08.05.1969
Sameinað þing: 48. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

171. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., var lögð fram í Sþ. 11. marz s.l. Síðan hefur hún æði oft verið á dagskrá, en ekki unnizt tími til að ræða hana fyrr en nú. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta, aðeins nefna þetta sem dæmi um það, hvort ekki sé ástæða til að endurskoða starfshætti Sþ., því að það er orðið almannamál meðal þm., að þýðingarlaust sé að flytja þáltill. um mikilsverð og aðkallandi mál sökum þess, hversu lengi þær séu í meðförum Alþ., en nóg um þetta.

Till. til þál. á þskj. 336 um stækkun Fæðingardeildar Landsspítalans er flutt ásamt mér af hv. 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni, og hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeiri Bjarnasyni. Till. er á þessa leið:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til, að unnt verði að hefja sem allra fyrst byggingarframkvæmdir við stækkun Fæðingardeildar Landsspítalans, þar sem m.a. verði komið upp sérstakri kvensjúkdómadeild með fyllstu aðstöðu til nútíma geislalækninga.“

Ég tel út af fyrir sig ekki þörf á því að hafa um till. þessa langa framsögu. Málið hefur þegar borið á góma hér á hv. Alþ., en miklu meira vegur þó hitt til kynningar og framdráttar þess, hversu almennur áhugi hefur vaknað fyrir úrbótum á þessum 2 þýðingarmiklu sjúkrahúsdeildum. Ég leyfi mér að vísa til framlagðra skjala um ástandið þarna, bréfs frá Bandalagi kvenna, dags. 19. febr. s.l., og áskorun frá 218 ljósmæðrum, hjúkrunarkonum og starfsstúlkum á Landsspítalanum, dags. 7. febr. s.l., þar sem aðstæðum er lýst af þeim, sem bezt þekkja til.

Upphaf þess, að þetta mál er svo mjög komið í sviðsljósið, sem raun ber vitni, mun vera till., sem flutt var á fundi Bandalags kvenna, sem haldinn var í nóvembermánuði s.l. Í örstuttu máli eru staðreyndir þessar: Aðeins 16 rúm eru á einu kvensjúkdómadeild landsins. Um það segir í skýrslu, sem ég hygg, að öllum hv. þm. hafi borizt, að í fyrsta lagi sé deildin skylduð með lögum til að sinna vönunum og fóstureyðingum 100 sjúklinga árlega. Auk þess eru sjúklingar með krabbamein í móðurlífi sendir deildinni af öllu landinu. Með skipulagðri leit á vegum krabbameinsfélaganna aukast líkurnar á því að finna þennan sjúkdóm á viðráðanlegu stigi. Í öðru lagi getur deildin ekki sinnt sjúklingum og í þriðja lagi eru ekki nema 10 rúm fyrir sjúkdóma meðgöngutímans, sem er tæpur helmingur af þörf, eftir því sem í áðurnefndri skýrslu segir. 27 rúm eru fyrir sængurkonur, en deildin fær afbrigðilegar fæðingar af öllu landinu. Þar fer einnig fram mikil kennslustarfsemi, enda er yfirlæknir stofnunarinnar, Pétur Jakobsson, jafnframt prófessor við Háskóla Íslands. Aðstaða geislalækningadeildar er einnig afar slæm. Þar eru hvorki skoðunar– né viðtalsherbergi, engin aðstaða til ísótópalækninga, engin aðstaða til eftirrannsókna sjúklinga eða geislaáætlana eða geislamælinga. Röntgenbúnaður er ófullnægjandi og árangur meðferðar á t.d. krabbameini í móðurlífi lakari, en víða annars staðar gerist, þar sem aðbúnaður er betri í nágrannalöndum okkar. Ennfremur þarf að koma fyrir nýjum kóbalttækjum, sem Landsspítalanum eða þessari deild hafa borizt að gjöf og miklar vonir eru við bundnar. Þeim sýnist bezt verða fyrir komið í nýrri byggingu og sú bráðabirgðalausn, sem horfið hefur verið að, á ekki fylgi að fagna meðal þeirra, sem bezt þekkja til þessara mála.

