19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 209, vorum við, sem skipuðum minni hl. sjútvn. þessarar d., tveir fulltrúar Framsfl. og ég, á því, að rétt væri að afgreiða þetta frv. með rökstuddri dagskrá. Þessi dagskrá er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ljóst er, að samþykkt frv. getur leitt til ófriðar á vinnumarkaðinum og stöðvun fiskveiða á komandi vertíð, sem mundi hafa hinar örlagaríkustu afleiðingar fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, ályktar deildin að vísa frv. frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er skoðun okkar, eins og þegar hefur komið hér fram í umræðum, bæði við 1. umr. um málið og svo aftur nú við 2. umr. málsins, að það séu allar líkur, sem bendi til þess, að samþykkt á þessu frv. leiði til stöðvunar fiskiskipaflotans núna upp úr áramótum. Hæstv. ríkisstj. hefur þegar látið undan hörðum mótmælum sjómanna gegn þessu frv. að því leyti til, að hún hefur nú tekið inn í frv. ákvæði um það, að öllum kjarasamningum á milli sjómanna og útvegsmanna, sem í gildi eru, megi segja upp án fyrirvara strax eftir gildistöku þessara laga. Það gefur því alveg auga leið. að um áramótin falla ábyggilega úr gildi allir kjarasamningar á milli útgerðarmanna og sjómanna. Enginn efi getur verið á þessu vegna þess, hvernig sjómenn hafa tekið þessu frv. og vegna þess, sem þeir hafa sent frá sér varðandi efni þess. Það er því alveg sýnt, að næsta ár byrjar með því á þessum vettvangi. að samningaviðræður hefjast væntanlega á milli samtaka sjómanna og samtaka útvegsmanna. Það er nú ekki óalgengt, þegar komið hefur til uppsagnar á slíkum samningum, þá hafi það leitt til þess, að það hafi tekið alllangan tíma að koma sér saman um nýja samninga og það jafnvel þótt deilt hafi verið um tiltölulega lítið á milli þessara aðila, stundum aðeins um leiðréttingu á samningsákvæðum. sem þótt hafa ekki að fullu ljós. En nú munu þessar samningaviðræður hefjast, eftir að búið er með löggjöf frá Alþ. að kippa öllum grundvelli undan fyrri kjarasamningum. Þá væri sem sagt búið að ákveða það með lögum, að af því fiskverði, sem í gildi er á hverjum tíma, skuli taka allstórar fjárhæðir og ráðstafa þeim til ýmiss konar greiðslna, sem hingað til hafa tilheyrt útgerðarmönnum einum. Eins og fram hefur komið, er hér að því stefnt, að tekið verði af óskiptum aflahlut sem nemur 27%, þegar um þorskveiðar er að ræða, en sem nemur 37% af verði aflans, þegar um síldveiðar eða humarveiðar er að ræða og að þessum fjárhæðum skuli varið til þess að greiða afborganir og vexti af stofnlánum útgerðarinnar og til þess að standa undir auknum reksturskostnaði almennt séð hjá útgerðinni.

Þegar þetta liggur fyrir, sjá allir, að í hinum nýju samningaviðræðum hlýtur að vera deilt um alveg gersamlega breytt hlutaskiptakjör frá því, sem verið hefur nú um alllangan tíma. Allar líkur benda til þess, að sjómenn setji þá fram kröfur um stórhækkaða skiptaprósentu sér til handa, af því að það á að skipta miklu lægri upphæð heldur en áður hefur verið. Og að sjálfsögðu hljóta þeir einnig að setja nú fram kröfur um greiðslur á ýmsum hlunnindum sér til handa, sem þeir hafa gjarnan áður sett fram, en þó vikið frá í samningaviðræðum. Trúi því svo hver sem trúa vill nú á þessu stigi, að samningar á þessum grundvelli á milli sjómannasamtakanna í landinu og útvegsmannasamtakanna takist á stuttum tíma. Ég held, að það sé ekki raunsætt mat að reikna með slíku. Mér sýnist því, að allar líkur bendi til þess, að svo kunnt að fara, að a.m.k. allur janúarmánuður fari í þref á milli þessara aðila og hefur þá þjóðarbúið fengið það út úr krafsinu að losna við að fá gjaldeyristekjur, sem með eðlilegum hætti hefðu getað komið í þjóðarbúið vegna útgerðar í þeim mánuði.

