19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef í huga að segja fáein orð um þetta málefni. Ég ætlaði að geyma það til 3. umr., vegna þess að það, sem ég segi, er mest almenns eðlis, en hef þó hætt við að geyma það, vegna þess að ég er ekki alveg viss um, að ég geti verið við alla 3. umr. og vil því ljúka þessu af.

Þegar fyrsta frv. kom fram í þeirri frumvarpakeðju eða ráðstafanakeðju, sem eiga að verða úrræði ríkisstj. í efnahagsmálum til þess að leysa þann vanda, sem þjóðin er í stödd, lýsti ég þeirri skoðun, að þessar ráðstafanir, þegar þær verða skoðaðar í heild samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh., væru fásinna og mundu leiða út í enn verra öngþveiti en nokkru sinni fyrr. Það má vera, að sumir hafi efazt um það þá, að þessi dómur væri réttmætur, en ég held, að það sé leitun á þeim nú, sem efast um, að þessar efnahagsmálaráðstafanir hljóta að misheppnast gersamlega og verða til ills, því að þær eru byggðar alveg á skakkri undirstöðu, m.a. á ranglæti, sem ekki verður þolað. Hæstv. forsrh. sagði þá í fyrstu ræðunni, sem hann flutti um þetta efni og í yfirlýsingu ríkisstj., að ætlun hennar væri að setja það í lög, að ekki mætti hækka kaup samkv. vísitölu. Þessa stefnuyfirlýsingu gaf hæstv. ráðh. Síðan kom þetta frv. og í því er gert ráð fyrir að nema úr lögum gildandi hlutaskiptasamninga og stefnan, sem þar liggur til grundvallar, er hin sama, sem ráðh. lýsti yfir þá í launamálum, og að sjómenn sitji við sama borð og þeir, sem í landi búa, með því móti að þeir eigi ekki að fá nema hliðstæðar breytingar á kaupi við landverkafólkið, sem sé að nema skal úr gildi hlutaskiptasamningana. Og efnahagsmálaráðstafanirnar sjálfar, sagði hæstv. ríkisstj., að væru byggðar á því, að þetta tækist. Menn mundu líka sætta sig við þetta. Sjómennirnir mundu sætta sig aðgerðalaust við ákvæði þessa frv. og það, sem þeim væri skammtað samkv. því og landverkafólkið og launafólk mundi sætta sig við, að það yrði bannað með lögum, að kaupgjald hækkaði eftir vísitölu. Menn tækju á sig bótalaust 18–20% dýrtíðarhækkun og sjómenn byggju við hliðstætt.

Hæstv. ríkisstj. var sagt það strax og það hefur verið staðfest síðan, að það væri fásinna, að þetta geti staðizt. Þess vegna stefnir þetta frv., sem hér liggur fyrir, og allar ráðgerðir hæstv. ríkisstj. að þessu leyti öllu út í stríð. Það er ekki lausn á vandamálunum, heldur er öllu stefnt út í stríð. Þetta viðurkenna sjálfir stuðningsmenn málsins nú orðið, eins og hv. þm., sem hér var að tala áðan síðast, sem hefur fyrirvarann, því að hann tók það fram, að það væri óhugsandi, að sjómenn gætu sætt sig við þann hlut, sem þeim væri ætlaður samkv. þessu frv. Enda vitum við, að þetta liggur svona fyrir. Það er því algert ábyrgðarleysi, það er sorglegt ábyrgðarleysi af hæstv. ríkisstj., að hún skuli ofan á annað, sem hún hefur gert, leggja af stað með þetta, því að það, sem nú átti að gera í staðinn fyrir að fara að með þvílíku ábyrgðarleysi, var auðvitað að reyna að fá víðtæk samtök um skynsamlega stefnubreytingu í þessum málum og nýjar ráðstafanir. Og þá átti að leita samstarfs við alþýðusamtökin, stéttasamtökin um slíka stefnu, þ. á m. um kjaramálin og nota tímann í haust til þess að undirbúa slíkt í stað þess að fleygja fram frv. eins og þessu, sem er algerlega byggt á sandi, óframkvæmanlegt með öllu og marklaust um leið og það er komið í lög. Flytja svo stríðsyfirlýsingar á þann hátt, sem hæstv. forsrh. gerði, þegar hann lagði stefnuna fyrir varðandi kaupgjaldið í landinu. Í stað slíkra aðfara átti að taka upp samninga, breyta síðan skynsamlega efnahagsmálastefnunni í þá átt, sem Framsfl. hefur lagt til og beitir sér fyrir og í þá átt, sem Alþýðusambandið og fleiri samtök launafólks í landinu hafa ályktað, því að þessi samtök hafa ályktað mjög í sömu stefnu og Framsfl. hefur barizt fyrir undanfarin ár og hefur enn á oddinum.

