19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í framhaldi af þessari fsp. og öðrum, er fram komu við fyrri umr. málsins, vil ég taka eftirfarandi fram:

Að því er tekur til landana á fiski íslenzkra skipa erlendis, mun engin breyting eiga sér stað á hlutaskiptalögunum fyrr en eftir gildistöku frv. þessa, ef það verður að lögum. Við athugun a 2. gr. frv. tel eg þetta ljóst. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir, að væntanleg hækkun fiskverðs innanlands, sem ákveðin verður af Verðlagsráði sjávarútvegsins eftir gildistöku laga þessara, gildi aftur fyrir sig frá 15. nóvember s.l., en umrædd gjöld, sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir, gildi þá einnig frá sama tíma.

Við 1. umr. málsins var mikið um það rætt, hve mikil áhrif hin ýmsu gjöld sjávarútvegsins eða útgerðarinnar hefðu á hag hennar og framgang. Í sambandi við það var bent á það af ýmsum ræðumönnum, sem ég hirði nú ekki um að tilgreina, nema tilefni gefist til, að nokkrir tilteknir liðir eða lækkun á þeim mundi geta jafnað það bil, sem verið er að reyna að jafna með þessu frv. Í tilefni af því vil ég segja eftirfarandi:

Í eftirfarandi yfirliti um vexti, tolla og gjöld af rekstrarvörum og gjöld af olíunotkun, sem sjávarútvegurinn greiðir samkv. áætlun fyrir árið 1968, ber að hafa í huga, að verðjöfnunargjaldið af olíunni, sem er aðalgjaldið á þeirri vöru, er ekki tollur, sem rennur til ríkisins, heldur gjald, sem stendur undir dreifingarkostnaði út á land. Það rennur því að verulegu leyti aftur til sjávarútvegsins sjálfs, þótt sjávarútvegurinn greiði sjálfsagt meira en hann fær til baka, og þó einkum togararnir.

Um vextina er það að segja, að hækkun þeirra um 20% er sjálfsagt það allra mesta, sem til greina kæmi, enda verulegur hluti þeirra erlendir vextir og vextir bundnir til langs tíma í skuldabréfum, sem fjárfestingalánasjóðir hafa selt. Slík vaxtalækkun kæmi að sjálfsögðu ekki til greina, nema með lækkun vaxta á innlánum, og lítur þá dæmið þannig út:

Heildarframleiðslukostnaður sjávarútvegsins alls 1968, að meðtöldum afskriftum og stofnvöxtum er 5861 millj., 5 milljarðar 86l millj., og er sú tala að sjálfsögðu það, sem við miðum við hér, 100%. ÖII vaxtagjöld útgerðarinnar eru 375 millj. kr. eða 6.4%. (Gripið fram í.) Lausaskuldir eru þar að sjálfsögðu ekki með. Þetta eru fastalán. Allir tollar og olíugjöld eru 73 millj. kr. eða 1.2%. Upphæð vaxtalækkunar, 20% af afnámi tolla- og verðjöfnunar, það var reiknað með, að helmingur afnáms verðjöfnunargjaldsins kæmi sjávarútveginum til góða, eru 124 millj. eða 2.1%. Rekstrarkostnaður sjávarútvegsins 1968, afskriftir, stofnvextir ekki með taldir, eru 4876 millj. kr.,4 milljarðar 876 millj. kr., og er sú tala 100% í þessu tilfelli. Rekstrarvextir eru 121 millj. kr. eða 2.5%. Upphæð vaxtalækkunar, 20% afnáms tolla- og verðjöfnunargjalds, er 73 millj. kr. eða 1.5%.

Halli sjávarútvegsins 1968 er áætlaður 1640 millj. kr.. sem er 100% í þessu tilfelli, einn milljarður 640 millj. kr. Öll vaxtagjöld eru áætluð 375 millj. kr. eða 22.8%. Allir tollar og olíugjöld eru 73 millj. kr. eða 4.5%. Upphæð vaxtalækkunar, 20% afnáms tolla- og verðjöfnunargjalds, er 124 millj. kr., eða 7.5%.

Af þessu sér hver sem vill sjá, að öll sú lækkun vaxta, sem framast virðist hugsanleg, 20%, ásamt afnámi tolla á rekstrarvörum og verðjöfnunargjalds á olíu, nemur aðeins um 2% af framleiðslukostnaði sjávarútvegsins og 7–8% af rekstrarhallanum öllum á árinu 1968.