Ég leyfi mér ennfremur að vísa til greinar í Læknablaðinu eftir Guðmund Jóhannesson, sérfræðing í kvensjúkdómum, ræðu eftir dr. Gunnlaug Snædal, sem haldin var á afmæli krabbameinsfélagsins og birtist í Morgunblaðinu á sínum tíma. Þá er ennfremur óhjákvæmilegt í þessu sambandi að minna á viðtal, sem fram fór í sjónvarpsþætti fyrir að ég hygg 10 dögum, þar sem fram kom sérfræðingur við Fæðingardeildina, Guðmundur Jóhannesson, og ásamt honum Steinunn Finnbogadóttir ljósmóðir og stjórnandi þáttarins, Eiður Guðnason fréttamaður. Þarna var á hógværan, en mjög sannfærandi hátt lýst því, hvaða ástand ríkir í þessum deildum. Um Fæðingardeildina t.d. sagði sérfræðingurinn, að þar væri ekkert móttökuherbergi. Þar væri ekkert aðgerðarherbergi, á sama gangi væru aðeins tvö salerni fyrir 25 konur, á einum gangi. Gerðar væru 960 aðgerðir á skurðstofunni, auk minni háttar aðgerða. Aðspurður sagði hann, að mjög óheppilegt væri að hafa saman fæðingaraðgerðir og krabbameinsaðgerðir, og hann sagði, að það fullnægði ekki nútímakröfum um hreinlæti, að hafa þessar aðgerðir á sömu skurðstofunni. Um húsnæðið sagði hann að lokum, að það væri á mörkum þess, að hægt væri að nota það. Þá sagði hann ennfremur, að engin setustofa væri þarna og afleiðing þess væri m.a. sú, að konur færu minna fram úr en æskilegt væri, en eins og allir hv. þm. vafalaust vita, þá er það kenning nútímans, að sængurkonur eigi að hafa fótavist sem allra fyrst og þær muni frekar komast til heilsu á ný með því móti. Þá var sérfræðingurinn spurður að því, hvort krabbameinssjúklingar hefðu þurft að bíða. Þeirri spurningu svaraði hann afdráttarlaust játandi og sagði um leið, að það væri algerlega óverjandi. Og hann bætti því við, að það er svartur blettur á heilbrigðisþjónustu okkar, að þær konur, sem ekki er hægt að lækna, geta hvergi verið. Þessum konum er komið fyrir á ýmsum stöðum, þar sem aðstaða til hjúkrunar er misjafnlega góð, en þessir sjúklingar þurfa einmitt sérstaklega mikla hjúkrun. Þeirri spurningu var beint til læknisins, hvernig á því stæði, að heilbrigðisyfirvöldin virtust ekki hafa vitað um það, fyrr en í fyrra, hvernig ástatt var á þessum deildum. Svar hans við þessari spurningu var svona: „Sambandið milli heilbrigðisstjórnar og lækna er lélegt, hverjum sem um er að kenna.“ Það kom fram í samtalinu, að Fæðingardeildin á að fá til afnota nokkur rúm í Landsspítalanum. Í tilefni af því kom fram þessi spurning: „Breytir það nokkru um það, að skjótra aðgerða sé þörf?“ Svar læknisins var: „Það sé ég ekki, þetta er neyðarlausn.“ Sérfræðingurinn var spurður um, hvað deildin þyrfti að vera stór. Svar hans var þetta: „Helmingi stærri, 100–200 rúm.“ Og hann bætti því við, að búið væri að vera ljóst síðan 1956 að deildin væri of lítil. Um kostnaðinn var áætlun hans sú, að það mundi þurfa 60 millj. til þess að gera þessa byggingu vel úr garði. Við fyrri umr. um þessi mál á hv. Alþ. nefndi ég töluna 30 millj., sem ég hafði heyrt eftir einhverjum sérfræðingum, ég man ekki vel eftir hverjum. Það er gömul tala og mér finnst það ekkert ósennilegt, að sú 30 millj. kr. tala, sem ég nefndi, geti eftir síðustu verðbreytingar verið orðin að 60 millj. Þannig hygg ég, að þessar tölur geti báðar átt við nokkur rök að styðjast og ekki er ólíklegt, að hér sé nærri farið um þann kostnað, sem leggja þarf í. Um það hvort taka þyrfti langan tíma að reisa þetta hús, sagði læknirinn, að hann teldi, að það mundi ekki þurfa. Nú væri hér um nóg vinnuafl að ræða, eins og við allir vitum og hann minnti á, að ljósmæðraskólabyggingin var reist á mjög skömmum tíma og framkvæmdir við hana voru til sérstakrar fyrirmyndar. Hann virtist gera sér vonir um, — ekki að ástæðulausu eflaust, — að hægt væri að endurtaka það afrek, ef fjármagn fengist til. Lokaspurningin var svo þessi: „Höfum við dregizt aftur úr í þessari grein?“ Svarið var alveg afdráttarlaust: „Já, við höfum gert það.“

