19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Okkur var áðan fluttur hér dálítið óvenjulegur leikþáttur. Hv. 10. þm. Reykv. kom hér upp í ræðustólinn og sagðist þurfa að bera upp fsp. við hæstv. sjútvmrh. Hv. þm. hafði skrifað með fyrirvara undir nál., þar sem hann lét þess getið, að hann væri fylgjandi því, að þetta frv. næði fram að ganga, það vantaði aðeins að fá svar við einni spurningu. Og hv. þm. flutti mál sitt á býsna sannfærandi hátt, eins og honum væri mjög mikið niðri fyrir. Hins vegar er hæstv. ráðh. öllu lélegri leikari en þm. Hann varð ekkert hissa, honum kom ekkert á óvart, hann var ekkert að hugsa sig um. Hann svaraði á stundinni. (Gripið fram í: Ég vissi, hvað til hafði staðið hjá hv. þm. ) ,Já, að sjálfsögðu, ég tók eftir því. En einmitt þess vegna urðu þessir áhrifamiklu leikaratilburðir ekki eins áhrifamiklir og til hafði verið ætlazt af hv. þm. Þarna voru engir óvæntir atburðir að gerast. Það gerðist ekki meðan hv. þm. stóð hér í þessum stól, að hann fengi svar við spurningu sinni. Hann vissi svarið áður. Það var algjör óþarfi fyrir hann að setja þennan leikþátt á svið.

Hins vegar skil ég mjög vel, hvers vegna hv. þm. taldi sig þurfa að gera þetta. Hann er einn af forystumönnum sjómannasamtakanna í landinu. Hann er í trúnaðarstarfi fyrir samtök, sem hafa lýst yfir algjörri andstöðu við 1. kafla þessa frv. og borið fram kröfur um það, að sá kafli yrði ekki samþykktur hér á þingi. Hv. þm. er í miklum vanda. Hann er bæði tryggur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, og hann vill einnig geta komið hér fram sem málsvari sjómanna. En eins og nú standa sakir, verða þessi hlutverk ekki samrýmd, vegna þess að hæstv. ríkisstj. er hér með frv. um ákaflega stórfellda skerðingu á umsömdum ákvæðum, sem gilt hafa um hlutaskipti sjómanna. Og hv. þm. rekur sig á það, að það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. En hann vetur þunn kost, að hann þjónar ríkisstj. í staðinn fyrir þeim sjómönnum, sem hafa trúað honum fyrir að gegna forystustörfum fyrir sig.

Ég tók eftir því, að hv. þm. lýsti því á mjög skýran hátt og dró ekkert af, að hann teldi þessa árás á sjómannakjörin algerlega óréttlætanlega. Hann lagði áherzlu á það, að kjör sjómanna hefðu skerzt fyrr og harkalegar en nokkurrar annarrar stéttar, að kaupgjald þeirra hefði lækkað um því sem næst helming og að verulegur hluti þeirra hefði ekki fengið nema kauptrygginguna tvö undanfarin ár. Hann lagði líka áherzlu á það, að þetta væru kjör, sem ekki væri hægt að skerða og að það væri röng stefna að skerða þau. Engu að síður ætlar þessi hv. þm. að standa að því, að sjálf þessi skerðing verði samþykkt hér á þingi. Hann ætlar að greiða atkvæði með því. Hann hefur að vísu aðra útgönguleið, sem hann lagði áherzlu á í ræðu sinni. Hún var sú, að nú tækju við samningar. Það hefði tekizt að fá þessu frv. þannig breytt, að ef það yrði gert að lögum, þá væru þeir samningar, sem bundnir voru, lausir. Það stafar m.a. af ákvörðun þessa hv. þm., að sumir þessir samningar voru ekki lausir áður. Ástæðan var sú. væntanlega, að hv. þm. og þeir, sem með honum starfa, hafa talið, að samningarnir væru þess eðlis, að það mundi ekki bæta hag sjómanna að segja þeim upp. Það er ríkisstj. og þessi hv. þm., sem eru að búa til það ástand, sem gerir það óhjákvæmilegt að segja upp þessum samningum.

