26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (3336)

146. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er, að Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabankinn veiti viðskiptabönkunum nú þegar sérstök lán til að koma rekstraraðstöðu iðnfyrirtækja í viðunandi horf. Rekstrarlán til þeirra fyrirtækja, sem sett geta viðeigandi tryggingu, verði veitt í samræmi við þær lágmarksreglur, sem nú skal greina:

Fyrirtækin fái víxlasöluheimild til sölu á allt að 90 daga löngum víxlum, sem nemi allt að þriggja mánaða framleiðsluverði fyrirtækja, sem selja vörur sínar í heildsölu til dreifingaraðila. Auk þess fái fyrirtækin yfirdráttarheimild á reikningslánum, er svari til þriggja mánaða kaupgreiðslu viðkomandi fyrirtækis. Að því er varðar báða ofangreinda liði, skal miða við meðaltalsframleiðslu og meðaltalskaupgreiðslu s.l. 2 ár.

Í grg. till. er rakið, hvernig hún er til orðin, en segja má, að upphaf hennar sé það, að hinn 19. sept. s.l. kaus borgarstjórn Reykjavíkur sérstaka atvinnumálan. Verkefni þessarar n. var að kynna sér atvinnumál borgarinnar með tilliti til þess að tryggja næga atvinnu, en horfur á atvinnuleysi virtust þá augljósar, eins og líka kom á daginn. N. hóf störf sín nokkru síðar og skilaði mjög ýtarlegum till. um ýmsar ráðstafanir til atvinnuaukningar hinn 19. des. s.l. Eitt af þeim verkefnum, sem hún tók sér fyrir hendur, var að kynna sér horfur hjá verksmiðjuiðnaðinum í bænum. Við þá athugun kom í ljós , að mikill samdráttur hafði átt sér stað hjá þessum fyrirtækjum og var auk þess yfirvofandi hjá öðrum. Ein af aðalástæðunum til þess var skortur á rekstrarfé. N. lagði þess vegna verulega vinnu í að kynna sér með hvaða hætti mundi vera æskilegast að tryggja þessum fyrirtækjum nægilegt lánsfé eða rekstrarfé og komst í meginatriðum að þeirri niðurstöðu, að þetta ætti að gerast með þeim hætti, að þessi fyrirtæki hefðu aðgang að vissum ákveðnum lánum hjá viðskiptabönkunum. Þær reglur, sem n. kom sér saman um, eru nokkurn veginn þær sömu og felast í þessari till., sem hér liggur fyrir. Það hefur svo gerzt síðan n. skilaði þessu áliti sínu, að fyrir tilstuðlan ríkisstj. hefur Seðlabankinn hafizt handa um einhverja úrlausn í þessum efnum, en fram að þessu hefur hún verið fullkomlega ófullnægjandi og langflest fyrirtæki eru engu betur stödd, hvað þetta snertir, en þau voru s.l. haust. Það er því fullkomin þörf fyrir, að Alþ. láti þetta mál til sín taka, þar sem framkvæmdir hafa ekki orðið meiri í þessum efnum, en raun ber vitni um og ég hef nú minnzt á.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þessa till. öllu fleiri orðum að sinni, því að þetta mál hefur oft verið rætt og þm. öllum ætti því að vera ljóst um hvað er að ræða. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.