Þetta sjónarmið vildi ég láta koma hér greinilega fram. Það þýðir að sjálfsögðu ekkert að flytja hér aðvaranir til hæstv. ríkisstj. Hún er búin að festa sig í þessari fásinnu og getur ekki að því er virðist fengið sig til þess að losa sig út úr þessum vanda, sem hún hefði þó átt að gera með því að draga yfirlýsingar sínar til baka og frv. og segja af sér, til þess að síðan væri hægt á þessum rústum öllum að koma á fót nýrri ríkisstj. og samtökum stéttasamtaka um hyggilegar ráðstafanir. En samt sem áður er ástæða til þess að vara stjórnina við því enn, sem hún hefur í hyggju. Ég sagði það áðan og ég endurtek það, að annar meginþáttur þessara laga. allur sá þáttur, sem lýtur að því að ákveða kjör hlutasjómanna, verður aldrei annað en markleysa, sem ekki er hugsanlegt að framkvæma, en hefur í för með sér stríð. Þessar aðfarir hæstv. ríkisstj. líkjast helzt einhvers konar dauðateygjum. Ég skal ekkert fullyrða, að það séu dauðateygjur, en það er enginn vafi á því, að mönnum blöskrar almennt, hvernig að þessum málum er unnið. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta almennt.

Ég vil svo koma að því, að sumir eru mjög undrandi yfir því, hvernig komið er atvinnu- og efnahagsmálum landsins. En menn þurfa ekki að vera hissa, því að það er ekkert, sem hefur gerzt annað en það, sem hlaut að verða og það, sem menn hafa séð fyrir sumir og það æði margir um langa hríð. En það er á hinn bóginn ekki óeðlilegt, að sumir eru hissa á því, að eftir þessi níu beztu ár, þegar meðaltöl eru tekin, sem þjóðin hefur nokkru sinni lifað, skuli atvinnulífið og efnahagur þjóðarinnar liggja í rúst, en þannig er það. Það er því rétt að rifja hér upp með örfáum orðum aðalkjarnann í þessu vandamáli og hvernig á þessu stendur. Það eru hagstjórnaraðferðir ríkisstj., sem eiga hér aðalsökina. Það er ekki hægt að kenna árferðinu um þetta, þó að síldveiðarnar hafi nálega algerlega brugðizt á þessu ári, þá er það ekkert einsdæmi og hefði átt að vera mjög vel bærilegt, án þess að af því yrðu nokkrar stórfelldar afleiðingar, ef skynsamlega hefði verið farið að undanfarið. Þegar þessi aflabrestur á síldveiðum nú kom eftir átta samfelld góðæri, er verðlag yfirleitt, sem þjóðin býr við, í betra lagi og hefur það ekki verið vefengt. En hagstjórnaraðferðirnar hafa verið slíkar, að það hlaut að grafast grunnurinn undan íslenzku atvinnulífi.

Það var byrjað með stórfelldri gengislækkun og skattahækkunum, sem var eins konar heljarstökk, og við sögðum það strax þá, sem mæltum gegn þeirri stefnu, sem þá var tekin upp, að slík heljarholskefla dýrtíðar mundi leiða af sér aðrar nýjar holskeflur og málefni landsins verða með öllu óviðráðanleg, enda Nefur reynslan orðið sú.