Í þriðja lagi þá var um það spurt í 1. umr. málsins, með hvaða hætti ráðstafað hefði verið úthlutun bóta, sem eru hliðstæðar þeim liðum, sem eru í þessu frv., sem hér er til umræðu, hvernig þeim hefði verið ráðstafað samkv. þeim lögum, sem hefðu verið samþykkt á síðasta Alþ. Tel ég rétt að upplýsa það hér, með eftirfarandi lestri úr bréfi um það efni. Það var hv. 4. þm. Vestf., sem sérstaklega óskaði eftir því, að þetta kæmi fram, áður en umræðu um þetta mál lyki, og er það hér með gert, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi dags. 7. febr. s.l. skipaði ráðuneytið (sjútvmrn.) nefnd til að sjá um úthlutun bóta samkv. a-lið 1. gr. l. nr. 79 frá 29. febr. 1967, um ráðstöfun á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum o.fl., og í nefndina voru skipaðir eftirtaldir menn: Sigurður Stefánsson endurskoðandi, Margeir Jónsson útgerðarmaður, Úlfur Sigurmundsson framkvæmdastjóri, Sveinn Benediktsson framkvæmdastjóri og Davíð Ólafsson bankastjóri, og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin leitaði til Efnahagsstofnunarinnar um að henni yrðu látin í té gögn varðandi hinar ýmsu greinar sjávarafurðaframleiðslunnar, og hafa þeir Jón Sigurðsson hagfræðingur þar og Bjarni Bragi Jónsson hagfræðingur unnið að þessu fyrir nefndina. Eftir þeim gögnum, sem nefndin hefur þannig fengið, hefur hún samþykkt einróma að leggja til, að greiddar verði eftirfarandi bætur í samræmi við ákvæði fyrr nefndra laga:

1. Vegna fiskveiða:

a. Síldveiðar. Greitt verði á hverja lest síldar, sem landað var innanlands á tímabilinu 26. nóv. til 31. des. 1967, kr. 170 svo og 3.4% á kauptryggingu greidda í des. 1967.

b. Þorskveiðar. Greitt verði á verðmæti afla, sem landað var innanlands á tímabilinu 26. nóv. til 31. des. 1967, 7.6% svo og 3.4% á kauptryggingu greidda í des. 1967.

2. Saltfiskframleiðsla:

a. Verkaður saltfiskur. Greitt verði á hverja lest fisks, sem var í birgðum 26. nóv. 1967, 319 kr. og framleiðslu á tímabilinu 26. nóv. til 31. des. 1967 957 kr. á hverja lest.

b. Óverkaður saltfiskur. Greitt verði á hverja lest fisks, sem var í birgðum 26. nóv. 1967, kr. 313.50 og á framleiðslu á tímabilinu 26. nóv. til 31. des. 1967 627 kr. á hverja lest.

3. Freðfiskframleiðsla:

a. Freðfiskur. Greitt verði á hverja lest fisks, sem var í birgðum 26. nóv. 1967, kr. 75 og á framleiðsluverðmæti tímabilsins 26. nóv. til 31. des. 1967 4.25% og er þá miðað við reikningsverð sölusamtakanna til framleiðanda vegna þessarar framleiðslu, sem skv. upplýsingum sölusamtakanna til Efnahagsstofnunarinnar var kr. 23.53 á hverja lest að meðaltali.

b. Freðsíld. Greitt verði á hverja lest síldar, sem var í birgðum 26. nóv. 1967, kr. 75 og af framleiðslu á tímabilinu 26. nóv. til 31. des. 1967 269.50 kr. á hverja lest. 4. Saltsíldarframleiðsla:

a. Síld, söltuð suðvestanlands. Greitt verði vegna þeirrar síldar, sem var í birgðum 1. des. 1967, kr. 14.51 pr. tunnu að meðaltali, svo og vegna framleiðslu á tímabilinu 1. desember 1967 til 31. desember 1967 kr. 27.81 pr. tunnu að meðaltali.

b. Síld, söltuð norðaustanlands. Greitt verði vegna þeirrar síldar, sem var í birgðum 1. des. 1967, kr. 20.25 á tunnu að meðaltali, svo og vegna framleiðslu á tímabilinu 1.–31. des. 1967 kr. 31.05 pr. tunnu að meðaltali.

c. Hækkun tunnukostnaðar. Greitt verði vegna verðhækkunar á tunnum, sem fluttar voru inn og greiddar á hinu nýja gengi og notaðar við framleiðsluna í desember 1967 kr. 3 millj. 668 þús. Byggist upphæð þessi á framlögðum gögnum síldarútvegsnefndar.“

Með þessum upplestri og tilvitnunum tel ég, að þeim spurningum, sem til mín hefur sérstaklega verið beint varðandi málið, hafi verið svarað.