12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

136. mál, stórvirkjanir og hagnýting raforku

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er, að Alþ. álykti að kjósa 7 manna n., sem hafi það verkefni að kynna sér möguleika til að hraða stórvirkjunum vatns– og hitaorku, stofnun orkufreks iðnaðar og aukinni notkun raforku til hitunar o.fl. N. skal skila skýrslu til Alþ. svo tímanlega, að hægt verði að ræða hana á næsta þingi. Ráðh. sá, sem fer með orkumál, skipar formann n. Kostnaður við n. skal greiddur úr ríkissjóði.

Í grg. till. eru færðar fram nokkrar röksemdir fyrir því, að þessi till. er flutt. Má segja, að það sé einkum tvennt, sem reki á eftir því, að slík rannsókn og hér um ræðir, verði gerð sem allra fyrst eða henni verði hraðað sem mest.

Í fyrsta lagi er að nefna, að innan 6 ára eða jafnvel skemmri tíma verður svo komið hér á orkusvæðinu suðvestanlands, að skortur verður á raforku, nema ný virkjun hafi verið reist fyrir þann tíma. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem voru lagðar fyrir Alþ., þegar lög um Búrfellsvirkjun voru samþykkt, var reiknað með því, að ef væri um að ræða eðlilega aukningu á raforkunni hér innanlands eða í samræmi við það, sem hefur áður verið og álbræðslan fengi það orkumagn frá Búrfellsvirkjun, sem samið var um og verða mun, þ.e. um 60% af orkunni, þá mundi sem sagt sú orka, sem Íslendingar fá sjálfir til ráðstöfunar, vera þrotin ekki síðar en í árslok 1975 og þess vegna þyrfti að vera búið að reisa nýja orkustöð eða nýtt orkuver fyrir þann tíma, ef ekki ætti að koma til sögunnar orkuskortur á orkusvæðinu hér suðvestanlands, þ.e. á Suðurlandi og Vesturlandi. Það liggur því í augum uppi, að það þarf að fara að hraða undirbúningi þessa máls — að koma upp nýju orkuveri. Er þar í mesta lagi um 6 ára tímabil að ræða, þangað til sú orka er þrotin, sem við eigum kost á, á næstunni, án nýrrar virkjunar. Mér er sagt, að síðar hafi verið gerðir útreikningar, sem bendi jafnvel til þess, að þessi orka frá Búrfellsvirkjun verði fullnýtt fyrir þann tíma, sem gert var ráð fyrir, þegar lögin um Búrfellsvirkjun voru til umr. hér í þinginu á sínum tíma.

Þetta er annað atriði, sem veldur því, að það er nauðsynlegt að hafa hraðan á í þessum efnum, en hitt er það, sem er kannske ekki síður þýðingarmikið, að ýmsar nýjar orkulindir, eins og t.d. kjarnorkan, virðast koma til með að kosta minna í náinni framtíð og jafnvel reiknað með, að kostnaðurinn við framleiðslu þessarar orku fari mjög lækkandi á næstu árum og áratugum. Þess vegna er það mikilsvert fyrir okkur að vera, áður en svo er komið, búnir að hagnýta sem mest af þeim náttúrlegu orkulindum, sem við ráðum yfir. Af þeim ástæðum einnig, auk orkuskortsins, sem er yfirvofandi hér, þurfum við að hafa hraðan á í þessum efnum.

Undirstaða þess, að eitthvað sé hægt að gera í þessum efnum og hefjast handa um framkvæmdir, er, að gerðar séu nauðsynlegar rannsóknir, sem framkvæmdirnar eru svo síðar reistar á. Það má segja, að þetta rannsóknarstarf sé tvíþætt. Í fyrsta lagi þurfa þær að beinast að því að rannsaka orkuskilyrðin sem bezt og þannig liggi það ljóst fyrir, hvað sé framkvæmanlegt í þessum efnum, og í öðru lagi þurfa þessar rannsóknir að beinast að því, hvaða möguleikar séu fyrir hendi, til þess að orkunýtingin geti orðið meiri en hún er nú. Kemur þá fyrst til athugunar að rannsaka það, hvort möguleiki sé hér fyrir hendi til að koma hér upp einhverjum orkufrekum iðnaði eða nýta raforkuna á einhvern nýjan hátt, t.d. meira til hitunar, heldur en áður hefur verið gert.