Þetta var orðað þá þannig á einum stað, að heljarstökk, eins og þá var tekið, væri ekki hægt að taka og koma standandi niður, enda hefur svo farið, og ekki sízt vegna þess, að ásamt þessum aðförum var tekin upp ný lánastefna, sem var miðuð við að draga úr útlánum til framleiðslunnar í landinu, láta Seðlabankann minnka endurkaup og draga hluta af sparifjáraukningunni úr viðskiptabönkunum inn í Seðlabankann til frystingar þar. Það var sem sagt hafinn stórfelldur lánasamdráttur um leið og þessi tröllaukna dýrtíðarbylgja var reist. Á sama tíma og allur reksturskostnaður og allur kostnaður var hækkaður gífurlega, var farið að draga saman lánin og þá ekki sízt reksturslánin, en íslenzkir atvinnuvegir verða að búa meira við lánsfé en atvinnuvegir nokkurra annarra hliðstæðra þjóða. Formaður L.Í.Ú., sem á sæti á hv. Alþ., Sverrir Júlíusson, sagði um þessar ráðstafanir, að þær mundu verða eitur fyrir atvinnulífið og hliðstætt sögðu fleiri og hann hefur reynzt sannspár í þessu, en það undarlega er, að það hafa orðið hans örlög samt sem áður að styðja þessa stefnu í níu ár með þeim afleiðingum, sem hún nú hefur haft fyrir íslenzkan sjávarútveg, sem honum er falin forysta fyrir. Mega það teljast meinleg örlög. En samt sem áður rataðist hv. þm. i þessu eins konar spakmæli á munn í upphafi.

Jafnhliða þessu voru vextirnir hækkaðir gífurlega 1960 og gerðir hærri hér en í nokkru öðru nálægu landi. Það hlutu einnig að verða drápsklyfjar fyrir atvinnulífið, en í því sambandi hefur það verið eitt undanbragð ríkisstj. að láta sérfræðinga sína reikna það út, að vaxtagreiðslur hafi sáralitla þýðingu fyrir sjávarútveginn, og þessi hagspeki hefur verið borin á borð ár eftir ár og jafnvel hagfræðingar og menn í trúnaðarstöðum hafa léð máls á því að gefa um þetta skýrslur og vottorð En auðvitað eru það allt saman falsrök af þeirri einföldu ástæðu, að nálega öll vaxtabyrði i landinu yfirleitt kemur að lokum á framleiðsluna sjálfa. Sjávarútvegurinn stendur ekki aðeins undir þeim vöxtum, sem hann borgar beint inn í bankana. Hann stendur undir heildar vaxtabyrðinni að miklu leyti að lokum sem grundvallaratvinnuvegur. Vextirnir lenda inn í kaupgjaldið, því að þeir þrýsta því upp. Einhvern veginn þurfa menn að hafa tekjur til þess að borga hina háu vexti. Þeir þrýsta upp húsaleigunni og þá enn kaupgjaldinu og þá leið komast þeir inn í alla liði í framleiðslukostnaðinum. Þeir eru með í hverjum einasta lið. Alls staðar í vöruverðinu eru vextirnir. Það væri miklu nær að segja, ef ætti að reikna þá vexti, sem sjávarútvegurinn verður að bera og grundvallaratvinnuvegirnir, að þá bæri að taka með allar vaxtagreiðslur i landinu, í stað aðeins þeirra vaxta, sem á pappírnum eru færðir á vaxtaliði útgerðarinnar. Þess vegna mundi það vera ein notadrýgsta aðferð fyrir framleiðsluna til þess að leysa úr vandamálum hennar að lækka vexti, ekki aðeins á beinum launum til framleiðslunnar, heldur vexti almennt í landinu, vegna þess að það lækkar framfærslukostnaðinn og framleiðslukostnaðinn í öllum liðum.

