18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

157. mál, embættaveitingar

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er efni þessarar till., að Alþ. álykti að kjósa 5 manna n. til að undirbúa heildarlöggjöf um embættaveitingar og starfsmannaráðningar ríkisins og ríkisstofnana, þar sem stefnt sé að því að tryggja sem óháðast og ópólitískast veitingavald og starfsmannaval. N. skal kynna sér löggjöf og reglur um embættaveitingar í öðrum löndum og þá reynslu, sem þar hefur fengizt í þessum efnum. Þá skal n. einnig afla sér álits félaga embættismanna og annarra opinberra starfsmanna um það, hvernig þau telji þessum málum vera bezt skipað, þannig að framangreindur tilgangur náist.

Í grg. till. er rakið, að veitingavaldið er nú að langmestu leyti í höndum pólitískra ráðh. og hafi verið svo síðan stjórnin fluttist inn í landið. Embættaveitingar hafi því oft viljað verða pólitískar, þótt aldrei hafi það verið augljósara, en hin síðari ár. Sú hefð er óðum að skapast, að ekki komi aðrir menn til greina við veitingu meiri háttar embætta en þeir, sem hafa skilríki fyrir því, að þeir fylgi ríkisstj. eða flokkum hennar að máli. Hér sé ekki aðeins um fullkomna rangsleitni að ræða, heldur hljótist af þessu a.m.k. oft og tíðum, að hið opinbera verður að notast við lakari starfskrafta en ella. Það er af framangreindum ástæðum, sem það þykir bæði réttlætismál og hagsmunamál fyrir þjóðfélagið, að veitingavaldið verði fært sem mest úr höndum pólitískra ráðh. og lagt í hendur sem óháðastra aðila eða bundið ákveðnum reglum, sem miða að því að útiloka pólitíska eða persónulega hlutdrægni. Ýmis mismunandi form geta komið þar til greina, og þarf að athuga vandlega, hvað bezt hentar íslenzkum aðstæðum og reynist kostnaðarminnst í framkvæmd. Því er lagt til, að sérstakri n. verði falið að undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni, þar sem jöfnum höndum verði stuðzt við erlenda reynslu og álit þeirra, sem mest hljóta að hugsa um skipan þessara mála hérlendis, en það eru að sjálfsögðu opinberir starfsmenn og samtök þeirra.

Það skýrir kannske einna bezt þróunina, sem verið hefur í þessum efnum á undanförnum árum, að rifja upp efni greinar, sem birtist sumarið 1967 í blaði Alþfl. á Akureyri. Þá var nýlega afstaðin veiting á bæjarfógetaembættinu á Akureyri. Um það hafði sótt maður, sem lengi hafði starfað sem fulltrúi við embættið og virtist þess vegna eðlilegt, að hann gengi fyrir öðrum við veitingu þess, a.m.k. ef ekki væri um umsækjendur að ræða, sem hefðu unnið lengur og betur í þjónustu ríkisins heldur en hann. Niðurstaðan varð samt sú, að það var annar maður, sem hafði starfað miklu skemur í þjónustu ríkisins, sem fékk embættið. Og blað Alþfl. á Akureyri, Alþýðumaðurinn, kunni ekki aðra skýringu á þessu en þá, að sá, sem fékk embættið, var sjálfstæðismaður, en sá, sem ekki fékk það, þó að hann væri búinn að vera lengur í þjónustu ríkisins, var alþýðuflokksmaður. Í tilefni af þessu fannst ritstjóra Alþýðumannsins ástæða til þess að gera eins konar skrá um embættaveitingar dómsmrh. Sjálfstfl. síðan viðreisnarstjórnin kom til valda, — skrá um öll veitt sýslumanns– og lögreglustjóraembætti utan Reykjavíkur á þessu tímabili. Ég held, að það skýri það mjög vel, sem hefur verið að gerast í þessum efnum, að lesa þennan lista upp. En hann hljóðar á þessa leið, — það er skrá yfir veitt embætti og hverjir hlutu þau á þessum tíma:

