að vegna þess að flestir viðskiptabankarnir hafa stofnað til skulda við Seðlabankann á síðustu erfiðleikaárum þá er lagt til, að gerðir verði samningar við Seðlabankann til eins árs í senn um, að viðskiptabankarnir taki þátt í útlánum til atvinnulífsins og um það, hvernig aukning innlána skuli skiptast eftir atvinnugreinum og svo hvað skuli ganga til að bæta stöðu viðkomandi banka við Seðlabankann. Það er auðvitað vitað mál, að viðskiptabankarnir verða að borga þessar yfirdráttarskuldir, sem stofnað er til í óleyfi, þó að það sé af illri nauðsyn gert, en jafnvíst er hitt, að ef öll sparifjáraukningin verður notuð til þess að greiða þessar skuldir, kemur ekkert til atvinnuveganna og þá stöndum við í sama farinu, en að reka banka eða peningastofnun eins og víða hefur verið gert undanfarið, að borga hærri vexti af fjármagninu, sem maður lánar út, heldur en lögum samkvæmt má taka, það er vitanlega fráleitt og getur ekki staðið til neinnar frambúðar.

Ég tel, að þessari sparifjárbindingu ætti nú að létta af. Það er ekki í till. farið fram á, að því fjármagni, sem þegar hefur safnazt á bundna reikninga, verði skilað, heldur aðeins, að sú sparifjáraukning, sem í vændum er, verði gefin frjáls. Ég vil segja það sem mína skoðun, að þessi ofstjórn á peningamálum, eins og viðgengizt hefur nú undanfarið, að Seðlabankinn tekur svo stóran hlut til ráðstöfunar og úthlutar því sjálfur, meðan viðskiptabankarnir geta ekki gegnt hlutverki sínu, er algerlega fráleitt. Við höfum hér þrjá ríkisbanka með 8 bankastjórum. Þessir menn eru valdir í þessi störf og það hlýtur að þýða, að þeim er treystandi til þess að ráða yfir því fjármagni, sem bönkunum er trúað fyrir, en það þurfi ekki æðri stjórn ofan á þessa stjórn til þess að úthluta þessum krónum. Það kann að vera, að það þyki svo nauðsynlegt að ná í sparifé einkabankanna, að þess vegna þurfi að hafa þennan háttinn á. En þegar þess er gætt, að einkabankarnir eru ekki með nema um 1.000 millj. samtals af 9–10 þús. millj., sem sparifé landsmanna er, sýnist manni vera langt seilzt til þess að ná í þær krónur, sem þannig myndast.

Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.