Það er svo ekki nóg með það, að þessir háu vextir leggist á framleiðsluna að því leyti, sem þeir eru borgaðir beint af skuldum, heldur kemur og til, að þessir háu vextir verða einnig til þess, að allar eignatekjur í landinu hækka að sama skapi og vextirnir. Öll húsaleiga í landinu mótast m.a. miðað við vextina að lokum, ekki aðeins húsaleiga til þeirra, sem greiða vexti, heldur öll húsaleiga, einnig til þeirra, sem eiga eignir skuldlausar, þannig að eignavextirnir, sem leggjast inn í framleiðslukerfið og hvíla á því, fylgja vaxtafætinum.

Hér hefur því orðið alger bylting í landinu í óhag framleiðslunni með þessari nýju vaxtapólitík, sem tekin var upp af núv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluta og það er eitt af því, sem grafið hefur svo herfilega undan íslenzkri framleiðslustarfsemi og heldur áfram að gera það.

Það var sagt, að það ætti að hækka vextina til að draga úr eftirspurn eftir lánum, en það hefur allt saman auðvitað reynzt markleysa eins og allir þeir sáu fyrirfram, sem nokkuð voru kunnugir íslenzku efnahagslífi, vegna þess að hér gilda allt önnur lögmál í því efni en víðast annars staðar. Eftirspurn eftir lánum gat vitaskuld ekki minnkað, þó að vextirnir hækkuðu, af þeirri einföldu ástæðu, að menn voru nauðbeygðir til þess að taka öll þau lán, sem hugsanlegt var að fá til þess að geta haldið afram með framleiðsluna og reksturinn og þurftu að fá meira en þeir fengu. Vaxtahækkunin gat ekki verkað öðruvísi hér en sem skattur á framleiðslustarfsemina, en ekki sem hagstjórnartæki á sama hátt og slík vaxtabreyting getur verkað í þeim löndum, þar sem fullt er af fljótandi fjármagni, sem leitar sér samastaðar, leitar sér verkefnis. En þetta hefur ríkisstj. aldrei viljað viðurkenna eða þótzt sjá og efnahagsráðunautar hennar ekki heldur. Þess vegna eru þeir allir saman sekir menn í þessu tilliti.

Þessi nýja lánapólitík hlaut að verka eins og eitur fyrir framleiðsluna og sannleikurinn er sá, að það hefur varla nokkurt fyrirtæki á Íslandi borið sitt barr síðan stefna stjórnarinnar var tekin upp, m.a. vegna rekstursfjárskorts, en það er ekki hægt að reka nokkurt fyrirtæki vel, sem þjáist af sífelldum greiðsluvandræðum eins og þeim, sem stofnað var til fyrir 8–9 árum, þegar þessi nýja stefna var upp tekin.

Öllum uppástungum framsóknarmanna um að breyta til í þessu efni, sem er grundvallaratriði, hefur verið svarað með því, að það væru lánaðir út allir peningar, sem til væru, það væru ekki meiri peningar til. M.ö.o., menn í ábyrgðarstöðum, ráðh. og sérfræðingar, hafa talað á þennan hátt við menn eins og börn, en allir, sem nokkuð hafa komið nálægt stjórn peningamála vita, að það er alltaf matsatriði, hversu mikið fjármagn skuli sett í umferð og seðlabankarnir eru notaðir til þess að draga úr fjármagni í umferð eða auka það eftir því sem skynsamlegt þykir og þarfir atvinnulífs og staða þjóðarbúsins að öðru leyti styður að eða gerir nauðsynlegt.

