23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

168. mál, sumaratvinna framhaldsskólanema

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur um málsmeðferð á milli hv. þm.

Það er búið að segja mörg falleg orð um sumaratvinnu skólafólksins, en líka mörg ósönn orð, eins og síðasti hv. þm., sem er búinn að margtyggja hér í dag, að ríkisstj. hafi svikizt um að efna loforð, sem hún hafi margsinnis gefið. Hann byrjaði á því, hv. 6. þm. Reykv., að segja, að ríkisstj. hefði gefið loforð um það í fyrra að tryggja sumaratvinnu skólafólks í marz samkomulaginu. Þá var gert samkomulag um skipun atvinnumálan. við fulltrúa Alþýðusambandsins og verkalýðsins í landinu, sem vitað var um frá upphafi, að hafði enga fjármuni til ráðstöfunar og gat þess vegna ekki búið til nein verkefni. Þessi n. ræddi hins vegar mikið um sumaratvinnu skólafólksins og átti viðræður við allar sveitarstjórnirnar hérna á þéttbýlissvæðinu og lagði að nokkru leyti drög að miklu meiri sumaratvinnu fyrir skólafólkið, heldur en ella hefði orðið, þó að hins vegar hafi verið, eins og komið hefur fram, atvinnuleysi hjá skólafólki. Í þessari n., sem á að hafa svikizt um að gera það, sem hún lofaði, sem er ósatt, áttu fulltrúar Alþýðusambandsins fulltrúa og ekki ein einasta till. kom fram hjá þeim í n. um neinar sérstakar aðgerðir, af því að þeir vissu, að n. hafði ekki aðstöðu til þess að hefjast handa um sumaratvinnu skólafólks fram yfir það að reyna að stuðla að því með viðræðum við sveitarstjórnir og einnig ríkisfyrirtæki eins og t.d. vegagerðina og önnur slík að hraða eitthvað framkvæmdum, sem gert var á mörgum sviðum. Um það, sem n. gerði, var samin skýrsla í lok ágústmánaðar og forseta Alþýðusambandsins var afhent sú skýrsla og við hana hefur aldrei komið fram nein aths., hvorki hjá fulltrúum Alþýðusambandsins eða verkalýðsins í n. né frá Alþýðusambandsstjórninni, en formaður hennar fékk þessa skýrslu í hendur.

Menn verða svo einnig að gera sér grein fyrir því, að það er sennilega ekki ástæða til þess að ætla, að atvinnuhorfur skólafólks séu mjög miklar í marz– og aprílmánuði, þegar verið er að tala við það þar um, þegar standa yfir deilur á vinnumarkaðinum, eins og nú hafa staðið, samningslaust á milli atvinnurekenda og launþega frá því 1. marz og síðan hafa verið erjur á vinnumarkaðinum og raunar enginn vitað frá degi til dags, hvort hér yrðu skollin á allsherjarverkföll. Mig furðar ekkert á því á þeim tíma, að skólafólk eigi erfitt með að fá einhver fyrirheit um atvinnu. Þess vegna er það alveg rétt, sem hæstv. félmrh. vék að hér í dag og ég heyrði ekki betur en hv. 6. þm. Reykv. viðurkenndi, að það er og hlýtur alltaf að verða, hversu fögur orð, sem menn vilja hafa um það, grundvöllurinn undir atvinnu skólafólksins, að almenn atvinnustarfsemi í landinu sé í blóma. Ef svo er ekki, á ég eftir að sjá, að fulltrúar verkalýðsins í landinu felli sig við það og sætti sig við það, að varið sé af opinberu fé, eins og hér er talað um, allt að 240–250 millj. kr. til þess að tryggja atvinnu skólafólks meðan almenningur og fyrirvinnur stórra fjölskyldna hafa ekki atvinnu.

Hv. 2. þm. Reykn. komst svo að orði áðan, að á uppgangsárunum 1960–1966 hefði allt skólafólk haft atvinnu, sem vildi. Þetta voru nú einu sinni kölluð móðuharðindaár,og það er dálítil breyting orðin á, að þau skulu núna vera kölluð uppgangsár, en hann vék samtímis að því, að árin 1967 og 1968 hefði brugðið mjög mikið við. Þá má segja að, að vissu leyti hafi komið hér móðuharðindaár, þó að þau væru ekki af manna völdum. Og á þessum árum hafa verið erfiðleikar með að útvega skólafólki atvinnu. Þetta horfir betur og eitthvað töluvert af skólafólki gat fengið atvinnu fyrst í stað við hinar stóru framkvæmdir, bæði við Búrfell og Straumsvík. Sumir hafa staðið hér kófsveittir í þessum ræðustól til þess að berjast á móti því, að til slíkra framkvæmda væri efnt. En það er ekki aðeins, að menn verði að gera sér grein fyrir því, þó að mönnum þyki það ekki gott, að erfitt árferði og atvinnuleysi, sem stafar af aflabresti og markaðshruni hjá okkur Íslendingum, kemur líka við skólafólkið. Menn verða líka að hafa í huga og skólafólkið að gera sér grein fyrir því, sem ég efast ekkert um, að það gerir, að það er allt annars eðlis að útvega, ef svo mætti segja, eða skapa tímabundna atvinnu fyrir skólafólk nú, heldur en var áður fyrr. Ég man nú ekki eftir því, þegar ég var á skólaaldri fyrir norðan, að Jónas Jónsson væri neinn brautryðjandi í því að útvega skólafólki atvinnu, eins og vikið var að. Það má vel vera. Það voru margir góðir menn, sem lögðu hönd á plóginn við það, og hann hefur sjálfsagt verið einn af þeim. Hvort hann hefur skorið sig nokkuð úr, skal ég ekki segja. En það, sem ég á við með þessu, er t. d., að það var vikið áðan að vegagerð — að reyna að efla vegagerð fyrir skólafólk, — og það var gríðarlega mikið af skólafólki í vegavinnu á árunum fyrir 1930, þegar við notuðum hesta og kerrur og skóflu og haka við vegagerðina. En þó að við höfum mikið fé, sem skiptir tugum millj. kr. og jafnvel hundruð millj. kr. og setjum það í vegagerð og brúagerð, þá er það sárafátt fólk, sem fer til þessara framkvæmda, eins og hv. þm. er öllum vel kunnugt um og ekkert síður en mér.

