18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

157. mál, embættaveitingar

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þó að ég gæti nú gert aths. við ýmislegt í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., læt ég mér nægja að nota tækifærið til þess að leiðrétta aðeins eitt atriði í ræðu hans. Það var sá samanburður, sem hann gerði varðandi atvinnumálan., sem er skipuð fulltrúum ríkisvalds, atvinnurekenda og heildarhagsmunasamtaka launþega, eins og kunnugt er. Mér finnst, að þessu atriði megi alls ekki blanda saman við það, sem ég hef hér gert að umræðuefni, hvort sem það eru embættaveitingar eða úthlutun gjaldeyrisleyfa, því að allt öðru máli gegnir, þegar um er að ræða úthlutun fjár, hvort heldur er til atvinnubóta eða úthlutun lána t.d. í bönkum eða lánastofnunum. Ég hef aldrei beint sérstakri gagnrýni að bankastjórum og störfum þeirra. Að vissu leyti er aðstaðan hér svipuð eins og fyrir dómstólana. Þeir hafa ákveðnar og fastar reglur til þess að fara eftir. Sama máli gegnir um það, þegar um er að ræða úthlutun fjár, hvort sem er á vegum atvinnumálan. eða annarra, að sá mælikvarði, sem þar verður lagður til grundvallar því, hvort fé er veitt til eins eða annars, verður fyrst og fremst sá, eins og tekið mun líka fram í þessum lögum, að um arðbærar framkvæmdir sé að ræða og þegar sá mælikvarði er notaður, er engin ástæða til þess að vantreysta hvort heldur er pólitískum fulltrúum, fulltrúum stéttarsamtaka eða öðrum aðilum, að þeir misnoti sína aðstöðu, þannig að þeir fari ekki eftir þeim reglum, sem settar eru. En bæði er það að nokkru leyti þannig með embættaveitingarnar, sem mér skilst, að við höfum nú raunar allir verið sammála um, sem hér höfum talað, að það er erfitt að fá algildan mælikvarða á hæfni manna til að gegna embættum. Enn verra verður þetta, þegar um er að ræða úthlutun gjaldeyris– og innflutningsleyfa, t.d. mat á því, hvort Pétur eða Páll hafi meiri verðleika til að bera til þess að fá innflutningsleyfi fyrir einkabíl, en þetta var einmitt eitt af þeim málum, sem gjaldeyris– og innflutningsnefnd hafði til meðferðar á sínum tíma, þannig að það, hve deilt var á þær ákvarðanir, sem hér voru teknar, var ekki vegna þess, að það væru verri menn, sem um þetta fjölluðu, heldur en t.d. dómarar, embættismenn og hverjir aðrir, heldur var ástæðan til þess, hvað þetta kerfi var óvinsælt og allar þær ákvarðanir, sem teknar voru, voru að jafnaði umdeildar, blátt áfram sú, að í þessu efni eru ekki til neinar fastar reglur, sem hægt er að fara eftir. Það verður algerlega háð mati þeirra, sem þessa úthlutun hafa með höndum. Þá er auðvitað veruleg hætta á, að atriði eins og kunningsskapur við mennina, flokkstengsl við þann, sem úthlutar o.s.frv., komi þá til að hafa úrslitaáhrif, af því að það eru engar fastar reglur til. Þess vegna gat ég ekki stillt mig, þegar hv. þm. er að minnast á atvinnumálan. o.þ.h. í þessu sambandi, því að þá er blandað saman algerlega óskyldum og ósambærilegum hlutum.