19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er tvennt, sem kom fram í ræðu hv. síðasta þm., sem ég vildi aðeins minnast á örfáum orðum, án þess þó að vilja verða til þess að tefja umræðurnar hér um of. Það var í fyrra lagi sá ótti hans, sem ég tel alls ekki ástæðulausan, að það gæti tekið töluverðan tíma að koma á samningum milli sjómanna og útgerðarmanna. Vegna þess vil ég enn einu sinni, — að vísu hef ég ekki lýst þeirri skoðun minni hér í hv. þingi fyrr, en vil láta hana þó koma í ljós núna, að ég hefði talið það miklu nær fyrir hæstv. ríkisstj., í stað þess að eyða tíma sínum í að ræða m.a. við þennan hv. þm. og aðra forystumenn stjórnarandstöðunnar á s.l. sumri og hausti, að snúa sér frekar beint að viðræðum við hin fjölmennu hagsmunasamtök bæði launþega og vinnuveitenda og ræða við þau strax og forystumenn þeirra til þess að leita að sameiginlegri lausn á þeim vanda, sem óneitanlega er fyrir hendi hjá okkur Íslendingum í dag.

Út af þessu atriði, sem hann minntist á í sambandi við yfirlýsingu ráðh., tel ég auðvitað sjálfsagt, að þetta sé kannað nánar, hvort yfirlýsing ráðh. geti ekki staðizt gagnvart orðalagi frv. Hins vegar treysti ég á það, að ráðh. standi við sína yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan mjög skýrt og skilmerkilega.

Það voru aðeins nokkur orð, sem ég ætla að svara ræðu hv. 6. þm. Reykv. Það var engu líkara heldur en hann, meðan ég flutti ræðu mína,.hafi hlustað á hana með rússneska eyranu og þegar hann svo hér kom upp, hafi hann talað með þeim helmingi tungunnar, sem telst verkalýðstunga, þegar það á við hjá honum, þessum hv. þm. Jú, honum þótti mikið til þess koma, hve ég væri mikill leikari og hæstv. sjútvmrh. lítill leikari. Til þess að friða hrellda sál þm. skal ég upplýsa það, eins og reyndar kom fram hjá ráðh., að ég tjáði honum í gær, þegar við gengum út úr þinghúsinu, að ég mundi óska eftir svari við þessu að gefnu tilefni.

Eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, mun hafa verið sett fast þetta gjald af Seðlabankanum og er það upplýst núna, sem mér var alls ekki kunnugt um fyrr og bjóst satt að segja ekki við vegna þeirra loforða, sem ég þóttist hafa fengið frá ráðh. ríkisstj., þegar um þetta mál var rætt við þá. Hins vegar var ekki hægt að verða var við annað en þessi hv. þm. væri alveg öskuvondur yfir því, að mér hefði meðal annarra tekizt það a.m.k. að fá út loforð hæstv. ráðh. fyrir því, að þessum fjölmenna hópi sjómanna, sem búið hafa við þær ástæður í sumar, sem bæði hann og aðrir þm. og þ. á m. ég höfum verið að lýsa í þessum umr., að þeir gætu fengið þessa velkomnu gjöf, gætum við sagt, guðsgjöf, sem þeir munu fá vegna gengislækkunarinnar, þegar þeir hafa selt afla sinn erlendis á þessu hausti, á þessu tímabili. Það var ekki hægt að heyra á honum annað heldur en hann væri alveg sáróánægður og vondur yfir, að þetta kæmi til þeirra, því að auðvitað væri langbezt fyrir hann, að það kæmi sem minnst og þetta væri allt eins svart og vont eins og hægt væri.

Það kom einnig fram hjá honum, að hann talar um, að með frv. sé verið að lækka kaupgjald og hann talaði um, að með frv. væri verið að ráðast á þá, hverra kaupgjald hefði lækkað um helming. Ég hefði nú heldur viljað tala um launatekjur í þessu tilliti. Það hefur ekki orðið nein breyting á samningum þessara manna, þótt launatekjurnar hafi lækkað um helming. Samningarnir hafa hins vegar á þessu tímabili batnað mjög. Það hafa verið gerðir nýir samningar og þeir hafa batnað mjög og því vil ég halda því fram, að þótt ég telji hana ekki alfullkomna, hæstv. ríkisstj., þá verði henni hvorki kennt um verðfallið á erlendum mörkuðum né aflaleysið, sem við höfum búið við, t.d. á síldveiðunum s.l. 2 ár. Og það verður ekki hægt að telja það til glapa eða verka ríkisstj., þó að tekjur sjómanna hafi lækkað þess vegna um helming á þessu tímabili. Þetta er auðvitað alrangt hjá hv. þm. eins og margt annað, sem frá honum kemur.