Það er matsatriði hverju sinni, hversu mikið fjármagn er sett í umferð, og nú verða þeir, sem að þessu hafa staðið, þessum blekkingum, þessum mistökum, að fletta ofan af sér sjálfir, neyðast til þess, því að nú eru þeir að tala um að auka útlánin verulega, enda þótt vöxtur innlána í bankakerfinu sé miklu minni en hann hefur verið undanfarin ár, og þar með fletta þeir vitanlega alveg ofan af þessum málflutningi sínum á undanförnum árum. Það kemur sem sé í ljós, að hann var ekkert annað en blekking. Heildarútlán geta aldrei verið miðuð við það, hverjar innistæðurnar eru á hverjum tíma í bönkunum, heldur verða heildarútlánin að miðast þar að auki við hvað skynsamlegt og raunar óhjákvæmilegt er að hafa í umferð af fjármagni, til þess að atvinnuvegirnir geti gengið, og svo hvað óhætt muni vera að hafa í umferð vegna gjaldeyrisstöðunnar. Nú er meira að segja verið að ráðgera, að bankarnir þurfi að auka útlánin, enda þótt peningaráð þeirra af innlánsfé fari minnkandi og gjaldeyrisstaðan sé verri en hún var áður, en rekstursfjárþörfin knýr. Á þessu sjáum við auðvitað, að allur þessi málflutningur stjórnarinnar á undanförnum árum hefur verið hrein rökleysa, settur fram til þess að villa mönnum sýn og til þess að draga athygli manna frá þeim kjarna í stefnu framsóknarmanna, að það þyrfti að auka útlánin til framleiðslunnar, til þess að ekki skorti rekstursfé og til þess að fyrirtæki gætu gengið með eðlilegum hætti, en það er grundvöllurinn undir öllu saman.

Svo var sagt, að með þessu væri verið að safna gjaldeyrisvarasjóði. Það var ein blekkingin. En svo kemur í ljós, að þessi binding sparifjárins heldur enn áfram, en gjaldeyrisvarasjóðurinn er horfinn. En eftir málflutningnum á undanförnum árum hefði það átt að vera nóg til þess að halda látlaust áfram að safna gjaldeyrisvarasjóði, að halda áfram bindingu sparifjárins. Þá átti gjaldeyrisvarasjóðurinn að aukast vélrænt af sjálfu sér. Það var talað eins og þetta væri aðeins bókhaldsatriði, en afkoma framleiðslunnar skipti engu máli í þessu sambandi, ef menn væru bara nógu duglegir að draga spariféð inn í Seðlabankann og hækka vextina, þá kæmi allt af sjálfu sér að öðru leyti. Þessar voru hagstjórnaraðferðir ríkisstj. Við sjáum svo nú, hvaða áhrif þessar aðfarir hafa haft fyrir atvinnulífið og hvernig þessi stefna hefur beðið skipbrot, að nú er í óðakappi verið að ráðgera í neyðinni að auka útlán til atvinnuveganna, þó að bankarnir hafi enn minni fjárráð en áður var, þegar við stungum upp á því ár eftir ár, að skynsamlegri lánastefnu yrði fylgt.

Þessi stefna hæstv. ríkisstj. að reyna að lækna allan vanda í efnahagslífinu með því að láta verðlagið hækka nógu mikið, reyna að halda kaupgjaldinu niðri, draga úr útlánunum, sem kom verst niður á framleiðslunni, hækka vextina samfara algeru frelsi í fjárfestingarefnum og algeru stjórnleysi í atvinnulífinu, leiddi auðvitað til þess, að sú fjárfesting, sem mestu máli skipti fyrir þjóðarbúið, að kæmist fram fyrir, sat á hakanum, en verðbólgufjárfesting af alls konar tagi færðist fram fyrir og eyðslufjárfesting. Og það er höfuðskýringin á þessu algjöra öngþveiti, sem nú ríkir og því gjaldþroti, sem stjórnarstefnan hefur beðið, hvernig fjárfestingin hefur orðið. Fjárfestingin hefur að miklum meiri hluta til orðið í gersamlega óarðbærum framkvæmdum og sumpart í eyðsluframkvæmdum, en arðbæra fjárfestingin hefur setið á hakanum. Á þetta höfum við deilt öll þessi ár mjög hart, Framsfl.-menn í stjórnarandstöðunni og krafizt, að það yrði tekin upp stjórn á fjárfestingunni, sem tryggði, að þær framkvæmdir kæmust fram fyrir, sem mesta þýðingu hefðu fyrir þjóðarbúið og þá sérstaklega þær framkvæmdir, sem væru þýðingarmestar fyrir sjálfa framleiðsluna.