Og það er einmitt þetta atriði, sem varð til þess, að ég vildi með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, enda þótt ég ætli ekki að halda neina langa ræðu. Það er í sjálfu sér tilgangslítið að flytja langar ræður um mál eins og þetta, þar sem ríkisstj. er búin að bíta í sig alveg ákveðna lausn, þar sem hún tekur ekki mark á neinum röksemdum stjórnarandstæðinga og neinum tillögum, þar sem hún þykist hafa valdið. Hún ætlar sér að beita þessu valdi, og hún telur, að stjórnarandstaðan sé harla máttlaus í þessum átökum. En hversu mikið vald hefur hæstv. ríkisstj.? Hv. 10. þm. Reykv. minntist einnig á það. Hann sagðist hafa spurt þá sérfræðinga og ráðherra, sem stóðu að því að semja þetta frv.: Hvernig á að gera þetta að veruleika? — Til þess að gera árás eins og þessa, sem þarna á að gera á afkomu sjómanna, til þess að gera hana að veruleika, þá þarf meira en að samþykkja lög á Alþ. Það er ekki hægt að koma fram efnahagsráðstöfun eins og þessari, nema að hún njóti verulegs skilnings meðal almennings, nema menn sætti sig við hana. Ef menn sætta sig ekki við hana, nær hún ekki fram að ganga þannig, að hún verði að raunveruleika. Fyrir þessu er löng reynsla og ég held, að hæstv. ráðh. ættu að vera farnir að átta sig á henni. Einmitt þess vegna er ástæða til þess að vara hæstv. ríkisstj. við að fara inn á þessa braut. Ef þetta frv. verður samþykkt, gerist örugglega eitt af tvennu. Annaðhvort taka sjómannasamtökin upp baráttu fyrir kjörum sjómanna og fylgja henni fast eftir. svo að þau rétti hlut sjómanna fullkomlega — og hv. 10. þm. Reykv. tók það fram, að til þess að rétta hlut sjómanna fyllilega, þyrfti að tryggja þeim óskert kjör, að engin kjaraskerðing kæmi til greina hvað þá varðar. Sem sagt, það þyrfti að rifta gersamlega ákvæðum 1. gr. laganna í verki, þó að tekinn væri upp einhver annar háttur á kaupgreiðslunum, yrðu þær að standa undir óskertum kjörum. Þegar þannig er barizt, skulum við gera okkur grein fyrir því, að það getur komið til vinnustöðvunar og ég hefði haldið, að hæstv. ríkisstj. hefði hug á flestu öðru en því, að það kæmi vinnustöðvun á Íslandi ofan í það ástand, sem nú blasir við. Þjóðarheildin hefur sannarlega ekki efni á því að láta sóa tugum eða hundruðum millj. í það, að framleiðslutækjunum sé haldið stöðvuðum vegna deilu um kjör stéttar, sem heldur uppi útflutningsframleiðslunni. En ef þetta gerist ekki, ef sjómannasamtökin hafa ekki þrótt eða getu til þess að ná fram þeim réttarbótum, sem þarna eru óhjákvæmilegar, verður afleiðingin hin, að beztu og kraftmestu sjómennirnir fara í land. Og menn skulu gera sér grein fyrir því, að það er hornsteinn þess mikla aflamagns, sem Íslendingar draga í land. hvað við höfum duglega sjómannastétt, sem kann betur til verka en nokkur önnur sjómannastétt í heimi. Ef við búum ekki að þessari stétt eins og hún á heimtingu á, fáum við ekki notið starfa hennar. Þá hverfa menn í land frá þessum störfum til annarra starfa. Slíkt hefur áður gerzt hér á Íslandi. Slíkt gerðist t.d. eftir 1950 og árunum þar á eftir. Þá flykktust menn í land, m.a. til starfa á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að launakjörin a bátunum voru svo léleg. Þá urðum við að flytja inn Færeyinga, mikinn fjölda Færeyinga. En ég hygg, að það yrði dálítið erfitt fyrir útgerðarmenn að fá Færeyinga til starfa núna, vegna þess að þau kjör, sem nú er verið að skammta íslenzkum sjómönnum, eru miklu lægri en kjör sjómanna í nálægum löndum. Þess væri enginn kostur að fá nokkurn Færeying upp á þau kjör, sem á að skammta sjómönnum með þessu frv.