Ég ætla þá fyrst að víkja nokkrum orðum að þeim þætti þessara rannsókna, sem beinast að því, að við könnum þá möguleika, sem við höfum til þess að koma hér upp orkuverum á framkvæmanlegan hátt. Það er rannsókn á orkuskilyrðunum í landinu sjálfu. Þetta er að sjálfsögðu undirstaðan, því að áður en hægt er að hefjast handa, verðum við að gera okkur sem nánasta grein fyrir því, hvað orkan muni kosta, sem hægt verður að framleiða og framkvæmdirnar verða því aðeins mögulegar, að rannsóknirnar sýni, að þetta orkuverð verði ekki óeðlilega hátt. Það skal viðurkennt, að á sínum tíma var mjög kappsamlega eða vel unnið að rannsókn á þeim virkjunarskilyrðum, sem voru við Búrfell. Á grundvelli þeirra rannsókna var svo ráðizt í þá framkvæmd. Hins vegar hefur gangur þessara mála því miður orðið þannig síðan, að mjög hefur dregið úr hraða þessara rannsókna. Það var strax dregið nokkuð úr fjárveitingu til þessara orkurannsókna á árinu 1966 og einnig 1967 og á seinasta ári var svo komið, að ekki var fyrir hendi nein fjárveiting til þess að halda uppi úti rannsóknum á Þjórsársvæðinu, þar sem margir telja, að líklegt sé, að næstu virkjanir verði reistar. Þegar það var ekki einu sinni hægt að halda uppi eðlilegum orkurannsóknum á þessu svæði, þá dró náttúrlega enn þá meira úr orkurannsóknum annars staðar í landinu. Mér finnst rétt að rifja það upp í þessu sambandi, að blaðamaður, sem starfar við Morgunblaðið, Elín Pálmadóttir, átti mjög athyglisvert viðtal við forstöðumenn Orkustofnunarinnar, sem birtist í Morgunblaðinu 23. janúar s.l. undir fyrirsögninni „Tímahrak með rannsóknir á Þjórsársvæðinu.“ Í upphafi viðtalsins komu m.a. þessar upplýsingar fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkustofnunin hefur á hendi undirstöðurannsóknir, sem áframhaldandi virkjanir fallvatna landsins byggjast á og eru þeir, sem að þeim vinna nú, farnir að hafa af því þungar áhyggjur, að þeir séu komnir í tímahrak með rannsóknir á Þjórsársvæðinu, ekki sízt þar sem þeir gátu nær ekkert gert þar s.l. sumar. Ef hugmyndir þær um hraða uppbyggingu stóriðju suðvestanlands, sem komið hafa fram nýlega og iðnrh. hefur skýrt frá í blöðum, verða að veruleika, kann svo að fara, að mjög naumur tími gefist til þessara undirstöðurannsókna. Sé reynt að drífa þessar rannsóknir af á of naumum tíma, verða þær miklu kostnaðarsamari en ella og niðurstöður þeirra óöruggari, þar eð ekki gefst tími til að sannprófa ályktanir.“

Þá kemur það enn fremur fram í þessu viðtali við forstöðumenn Orkustofnunarinnar, að þeir hafi að undanförnu einbeitt sér að rannsókn Þjórsársvæðisins, því að líklegt er, að næsta virkjun verði þar. Í framhaldi af þessu segja þeir í viðtalinu við Morgunblaðið:

„S.l. sumar ætluðum við að snúa okkur að rannsóknum við Þórisvatn, en af því gat ekki orðið vegna fjárskorts. Fjárveitingar til virkjanarannsókna hafa litlum breytingum tekið í krónutölu um nokkur undanfarin ár, en það þýðir lækkun á raungildi vegna verðbólgunnar. Niðurskurður á árinu 1968 kom sér sérstaklega illa og var engu fé unnt að verja til rannsókna úti á víðavangi á Þjórsársvæðinu. Þetta er sérstaklega bagalegt, þar sem allt bendir til, að vatnsmiðlun við Þórisvatn verði næsta framkvæmdin eftir Búrfelli. Þórisvatnsmiðlun hefur margslungin áhrif á alla nýtingu vatnsaflsins í Þjórsá og er því miður ekki nándar nærri eins sjálfgefin í mynstur áætlun og Búrfellsvirkjun. Þegar ráðizt er í fyrstu framkvæmdir við Þórisvatn, er nauðsynlegt að tryggja, að þær falli sem eðlilegur áfangi inn í framhaldsframkvæmdir þar. Til þess þarf í upphafi að hafa hliðsjón af framhaldinu. Sé þessa ekki gætt, er sú hætta fyrir hendi, að fyrstu mannvirkin verði ónothæf síðar, að ekki sé sagt, að þau verði beinlínis til trafala við síðari framkvæmdir, en því aðeins er gerlegt að taka tillit til þess í byrjun, að menn hafi gert sér ljóst í megindráttum, hvert framhaldið skuli vera. Til þess eru rannsóknir ennþá ónógar.“

Þá kemur það ennfremur fram í þessu viðtali, að forstöðumenn Orkustofnunarinnar telja ekki aðeins nauðsynlegt að rannsaka skilyrði við Þórisvatn, heldur einnig miðlunaraðstöðu í sjálfri Þjórsá við Norðlingaöldu. Skilyrðin þar eru hins vegar sáralítið rannsökuð. Í framhaldi af þessu segir Jakob Björnsson deildarverkfræðingur raforkudeildar í viðtalinu við Elínu Pálmadóttur:

„Með tilliti til þess, að þetta hefur áhrif á allar virkjanir Þjórsár, óttumst við nú, að við verðum í tímahraki,“ segir Jakob Björnsson. „Rannsóknirnar úti við lágu alveg niðri sumarið 1968 vegna fjárskorts, svo að hvorki var hægt að gera neitt við Þórisvatn eða Norðlingaöldu. Við höfum byggt upp rannsóknaráætlun miðað við, að við fikrum okkur upp eftir ánni frá Búrfelli, fyrst upp að Tungnaá og að Þórisvatni og síðan að Norðlingaöldu, en fjárskortur byrjaði að hamla á árinu 1967 og stöðvaði okkur alveg 1968. Nú voru rannsóknir þarna settar á fjárhagsáætlun Orkustofnunar fyrir 1969, en ekki töldu ráðamenn fært að taka kostnað við þær inn á fjárlög. Við vonum þó enn, að úr því geti rætzt, þegar gengið verður endanlega frá framkvæmdaáætlun þessa árs.“

Viðtalinu lýkur svo á þennan hátt með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er stuttur tími þar til þarf að leggja út í nýja virkjun, ekki sízt, ef ætlunin er að hraða virkjunarframkvæmdum. Tíminn til rannsókna er því naumur. Ef ekki gefst tími til íhugunar og ályktana milli rannsókna, verða allar rannsóknir miklu dýrari, segja þeir félagar. Á efra Þjórsársvæðinu er ekki unnt að sinna jarðfræðirannsóknum eins og borunum nema 3–4 mánuði á ári. Ef ekki reynist unnt að fá fé til þessara rannsókna í ár, fer enn eitt sumar forgörðum og ekki munu líða mörg sumur, áður en næstu virkjunarframkvæmdir verða að hefjast. Það mundi mjög auka kostnað að þjappa rannsóknunum svo mjög saman á skamman tíma, svo skamman, að varla gefst tími til íhugana um niðurstöður og ályktanir af þeim. Og með því móti verða niðurstöður óöruggari, svo að aftur getur leitt til mistaka við framkvæmdir. Hér er um mjög dýrar framkvæmdir að ræða, og ekki þarf stórvægileg mistök til að kostnaður vegna þeirra hlaupi á hundruðum millj. Til mikils er því að vinna, að allar undirbúningsrannsóknir séu sem vandaðastar.“

