23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (3372)

168. mál, sumaratvinna framhaldsskólanema

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér þóttu það dálítið óvænt og næsta ánægjuleg tíðindi að heyra hæstv. iðnrh. flytja smávegis skýrslu um störf atvinnumálan. sem sett var á laggirnar í marzmánuði í fyrra. Það hefur oft verið minnzt á þessa n. hér, m.a. af mér og ég hef spurt að því, hvernig á því hafi staðið, að þessi n. lognaðist hreinlega út af án þess að gefa nokkra skýrslu um starfsemi sína, en aldrei hafa fengizt svör við þessu fyrr en nú, en þessi hæstv. ráðh. var formaður n. Ráðh. staðhæfði, að það hefði verið rangt hermt hjá mér, að um hefði verið að ræða loforð um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi skólafólks í fyrrasumar og n. hefði ekki getað gert meira en hún gerði, vegna þess að hún hefði ekki haft neitt fjármagn. En hæstv. ríkisstj. birti yfirlýsingu í sambandi við lausn vinnudeilnanna í marz í fyrra og þar var m.a. komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur ætíð óskað samstarfs við samtök verkalýðs og vinnuveitenda til að halda uppi almennri atvinnu og telur nú brýnni þörf á slíku samstarfi, en nokkru sinni fyrr. Í framhaldi af viðræðum við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, lýsir ríkisstj. því yfir eftirfarandi.“

Síðan kom atriði í 10 liðum. 6. liðurinn er svo hljóðandi í yfirlýsingu ríkisstj: „að hún muni í samráði við atvinnumálan, athuga atvinnumál unglinga, sem eru við nám og stuðla að ráðstöfunum til að tryggja sumaratvinnu þeirra.“ Þetta loforð hæstv. ríkisstj. var gefið í sambandi við lausn vinnudeilnanna í fyrra og hæstv. ríkisstj. hafði fjármagn, enda þótt atvinnumálan. hefði ekki fjármagn. Þarna var loforð, sem ekki var nokkur leið að hlaupa frá og þeim mun ósæmilegra að hlaupa frá því, sem þetta loforð var gefið, vegna þess að verkalýðssamtökin slökuðu á frá hreinni lágmarkskröfu, sem fram var borin í kaupdeilunum í fyrra. Verkalýðshreyfingin gaf eftir mikla fjármuni, vegna þess að hún treysti því, að staðið yrði við loforðin í atvinnumálunum. En þessi loforð ríkisstj. voru ekki efnd.

Það væri fróðlegt að fara yfir alla þessa 10 liði og spyrja hæstv. ríkisstj., hvað sé að marka slík ummæli. Það var ekki staðið við þau. Þetta ætti raunar að vera alveg sérstakt samvizku mál fyrir þennan hæstv. ráðh., vegna þess að hann var formaður n., á honum hvíldi sérstök ábyrgð. Það er fullkominn ábyrgðarhluti að haga sér þannig í samskiptum við verkalýðssamtökin á Íslandi, að ekki sé hægt að treysta loforðum, sem gefin eru á formlegan hátt, en það sannaðist í fyrra, að þetta er ekki hægt.

Út af almennum hugleiðingum hæstv. ráðh. um það, að ekki sé til þess að ætlast, að skólafólki sé tryggð atvinna á meðan atvinnuleysi er í landinu, tel ég það vera fjarstæðu að gera þarna skil á milli. Sem betur fer hefur framhaldsskólanámi verið þannig háttað hér á Íslandi, að það unga fólk, sem nám hefur stundað, er aðeins eðlilegur hluti af fólkinu í landinu. Þetta er fólk af heimilum landsmanna eins og þau gerast og vandamál þessa skólafólks er nákvæmlega það sama og vandamál heimilanna. Ef þetta skólafólk fær ekki sumaratvinnu, þá bitnar það á jafnmörgum heimilum og þetta skólafólk er. Þannig þýðir ekkert að reyna að gera skil á milli og segja, að hæstv. ríkisstj. sé enn þá að reyna að standa við þau loforð, sem hún gaf í janúarmánuði um að uppræta almennt atvinnuleysi á Íslandi og þess vegna geti hún ekki sinnt vandamálum skólafólksins. Henni ber að gera hvort tveggja og fyrir því eru ekki nokkur almenn rök að láta þúsundir manna ganga um atvinnulausar á Íslandi, þar sem verkefnin blasa við í öllum áttum. Það er ekki hægt að rökstyðja það með neinum skynsamlegum rökum, aðeins með hagfræðilegum kreddum.