Hér er mjög óhyggilega að farið að mínum dómi og hefði verið nær að reyna samningaleiðina, reyna að komast að samningum milli aðila með eðlilegum hætti, ef menn teldu, að grundvöllur að kjarasamningum hefði breytzt þannig, að eðlilegt hefði verið að gera kröfur um breytta kjarasamninga. En ég er líka hræddur um það, að það séu ekki miklir möguleikar til þess, þó að hæstv. ríkisstj. leggi sig þar alla fram og forystumenn útvegsmanna líka, það séu ekki miklir möguleikar til þess að fá íslenzka sjómenn, eins og nú standa sakir, til þess að fallast á verulega lækkun á sínum aflahlut, eins og þeirra hlutur hefur komið út á því ári, sem nú er að líða og á s.l. ári. Ég hef bent á það hér í umr. áður um þetta mál, að á því getur ekki leikið neinn vafi hjá neinum manni, að íslenzkir sjómenn hafa orðið fyrir meira tekjutapi á s.l. ári og á þessu ári en nokkur önnur vinnustétt í landinu, enda liggur það fyrir, að í langflestum tilfellum hafa t.d. síldveiðisjómenn orðið að láta sér nægja það að búa við lágmarkskauptryggingu sem sinn launahlut. En þessi lágmarkskauptrygging mun nú vera eitthvað í kringum 14 þús. kr. á mánuði brúttó, en frá þeirri upphæð er síðan dreginn fæðiskostnaður um borð í skipunum, sem í langflestum tilfellum mun vera um 5–6 þús. kr. á mánuði og í einstaka tilfellum mun þessi kostnaður hafa farið, eins og einn af stuðningsmönnum ríkisstj. sagði hér fyrr í umræðunum í kvöld, jafnvel allt upp í 10 þús. kr. á mánuði. En við skulum nú aðeins reikna með því, að þessi fæðiskostnaður sé almennt séð 5–6 þús. kr. á mánuði — en þar hygg ég, að ekki sé nefnd of há tala — þá sjá menn það, að það kaup, sem síldveiðisjómenn okkar, en þeir eru býsna margir, hafa búið við nú á þessu ári, er í kringum 8–9 þús. kr. á mánuði, en það er sú upphæð, sem þeir hafa haft fyrir sig og sínar fjölskyldur og haft til þess að standa undir öllum sínum sköttum og skyldum. Þetta hafa þessir aðilar fengið fyrir það að hafa gegnt þeim störfum, sem hafa kallað á það, að þeir hafa þurft að vera fjarri heimilum sínum svo mánuðum skiptir, ýmist norður í Dumbshafi eða þá úti í Norðursjó eða á öðrum fjarlægum miðum, en þar hefur síldveiðin einkum farið fram á þessu ári.