Lögreglustjóraembættið í Bolungarvík: Hafsteinn Hafsteinsson, sjálfstæðismaður. Mýra– og Borgarfjarðarsýsla, Ásgeir Pétursson, sjálfstæðismaður. Hafnarfjörður: Einar Ingimundarson, sjálfstæðismaður. Barðastrandarsýsla: Ásberg Sigurðsson, sjálfstæðismaður. Akranes: Jónas Thoroddsen, sjálfstæðismaður. Snæfellsness– og Hnappadalssýsla: Friðjón Þórðarson, sjálfstæðismaður. Dalasýsla: Yngvi Ólafsson, sjálfstæðismaður. Húnavatnssýslur: Jón Ísberg, sjálfstæðismaður. Siglufjörður: Elías Elíasson, sjálfstæðismaður. Neskaupstaður: Ófeigur Eiríksson, sjálfstæðismaður. Akureyri: Ófeigur Eiríksson, sjálfstæðismaður. Suður-Múlasýsla: Valtýr Guðmundsson, sjálfstæðismaður. Skaftafellssýslur: Einar Oddsson, sjálfstæðismaður. Keflavík: Alfreð Gíslason, sjálfstæðismaður. Vestmannaeyjar: Freymóður Þorsteinsson, sjálfstæðismaður.

Samtals höfðu verið veitt á þessu tímabili 11 sýslumanns– og lögreglustjóraembætti utan Reykjavíkur og niðurstaðan hafði alltaf orðið sú, að það hafði verið sjálfstæðismaður, sem hlaut veitinguna, þó að ýmsir aðrir hefðu sótt, sem í mörgum tilfellum voru áreiðanlega ekki síður hæfir, en þessir sjálfstæðismenn, sem um embættið sóttu.

Síðan þetta hefur gerzt eða þessi skrá birtist í Alþýðumanninum á Akureyri, hafa verið veitt nokkur fleiri sýslumanns– og lögreglustjóraembætti utan Reykjavíkur og niðurstaðan hefur orðið hin sama í öll þau skipti, nema kannske eitt, að það er sjálfstæðismaður, sem hefur orðið fyrir valinu. Og nú á síðasta ári var veitt aftur í embætti sýslumanns í Barðastrandarsýslu og í embætti bæjarfógeta í Neskaupstað með þeim afleiðingum, að Félag dómarafulltrúa taldi sig ekki geta komizt hjá því að gera sérstakar aths. við þessar embættaveitingar og sendi frá sér allýtarlega grg. um þetta efni, sem m.a. hefur verið send Alþ. Þar er upplýst, að um embætti bæjarfógetans í Neskaupstað hafi verið 6 umsækjendur, en tveir umsækjendur hafi verið um sýslumannsembættið í Barðastrandarsýslu. Þegar Félag dómarafulltrúa hefur kynnt sér skilyrði þau, sem menn þurfa að fullnægja til þess að fá veitingu fyrir embættum eins og þessum lögum samkvæmt, þá kemst það að þeirri niðurstöðu, að það sé kannske ekki með öllu útilokað, að sá, sem fékk sýslumannsembættið í Barðastrandarsýslu, hafi verið búinn að afla sér embættisgengis samkv. 7. tölul. 32. gr. laga nr. 85 1936, en hins vegar fái félagið ekki séð eða sú dómnefnd, sem það setti til þess að athuga þessi mál, að sá maður, sem fékk embætti bæjarfógeta í Neskaupstað, hafi fullnægt lagaskilyrðum til skipunar í embættið. Það er sem sagt niðurstaða þeirrar dómn., sem Félag dómarafulltrúa fól að athuga þessi mál, að sá, sem hlaut embættið í Barðastrandarsýslu, hafi kannske öðlazt rétt til þess að vera þar embættisgengur, en það virðist alveg útilokað með þann, sem hlaut embættið í Neskaupstað. Hins vegar var um að ræða umsóknir frá mönnum, sem fullnægðu fullkomlega þeim skilyrðum, sem til þess þarf lögum samkvæmt að hljóta slík embætti. Það, sem réði úrslitum um þessar embættisveitingar eins og hinar fyrri, var, að hér var um flokksmenn dómsmrh. að ræða og þess vegna gengu þeir fyrir öðrum, sem höfðu sótt um þessi embætti og lögum samkvæmt voru búnir að fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru til þess að menn séu hlutgengir í embætti eins og þessi.

