18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

157. mál, embættaveitingar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eftir síðustu orðum hv. flm. var svo að heyra, að hann vildi girða fyrir, að hann sjálfur félli í þá freistingu, sem hann telur, að núv. ríkisstj. hafi fallið í. Hann eða hans félagar, sem telja sig nú svo örugga, vilja fara að gæta þess, að þeir éti ekki of mikið af krásunum sjálfir, þegar þeir setjast að veizluborðinu. Þetta er að vissu leyti þakkarverð umhyggja.

Eins og kom fram hjá hv. þm., er hér ekki um neina nýja freistingu að ræða fyrir ríkisstj. eða valdhafa eða a.m.k. ásakanir andstæðinga um, að þeir falli fyrir slíkri freistingu, þó að þessi sjálfsþekking og játning sé ný, sem kom fram hjá hv. þm., enda er hann fjölfróður og minnugur og hafandi skrifað sögu síns flokks, þá veit hann ofur vel, að svo margir, sem legið hafa undir ásökunum um misbeitingu á veitingu embætta, þá hafa engir frekar gert það en hans flokksmenn á þeirra mesta blómatíma.

Hv. þm. talaði um veitingu sýslumannsembætta og að fulltrúar hefðu haldið því fram, að efasamt væri, að einhver hefði fullt embættisgengi. Hv. þm. man vafalaust ofur vel, að skömmu eftir að þau lög voru sett, sem kröfðust, að þessir menn hefðu verið í vissum stöðum tiltekinn tíma, áður en þeir gætu fengið veitingu fyrir embætti, þá var í eitt helzta sýslumannsembætti settur maður, sem ekki fullnægði hinum lögákveðnu skilyrðum og varð að vinna sér inn tímann með setningunni. Þegar að þessu var fundið, var því svarað í því blaði, sem hv. þm. er nú ritstjóri fyrir, — ég man ekki, hvort hann var orðinn það þá, — að þetta væri alveg ástæðulaust, vegna þess að maðurinn væri skírður í höfuðið á manni, sem hefði verið amtmaður á síðustu öld. Þar með var það mál útkljáð. Sem betur fer hefur þessi ágæti maður staðið sig mjög vel og ég er ekkert að færa að honum, hann hefur verið góður embættismaður nú í langan tíma. Eins vitum við, að á sínum tíma lenti læknastéttin í mjög harðri deilu við þáverandi heilbrmrh. út af veitingu læknisembætta og setti hún upp sérstakar reglur, sem hún taldi, að fara ætti eftir, alveg gagnstætt því, sem heilbrmrh., sem þá var úr Framsfl., taldi, að vera skyldi.

Nú má auðvitað endalaust deila um, í hvaða flokki einstakir embættismenn eru. Það er rétt, að eitthvað af þeim mönnum, sem skipaðir hafa verið í sýslumannsembætti frá 1959, hafa komið fram sem mjög ákveðnir sjálfstæðismenn, m.a. verið í kjöri til þings, svipað og þessi góði maður með amtmannsnafnið, sem ég nefndi áðan og annar maður, sem var skipaður um svipað leyti í sýslu, sem lá að hinni og er nú þm. Slíkt hefur iðulega gerzt. Um flesta hina hygg ég, að þeir hafi verið og séu með öllu óvirkir í stjórnmálum. Það má vel vera, að það komi í ljós, að þeir kjósi Sjálfstfl. En um marga þeirra er það svo, að það mun vera mjög erfitt eða ómögulegt að marka af nokkrum þeirra afskiptum af málum. Þeir mæta ekki á pólitískum fundum, hafa ekki tekið þátt í neinni stjórnmálabaráttu.

Þá var því einnig sleppt og hætt við tímamörkin, þegar einn mjög áberandi framsóknarmaður var skipaður í eitt helzta sýslumannsembætti á þessu ári utan Reykjavíkur, — embættið á Ísafirði, — ágætur maður, sem allir vissu, að er og hefur verið framsóknarmaður, en ekki haft sig sérstaklega í frammi. Þá var einnig sleppt að minnast á Reykjavík, vegna þess að hér er fjöldi manna af öllum flokkum bæði í undirdómaraembættum, í fulltrúaembættum og yfirdómaraembættum, sem beinlínis hafa verið andvígir Sjálfstfl., — verið í framboði gegn honum, — þannig að þessi saga var ekki sögð nema að litlu leyti.