Í staðinn fyrir algert stjórnleysi í atvinnumálum höfum við krafizt, að sú stefna yrði tekin upp, að ríkisvaldið hefði öfluga forystu í atvinnumálum í samráði við samtök atvinnulífsins, þar sem menn hefðu náið samráð um það, hvaða verkefni það væru, sem mest riði á að taka til framkvæmda og tækju þannig saman höndum, menn frá ríkisvaldinu og menn frá atvinnulífinu, um að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að slíkar framkvæmdir kæmust áfram, og er þá jöfnum höndum átt við þá þætti, sem ríkisvaldið yrði að taka að sér, lánveitingar og annað, sem yrði að koma fyrir áhrif frá því opinbera, og hitt, sem einstaklingar sæju um. Og það er þessi stefna, sem við leggjum megináherzlu á enn sem fyrr, að nú verði tekin. Við teljum algerlega vonlaust, að hægt sé að snúa þróuninni við í hagstæða átt, nema stefnubreyting verði að þessu leyti til. Hér er um sjálfan grundvöllinn að ræða, eins og ég veit, að hv. þm. átta sig á, hvort sem þeir játa það eða ekki, og það ánægjulega í þessu er, að skilningur manna á þessu viðhorfi okkar er ákaflega mikið vaxandi, hraðvaxandi svo að segja með hverjum deginum, sem líður, eins og bezt sést á því, að nú í fyrsta skipti hafa samtök atvinnulífsins tekið alveg eindregið í þennan streng, bæði stéttarsamtökin og önnur samtök, og hafa stuðningsmenn stjórnarinnar í þessum samtökum, margir hverjir, nú ekki þorað annað en að fylgja þessari stefnu í samtökum sínum. Þeir hafa sem sagt tekið mið af þeirri þungu öldu, sem þar rís þessari stefnu til stuðnings, þó að þeir standi enn gegn henni hér á Alþ. vegna tryggðar við hæstv. ríkisstj. En það er aðeins um stundarsakir, sem slíku viðnámi af þeirra hendi verður komið við hér, því aldan er risin svo sterk í þessu, að á móti henni verður ekki staðið til lengdar.

Það er mjög þungt áfall fyrir íslenzku þjóðina, að stjórnarliðinu skuli hafa tekizt í skjóli óvenjulegs góðæris að dylja meinsemdirnar, sem hafa verið að grafa um sig í atvinnulífinu á undanförnum árum. Þeim hefur tekizt að dylja þessar meinsemdir með blekkingaráróðri og vegna þeirra uppgripa, sem orðið hafa á síldveiðum sérstaklega, hefur þeim tekizt að hylja meinin, og jafnvel tekizt að blekkja sjálfa sig og það er sennilega verst. Þeim hefur tekizt að blekkja sjálfa sig og líklega jafnvel talið sér trú um, að allt væri í sæmilegu lagi. En hafi svo verið, hljóta mennirnir að hafa vaknað upp við vondan draum, því það er ekki neitt gamanmál eða hégómamál, að það skuli nú vera þannig ástatt fyrir íslenzku atvinnulífi eftir þessar aðfarir þeirra, að við verðlag, sem má teljast vera yfir meðallag, eins og ég sagði áðan, að vísu við aflabrest á síld í eitt ár, en að öðru leyti venjuleg skilyrði, skuli vera þannig komið, að launþegum er ætlað í áætlun stjórnarinnar að lifa á 120–150 þús. kr. á ári. Það er áætlun stjórnarinnar, að þetta sé það, sem íslenzkur þjóðatbúskapur gefur í dag í aðra hönd og íslenzkt atvinnulíf. Auðvitað treystir enginn maður hér sér til þess að halda því fram, að hægt sé að lifa af þessu kaupi. Vextirnir einir af meðalíbúð eru um 100 þús. kr. eða svo. Þetta eru alvarlegar staðreyndir. Þetta eru dapurlegar staðreyndir. En þetta er áætlun ríkisstj. Þetta er sú lausn, sem þeir leggja fram. Þetta er sá grundvöllur, sem þeir segja, að menn verði að sætta sig við. Dettur nokkrum manni í hug, að þetta geti staðið stundinni lengur, og hvað hefur skeð? Þetta er ömurleg niðurstaða. (Gripið fram í: Hvað sagði hv. þm. að væru vextir af meðalíbúð?) Ég sagði, að vextir af meðalíbúð væru 100 þús. kr. eða svo. Vextirnir eru í kringum 10%, ef við reiknum með venjulegum viðskiptavöxtum. Ég veit ekki, hvort meðalíbúð kostar eina millj., kostar kannske meira. Kannske fjarstæða að tala um, að meðalíbúð kosti eina millj. Kannske mætti segja, að meðalvextir væru 8% frekar en 10% og íbúðarverðið frekar 1.2 millj. en 1 millj. Svipað kemur út. En þetta er ekkert fjarri lagi, því miður.