Ég vil segja það, að þeir eru ekki lítið bjartsýnir þeir útgerðarmenn eða þeir forystumenn útgerðarmanna í landinu og þeir ráðh., sem búast við því, að þeir geti fengið þessa aðila, sem svona stendur á um, til þess að fallast á það að semja á stuttum tíma um það að lækka sinn umsamda aflahlut frá því, sem verið hefur um langan tíma, að jafnmiklu leyti eins og stefnt er að með þessu frv. Ég held fyrir mitt leyti, að á því sé enginn vafi, að þessi málatilbúnaður allur af hálfu hæstv. ríkisstj. leiði óhjákvæmilega til stöðvunar fiskiskipaflotans upp úr áramótum. Og þegar menn hafa stöðvað nógu lengi til þess að hafa áttað sig á veruleikanum, er ég líka nokkurn veginn viss um það, að þá verður samið um svipaðan aflahlut og í gildi hefur verið á raunhæfan hátt. Og þá verður þessi barátta í rauninni unnin fyrir gýg. Og þá hefur svo farið eins og talsmenn hæstv. ríkisstj. hafa sagt hér, þá hefur þessi gengislækkunarleið verið unnin fyrir gýg. Þá hefur sem sagt ekki tekizt að koma því fram að bæta hag útgerðarinnar í landinu á þann hátt að lækka launahlut sjómanna, því að sannleikur málsins er sá, að undirstaðan að gengislækkunarákvæðunum nú, maður getur sagt það, að undirstöðurnar séu í aðalatriðum tvær: Útgerðinni í landinu á að bjarga á þann einfalda hátt að rýra aflahlut sjómanna og flytja þannig nokkra fjármuni yfir til útgerðarinnar. Bregðist þetta, verður auðvitað sagt, að þá standi útgerðin sig ekki og þá verði að gera eitthvað annað fyrir hana. Gagnvart útgerðinni hvílir gengislækkunaráformið á þessum grundvelli. En gagnvart fiskiðnaðinum í landinu hvíla ráðstafanirnar í gengislækkunarmálunum á því, að það takist að koma fram mjög verulegri kjaraskerðingu hjá vinnandi fólki, sem vinnur við fiskiðnaðinn í landinu. Ef verkafólk unir því ekki að taka á sig 20–30% almenna verðlagshækkun bótalaust, ef verkalýðssamtökin hnekkja nú slíkri árás og knýja það fram, að það skuli greidd verðlagsvísitala á laun eins og verið hefur, sem auðvitað eru allar líkur á, að verkalýðssamtökin knýi fram, kannske eflir hálfs mánaðar eða eins mánaðar verkfall eins og á s.l. ári eða fyrr á þessu ári í rauninni — knýi verkalýðssamtökin það í gegn, að þau haldi verðtryggingunni á launum, þá er hinn grundvöllurinn gagnvart fiskiðnaðinum fallinn og þá munu fiskiðnaðarmenn eða eigendur frystihúsanna í landinu segja: Þá höfum við ekkert haft út úr gengislækkuninni annað en tapið. Við höfum ekki fengið þetta, sem okkur var lofað að fá, ódýrara vinnuafl. — Alveg eins og útgerðarmennirnir munu segja: Við höfum ekki fengið þetta, sem okkur var lofað, ódýrari sjómenn. Ráðstafanirnar hvíla beinlínis á þessu tvennu og engu öðru. En það er ekki í fyrsta skipti, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur sýnt svona veiði eins og þessa, fá útvegsmenn annars vegar til þess að trúa því í byrjun: Svona gengur það. Þarna er ykkur boðið upp á það að fá þá þessar bætur. — En svo kemur bara hin kalda reynsla og kennir mönnum það, að þetta fær ekki staðizt. Þetta gufar upp, þetta verður að engu og menn sitja eftir í sama farinu. Ég tel því, að það séu allar líkur á því, að þessar ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur hér ráðgert, fái ekki staðizt í reynd. Af því stend ég að því að leggja til, að Fiskveiðasjóð, þetta mál verði afgreitt með rökstuddri dagskrá og málinu verði vísað frá og það verði reynt að takast á við þann vanda, sem hér er við að glíma, eftir öðrum leiðum.

Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvmrh. vék hér í sínu máli nokkuð að því, að við, sem erum andvígir þessu frv., kæmum hér ekki fram með neinar raunhæfar úrbótatillögur, og í þeim efnum endurtók hann nokkuð af því, sem oft hefur verið sagt áður af hálfu þeirra ríkisstj.- manna. Hann reyndi að færa að því rök, að þó að farið yrði að okkar ráðum, einkum varðandi lækkun á ýmsum reksturskostnaði útgerðarinnar, mundi slíkt ekki koma að neinu gagni. Við höfum bent á það, að það væri t.d. ástæða til þess að lækka vexti í landinu verulega frá því, sem verið hefur og þá ekki sízt einmitt hjá útflutningsframleiðslunni, en svar hæstv. ráðh. var á þá lund, að eftir þeirri leið væri ekki hægt að ná nema sáralítilli upphæð og það, sem hæstv. ráðh. las upp í þeim efnum, var það, að hann taldi, að helzt mætti gera ráð fyrir því að lækka vextina um 20%. En við mættum lækka vextina hér um miklu meira en 20% til þess að komast í jafnvægi við það, sem er hér í okkar nágrannalöndum, t.d. það sem er í Noregi, einu okkar aðalsamkeppnislandi í sjávarútvegi. En tölurnar, sem hæstv. ráðh. nefndi, voru auðvitað augljóslega rangar og þær verða rangar hversu oft sem þær verða endurteknar af fulltrúum ríkisstj. Hæstv. ráðh. sagði, að talið væri, að vaxtagreiðslur útgerðarinnar í landinu alls mundu nema 376 millj. kr. Það er nú svo meira að segja með þessa tölu, sem hæstv. ráðh. las hér upp nú og ég efast ekkert um, að er ein af mörgum tölum beint frá Efnahagsstofnuninni, hún er að vísu orðin nokkru lægri nú heldur en sú tala var, sem Efnahagsstofnunin gaf okkur upp fyrir stuttu síðan og ég á nú plöggin enn þá yfir. Þar taldi Efnahagsstofnunin, að þessir vextir væru 406 millj. kr., en svo vildi nú til, að ég hafði þó eitt gamalt blað hérna, reyndar þó ekki eldra heldur en frá því í októbermánuði, 29. október, nú á þessu ári, það var frá sjálfum Seðlabankanum, en þar taldi hann að áætla mætti, að vextirnir væru um 400 millj. kr. og þar af væru stofnfjárvextir eða stofnvextir 260–270 millj., en rekstrarlánavextir 130–140 millj. Nú vil ég ekki deila um það við fulltrúa Efnahagsstofnunarinnar eða Seðlabankans, að vextir þeir, sem útgerðin í landinu þarf að greiða á hverju ári af stofnlánum og af beinum rekstrarlánum, sem lánastofnanir veita, séu í kringum 400 millj. kr. á ári. Ég gerði strax, þegar ég fékk þessar upplýsingar, fsp. um það, hvað væri raunverulega fólgið í þessari vaxtatölu, hvort þarna væri t.d. um að ræða vexti af öllum lánum útgerðarinnar í landinu og því var hiklaust svarað af forsvarsmönnum Efnahagsstofnunarinnar, að hér væri aðeins um formleg, föst stofnlán að ræða, vexti af þeim hjá lánastofnuninni, en ekki vexti af margvíslegum öðrum lánum, sem útgerðin verður að standa undir til margvíslegra annarra aðila. Einnig var um það spurt, hvort hér væru taldir fram þeir vextir, sem útgerðin þyrfti að greiða sem refsivexti, en þar er um mjög verulegar fjárhæðir að ræða, vegna þess að hún hefur ekki getað staðið í skilum og í vissum tilfellum, þar sem t.d. vextirnir eru lægstir eins og t.d. af beinum stofnlánum fiskiskipa, þar sem þeir eru 61/2%, þá þjóta þeir upp í 12%, þegar um vanskil er að ræða, og vanskílavextirnir eru hreint ekki lágir. Þeir voru ekki heldur taldir með í þessari upphæð.

En þetta skiptir þó ekki mestu máli. Það, sem hér skiptir mestu máli og aðalblekkingin liggur í í þessum efnum, er það, að þessir háu herrar, þeir hljóta að vita það, að vexti þarf útgerðin í landinu að borga eftir miklu fleiri leiðum heldur en beina vexti af hreinu stofnláni af fiskiskipi eða beinu stofnláni af frystihúsi, og útgerðin þarf að borga miklu meiri vexti heldur en aðeins vexti af beinum eða hreinum rekstrarlánum frá bönkum í sambandi við reksturinn. Þegar t.d. meðalsíldveiðibátur hefur einn útgjaldalið á ári, sem nemur í millj. kr. og heitir veiðarfærakostnaður, þá liggur í þeim lið allveruleg vaxtagreiðsla, vegna þess að þeir, sem selja veiðarfærin, þeir hafa reiknað sér vexti eða reiknað inn í veiðarfærareikninginn vexti. Þeir hafa vitanlega, þegar þeir framselja sína vinnu í sambandi við viðgerðir á síldarveiðarfærum, þá verða þeir að reikna út í sína framseldu vinnu þá vexti, sem þeir verða að greiða til lánastofnana vegna sinna mannvirkja og vegna sinna lána. Hér er því vitanlega um það að ræða, að útgerðin þarf að borga mjög verulega vexti, ekki aðeins af hinum formlegu lánum, heldur einnig í gegnum alla sína rekstursútgjaldaliði. Dettur t.d. nokkrum manni í hug, að í olíukostnaðarlið eins fiskiskips sé ekki um vexti að ræða líka. Olíufélögin þrjú munu skulda bönkum landsins, svona gegnumsneitt yfir árið um 300 millj. kr., auk þess sem þau kunna að skulda ýmsum öðrum. Þau þurfa að borga vexti til bankanna af þessum olíuskuldum, og dettur einhverjum það til hugar, að olíufélögin borgi þetta bara svona beint úr sínum vasa og framselji það ekki á neinn hátt út í það verðlag, sem þau mynda. Auðvitað láta þau útgerðina borga þessa vexti í sinni verðlagningu. Þetta vita efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar, þetta hefur þeim verið bent á æ ofan í æ. Ég hef margsinnis minnzt á þetta hér á Alþ. og annars staðar. Þeir vita það, að hvort heldur sem um er að ræða fiskibátaútgerð eða rekstur frystihúss eða annarra fiskvinnslustöðva, þá er ekki aðeins um að ræða vaxtaútgjöld, sem stafa beint af formlegum stofnlánum eða formlegum rekstrarlánum, heldur er einnig um vaxtagreiðslur að ræða af margvíslegum öðrum vanskilalánum eða skuldum, sem fyrirtækin verða að standa undir, og einnig er um að ræða vaxtagreiðslur svo að segja í öllum útgjaldaliðum fyrirtækjanna. Vextir útgerðarinnar í landinu á einu ári eru því ekki í kringum 400 millj. kr. Þeir eru ábyggilega ekki undir 800 millj. kr. Svo að ef um það væri að ræða að lækka vextina allverulega, eins og mætti t.d. gera í ýmsum sjávarútvegslánum, að lækka þá fyllilega um helming, þá er vitanlega hægt að ná hér umtalsverðri upphæð. Spurningin er aðeins sú, hvort menn eru inn á þeirri braut, að þeir vilji fara þessa leið eða ekki.