Aðalatriðið er, það skulum við allir viðurkenna, að allt frá upphafi, meira að segja áður en innlend stjórn hófst, hefur það ætíð verið borið á stjórn, að hún beitti pólitískri hlutdrægni í veitingu embætta. Það var gert meðan landshöfðingi hafði tillögurétt og embættin voru flest veitt í Danmörku. Þá var sagt, að menn yrðu að koma sér í mjúkinn hjá landshöfðingjavaldinu eða danska valdinu. Þetta var mjög harðlega borið á fyrsta íslenzka ráðh., Hannes Hafstein af hans andstæðingum, og þannig hefur verið um alla ráðh. síðan. Ég viðurkenni þess vegna fúslega, að það má vel taka til athugunar; hvort menn geta komið sér saman um einhverjar skynsamlegar reglur til þess að veita ráðh. eða ríkisstj. aðhald. Það er vel athugandi mál og þess vegna finnst mér eðlilegt, að þessi till. fari til n. og sé skoðuð þar. Ef menn sannfærast um það, að hún sé fyrst og fremst flutt, eins og stundum vill verða, til að vekja tortryggni, en ekki af málefnalegum áhuga, er rétt að láta till. fá afgreiðslu í samræmi við það. Ef menn vilja athuga sannsýnilega aðferð til þess að skoða, hvort hér er hægt að koma umbótum á, finnst mér eðlilegt, að það sé gert.

Ég legg á það ríka áherzlu, að því fer fjarri, að trygging fáist fyrir betri embættaveitingum með því að láta embættavalið í hendur starfsmannanna sjálfra. Því fer mjög fjarri og þrátt fyrir það, að finna megi að þeim veitingum, sem pólitískir ráðh. hafa gert, bæði fyrr og síðar, mundi það vera mjög varhugavert, ef embættismennirnir sjálfir ættu að fá þarna úrslitaráð. Hér hefur verið rætt undanfarna daga um samlyndið í háskólanum, en kennarar þar hafa töluverð áhrif á embættaveitingar. Hefur orðið að setja mjög strangar reglur til þess að gæta þess, að klíkuskapur væri þar ekki alls ráðandi, um leið og höft hafa verið lögð á ráðh.

Hér er um svo vandasamt efni að ræða, að í skjótu bragði verða ekki settar um þetta skýrar reglur. Gallinn er sá yfirleitt með embætti úti á landi, að það er mjög mikill erfiðleiki á því að fá menn til þess að setjast þar að, það er mjög mikill erfiðleiki. Varðandi lækna vitum við, að það þarf að ganga á eftir mönnum með grasið í skónum að fara þangað. Svo verður með fleiri og fleiri embætti. Það er mjög farið að bera á því, t.d. varðandi fulltrúa í sýslumannsembætti úti á landi. Það gekk í fyrstu atrennu illa að fá nokkurn til þess að sækja um embætti eins og bæjarfógetaembættið í Neskaupstað. Ég hygg, að mig misminni ekki, að það hafi þurft að auglýsa það tvisvar. Það kann þó að vera, að það skolist í mér, ég bið þá afsökunar á því, en það horfði a.m.k. mjög illa um, að nokkur frambærilegur maður, án tillits til stjórnmálaskoðana, fengist til þess að sækja um það embætti, svo að hér er vissulega um vanda að ræða, sem er ekki auðleystur.

Mér finnst eðlilegt, að það sé skoðað, hvort menn geti komið sér saman um eðlilega leið að heppilegri reglum, en því aðeins, að í því felist ekki, — vegna þess að það er með öllu ástæðulaust, — ásökun eða broddur gegn núverandi stjórnvöldum eða ríkisstj., að öðruvísi hafi verið farið að en áður. Þá er ástæðulaust að samþykkja slíka till. En ef menn vilja athuga málefnalegan vanda málefnalega, finnst mér sjálfsagt að taka því vel.