Þetta er það, sem forstöðumenn Orkustofnunarinnar hafa að segja um virkjunarrannsóknir á Þjórsársvæðinu, en að því svæði hafa svo að segja allar virkjunarrannsóknir beinzt á undanförnum árum. Þetta kemur mjög greinilega fram í erindi, sem Jakob Gíslason, forstjóri Orkustofnunarinnar, flutti í Vísindafélagi Íslands á s.l. hausti og nýlega hefur verið birt í Orkumálum, tímariti, sem Orkustofnunin gefur út, en þar segir hann m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Það gildir bæði um vatnsaflið og jarðhitann, að vitneskja okkar um magn, framleiðslukostnað og gæði þeirrar orku, sem úr þeim má vinna, er enn að verulegu leyti í molum. Enn vantar okkur auk annars að vita virkjunarkostnað í stór ám landsins öðrum en Þjórsá og Hvítá með þeirri nákvæmni, að talizt geti fullnægjandi, er byrjunarathuganir og umr. um möguleika á stóriðju fara fram og er þó jafnvel vitneskja okkar í þessu efni um suma hluta Þjórsár og Hvítár mjög takmörkuð.

Ekki er rétt að láta við það sitja að hafa slíka vitneskju um Þjórsár— og Hvítársvæðið eingöngu. Líklegt er, að í öðrum landshlutum, svo sem t.d. í Norðlendinga— og Austfirðingafjórðungi, séu fyrir hendi skilyrði til ódýrra stórvirkjana, sem ekki standa að baki ýmsum virkjunum sunnanlands til vinnslu orku fyrir stóriðju, en komi ekki til mála, meðan vitneskja um virkjunarskilyrðin eru ófullnægjandi. Veruleg frestun á virkjunarrannsóknum í þeim landshlutum getur því orðið til þess, að útiloka þá frá hagnýtingu vatnsaflsins, þótt skilyrði væru góð frá náttúrunnar hendi.“

Hér kemur það eins glöggt fram hjá forstöðumanni Orkustofnunarinnar, að eiginlega hafi ekki verið hægt að sinna virkjunarrannsóknum utan Þjórsársvæðisins á undanförnum árum vegna fjárskorts og það geti leitt til þess, að mjög góð virkjunarskilyrði í öðrum landshlutum verði ekki hagnýtt. Það hefur t.d. eiginlega engin rannsókn, að því er ég bezt veit, sem talizt getur, farið fram á undanförnum árum á möguleikum til að virkja Dettifoss og þess vegna er þannig ástatt í sambandi við hann, að sérfræðingar telja, að það þurfi ennþá margra ára rannsóknir, áður en hægt sé að fullyrða endanlega um það, hve ódýrir virkjunarmöguleikar eru þar fyrir hendi. Í fyrra var hér á þingi mjög talað um virkjun Dettifoss. Ég má segja, að það hafi verið samþykkt till. hér á Alþ. um það, að fullkomin rannsókn verði látin fara fram á þeim virkjunarmöguleikum, en því miður hafa þær rannsóknir fallið niður að langsamlega mestu á undanförnum árum. Það er einnig dómur margra sérfróðra manna, að það sé möguleiki að framkvæma stórvirkjun í sambandi við Blöndu. Ég hygg, að á undanförnum árum hafi sáralitlar eða jafnvel engar rannsóknir farið fram á þeim virkjunarskilyrðum, sem eru þar og þó væri virkjun Blöndu kannske eitthvert mesta stórmál til þess að tryggja t.d. jafnvægi í byggð landsins, hvað snertir Norðurland, sem um gæti verið að ræða. En sem sagt, rannsóknir á þessum skilyrðum, sem þarna kunna að vera fyrir hendi og margir telja mjög glæsileg, hefur engin orðið á undanförnum árum. Sama gildir um rannsóknir á Austurlandi. Þar er talið, að með því að sameina vötnin inni á hálendinu og veita afrennslinu ofan í Fljótsdal, mundi vera hægt að fá mjög stóra og mikla virkjun þar, en nánari rannsókn á þessum atriðum hefur eiginlega engin farið fram á undanförnum árum, þannig að með því áframhaldi, sem nú er í þessum málum, benda allar líkur til þess, að rannsóknir á þessum virkjunarskilyrðum dragist það mikið, að þær liggi e.t.v. ekki fyrir, fyrr en það er orðið of seint, vegna þess að kjarnorkan eða einhver önnur ódýrari orka kann þá að vera komin til sögunnar.