Það er hins vegar rétt að láta það koma fram, að þó að það hafi hent þá dómsmrh., sem hafa verið hér síðan viðreisnarstjórnin kom til valda, að veita svo að segja eingöngu flokksmönnum sínum embætti, þá hefur slíkt ekki síður komið fyrir aðra ráðh. Ég rakti það hér í umr., sem fram fóru um þetta mál í fyrra, hvernig háttað væri þessum málum í sambandi við veitingar kennaraembætta. Það hefur komið ákaflega sjaldan fyrir á þeim tíma, að flokksbræður menntmrh. hafi ekki gengið fyrir veitingu kennara– og sérstaklega skólastjóraembætta, ef það hefur verið kostur á því að veita einhverjum manni úr þeim flokki embætti eða þá hefur verið að finna í hópi þeirra, sem sóttu um embættið. Og það hefur kveðið svo rammt að þessu, eins og ég rakti þá, að það hefur gerzt, að menn, sem voru dyggir stuðningsmenn í hinum stjórnarflokknum, Sjálfstfl., skiptu allt í einu um flokk, rétt áður en til þess kom að veita slík embætti. Ég minntist þá á eitt ákveðið dæmi þess, að í einum kaupstað hér á landi hefði staðið til að veita skólastjóraembætti og þá gerðist það allt í einu, að maður, kennari, sem hafði fylgt Sjálfstfl. mjög dyggilega, gekk þar úr þjónustunni. Hann sótti um þetta embætti og fékk það, en rétt á eftir skaut honum upp í Alþfl. Ég skal ekki segja, hvort ráðh. hefur haft nokkur afskipti af því máli og það hafa kannske átt sér þarna stað alveg eðlileg skoðanaskipti. En dálítið er þetta nú grunsamlegt samt. Þegar þetta mál bar á góma hér í umr. á seinasta þingi, hélt menntmrh. því fram, að það væru á honum nokkrar hömlur í þessum efnum, því að þegar kennaraembætti og skólastjóraembætti væru veitt, þyrfti bæði að leita umsagnar skólan. og fræðslumálastjóra og hann færi alveg eftir því, þegar þessir aðilar væru sammála. Þá væri sem sagt veitingavaldið raunverulega í höndum þessara tveggja aðila, en ekki í höndum hans. Það gerðist svo rétt á eftir með þeim hætti, sem er alveg einstakur í þingsögunni, að embætti fræðslumálastjóra var lagt niður. Þetta embætti er búið að vera starfrækt hér um nærri 60 ára skeið. Ég hygg, að það hafi verið stofnað til þess með merkri fræðslumálalöggjöf, sem Hannes Hafstein beitti sér fyrir á sínum tíma og þetta þótti mjög merkilegt og gagnlegt embætti. En svo gerðist það allt í einu á s.l. vetri, þegar stjórnin lagði fram frv. um sparnað í ríkisrekstrinum, sem hefur því miður ekki reynzt neinn sparnaður, að tengd voru við það frv. alls konar ákvæði um breytingar á lögum. M.a. var sett inn í þessi lög ákvæði um að afnema lög um þetta gamla og rótgróna embætti. Og þar með var jafnframt að sjálfsögðu úr sögunni réttur fræðslumálastjóra til þess að hafa umsagnarrétt um embættaveitingar, eins og hann hafði áður haft. Mér er sagt, að þetta embætti sé að einhverju leyti starfrækt áfram. Ég hef ekki kynnt mér það, hvernig það er. En það er alveg víst, að með afnámi laganna um fræðslumálastjóraembættið, sem samþykkt var hér í fyrra, þá hefur fallið niður réttur hans til þess að hafa umsagnarrétt um embættaveitingar, eins og áður átti sér stað. Þetta hefur haft þær afleiðingar, að réttur menntmrh. eða kennslumálaráðh. hefur stóraukizt frá því, sem áður var, því að nú þarf hann ekki nema við skólan. einar að eiga og eins og oft vill verða, er ósamkomulag innan þeirra, og ráðh. telur sig síður bundinn af þeim, en þegar bæði meiri hl. skólan. og fræðslumálastjóri voru sammála áður. Það hefur líka gerzt í sambandi við ýmsar embættaveitingar menntmrh. í seinni tíð, að þær hafa sætt gagnrýni viðkomandi stéttaraðila. Ég rifja það upp sem nýjasta dæmi um það, að nýlega, þegar veitt var embætti bókavarðarfulltrúa ríkisins eða hvað það starf nú heitir, komu fram mjög ákveðin mótmæli frá Bókavarðafélagi Íslands, þar sem sýnt var fram á, að a.m.k. þrír þeirra, sem sóttu um embættið, höfðu miklu betri undirbúning til að gegna því, heldur en sá, sem fékk það. Þeir höfðu það hins vegar ekki til brunns að bera að vera jafndyggir flokksmenn ráðh., eins og sá, sem embættið fékk.