Um þetta alvarlega mál held ég, að hæstv. ríkisstj. ætti að hugsa. Hún er ekki að útkljá málið, þó að hún knýi það í gegn með sínum nauma meiri hl. hér á þingi. Vandinn tekur við eftir það og það er skylda stjórnarvalda á hverjum tíma að reyna að halda þannig á ákvörðunum sínum í efnahagsmálum, að þær leiði ekki til stórfelldra vandamála í þjóðfélaginu, eins og þetta gerir alveg óhjákvæmilega. Þetta sama sjónarmið ætti ríkisstj. raunar að hafa í huga í sambandi við aðra þætti hinna svo kölluðu kjaramála. Það er alkunna, að hæstv. forsrh. hefur lýst yfir því, að það sé forsenda gengislækkunarinnar, að ekki megi hækka neitt kaup til samræmis við þá verðbólgu, sem af gengislækkuninni hlýzt. Verulegur hluti af kaupi manna á Íslandi fyrir venjulegan dagvinnutíma er fjarska lágt kaup, 10 þús. kr. fyrir ófaglærða verkamenn á 2. taxta Dagsbrúnar á mánuði um það bil. Og verulegur hópur fólks er með mun lægra kaup, m.a. allir þeir, sem hafa afkomu af tryggingabótum. Ég held, að það sé alger fjarstæða að ímynda sér, að það sé hægt að lækka lífskjör þessa fólks. Það er ekki framkvæmanlegt. Og ríkisstj., sem ætlar að reyna að framkvæma þá stefnu, er að leiða yfir sjálfa sig óleysanleg vandamál. Það er ekki nema ár síðan ríkisstj. fékk af þessu reynslu. Hún ætlaði sér að framkvæma gengislækkunina á síðasta ári á þennan hátt. Hún kallaði yfir sig víðtækasta verkfall í sögu þjóðarinnar. Það verkfall varð ákaflega kostnaðarsamt fyrir þjóðarbúið. En ég held, að það sé samdóma álit meginþorra þjóðarinnar, að kröfugerð verkalýðssamtakanna þá hafi verið slík, að hún verði ekki gagnrýnd með nokkru móti; þær kröfur, sem þá voru bornar fram, séu svo sjálfsagðar, að þær eigi óhjákvæmilegan rétt á sér í nútímaþjóðfélagi. Og í sambandi við tal manna um það, að þjóðfélag okkar standi ekki undir því kaupgjaldi, sem felst í núgildandi kjarasamningum á ég dálítið erfitt með að átta mig á þeirri einkennilegu kenningu. Fyrir tveimur árum var gumað mjög af því í stjórnarblöðunum og ekki sízt í Morgunblaðinu, að Íslendingar væru að verða eitthvert auðugasta þjóðfélag í víðri veröld. Því var haldið fram, að þjóðartekjur á mann hér á Íslandi væru þær þriðju hæstu í heimi. Á undan okkur væru aðeins Bandaríkin og olíuríkið Kuwait, en við værum með hærri þjóðartekjur á mann en nokkurt Evrópuland. Af þessu var gumað fyrir kosningarnar á síðasta ári, og það var vitnað í opinberar alþjóðlegar skýrslur frá Sameinuðu þjóðunum máli þessu til sönnunar. Nú hefur hæstv. forsrh. greint frá því hér á þingi fyrir nokkrum dögum, að þjóðartekjur á mann hafi dregizt saman um 15% síðan þetta hámark var, um 15%. Þrátt fyrir þennan samdrátt eru meðalþjóðartekjur á mann á Íslandi hliðstæðar og þær eru annars staðar á Norðurlöndum um þessar mundir. Og hvernig er kaupgjald á Norðurlöndum? Núna nýlega bar verkamannasamband Danmerkur, samband ófaglærðra verkamanna, fram kröfur sínar. Þar á meðal var krafa um lágmarkslaun, alger lágmarkslaun ófaglærðra verkamanna. Og þessi lágmarkslaun, sem borin voru fram af dönsku alþýðusamtökunum, voru 450 kr. danskar á viku, 5200–5300 íslenzkar kr. á viku, 23 þús. til 24 þús. kr. á mánuði. Þetta áttu að vera lágmarkslaun í Danmörku. Það átti að vera bannað að greiða minna. En þetta er tvöfalt hærra en þau laun, sem