Jakob Gíslason segir ennfremur í erindi sínu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef við viljum stefna að því að taka orkulindir landsins í notkun á þeim skamma tíma, tveim áratugum eða svo, sem spáð er, að taka muni kjarnorkuna að komast niður fyrir vatnsaflsorkuna í verði, komumst við ekki hjá því að hraða þessum forrannsóknum orkulindanna. Lengri tíma en 8–10 ár megum við ekki ætla okkur til að ljúka þeim. Árlega þyrfti því að verja til þeirra ekki minna en 50 millj. kr., ef mín mjög svo lauslega áætlun reynist rétt.“

Þessi upphæð, sem Jakob nefnir hér, er ekki nema brot af því, sem varið er til orkurannsóknanna nú, — er ekki nema brot af þeirri upphæð, sem Jakob nefnir hér. Og þó hefur hann í samtali, sem ég hef átt við hann eftir að hann flutti þetta erindi, látið þá skoðun í ljós, að hann telji, að þessi áætlun sýni, að við nánari athugun muni hún frekar vera of lág, en of há. Þetta gefur fullkomlega til kynna, að við þurfum að taka á þessum málum með allt öðrum hætti en þeim, sem hefur verið gert á undanförnum árum, þ.e. við þurfum helzt að semja skipulagða áætlun um það, hvernig rannsókn á virkjunarmöguleikunum í landinu skuli fara fram og framfylgja henni síðan og verja til hennar því fé, sem nauðsynlegt er talið.

Mér finnst rétt að geta þess, að það hefur gerzt að mér skilst tvennt í þessu máli síðan þessi till. var lögð fyrir þingið. Í fyrsta lagi hefur ríkisstj. skipað eins konar orkunefnd, þar sem eiga sæti fulltrúar frá hinum ýmsu stofnunum, sem fjalla sérstaklega um þessi mál eins og Orkustofnuninni, Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Rannsóknaráði atvinnuveganna, Seðlabankanum og e.t.v. einhverjum fleiri aðilum, en ráðh. iðnaðarmála skipar formann n. eða er í henni sjálfur. Ég man það nú ekki, hver háttur er á því hafður. Verkefni þessarar n. er að vinna að samræmdum rannsóknum eða samræmdari rannsóknum þessara aðila og er ekki nema gott um það að segja. Það má vel vera og ég hygg, að það sé rétt, að hugmyndinni um stofnun slíkrar n. hafi eitthvað verið hreyft í ríkisstj., áður en þessi till. var flutt, þó að mér væri ekki kunnugt um það þá, en hitt held ég að megi fullyrða, sem er líklega ekki nema gott um að segja, að flutningur þessarar till. hefur orðið til þess að hraða því, að slík n. komst á laggirnar. Ég tel hana spor í rétta átt, en tel eigi að síður nauðsynlegt, að Alþ. vinni að málinu með einhverjum hætti, hvort heldur það er með samþykkt þeirrar till., sem hér liggur fyrir eða öðrum hætti. Um það er ég til viðtals, að Alþ. fylgist með því, hver gangurinn er í þessum málum og eigi þátt í því þannig, að þessum rannsóknum verði hraðað sem mest og unnið að þeim á skipulagðan hátt.