En ríkisstj. telur það hins vegar ómaksins vert að setja í lögin ákvæði um það, að nú skuli tekið af óskiptum afla 10–20% af fiskverði og síldarverði og lagt í svonefndan Stofnfjársjóð fiskiskipa. Hvað þýðir þetta í reynd? Samkv. því, sem segir í grg. frv., mun þetta þýða það, að samkv. þessu þá verður tekið af óskiptum afla í þennan sjóð fjárhæð, sem mun nema kringum 400 millj. kr. á ári — það stendur í grg. frv.: um 400 millj. kr. á ári. En það þýðir í stórum dráttum, að það er verið að láta sjómennina, sem eiga helminginn af aflaverðmætinu, þ.e. alla skipshöfnina, yfirmenn og undirmenn. sem eiga í kringum helminginn af aflaverðmætinu, það er verið að láta þá borga í þennan stofnfjársjóð eftir þessari leið í kringum 200 millj. kr. á ári. Hitt borgar útgerðin sjálf, enda átti hún hinn helminginn.

Það var ómaksins veri að sækja til sjómanna á þennan hátt 200 millj. kr. og bjarga útgerðinni með því, en hitt var ekki ómaksins vert að lækka vexti í landinu um 2% eða eitthvað þess háttar og færa útgerðinni á þann hátt t.d. 200 millj. kr. Það var ekki hægt. Hitt var hægt, af því að þar var um beina launalækkun að ræða. Þar var kjaraskerðingarpólitíkin fyrir, sú pólitík, sem ríkisstjórnin hefur haldið sig við á undanförnum árum.

Nei, það er hægt — bæði í þessum efnum og fleirum — að ná nokkuð svipuðum árangri eftir öðrum leiðum, spurningin er aðeins sú, hvort menn vilja velja aðra leið eða hvort þeir ætla að halda sér endilega við gömlu leiðina, sem hefur mistekizt nú æ ofan í æ á undanförnum árum.

Það er líka gert ráð fyrir því í þessu frv. að viðhalda hér áfram og hækka sjálfsagt útflutningsgjöld á sjávarafurðum, þannig að það verði lögð útflutningsgjöld á sjávarafurðir, sem nema munu langleiðina ef ekki alveg upp í 400 millj. kr. Ég hef haldið því fram, að það væri hægt að fella þetta gjald niður að langmestu leyti. Að vísu verður það ekki allt hreinn sparnaður fyrir útgerðina, það er alveg rétt, en ég held, að það væri hægt að spara með því að leggja þetta gjald niður, spara mjög álitlega upphæð og taka síðan upp alveg nýtt fyrirkomulag í sambandi við vátryggingar á fiskiskipaflotanum, sem nú er almennt farið að viðurkenna að þurfi að taka upp.