Hann talaði um það, að það væri ákvörðun mín, að samningar Sjómannasambandsins á fiskiskipaflotanum væru ekki lausir. Nú vil ég benda honum á það, að það eru mennirnir sjálfir á skipunum, sem greiða atkv. um þá samninga, sem gerðir eru fyrir þá og þá af þeim fulltrúum, sem þeir kjósa til þess. Hins vegar var það fjölmenn ráðstefna sjómanna, sem tók ákvörðun um þetta á s.l. hausti og ég hef haft það fyrir venju á slíkum fundum og ráðstefnum, sem fjalla um launakjör sjómannanna sjálfra, að greiða ekki atkv. með eða móti, þegar slíkt á sér stað, heldur láta þá um það sjálfa, þannig að ég hef alveg óbundnar hendur um nokkra ákvörðun í því sambandi. Ég vil líka benda þessum hv. þm. á það, að ég var búinn að vera þm. hér um nokkurra missera skeið, þegar óskað var eftir því við mig, að ég tæki að mér störf í þágu eins stærsta verkalýðsfélags landsins og svo síðar í Sjómannasambandinu. Ég hef ekki notað þá leið að klifra upp pólitískan stiga á baki verkalýðshreyfingarinnar, og það ætti þessi maður að vita. En ég hef bæði sagt það þar og annars staðar, að þegar menn eru kjörnir einu sinni á þing, verða þeir oft og tíðum að taka ákvarðanir og mynda sér skoðanir, sem jafnvel gætu farið á móti óskum þeirra manna, sem þeir helzt vildu gera eitthvað fyrir. Þetta vita líka sjómenn hér í Reykjavík.

Undir þau orð hv. þm., að almenn launakjör hér á landi séu of lág, skal ég fyllilega taka. Og ég er alveg sammála honum í því, að eins og er, eru þau of lág. Ég býst hins vegar við, að að venju muni okkur greina á um leiðir til þess að ná því marki að geta hækkað launatekjur íslenzkra verkamanna og sjómanna, t.d. í dag. Ég get hins vegar verið sammála honum um ýmsar leiðir og reyndar erum við og flokksbróðir hans og flokksforingi, hv. 4. þm. Austf., að hans mati sjálfs sammála um ýmsar leiðir til þess að svo geti orðið. Meðal margra atriða er eitt, sem kannske rétt er að draga fram hér og það er atriðið, sem ég kalla stjórnun fyrirtækja. Það er satt að segja alvarlegur hlutur, að ár eftir ár og áratug eftir áratug skuli þurfa hér á Alþ. að vera að gera þýðingarmiklar og afdrifamiklar efnahagsráðstafanir, hverra orsök er oft og tíðum komin til að meira eða minna leyti af rangri stjórnun og illri stjórnun fyrirtækja. Og það eru ekki síður útgerðarmenn, sem eiga þessa skoðun mína heldur en atvinnurekendur til lands. Ég held, að ef verkalýðshreyfingin hefði á sínum tíma, þegar henni var bent á þetta atriði — og auðvitað vita forystumenn verkalýðshreyfingarinnar um þetta, þótt þeir hafi ekki snúið sér að því að laga þetta — en ég held m.a., að þegar bent var á leið hér til þess á sínum tíma á Alþingi að koma vinnandi fólki fyrirtækjanna, útgerðanna, til þess að geta haft hönd í bagga með stjórnun þeirra, að það hefði kannske verið stærsti vinningurinn, a.m.k. á þeim tíma og reyndar nú í dag líka, ef svo hefði getað orðið.

Hv. þm. minntist nokkuð á það, að hér hefði verið af stjórnarflokkunum og þm. stjórnarliðsins mikið gumað af því við síðustu alþingiskosningar, að þjóðartekjur á mann væru orðnar það háar, að þær jöðruðu við það bezta, a.m.k. í Vestur-Evrópu held ég, að ég hafi efnislega rétt eftir honum. Ég held, að þetta sé alveg rétt. En það er hins vegar ekki hægt að bera þetta saman í dag, þegar við höfum orðið fyrir þeim áföllum, eins og m.a. kom fram í ræðu hv. 4. þm. Austf. fyrr í þessum umræðum um þetta mál, að einn liður okkar útflutningsframleiðslu hefði á tveimur árum lækkað úr rúmum 1100 millj. kr. niður í milli 200–300 millj. Hjá fámennri þjóð með mjög einhliða útflutning og lítinn, þá hefur þetta auðvitað gífurlega mikið að segja. Þetta veit auðvitað hv. þm., þó að hann komi hér og setji á svið það, sem hann svo oft og tíðum gerir á þann hátt, að ef hann væri vestra í því gósenlandi, Bandaríkjunum„ þá væri hann fyrir löngu búinn að fá Oscarsverðlaunin.

Einn misskilningur kemur fram hjá honum í sambandi við þessa samninga sjómanna og ég kom inn á það í minni ræðu. Ef gengislækkunarleiðin í þessum efnahagsráðstöfunum hefði ekki verið farin, hefðu ekki þessar deilur komið upp um breytingarnar, sem verið er óneitanlega að gera á samningsbundnum hlutaskiptum. En hins vegar, ef sá réttur sjómannanna hefði átt að halda sér og það hefði átt að koma útgerðinni á nokkurn veginn heilbrigðan starfsgrundvöll – hann verður kannske minna heilbrigður heldur en ætlað var eftir væntanlega samninga — ef það hefði verið gert, hefði gengisfellingin þurft að vera 94–124% og þá hefði auðvitað sú leið verið algerlega útilokuð:

Það var nú ekki mikið meira, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm., sem ég sé ástæðu til að svara að þessu sinni. En eins og ég tók fram fyrr, var engu líkara en maðurinn væri öskuvondur yfir því, að það væri þá þarna lítill sólargeisli í þessu máli öllu og kom upp og lék að vanda á sinn leikræna, austræna hátt, þannig að mikla athygli vakti, eins og hann ætlaðist til, enda var blaðamaður blaðsins hans, Þjóðviljans, mættur í blaðamannastúkunni.