verkamenn á Íslandi fá, ef miðað er við það gengi, sem nú er búið að setja og sem hæstv. ríkisstj. og sérfræðingar hennar segja, að sé rétt gengi. Og ég spyr: Dettur nokkrum manni í hug, að á sama tíma og þjóðartekjur á mann á Íslandi eru taldar hliðstæðar og þær eru í Danmörku, að launamenn á Íslandi sætti sig þá við það að vera hálfdrættingar í kaupi? — Slík stefna er alger fjarstæða og það er ekki nokkur vafi á því, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar að forðast stórfelld og alvarleg átök í þjóðfélaginu, kemst hún ekki hjá því að viðurkenna þessa staðreynd og viðurkenna þá lágmarkskröfu verkalýðssamtakanna, að vísitölubætur á laun verði að haldast óslitið. Vegna þess að menn tala um vísitölubætur oft og einatt sem kauphækkanir, er ástæða til þess að leggja á það áherzlu, að þar er auðvitað ekki um neina kauphækkun að ræða. Fullkomið vísitölukerfi tryggir aðeins óskert laun, óskertan kaupmátt. Ég veit ekki til þess að verkalýðssamtökin hafi farið fram á kauphækkanir, en þau sætta sig ekki við að laun séu lækkuð um allt að því 20%, laun, sem eru það lág fyrir, að þeim verður aðeins jafnað við launakjör eins og þau gerast í sunnanverðri Evrópu í löndum eins og Spáni og Portúgal og Grikklandi. Ég held, að hæstv. ríkisstj. verði að hugleiða þetta í fullri alvöru. Það er ekki hægt að útkljá málin með því að láta samþykkja frv. hér á þingi. Vandinn tekur við seinna. Og hún er sjálf að kalla yfir sig vandann, ef hún samþykkir kjaraákvæði, sem ekki er nokkur leið að fá framkvæmd og sem enginn sættir sig við og sem enginn á að sætta sig við.

Það var fyrst og fremst þetta,.sem olli því, að ég kom hér upp í ræðustól. En ég sé, að hér eru tveir ráðh viðstaddir, svo að mig langar að bæta við örlítilli fsp. um atriði, sem ég hef svolítið velt fyrir mér. Við erum með þessu frv. og fleirum að ráðstafa svo kölluðum gengishagnaði. En í sambandi við þær tvær gengislækkanir, sem gerðar hafa verið á einu ári, hefur komið fram mjög verulegur gengishagnaður hjá tveimur aðilum hér á Íslandi. Þetta eru tveir stærstu atvinnurekendur hér á landi. Annars vegar er bandaríska hernámsliðið, hins vegar svissneski alúmínhringurinn. Þessir aðilar greiða verulegan hluta af tilkostnaði sínum hér á landi, vinnulaunin, í erlendum gjaldeyri. Þessi gjaldeyrir hefur tvöfaldazt að verðmæti, miðað við íslenzka krónu á einu ári. Og nú er mér spurn og vænti þess, að þessir hæstv. ráðh., sem vafalaust hafa skoðað allar hliðar gengislækkunarmálsins gaumgæfilega, geti svarað: Hvað er þessi gengishagnaður hernámsliðsins og svissneska alúmínhringsins mikill? Hvað verður hann t.d. mikill á næsta ári? Og hvað breytir þetta mikið áætlununum um þann hagnað, sem við áttum að hafa af svissnesku alúmínbræðslunni? Sá hagnaður var ekki sízt fólginn í því, a;ð við áttum að fá greiðslu fyrir vinnu manna í verksmiðjunni. Sú vinna er orðin helmingi ódýrari en hún var, þegar samningurinn var gerður. Hún kostar helmingi minna í svissneskum frönkum eða dollurum en þá var gert ráð fyrir. Þessi gengishagnaður kemur hinum erlendu atvinnurekendum einum að gagni. Þeir stinga honum í sinn eigin vasa. En það væri býsna fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vita það, að fá vitneskju um það, hvað hann verður mikill t.d. á næsta ári.