Hér eru auðvitað til ýmsar aðrar leiðir. Mér dettur ekki í hug að halda því fram og hef ekki gert það í umræðum um þetta mál, að það hafi verið hægt nú, áður en gengislækkunin var ákveðin, að leysa allan vanda sjávarútvegsins aðeins með svona lækkunum á reksturskostnaði. Það hefur mér aldrei dottið til hugar. Ég hef hins vegar viðurkennt það, að svo var komið í okkar efnahagsmálum, að það mundi vera óhjákvæmilegt til viðbótar við niðurfærslu á þessum rekstrargjöldum á ýmsum sviðum, þá mundi einnig vera óhjákvæmilegt að færa með einum eða öðrum hætti allverulega fjármuni yfir til útflutningsframleiðslunnar frá því, sem verið hefur. En ég álít, að það hefði verið hægt að gera það með millifærsluleið. án þess að þurfa að fara kauplækkunarleið, og hef fært að því rök hér í umræðunum áður. Það hefði einnig verið hægt að gera það eftir gengislækkunarleið, ef staðið hefði verið að gengislækkuninni á þann hátt, að unnið hefði verið að því á ákveðinn hátt að koma í veg fyrir það, að gengislækkunin þyrfti að skerða kjör láglaunastéttanna. Það hefði líka verið hægt eftir þeirri leið. En það er bara ekki sama, hvernig að gengislækkuninni er staðið. Nú er staðið að framkvæmd gengislækkunarinnar eins og í hin fyrri tilfellin fyrst og fremst þannig, að það er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður eigi að geta aukið sínar tekjur eftir gengislækkunarleiðinni stórkostlega frá því, sem áður var.

Það var hv. 10. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, sem talaði hér í þessum umr. á þann hátt, sem mjög vakti athygli mína. Hv. þm. sagði hér marga hluti í sambandi við þetta mál, þar sem skoðanir hans virtust falla saman við skoðanir mínar. Hv. þm. virtist ekki hafa mikla trú á því, að sjómenn sættu sig við þá kjaraskerðingu, sem felst í þessu frv., og hann taldi í rauninni alveg óhjákvæmilegt, að í nýrri samningagerð kæmu þessi sjónarmið sjómanna fram í kröfum um ýmsar nýjar ráðstafanir sjómönnum til góða. Ég fann það, að hv. þm. hefur kynnt sér þetta mál, og þekkir það það vel, að hann er í meginatriðum varðandi þetta atriði mér sammála. En mér fannst svo sú afsökun, sem hann hafði hér í frammi fyrir því að ætla samt sem áður að samþykkja þetta frv., mér fannst sú afsökun hans vera harla rýr. Það er að vísu alveg rétt, að það hefði verið mjög óviðkunnanlegt að gera ráð fyrir því, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að ætla sér að innheimta 22% aukagjaldið af aflaverðmæti þeirra skipa, sem landað hafa erlendis á tímabilinu frá 15. nóv. og þar til að lögin taka gildi, þau verða samþykkt, vegna þess að í mörgum tilfellum hafa sjómenn verið að störfum erlendis og ekki haft aðstöðu til þess að kynna sér þessar fyrirhuguðu ráðstafanir. Ég tek því alveg undir það með hv. 10. þm. Reykv., að vissulega er það réttmætt að fallast á það að innheimta ekki þessi 22% af lönduðu aflaverðmæti skipanna á þessu tímabili, en jafnvel þó að sjómenn fengju nú það, þá breytir það nú engu um hitt, sem hann hafði sagt hér áður um meginefni þessa frv. og ég hef sagt hér líka; það breytir auðvitað engu um það, að með þessu frv. er verið að leggja grundvöll að því að skylda sjómenn til þátttöku í útgerðarkostnaði. sem þeir hafa ekki viljað fallast á í frjálsum samningum. Ég get því ekki séð, að þetta — jafnvel þótt þetta yrði nú framkvæmt á þann hátt, sem hæstv. ráðh. sagði og hv. þm. gerði kröfu um, að þá geti það á nokkurn hátt réttlætt það, að maður með hans skoðanir á þessum málum, að hann geti samþykkt þetta frv.