Ég ætla ekkert að leggja út af þessu samtali, frekar en öðru því, sem ég kann að vitna til hér í þessari ræðu. Ég tel, að þess þurfi ekki. Það fólk, sem ég hef vitnað hér til, er allt starfandi við eða í tengslum við þessar deildir og þess vegna gæti einhver sagt sem svo, að þessu fólki hætti til að mála myndina dekkri en efni standa til, vegna þess að það gerir kröfur um bætta starfsaðstöðu og að það eigi frekar von á endurbótum, ef menn telji ástandið mjög alvarlegt. Vegna þessa ætla ég að leyfa mér, já og jafnframt vegna þess, að ég hef séð fullyrðingar Bandalags kvenna og lýsingar starfsstúlkna og ljósmæðra á Landsspítalanum dregnar í efa og talið, að það væri ekki rétt frá skýrt, — vegna þessa ætla ég að leyfa mér að leiða hér fram eitt vitni, sem með engu móti verður sakað um hlutdrægni af framangreindum sökum. Ég tel, að rétt sé að heyra hvað kona, sem engra hagsmuna á þarna að gæta umfram þá sameiginlegu hagsmuni okkar allra, sem felast í því að hafa heilbrigðismálin í góðu lagi, hefur að segja. Þessi kona, sem ég ætla að leyfa mér að vitna til, er frú Bjarnveig Bjarnadóttir. Í grein í Morgunblaðinu hinn 9. apríl lýsir hún því, að hún hafi þurft að leita sér lækninga á kvensjúkdómadeild Landsspítalans s.l. sumar og með leyfi forseta langar mig til að lesa úr þessari grein nokkrar setningar, en frúin segir á þessa leið:

„Við hlið mér lá miðaldra bóndakona. Í nokkrar vikur beið hún eftir spítalaplássi og lá á meðan í blóði sínu heima hjá sér. Síðar lá við hlið mér önnur kona, sem einnig hafði beðið fleiri vikur eftir plássi og líkt var ástatt með. Slík bið er margri konunni andleg ofraun, því að oft vill sá grunur og kvíði gera vart við sig, þegar um óeðlilegar blæðingar er að ræða, að alvara sé á ferð. Mér var tjáð að biðtími sjúklinga væri oftast nokkrar vikur, gæti orðið mánuðir og ósjaldan mun það hafa komið fyrir, að læknar deildarinnar hafi orðið að útvega konum utan af landi, sem enga áttu að hér í borginni, gistingu á hótelum, meðan þær biðu eftir spítalaplássi.

Kvensjúkdómadeildin er furðuleg deild. Sami rúmafjöldi er þar nú og var í upphafi, 16 að tölu fyrir allt landið, engu við bætt, þrátt fyrir mikla fjölgun landsmanna á þessum árum. Og rúmleysi deildarinnar veldur því, að þar ægir saman konum með hin margvíslegustu mein, afbrigðilega vanfærum konum, sem bíða þess að stundin nálgist, og ungbörnum. Spítalagangurinn er eina athvarfið fyrir þær konur, sem rólfærar eru stund úr degi, og óvíða á einkaheimilum munu vera rúmminni salerni en þarna, aðeins tvö fyrir sjúklingana. Oft er því erfitt að komast að á morgnana. Og á deildinni var undarlegur og óþægilegur súgur, þegar vind hreyfði úti.