Þannig mætti halda áfram að rekja fjölmörg dæmi þess, hvernig embættaveitingar eru nú til dags fyrst og fremst pólitískar. Að vísu neita ég því ekki, að það geti ekki verið hæfir menn, sem verðskulda að hljóta embættin, þó að um pólitískar embættisveitingar sé að ræða. En hitt er jafnframt víst, að í mörgum tilfellum eru óverðugir menn látnir ganga fyrir þeim, sem hafa meiri rétt til stöðunnar og eru betur undir það búnir á allan hátt, bæði vegna menntunar og reynslu, að gegna viðkomandi embættum.

Það er afsökun þessarar ríkisstj., eins og raunar fyrirrennara hennar ýmissa, þegar deilt er á pólitískar embættaveitingar, að segja, að þetta hafi svo sem ekki verið neitt betra áður. Það hafi t.d. átt sér stað, þegar framsóknarmenn sátu í stjórn, að þeir kynnu stundum að hafa beitt aðstöðu sinni til þess að láta flokksbræður sína ganga fyrir um veitingu embætta. Ég skal ekkert bera á móti því, að slíkt kunni að hafa komið fyrir. En það er engin vörn fyrir þær embættaveitingar, sem átt hafa sér stað síðar. Og það einmitt sannar það, sem lögð er áherzla á í þessari till., að það þarf að vinna að því að finna nýtt form í þessum efnum, ef mögulegt er, til þess að útiloka pólitíska hlutdrægni. Ég sé og það er ekkert óeðlilegt, að stjórnarsinnar brosi kannske að þessu, sem ég var að segja, en mér dettur ekki í hug að halda því fram, að framsóknarmenn séu neinir sérstakir englar í þessum efnum, fremur en aðrir og það kunni ekki að geta komið fyrir þá að vera brotlegir í þessu sambandi, ef þeir fara með slík völd. Ég hygg, að það geti hent alla meira og minna, þó að þetta hafi aldrei verið eins áberandi og í seinni tíð. En þetta bara sannar, að það er orðin knýjandi nauðsyn að reyna að finna eitthvert nýtt form í þessum efnum, sem leggur ekki allt of mikið vald í sambandi við embættaveitingar í hendur pólitískra ráðh., heldur verði fundinn einhver opinber óháður aðili eða umsögn einhvers óháðs aðila til þess að hafa meiri áhrif á það, hvernig embætti er veitt til að tryggja, að þeir gangi fyrir, sem eiga mestan rétt á að hljóta embættin í hverju einstöku tilfelli.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þegar menn athuga þessi mál niður í kjölinn, bæði í nútíð og fortíð í þessum efnum, þá geti þeir sameinazt um það hér á hv. Alþ., án tillits til flokka, að leita eftir einhverju nýju fyrirkomulagi, sem fullnægi betur réttlæti og óhlutdrægni í þessum efnum, heldur en það form, sem nú er. Ég vil líka minna hv. stjórnarsinna á, að horfur eru nú þær í landinu, að eftir að næstu kosningar eru um garð gengnar, hvenær sem það kann að vera, er það síður en svo víst, að þeir muni þá hafa þá aðstöðu, sem þeir hafa nú. Ég held, að það viðhorf sé til hæstv. ríkisstj. og hennar stefnu, að það sé alveg óhætt fyrir stjórnarsinna að gera sér þetta ljóst, að það ætti frekar en hitt að vera þeim hvatning til þess að vinna að lausn þessa máls, sem hreyft er í þessari till. Ég er ekki að segja með þessu, að þó að breyting yrði á ríkisstj., yrði nokkur frekari misbeiting, heldur en verið hefur, síður en svo, heldur aðeins til að árétta, að þegar horft er yfir lengri tíma, á það að vera sameiginlegt áhugamál allra flokka að vinna að því að koma nýrri og fullkomnari skipan á þessi mál. Og í trausti þess, að það sjónarmið verði ráðandi hér á Alþ., vænti ég þess, að þessi till. fái góðar undirtektir hjá þingheimi.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.