En svo vil ég á það minnast, að ég get ekki séð, að það sé á valdi hæstv. sjútvmrh. að framkvæma þetta á þann hátt, sem hann gaf hér yfirlýsingu um. Hann var fljótur til að lesa hér upp yfirlýsingu á þann hátt að hann bjargaði þó þessu atkv., sem þarna var í voða, og sem sagt að lýsa því yfir, að hann skyldi nú gera þetta fyrir hv. 10. þm. Reykv. og til þess þá að hann styddi frv., sem auðvitað var meginatriðið. En ég get ekki séð það, að það fyrirfinnist í frv. nokkur heimild handa hæstv. ráðh. til þess að framkvæma þetta ákvæði á þennan hátt. Ég held að það þurfi að breyta frv. til þess, vegna þess að í frv. er alveg skýrt tiltekið — það er sagt, þegar fiskiskip selur afla í erlendri höfn, skal það greiða 22%. Það er ekkert um, að það megi leggja þetta á. Það skal bara gera þetta. Og áður er búið að segja það alveg greinilega, að hér sé um að ræða gjald í Stofnfjársjóð og gjöldin í Stofnfjársjóð, sem ákveðin eru í 2. og 3. gr. frv., eiga að miðast við það fiskverð, sem ákveðið er miðað við 15. nóvember. Og í 4. gr. er aðeins um það að ræða, hvernig þessu skuli fyrir komið, sem áður er búið að segja í frv., hvernig því skuli komið fyrir, sem áður er búið að segja í frv., þegar um það er að ræða, að afla sé landað erlendis. (Gripið fram í: Má ég skjóta fram í?) Já, já, gjörðu svo vel. (Gripið fram í: Verðlagsráðið ákveður ekki verð erlendis.) Nei, nei, það er rétt, enda eru þessi 22% ekki miðuð við það verð. En ákvæðin í 4. gr. eru um framlag í Stofnfjársjóð og í 2. og 3. gr. eru ákvæðin um framlögin í Stofnfjársjóð, og þar er það ákveðið, að þetta skuli miðað við 15. nóvember. Ef slík skýring, sem hv. þm. er nú að leita eftir í þessu tilfelli, ef hún fengi staðizt, þá mætti alveg eins skýra þetta þannig, að það þyrfti ekki að fara að innheimta þetta gjald, af því það væri ekki greinilega fram tekið, fyrr en bara að ráðh. dytti það til hugar. En slík skýring fær vitanlega ekki staðizt á neinn hátt, enda held ég að sé vissara fyrir hv. þm. að taka af öll tvímæli í þessum efnum, og þá líklega vandalaust fyrir ríkisstj. að fallast á það, ef hún ætlar að framkvæma þetta svona, því hún hefur ábyggilega stuðning hér á Alþ. fyrir slíkri breytingu, svo að það er þá einfalt að samþykkja hana og tryggja, að þetta verði með þessum hætti. Ég held, að það sé heldur ekki nokkur minnsti vafi á því, að þeir, sem sömdu frv., að þeir hafa ætlazt til þess, að framkvæmdin yrði með þessum hætti, og af því hafa þeir háu herrar niðri í Seðlabanka þegar byrjað á því að setja þetta gjald fast, og menn hafa ekki fengið þetta út. Það er rétt, þeir hafa þegar sett það fast, og útgerðirnar hafa ekki fengið það.

Þetta er þá til frekari athugunar, hvernig með þetta skuli farið, en ég tek undir það fyrir mitt leyti, að ég teldi að vísu alveg sjálfsagt, að þessi háttur yrði hafður á í sambandi við framkvæmdina.

Það var svo hér aðeins eitt atriði, sem ég ætlaði mér rétt að minnast á til viðbótar, ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, aðeins minnast á eitt í leiðinni. Það var í rauninni í tilefni af því, að ég hafði sagt við 1. umr. um málið, og hæstv. sjútvmrh. fann ástæðu til þess að mótmæla því, sem ég hafði sagt í þeim efnum, en þar hafði ég á það bent, að í frv. væri gert ráð fyrir því að ráðstafa gengishagnaði af birgðum sjávarútvegsvara með þeim hætti að greiða ýmsar þær skuldbindingar, sem ríkissjóður hafði tekið á sig áður og sem ríkissjóður var búinn að fá tekjustofna til þess að geta greitt. Og í þeim efnum þá lét ég þau orð falla, að m.a. í þeim viðræðum, sem átt hefðu sér stað á milli stjórnmálaflokkanna í september- og októbermánuði, að þá hefði ég um það spurt þar, hvort ríkissjóður hefði ekki tekjur til þess að standa undir þessum skuldbindingum sínum eða hvort það þyrfti einnig að reikna með því, að afla yrði fjár í sambandi við lausn vandamála útvegsins til þess að hægt væri að standa við þegar gefnar skuldbindingar. Og ég sagði hér við 1. umr., að ég hefði fengið það svar, að það þyrfti ekki að afla fjár í þessu skyni, ríkissjóður hefði fé til þess að borga þessar upphæðir, sem hér væri um að ræða, en hæstv. ráðh. sagðist hafa borið þetta undir fjmrh., og hann hefði ekki viljað við það kannast, og á meðan svo væri, þá tryði hann þessu ekki.