Oft dáðist ég að hjúkrunarliðinu, sem lagði sig fram um að hlynna að sjúklingunum við hin erfiðustu vinnuskilyrði.“

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hin síðustu ár hefur margt áunnizt í heilbrigðismálunum, en Fæðingar– og kvensjúkdómadeildin virðast hafa gleymzt á veltuárunum. En nú álítum við konurnar, að komið sé að skuldadögunum.

Í umr. þeim á Alþ., sem nýlega fóru fram um þessar gleymdu deildir, er biðtíminn áætlaður nokkur ár, þar til hægt verður að hefjast handa um nýbyggingu eða þar til fullnaðarskipulag Landsspítalalóðar og Hringbrautar er lokið, en til bráðabirgða verður byggt yfir hin dýrmætu kóbaltgeislatæki við hlið röntgendeildarinnar. Sú bygging bætir á engan hátt úr rúmleysi kvensjúkdóma– og fæðingardeildarinnar. Konur geta ekki beðið eftir slíkum ákvörðunum í skipulagsmálunum. Hér þarf að hefjast handa strax. Þetta mál þolir ekki árabið, eins og nú er rætt um. Af samhug, skilningi og góðvild ber ráðamönnum þjóðarinnar að leysa þetta vandamál konunnar nú þegar, — alþm., stjórnvöldum og öðrum þeim, sem þessum málum ráða og ég hef þá bjargföstu trú, að það muni þeir gera.“

Þessi umsögn talar alveg fyrir sig. Ég ætla heldur ekki að leggja út af henni. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli þarna á tveim orðum úr greininni.

Frúin talar um þessar „gleymdu deildir.“ Ég hygg, að tæpast verði þær betur einkenndar í stuttu máli en þarna er gert. Þær eru gleymdar. Í skýrslu, sem borgarlæknirinn í Reykjavík birti í janúarmánuði s.l. um athugun á sjúkrarúmaþörf í Reykjavík árið 1970, segir, með leyfi forseta:

„Í þeirri von að geta dregið upp nokkra mynd af sjúkrarúmaskortinum, eins og hann lýsir sér í Reykjavík á einum ákveðnum degi, var öllum læknum borgarinnar, sem hugsanlegt var að stunduðu einhverja sjúklinga, alls 160, sent blað með spurningum, sem þeir voru beðnir að svara. Spurt var, hversu margir sjúklingar búsettir i Reykjavík, sem læknirinn hafði rannsakað og/eða stundað, þyrftu sjúkrahúsvistunar við miðvikudaginn 25. október 1967. Beðið var um auðkenni sjúklings, nafn, upphafsstaf, fæðingardag og ár til þess að geta fylgzt með því, ef sami sjúklingurinn yrði talinn hjá fleirum en einum lækni. Svör bárust frá 137 læknum. Um vistunarþörf sjúklinga búsettra í Reykjavík á almennum sjúkrabúsum þann 25. október 1967 upplýstu læknar eftirfarandi og eru þá aðeins taldir þeir sjúklingar, sem auðkenndir voru og fylgzt var með, að ekki væru tvítaldir: barnadeild 11, lyflæknadeild 56, skurðlækningadeild 133, kvensjúkdómadeild 75, aðrar sérdeildir 14, almenn sjúkrahús alls 289.“

Síðan hefur borgarlæknir reynt að hafa til hliðsjónar tölur frá hinum Norðurlöndunum um sjúkrarúmaþörfina og segir síðar í skýrslunni:

„Þegar bornar eru saman meðaltalstölur frá Norðurlöndum og heildartala sjúkrarúma, eins og hún verður í Reykjavík árið 1970, þá virðist sem hér ættu að verða á þeim tíma nægilega mörg rúm á almennum spítölum, þótt deila megi um skiptingu sjúkrarúma í deildir. Er þá ekki horft fram í tímann, en breyta þarf sí og æ tölum þeim, sem rúma þörfin er miðuð við, eftir því sem íbúafjöldi, sérstaklega í borginni sjálfri og nágrenni hennar, hlutfall aldursflokka og aðrar aðstæður breytast.“

