18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

157. mál, embættaveitingar

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ræða hæstv. forsrh. gefur mér ekki tilefni til mikilla svara. Mér fannst, að undirtektir hans væru að ýmsu leyti jákvæðar og hann teldi eðlilegt, að þetta mál væri athugað. Ég held, að ég hafi flutt mál mitt þannig hér áðan að ég beindi því engan veginn eingöngu til núv. ríkisstj., að hún hefði misnotað aðstöðu sína í þessum efnum, heldur hafi slíkt komið fyrir áður og gæti komið fyrir í framtíðinni að óbreyttu veitingarvaldi, en hitt teldi ég, að væri nú samt ekki komizt hjá að álykta, að þetta, – að veita embætti frá pólitísku sjónarmiði, — hafi heldur farið í vöxt, en hið gagnstæða í tíð núv. stjórnar. Ég skal ekkert segja um það, hvort slíkt hefði ekki getað orðið alveg eins, þótt einhver önnur stjórn hefði farið með völd. Ég óttast nefnilega, að með óbreyttu fyrirkomulagi, því sem nú er, verði þetta sjónarmið nokkuð mikið ríkjandi og jafnvel meira með hverju árinu, sem líður, að embætti verði veitt frá pólitísku sjónarmiði að mjög miklu leyti, en ekki fyrst og fremst frá því sjónarmiði, hvort það séu hæfustu mennirnir eða hæfasti maðurinn, sem á að hljóta embættið.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða um þau dæmi um embættaveitingar, sem hafa átt sér stað áður fyrr og hæstv. forsrh. taldi vafasamar. Það voru sérstök rök þá fyrir hendi, sem ég tel óþarft að vera að rifja upp, vegna þess að ég álít, að það bæti ekkert fyrir þessu máli, að við séum að deila svo mjög um orðna hluti, heldur reynum að sameinast um að finna einhverja lausn á þessum málum, sem kemur á heppilegra fyrirkomulagi og réttlátara, heldur en því, sem nú er.

Ég held, að það sé misskilningur hjá ráðh., að það komi fram í þessari till., að stefnt sé að því að fela starfsmönnum sjálfum veitingavaldið. Ég mundi alls ekki telja það heppilegt fyrirkomulag að öllu leyti. Ég hygg, að sama gildi um meðflm. mína. Hitt er svo annað mál, hvort það kemur fram í till., að við teljum rétt að leita álits viðkomandi stéttasamtaka um það, hvernig þau álíta, að embættaveitingum verði réttlátlegast fyrir komið. Mér finnst, að það komi mjög til greina, að samtök opinberra starfsmanna fái að einhverju leyti umsagnarrétt um embættaveitingar. En hitt held ég, að komi ekki til greina að fela þeim algerlega sjálft veitingavaldið, en kannske að skapa þeim aðstöðu til þess að geta haft áhrif á það, að mjög grófar misbeitingar eigi sér ekki stað eða þau geti áður sagt sitt álit.

Ég er alls ekki að halda því fram, að þeir menn, -sem hafa hlotið sýslumanns- og lögreglustjóraembætti utan Reykjavíkur seinustu 10–12 árin, hefðu reynzt neitt illa i embætti sínu. Ég hef enga aðstöðu til þess að fella neinn dóm um það, vegna þess að ég hef ekki aðstöðu til að kynna mér, hvernig þeir hafa leyst sín störf af hendi. Ég býst við, að þeir hafi a.m.k. margir hverjir gert það mjög sæmilega. En hins vegar er það staðreynd, sem við getum ekki litið fram hjá, að það muni á þessum 10–12 árum hafa verið veittar einar 18 sýslumanns– og lögreglustjórastöður utan Reykjavíkur og sjálfstæðismenn hafa verið útnefndir í öll þessi skipti nema eitt. Ég held, að það sjái allir, hvað því veldur og jafnvel þó að hér sé um sæmilega menn að ræða, þá er það ekki heppilegt fyrirkomulag og skapar vissa tortryggni, að svo að segja í öllum dómarastöðum og lögreglustjórastöðum utan Reykjavíkur séu menn úr einum flokki.

Ráðh. andmælti ekki neitt þeirri niðurstöðu, sem kom fram hjá dómn. dómarafulltrúafélagsins, enda hygg ég, að það verði heldur ekki gert, en niðurstaða þeirrar dómnefndar sýnir einmitt, að hér er pottur talsvert alvarlega brotinn.

Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta að þessu sinni. Það sem fyrst og fremst vakti fyrir mér og mínum meðflm. með þessari till., var ekki að halda uppi hörðum deilum um það, hverjir væru sekastir í þessum efnum af þeim, sem með veitingavaldið hefðu farið eða fara, heldur hitt, að það verði reynt að leita sameiginlega að einhverju fyrirkomulagi, sem tryggi aukið réttlæti í þessum efnum og ég skildi ummæli hæstv. forsrh. þannig, að hann vildi taka þátt í því, að slík athugun verði gerð og fyrir það er ég honum þakklátur. Ég vænti, að niðurstaðan verði þess vegna sú, að þessi till. fái jákvæðar undirtektir í þeirri n., sem fær hana til meðferðar og það verði unnt að afgreiða hana á þessu þingi, þó að ekki sé langt eftir þingtímans.