Þá mun það einnig hafa gerzt á síðustu vikum, að Landsvirkjun eða stjórn Landsvirkjunar hafi tekið þessi mál til sérstakrar meðferðar og þó að ég hygg alveg sérstaklega eftir að þessi till. kom fram. Og mér hefur skilizt á þeim fréttum, sem ég hef þaðan af því, sem er að gerast hjá Landsvirkjun, að það muni vera ákveðið af hennar hálfu að láta fara fram sérstaka athugun á virkjun í Tungnaá, sem fellur í Þjórsá, með það í huga, að það verði fyrsta stórvirkjunin, sem verði ráðizt í að lokinni Búrfellsvirkjun. Hér er um nokkuð stóra virkjun að ræða eða sennilega um það bil helmingi minni en Búrfellsvirkjun, svo að hún yrði ekki nema lausn til bráðabirgða fyrir innlendar þarfir, ef jafnframt kæmi til sögunnar einhver sérstök stóriðja, sem fengi orkuna þaðan að verulegu leyti. En ég hygg samt, að ef á að ráðast í þessa virkjun í Tungnaá, þurfi að hafa mjög hraðann á, ef hún á að vera komin upp fyrir árslok 1975 og það sé mjög mikið eftir í sambandi við rannsóknir þar að lútandi. M.a. skilst mér, að það sé ekki hægt að ráðast í þessa virkjun, nema til sögunnar komi vatnsmiðlun úr Þórisvatni. Mér hefur skilizt, að það sé nokkur ágreiningur um það hjá verkfræðingum, hvað langt þeim rannsóknum sé komið og hve ýtarleg hún þurfi að vera, m.a. á jarðvegi þar og öðru slíku. En e.t.v. þarf þessi vatnsmiðlun úr Þórisvatni að koma hvort sem er, því að mér skilst, að það sé nú að verða álit sérfræðinga, þó að því væri mótmælt á sínum tíma í sambandi við Búrfellsvirkjun, að ef á að tryggja nægilegt vatnsmagn handa Búrfellsvirkjun á öllum árstímum, sé óhjákvæmilegt, að einhver vatnsmiðlun úr Þórisvatni komi þar til sögunnar. Og þess vegna má kannske leysa það mál að einhverju leyti samhliða og tryggð er vatnsmiðlun úr Þórisvatni í sambandi við virkjun Tungnaár.

Segja má, að það sé spor í rétta átt, að hraðað verði sérstaklega rannsóknum á Tungnaá og undirbúnar framkvæmdir þar. En það þarf samt að taka á þessu máli miklu stærri tökum. Það þarf að hraða rannsókn á Þjórsársvæðinu öllu, því að eins og kom fram í því, sem ég las hér úr viðtali við forstöðumenn Orkustofnunarinnar, er virkjunarskilyrðum þannig háttað þar, að menn þurfa helzt að hafa yfirlit yfir alla virkjunarmöguleikana, áður en ráðizt er í næstu framkvæmdir og byggja þær upp í áföngum samkvæmt því plani. Verði það ekki gert, gæti það orðið, ef ráðizt væri þar í einhverjar minni virkjanir, að þær reyndust ónýtar síðar og fyrir öðrum stærri virkjunum, sem þá yrði ráðizt í, eins og fram kemur í þessu viðtali. Svo verður að leggja áherzlu á, að það verði einnig unnið að því að rannsaka virkjunarskilyrði í öðrum landshlutum á Norðurlandi og Austurlandi, Dettifoss, Blöndu og vatnasvæðið á hálendi Austfjarða og aðra möguleika, sem þar kunna að vera fyrir hendi. Ég hygg, að Laxá sé nokkuð sæmilega rannsökuð, en það verður aldrei um neina verulega stórvirkjun þar að ræða, en þessar rannsóknir má ekki láta verða útundan, því að af því getur leitt, eins og kom fram í erindi Jakobs Gíslasonar og ég vitnaði hér til áðan, að þessar virkjanir verði alveg útundan og komi aldrei til sögunnar.