Þrátt fyrir það sem framangreindar heildartölur leiða í ljós , búum við hér eins og er við nokkurn skort á sjúkrarúmum í almennum spítölum, sem er heldur ekki óeðlilegt. Í umræddum tölum frá Reykjavík eru meðtalin 32 rúm, sem standa nú fullbúin í Borgarspítalanum, en ekki tekin í notkun vegna skorts á hjúkrunarliði, 31 rúm verður fullbúið þar á næsta ári og 92 rúm í Landsspítalanum, sem verða væntanlega að fullu tilbúin árið 1970. Ekki hefur tekizt að afla sambærilegra upplýsinga frá hinum Norðurlöndunum fjórum um skiptingu í sérdeildir á öllum sviðum og rúmafjölda í þeim, en þetta skiptir ekki verulegu máli í þessu sambandi, en síðar segir: „Ef draga skal ályktanir af áætlunum frændþjóða okkar á Norðurlöndum um þörf þeirra fyrir sjúkrarúm í almennum spítölum og jafnframt hafðar í huga niðurstöður könnunar þeirrar um vistunarþörf reykvískra sjúklinga, sem fram fór í Reykjavík 25. október 1967, kemur þetta helzt til athugunar.“

Eins og áður er sagt, eru horfur á, að heildartala almennra sjúkrarúma í Reykjavík verði nægjanleg um það leyti, er þeim byggingarframkvæmdum lýkur, sem nú eru í gangi við sjúkrahúsin hér í borginni, en skiptingu þeirra í sérdeildir er hins vegar áfátt. En hafa verður í huga, þegar þetta er fullyrt, að 150 sjúkrarúm hafa enn ekki verið tekin í notkun og það má halda vel áfram til 1970, ef þessi áætlun á að standast. En um kvensjúkdómadeildina segir borgarlæknir:

„Einasta kvensjúkdómadeildin, sem til er hér, er of lítil og býr við mjög ófullnægjandi aðstæður. Hana þarf að stækka og e.t.v. að koma upp annarri kvensjúkdómadeild.“

Niðurstaða þessarar könnunar er því sú, að miðað við, að vel takist til um að ljúka þeim sjúkrahúsframkvæmdum, sem þegar er byrjað á, þá verði nægilega mörg almenn sjúkrarúm í Reykjavík árið 1970 til þess að standast þær kröfur, sem gerðar eru á hinum Norðurlöndunum, en til þess að komast til jafns við það, sem aðrar þjóðir gera kröfur til um kvensjúkdómadeildir, þurfum við að bæta við 50— 100% miðað við það, sem nú er fyrir hendi. Það er því ekki nema von, að fólk, sem þessi mál hefur kynnt sér, tali um gleymdu deildirnar á Landsspítalanum þegar það á við fæðingardeildina og kvensjúkdómadeildina.

Í ræðu, sem hæstv. heilbrmrh. hélt hér um þetta mál um daginn, kom fram, að m.a. væri ekki unnt að byggja nýtt hús fyrir Fæðingardeild og Kvensjúkdómadeild, vegna þess að skipulag á Landsspítalalóð væri óráðið og í athugun. Um þetta atriði langar mig til að rifja upp viðtal, sem birtist í dagblaðinu Tímanum miðvikudaginn 16. apríl s.l., en þar er í alllöngu máli, sem ég mun ekki rekja nærri allt, átt viðtal eða rætt við dr. Gunnlaug Snædal lækni og Guðmund Jónsson eðlisfræðing. Með leyfi forseta ætla ég að minna á örfá atriði úr þessu samtali. Dr. Gunnlaugur Snædal segir:

„Mín afskipti af þessu máli hófust raunverulega ekki fyrr en 1966 í sambandi við læknadeiluna þá. Ásamt fleiri læknum sagði ég þá lausu starfi mínu við sjúkrahúsið, m.a. vegna ófullnægjandi vinnuaðstöðu. Í sambandi við læknadeiluna komu fram ákveðnar hugmyndir vegna þess neyðarástands, sem var og er á Fæðingardeildinni. Fólust þær í því, að sameina bæri þessar eldri till. og vandi beggja deildanna, Fæðingardeildarinnar og Geislalækningadeildar, yrði leystur þannig, að viðbótarbyggingar mynduðu samtengingu á milli gamla Landsspítalans og Fæðingardeildarinnar. Yrði þá gengt á milli húsanna beggja, en eitt af aðalvandamálum Fæðingardeildarinnar er, að þaðan skuli ekki vera neinn beinn samgangur við aðalrannsóknadeildir spítalans. Þá sjúklinga, sem þangað þurfa að fara, verður að flytja á milli í bílum og valda þeim oft og tíðum óæskilegu hnjaski. Er hér um að ræða marga sjúklinga, því að fjórðungur sjúklinga geislalækningadeildarinnar kemur frá fæðingar– og kvensjúkdómadeildinni. Einnig er allur matur fluttur til Fæðingardeildarinnar í bílum frá aðalsjúkrahúsinu.

Ég var kallaður fyrir nefnd þá sem heilbrmrh. skipaði til að kanna orsakir óánægju læknanna, á Þorláksmessu 1966 og skrifaði í því tilefni grg., þar sem þessi samræmda till. kom fram. Eins og vel kom fram í ræðu Jóhanns Hafstein heilbrmrh. á Alþ. miðvikudaginn 26. marz s. l., sem var svar við fsp. um stækkun Fæðingardeildarinnar og aðstöðu til nútíma geislalækninga, var þennan sama vetur ákveðið að gera gangskör að því að ganga frá framtíðarskipulagi Landsspítalalóðarinnar, en allt fram til þess hafði verið byggt á lóðinni eftir því sem þörf var fyrir á hverjum tíma, en ekki með framtíðarskipulag í huga.“

Síðan lýsir læknirinn því, sem gerðist þarna og þeim sérfræðingafundum, sem haldnir voru, en síðan segir í umræddu viðtali, með leyfi hæstv. forseta:

„Að okkar áliti“, sögðu þeir Gunnlaugur Snædal og Guðmundur Jónsson, „var hér um mjög ánægjulega samvinnu að ræða og við teljum, að á þessum fundum hafi hillt undir mjög hagkvæma lausn. Í stuttu máli má segja, að till. væru nokkuð svipaðar því sem áður var lýst. Viðbótin við Fæðingardeildina í áttina að Landsspítalanum var hús með fæðingarstofum og skurðstofum og tveimur legudeildum, önnur fyrir kvensjúkdóma, en hin fyrir sængurkonur. Í tengibyggingu á milli þessa húss og gamla Landsspítalans var síðan hugsuð geislalækningadeild, þar sem skyldi ekki aðeins vera aðstaða fyrir kóbalttækið heldur einnig fullkomnar aðstæður fyrir radíum geymslu og meðferð svo og aðrar ísótópalækningar, er nútíma geislalækningadeild krefst. Í þessum hugmyndum var alltaf miðað við mjög hóflega stærð á báðum þessum deildum, en möguleikar á framtíðarstækkun, ef á þyrfti að halda. Reiknað var með að fullnýta það húsnæði, sem þegar hefur verið byggt og ýmsar lagfæringar á Fæðingardeildinni; svo sem bætt húsakynni Ljósmæðraskólans, sem nýlega voru tekin í notkun, mundu þá nýtast fyllilega. Hvergi höfðu á þessum tíma komið fram raddir um, að þessar byggingar gætu staðið á nokkurn hátt í vegi fyrir framtíðarskipulagi Landsspítalalóðarinnar, enda hefur aldrei heyrzt talað um, að nokkrar aðrar byggingarframkvæmdir hefðu komið til álita á því svæði sem hér um ræðir. Hér væri nánast um að ræða að bæta það, sem þegar er til. Við töldum ekki, að við hefðum ráð á því að afskrifa gamla fæðingarhúsið, heldur ætti að gera það eins vel úr garði og aðstæður leyfa á þessum stað.

