26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

136. mál, stórvirkjanir og hagnýting raforku

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að blanda mér í það, sem kann að hafa farið á milli hv. orkumálaráðh. og hv. 1. flm. þessarar till. eða það, sem hann í sinni ræðu vék að ummælum orkumálaráðh., þegar þetta mál mun hafa verið síðast til umr. Ég var þá ekki viðstaddur og það eru í sjálfu sér ekki veigamikil atriði, sem þeim ber á milli. Skal ég þess vegna látið lokið máli mínu, hvað þetta áhrærir.

Ég vil segja, að ég er í öllum meginatriðum sama sinnis og hv. 1. flm. þessarar till., hv. 4. þm. Reykv., um stórvirkjanir og hagnýtingu raforku. Um megin kjarnann erum við held ég alveg sammála, það sé nauðsynlegt að hraða stórvirkjunum vatns– og hitaorku, eins og segir í till., sem þurfa að vera samfara stofnun orkufreks iðnaðar, aukinni notkun raforku til hitunar og mörgu fleira. Hann bendir réttilega á, að við erum í kapphlaupi við tímann, eins og ég hef oft vikið að á öðrum vettvangi í sambandi við hliðstæð mál, kapphlaupi um það, hvort vatnsaflið okkar á að nýtast eða halda áfram að renna til sjávar meira og minna ónýtt og verði þá ekki hagkvæmt að nýta það í langri framtíð, vegna þess að þá séu komnir til aðrir möguleikar, sem við stöndum ekki betur, en kannske lakar að vígi með í sambandi við orkuframleiðslu, heldur en aðrar þjóðir. Á ég þar auðvitað fyrst og fremst við kjarnorkuna.

Ég vil aðeins leiðrétta þá missögn, sem kom fram í ræðu hv. þm., — svo ég noti nú orðið missögn, — að ríkisstj. hafi sett á laggirnar n., eftir að þessi till. kom fram. Þessari till. var útbýtt hér í þinginu 12. febr., en það var strax eftir áramótin, eins og kom fram í fréttatilkynningu frá iðnmrn., að umr. hófust um það í ríkisstj., að nauðsyn væri á að samræma og skapa meiri samvinnu á milli ýmissa stofnana, sem vinna að rannsóknum í sambandi við orkuframleiðslu, vísindalegum rannsóknum og á síðara stígi hagnýtingu orkunnar. Þann 4. febr. var svo endanlega gengið frá ályktun í ríkisstj. um samstarfsn. í orkumálum. Það má segja, að hún byggist á nokkuð svipuðum hugsunum, en hún er þó grundvölluð á því, að innan stjórnarinnar var talið nauðsyn að samræma betur en áður starfskrafta og vinnuáætlanir ýmsra þeirra helztu stofnana, sem vinna að áætlanagerð, sem er grundvöllur að uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Eftir áramótin lagði iðnrh. fram till. við ríkisstj., er stefnir að þessu marki og var hún samþykkt þann 4. febr. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofnað sé til samstarfsn., sem hafi það höfuð markmið að athuga möguleika til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði og sé að því stefnt að gera sem fyrst áætlun, er taki til 10– 20 ára. Er þá aðeins við það miðað að gera sér lauslega grein fyrir hugsanlegum ramma fyrir framkvæmdir, sem hlyti að vera mjög sveigjanlegur. Gengið er út frá því, að hinn eiginlegi kjarni iðnaðarmöguleika þjóðarinnar sé ísambandi við nýtingu vatnsafls landsins og varmaorku.“

Síðan er gerð grein fyrir því, hvernig þessi samstarfsn. sé samsett, en það er af eftirtöldum aðilum: Iðnmrn., Orkustofnun Íslands, Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Efnahagsstofnuninni, Rannsóknaráði ríkisins og Seðlabanka Íslands. Síðan var sá háttur hafður á í ríkisstj., að hver ráðh. tilnefndi frá þessum stofnunum mann í n. fyrir þá stofnun, sem heyrði undir viðkomandi ráðh. Það eru margir ráðh., sem þessar stofnanir heyra undir, eins og hv. þm. er ljóst. Þessi n. hefur haldið sinn fyrsta fund og heldur annan fund á morgun, og meginverkefni hennar er auðvitað að samræma þarna athuganir og rannsóknir og stuðla að því að flýta rannsóknunum, ef nauðsyn krefur og það er ómögulegt að verjast því. Við verðum að gera okkur ljóst, að við erum á eftir í rannsóknum okkar og það er líka rétt hjá hv. 1. flm. þessarar till., að þær ganga náttúrlega líka misjafnt yfir af ýmsum ástæðum og þar sem Landsvirkjunin á í hlut og hefur aukið fé til rannsókna sinna, þá beinast þær náttúrlega að Þjórsársvæðinu.

Þetta er töluvert mikið vandamál með rannsóknir í orkumálunum, vegna þess hve orkan er mjög mismunandi mikil og mikill mismunur á því, hversu aðgengilegt það er að virkja aflið í hinum einstöku landshlutum. Það eru minnstir möguleikarnir, ef ég man rétt, á Vestfjörðunum og langmestir hérna á suðvesturhlutanum og svo á Norðausturlandi og eitthvað svipað eða minna á Austurlandi eftir því, hvernig það er reiknað, en það er auðvitað eðlilegt, að fólkinu í þessum landshlutum finnist það eðlilegast að hugsa fyrst til rannsókna og virkjana í sínum eigin héruðum, en þetta verður þó að mínum dómi að athuga gaumgæfilega og sennilega að leggja meiri áherzlu, en áður á samtengingu orkunnar um allt landið, sem er lang veiga mest. Hún mundi þýða það, að allir landsmenn hefðu sömu aðstöðu til orkunnar. Þá skiptir raunverulega ekki máli að mínum dómi, hvaðan hún kemur. Þegar svo þarf að bæta við orkuna, þá er hægt að bæta við hana hvar sem er inn á þetta sameiginlega kerfi, hvort sem það er á Austurlandi, Norðurlandi eða Suðurlandi. Allt er þetta auðvitað mál, sem við, sem erum litlir fagmenn, getum lítið dæmt um og er mikið rannsóknar– og úrlausnarefni og ég verð að sjálfsögðu að viðurkenna, að það er rétt hjá hv. flm. till., að auðvitað skiptir miklu máli, að Alþ. fylgist á hverjum tíma vel með í þessum málum, enda er það einn sterkasti áhrifaaðilinn á framvindu málanna.

Ég skal að öðru leyti ekkert blanda mér inn í þær umr., sem fram hafa farið um málið eða hvort rétt sé að samþykkja þessa till. svona eða í öðru formi, en þetta vil ég þó vissulega láta koma fram um viðhorf mitt til hlutdeildar Alþ. í þeim rannsóknum, sem eru að fara fram á hverjum tíma.

Það var svo ekki fleira, herra forseti, sem ég vildi koma að, heldur en þessi leiðrétting, sem ég nú hef gert grein fyrir.