Skólafólk fékk auðvitað alltaf mjög mikla atvinnu við sumarvertíðirnar, síldarsumarvertíðirnar, ekki aðeins við síldarverksmiðjurnar, heldur ekki síður við síldarsöltunina og þegar hvort tveggja bregzt, eins og verið hefur undanfarin ár, þá skapar þetta gífurlegan vanda. Mér er, held ég, alveg eins ljóst og þeim hv. þm., sem um málið hafa rætt, að hér er um mikið vandamál að ræða. Það er rétt, að skólafólk hefur haft fram til síðustu tveggja ára næga atvinnu á sumrin og meira að segja svo mikla atvinnu, að fjöldinn af þessu skólafólki notaði sér alls ekki möguleikana til þess að hafa sumaratvinnu. Það eyddi sínum sumartíma í ferðalög til sólarlanda í ríkum mæli. Það fóru heilir bekkir í þessi ferðalög. Ég efast alveg um, hvað það var hollt að örva þetta unga fólk til þess að fara í heilum bekkjum í utanlandsferðir, í staðinn fyrir að nota sér þá atvinnu, sem var fyrir hendi í landinu, og afla sér fjár til vetrarins eða safna sér forða, en svona var þetta. Engu að síður mundu þetta verða, eins og réttilega hefur verið tekið fram, gífurleg viðbrigði, ef skólafólkið ætti ekki kost á sumaratvinnunni, og ég er alveg sammála hv. þm., sem talað hafa hér í þessu máli, að það er sjálfsagt af hálfu stjórnvalda og ráðamanna sveitarstjórna að stuðla að því eftir fremsta megni, að aðstaða fáist, svo sem föng eru til, fyrir skólafólkið til að vinna að hagnýtum störfum. Það er ekki aðeins, að það safni fé til vetrarins, heldur safnar það líka í sinn andlega sarp með því að leggja hönd á plóginn í hinu almenna atvinnulífi, og margir hafa búið eins vel að því eins og þeim fjármunum, sem þeir hafa safnað á stuttum sumartíma til þess að standa straum af kostnaðinum með því að vera beinir þátttakendur í atvinnulífinu, vinna með verkamönnum, sjómönnum, byggingamönnum og öðrum landsmönnum, sem hafa þurft að vinna hörðum höndum. Þetta hefur verið mörgum skólamanninum mikið happ og búið um sig í hugarfari hans til síðari ára.

Atvinnumálanefndirnar, sem mikið hefur verið vikið hér að, atvinnumálanefnd ríkisins og atvinnumálanefndir kjördæmanna hafa ekki, svo ég viti, enn komið fram með sérstakar till. um atvinnu fyrir skólafólkið og það má segja, að það sé að vissu leyti ekki óskiljanlegt, meðan ekki hefur tekizt að ráða bót á atvinnuleysinu, eins og vitnað er til, þar sem það er töluvert enn þá í lok vertíðar eða um það bil í lok vertíðar, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og einkum og sér í lagi í Norðurl. e., sem er alverst statt að því er ég bezt veit. En ég er ekki þeirrar skoðunar, að við gerum nokkurt góðverk með því að hafa þessi mál í flimtingum hér á þingi eða annars staðar, telja skólafólkinu trú um með óljósum orðum, að það sé enginn vandi að skapa fyrir það atvinnu alveg óháð því, hvernig ástandið er í þjóðfélaginu og það sé ekkert annað að gera fyrir það en að hefja kjarabaráttu eins og hér var talað um áðan. Það er sjálfsagt að taka með fullum skilningi þeim óskum, er fram koma frá samtökum skólanemanna og veita þeim aðstoð eftir því sem föng standa til. Við verðum einnig að reyna að fá þetta unga fólk til að skilja aðstöðuna eins og hún er á hverjum tíma í þjóðfélaginu og meta sínar kröfur að einhverju leyti með hliðsjón af því. Þá koma að sjálfsögðu eins og nefnt hefur verið, til álita aðrar aðgerðir fyrir skólafólkið til þess að sporna við því, að það verði að hætta sínu námi, því að það er þjóðfélaginu líka dýrt og marg oft hefur það verið tekið fram af góðum mönnum, að dýrasti sjóðurinn, sem landið á, á hverjum tíma, sé sá kraftur, sem býr í æsku þess.