Við höfum gert okkur ljóst, að ef ráðast ætti í þessar byggingarframkvæmdir, þyrfti að gera sérstakt átak í fjármálum sjúkrahússins, en við teljum, að þörfin sé svo brýn fyrir þessar úrbætur í heilbrigðismálum, að ekki sé réttlætanlegt að láta þær bíða eftir öðrum fjárveitingum til Landsspítalans.

Við höfum aldrei farið leynt með þá skoðun okkar, að þessi lausn væri betri, en sú bráðabirgðalausn, sem nú hefur verið valin. Ennfremur eygðum við þann möguleika að ráðast ekki í alla bygginguna í einu, heldur byggja fyrst yfir kóbalttækið og yrði það húsnæði upphaf að framtíðarbyggingunni. Hafa skal í huga, að bygging yfir kóbalttækið er ekkert venjulegt hús. Veggir þess þurfa t.d. að vera allt að metersþykkir og talsverð vinnuaðstaða þarf að vera í kringum tækið.

Í þeirri bráðabirgðalausn, sem nú hefur verið valin, eru engir stækkunarmöguleikar fyrir hendi á þeim stað og ýmsir aðrir áríðandi þættir geislalækninga verða enn að bíða um óákveðinn tíma.“

Að lokum sögðu þeir Gunnlaugur Snædal og Guðmundur Jónsson:

„Höfuðágreiningurinn í dag er um, hvort nauðsynlegt sé að bíða eftir heildarskipulagi Landsspítalalóðarinnar og læknadeildarhúsnæðis sunnan Miklubrautar, eins og nú er rætt um, eða hvort unnt sé að hefjast þegar handa um framtíðarlausn þessara deilda vegna þess sérstaka vanda, sem þær eiga við að stríða og gerir alla bið óréttlætanlega.“

Þetta er þá sagan um það, hvernig menn komust að því seint og um síðir, að vegna skipulagsleysis á Landsspítalalóðinni væri ekki hægt að framkvæma áform, sem búin voru að standa til í 12 ár. Ég get ekki séð, að sú ringulreið, sem ríkir á Landsspítalalóðinni nú þegar, mundi vaxa neitt verulega, þó að byggt yrði húsnæði á stærð við það, sem þessir sérfræðingar hafa hugsað sér að mundi þurfa að koma til, til þess að bæta aðstöðu þessara deilda. Og jafnvel þó að þrengdist eitthvað um á lóðinni, þá held ég, að ástæðurnar séu þannig vaxnar nú, að það yrði að hafa það, þó að þrengdist eitthvað um þarna.

Þetta mál, sem hér er um rætt, hefur vakið alþjóðarathygli. Um það vitnar sá fjöldi áskorana, sem Alþ. hefur borizt og eru enn að berast frá ýmsum félögum og samtökum víðs vegar um land til Alþ. og að ég hygg örugglega líka til heilbrigðisstjórnarinnar og hæstv. heilbrmrh. um að taka myndarlega á þessu máli.

Ég hef áður sagt það hér og ætla að segja það aftur, að eftir að ég hef átt þess kost að skoða allar aðstæður á þessum deildum og ræða við fólkið, sem þarna vinnur, er ég alveg sannfærður um, að hvergi í heilbrigðismálum landsmanna er brýnni þörf á lagfæringum en einmitt hér.

Ég vonast til þess, að hæstv. heilbrigðisstjórn játi það, sem augljóst er raunar. að hér er um tvær gleymdar sjúkrahúsdeildir að ræða og hún bregðist við eins og menn eiga að gera, þegar þeir eru minntir á eitthvert brýnt erindi, sem þeir hafa gleymt, þ.e. að gera það strax og bæta strax fyrir gleymskuna. Ég segi eiginlega ekkert frá eigin brjósti við þessa 1. umr. Ég hef tekið þann kost að láta þessi viðtöl og blaðagreinar sérfróðra manna, fróðustu manna í þessum efnum, tala fyrir till.

Ég vona svo að lokum, að hv. alþm. greiði fyrir þessari till., þannig að hún nái fram að ganga á þessu þingi og vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.