Ég hygg, að þegar menn líta á, hve stórt verkefnið er, hljóti það að teljast eðlilegt, að Alþ. setji sérstaka n. til þess að vinna að því að hraða þessum rannsóknum og koma á skipulegri,vinnubrögðum í þeim efnum. Ef hins vegar hæstv. ríkisstj. af einhverjum ástæðum vill ekki fallast á sérstaka þn. í þessum efnum, finnst mér, að það væri þó algert lágmark, að Alþ. eða þingflokkarnir fengju aðild að þeirri orkunefnd, sem nýlega hefur verið sett á laggirnar og ég hef hér minnzt á eða sagt frá, en bezt hygg ég, að hefði verið, að sett yrði alveg sérstök n. til þess að rannsaka þessi mál öll frá rótum, sem væri í tengslum við þingið eins og sú n., sem gert er ráð fyrir í þessari till., því að það er áreiðanlega bæði aðgætni og aukin trygging fyrir því, að það verði samstaða um það hér á Alþ., að þessum rannsóknum væri hraðað og jafnframt er það mikilvægt fyrir Alþ. á hverjum tíma að hafa aðstöðu til þess að fylgjast sem best með þessum málum, en það ætti það einmitt að geta gert í gegnum slíka nefndarskipun.

Ég sagði áðan, að það rannsóknaverkefni, sem þarf að vinna að, væri tvíþætt. Það er í fyrsta lagi rannsókn á virkjunarskilyrðunum sjálfum, sem ég hef hér minnzt á. Ég hef að vísu sleppt að ræða sérstaklega um heita vatnið, en þær athuganir eru ekki síður merkilegar og verður að sinna þeim af fullu kappi. En hinn þáttur rannsóknanna er athugun á þeim möguleikum, sem kunna að verða fyrir hendi til þess að koma upp orkufrekum iðnaði og jafnvel nota raforkuna á ýmsan annan hátt, heldur en nú er gert, eða meira á annan hátt, heldur en nú er gert, t.d. til upphitunar á húsum.

Í seinasta hefti Orkumála er að finna mjög athyglisvert erindi, sem Jakob Björnsson hefur flutt um það efni, en rannsóknir á því að nota orkuna til hitunar á húsum, eru áreiðanlega enn of skammt á veg komnar, en þar getur verið um mjög mikla og merka möguleika að ræða, sem ættu að geta orðið til þess að hrinda fram stórframkvæmdum eða nýta raforkuna betur en ella.

Ég held, að ég láti þá upprifjun, sem ég hef gert, nægja að sinni. Ég vil vænta þess, að þessi till. fái góðar undirtektir og hvað sem líður átökum á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á öðrum sviðum, sé hægt að vinna af samstöðu um þessi mál, alveg eins og það náðist full samstaða um virkjun Búrfells hér á sínum tíma og um Sogsvirkjunina þar á undan.

Ég held, að það viðurkenni allir, að hér sé um mikil nauðsynjamál að ræða og það sé jafnan heppilegast að vinna þannig að þessum málum og strax frá upphafi, að um þau geti verið sem bezt samstaða.

Ég vil aðeins skjóta hér inn í, að ég vænti þess, að þó að það tækist ekki að fá það fram í sambandi við afgreiðslu fjárl., að Orkustofnunin fengi það fé til rannsókna á þessu ári, sem hún fór fram á, þá taki hæstv. ríkisstj. það upp í þá framkvæmdaáætlun, sem hún mun síðar leggja hér fyrir þingið. Mér er sagt, að hæstv. orkuráðh. hafi góðan skilning á því máli og ber þess vegna að vænta þess, að honum takist að koma því fram.

Ég læt svo þessu máli mínu lokið að sinni, en legg til að, að þessari umr. lokinni, — það munu vera ákveðnar tvær umr. um till., — verði henni vísað til — ég er nú ekki viss um, hvort er eðlilegra — fjvn. eða allshn. Það er líklegast frekar venja, að till. um þessi mál fari til allshn., en hins vegar er rétt að geta þess, eins og kemur fram í till., að gert er ráð fyrir, að nokkur kostnaður verði við hana. Venjan er sú, að slíkar till. fari til fjvn., svo að ég held, að ég geri það frekar að till. minni, að hún fari þangað.