Það má vel vera, að bæði ráðh. og öðrum hafi aldrei dottið í hug að hugleiða svona atriði. Þetta er komið í hörmulegt óefni og menn hljóta að sjá, að það er eitthvað mjög alvarlegt að.

Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og halda, að áætlanir, sem eru grundvallaðar á þessu, geti staðizt. Þær geta ekki staðizt. Menn verða að gera svo vel og fara heim og læra betur, enda liggur það nú fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til að fara alveg eftir þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf. Hún hefur ekki lagt hér fram enn þá frv. um að banna hækkun vísitölubóta, eins og boðað var. Ég veit ekkert, hvað hefur komið fyrir eða hvað gerir þetta að verkum, en ég get alveg eins ímyndað mér, að menn sjái, að þessar hugmyndir eru í raun og veru ekki framkvæmanlegar. Og þætti mér það ekkert einkennilegt. En svo er eftir að skipta um leiðir, því að þetta eru ekki þær leiðir, sem hægt er að fara. Það verður að fara nýjar leiðir út úr þessum vanda.

Ég skal ekki fara fleiri orðum almennt um þessi mál. Ég vil að lokum minnast á einn sérstakan þátt í þessu frv. og það er sá þáttur, sem lýtur að síldveiðunum. Eins og ég veit, að hv. þm. hafa tekið eftir, er ætlazt til þess, að það verði haldið áfram að borga miklu hærra útflutningsgjald af síld en öðrum fiski, af síldarafurðum en öðrum sjávarafurðum, og það er gert ráð fyrir því að taka miklu meira af sameiginlegu verðmæti síldarafurða og leggja í sjóði til að standa undir afborgunum og vöxtum en af öðrum afurðum. Og yfirleitt er á allan hátt í þessu frv. gert ráð fyrir því, að síldveiðarnar búi við önnur og lakari skilyrði en aðrar fiskveiðar. Ég vil láta í ljósi þá skoðun mjög eindregið, að þetta er algerlega röng stefna eins og nú er komið. Síldveiðarnar eiga við slík vandkvæði að búa, eins og við vitum mjög vel, að það eru engin sanngirnisrök fyrir því lengur, að þær búi við lakari skilmála að þessu leyti heldur en aðrar veiðar. Ég veit, að það þýðir ekkert að flytja brtt. nú um að koma þessu í annað horf, en ég vil lýsa andstöðu minni við þá stefnu, sem kemur fram í frv. að þessu leyti og vil halda því fram, að eins og nú er komið málum, væri eðlilegt, að allur sjávarútvegur sæti við sama borð.