Það liggur nú alveg skjalfest fyrir, og er lítill vandi að sanna það, að ríkissjóður hafði tekið á sig þær skuldbindingar, sem hér er um að ræða, ríkissjóður hafði tekið á sig þær skuldbindingar að lofa síldarútvegsmönnum því strax á s.l. vori að greiða fyrir þá væntanlegar afborganir og vexti af bátunum vegna síldveiðanna á árinu. Um þetta var gefið út sérstakt bréf, sem við höfum þegar fengið afrit af, og á sama hátt hafði ríkisstj. líka fyrir síldveiðarnar á s.l. vori gefið eigendum síldarverksmiðja yfirlýsingu um það, að ráðstafanir mundu verða gerðar til þess að greiða fyrir síldarverksmiðjurnar afborganir og vexti af stofnlánum og fleiri slíkar yfirlýsingar voru gefnar um ýmsar greiðslur til útvegsins. Á einum af þessum viðræðufundum á milli stjórnmálaflokkanna þá gerði ég m.a. fyrirspurnir um þetta. Ég leitaði svo núna og fann fljótlega í mínu pússi minnisblað, þar sem skráðar eru spurningar mínar til ríkisstj.. varðandi þessi mál, og fyrsta spurningin á blaðinu var þannig: Hvað vantar af fé til þess að standa við ráðgerðar styrktargreiðslur til sjávarútvegsins á arinu 1968? — Auðvitað var um það að ræða, að þegar stjórnmálaflokkarnir voru að gera sér grein fyrir því, hve þetta sjávarútvegsdæmi, sem menn hafa kallað svo, væri stórt, hvað þyrfti að afla hér mikils fjár, þá vildu menn vita það, hvort til viðbótar við þær greiðslur, sem greiða þyrfti til stuðnings á árinu 1969, á næsta ári, kæmu einnig fjárhæðir vegna þess, að ríkið gæti ekki staðið við sínar fyrri skuldbindingar frá árinu 1968. Ég fékk á þessum fundi alveg skýlaust svar um það, að með tilliti til hins nýlega álagða 20% innflutningsgjalds, þyrfti ekki að afla fjár í þessu skyni, ríkið gæti staðið við sínar skuldbindingar. Og til sannindamerkis um þetta eru svo fjölda mörg prentuð plögg eða vélrituð plögg, sem við höfum í okkar höndum, sem í þessum umræðum stóðum, sem öll vitna um það, að í öllum þeim dæmum, sem upp voru sett og afla þyrfti fjár til, var eingöngu miðað við fjárgreiðslur vegna rekstursins á árinu 1969, en ekki til þess að greiða upp skuldahala frá árinu 1968. En þegar svo ríkisstj. kom auga á það, að til mundi falla allverulegur gengishagnaður af birgðum sjávarafurða, sem í landinu voru við gengisfellingarnar, þótti auðvitað ríkisstj. það einsætt að láta útvegsmenn með þessum gengishagnaði borga sér þetta sjálfa og sem sagt vísa aðeins á þessa peninga og hæstv. sjútvmrh. hefur tekið þetta sem góða og gilda vöru, eins og ég sagði hér fyrr í umræðunum, og það. sem ég sagði því um þetta, er á allan hátt rétt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar að þessu sinni, aðeins að lokum endurtaka það, að ég held, að hæstv. ríkisstj. gerði það bezt í þessu máli að fallast á að láta þetta mál liggja þar sem það er komið. Sjá síðan til, hvað kemur út úr samningaviðræðum útvegsmanna og sjómanna upp úr áramótum og setja þá löggjöf á eftir varðandi öll þessi mál, þegar það liggur fyrir, hvað hægt er yfirleitt að gera í þessum efnum. En á þennan hátt er ábyggilega verið að torvelda samninga um sjómannakjör og stefna sem sagt komandi vertíð í hættu.