08.05.1969
Sameinað þing: 48. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

171. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa efnt til þessa sérstaka aukafundar í Sþ. um það mál, sem hér er á dagskrá, en það gerir hann að minni beiðni, því að ég átti viðtal við alla forseta þingsins í gær, bæði hér í Sþ. og forseta deilda, til þess að það stangaðist ekki á við önnur störf þingsins og óskaði eftir því, að til þessa aukafundar væri boðað. Ástæðan til þess var sú, eins og hér hefur komið fram, að sú þáltill., sem hér er rædd, er búin að liggja mjög lengi fyrir þinginu og verið oft á dagskrá, en hefur ekki getað komið til umræðu og það fyrst og fremst vegna þess, að hér hafa verið sífelldar umræður um fsp., sem hafa gengið svo úr hófi á þessum vetri, að það má með sanni segja, að í raun og veru hafi það sett alveg úr skorðum störf Sþ. Ég held, að öllum hv. þm. sé orðið fyllilega ljóst, einmitt af þessum ástæðum, að það sé alveg óhjákvæmilegt að breyta þingsköpum Alþ. að þessu leyti, hvað sem öðrum breytingum á þingsköpunum líður, sem hins vegar hafa verið til meðferðar hjá þm., eins og kunnugt er.

Hér er um mjög mikið og vandasamt og einnig viðkvæmt mál að ræða. Ég get sagt það strax um efni þáltill., að ég hef ekki nokkurn minnsta hlut við það að athuga. En það er hins vegar að mínum dómi, þó að ég skuli láta það algerlega afskiptalaust, algerlega þýðingarlaust, því að það er engin þörf á því að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir, til að unnt verði að hefja sem allra fyrst byggingarframkvæmdir við stækkun Fæðingardeildar Landsspítalans, þar sem m.a. verði komið upp sérstakri kvensjúkdómadeild með fyllstu aðstöðu til nútíma geislalækninga. Það mun koma fram af mínu máli, að þess vegna er þessi till. alveg óþörf. En auðvitað fer ég ekki að amast við því, hvort hún verður samþykkt eða ekki, en hún hefur engin áhrif á gang málsins og herðir ekki neitt á stjórnvöldum eða heilbrigðisstjórninni í þessu máli, því að við höfum fyrir löngu ákvarðað, að þær byggingarframkvæmdir, sem hér er um að ræða, hefðu forgang, þegar nýbyggingar hæfust á Landsspítalalóðinni, og kem ég að því síðar.

Því miður hefur slæðzt inn í umr., — bæði opinberar umr. um þetta mál og umr. manna á milli um þörf á stækkun Fæðingardeildarinnar, um aðbúnaðinn á Fæðingardeildinni og þörf nýrrar kvensjúkdómadeildar og geislalækninga, — mjög margháttaður misskilningur. Ég tel, að það sé höfuðnauðsyn í dag til framgangs málefnisins sjálfs að eyða slíkum misskilningi, að eyða sérhverjum getsökum og tortryggni milli kvenna og heilbrigðisstjórnar, fyrirsvarsmanna Landsspítalans, svo sem yfirlækna deilda, stjórnarnefndar og byggingarnefndar spítalans, en hins vegar beri að leggja allt kapp á að sameina alla beztu krafta til átaka að því marki, sem stefna ber að, að öll aðstaða og skilyrði til kvensjúkdómalækninga hér á landi geti orðið til fyrirmyndar.

Ég verð víst að eyða örstuttum tíma þingsins í að minnast nokkuð á bréfaskipti, sem ég hef átt í sambandi við þetta mál. Á fyrra stígi þessa máls, í fyrirspurnatíma hér á Alþ., var vitnað til bréfs, sem starfsfólk Landsspítalans hafði sent mér og Alþ., þ.e. hjúkrunarkonur, ljósmæður, nemar og starfsfólk, og undir höfðu skrifað á þriðja hundrað þessa fólks. Ég sagði í fyrirspurnatímanum, að það væru því miður missagnir í þessu bréfi. Ég gerði þær ekki verulega að umtalsefni, en sagðist mundi svara bréfriturunum og leiðrétta þær missagnir. Þetta gerði ég með bréfi dags. 31. marz s.l. Ég hef síðan móttekið bréf frá umboðsmönnum undirritaranna á fyrra bréfinu, eða 7 þeirra, sem komu og áttu viðtal við mig eða afhentu mér bréfið, án þess að við þá ræddum efni þess og ég hef heyrt það utan að mér, að þetta bréf mitt hafi farið eitthvað í taugarnar á sumum þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli og hafi verið fram úr hófi dónalegt eða eitthvað í þá áttina. Og einhver þykkja býr nú í fólkinu, því að það segir m.a. undir lok bréfsins:

„Undirritaðir urðu fyrir miklum vonbrigðum með bréf ráðh., þar sem við höfum hingað til talið hann hlynntan þessu máli, en verðum nú að efast um, að svo sé.“

Nú er sannleikurinn sá, að það hefur frá fornu fari verið talinn góður siður hér á landi að hafa það, sem sannara reynist, og þetta bréf mitt hefur valdið þeim vonbrigðum, að þetta góða fólk efast um, að ég hafi nokkurn áhuga fyrir heilbrigðismálunum lengur. Það eina, sem mér helzt finnst það geti verið óánægt yfir, er, að ég vek athygli á því, að missagnir séu í bréfinu. Og vegna þeirra missagna, sem séu í texta bréfsins, þá sé það útilokað, að undirskrifendurnir allir hafi getað haft aðstöðu til þess að kynna sér og vita skil á texta bréfsins. Ef maður skrifar undir eitthvað, sem er rangt, gerir maður það vegna þess, að maður veit ekki það rétta og hefur ekki aðstöðu til að meta textann. Mér er ekki kunnugt um, að þeir aðilar, sem hér skrifuðu undir, hafi gert tilraun til þess að afla upplýsinga um það, sem í bréfinu stendur, hvorki hjá skrifstofu landlæknis né í rn. Hvort þeir hafa gert það annars staðar, veit ég ekki. En þar sem svo mikið hefur um þetta verið talað, taldi ég rétt, að ég læsi það bréf, sem ég ritaði þessu góða starfsfólki. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Af tilefni bréfs þess, sem þér, virðulega yfirljósmóðir,“ — ég stílaði bréfið til fyrsta undirskrifanda, — „voruð fyrsti undirritari að og afhentuð mér og senduð Alþ. 7. febr. s.l. og síðan var undirritað af slíkum fjölda starfsfólks við Landsspítalann, ljósmæðrum, hjúkrunarkonum og öðrum starfsstúlkum, að útilokað má telja, að undirskrifendur hafi haft aðstöðu til að gera sér grein fyrir eða meta rétt þann texta bréfsins, er undirritaður er, skal eftirfarandi tekið fram:

Í bréfinu eru verulegar missagnir, svo sem ég vék að í umr. á Alþ. Því til staðfestingar sendi ég yður afrit af bréfi skrifstofustjóra, hr. Georgs Lúðvíkssonar.“

Og því bréfi skal ég nú skjóta hér inn í, en það hljóðar þannig:

„Með skírskotun til skjals þess, sem sent hefur verið til Alþ. af hjúkrunarkonum, ljósmæðrum, nemum og öðru starfsfólki Landsspítalans, þar sem vakin er athygli á húsnæðisþrengslum og annarri ófullnægjandi rekstraraðstöðu Fæðingardeildar Landsspítalans og sérstaklega bent á, að hús Fæðingardeildar hafi verið ófullgerð frá upphafi, að þau séu enn ótengd við aðalspítalann, eins og fyrirhugað hafði verið, og Fæðingardeildin sé eldhúslaus o.s.frv., vil ég taka fram: Núverandi byggingar Fæðingardeildar voru byggðar á árunum 1945–48, tók þá 4 ár að byggja það hús og 1967–68. Húsameistari ríkisins sá um framkvæmdir við smíði bygginganna 1945–48 og gerði einnig uppdrætti að þeim. Mér er ekki kunnugt um annað en smíði bygginganna 1945–48 hafi verið lokið að fullu, áður en starfstími hófst í þeim 1. jan. 1949. Ekki er mér kunnugt um, að þá hafi nokkrar till. legið fyrir um að tengja Fæðingardeildina við aðalspítalann. Hugmyndin um tengingu bygginganna kom fyrst fram eftir að núverandi byggingarn. Landsspítalans kom til sögunnar.“ — Hana skipaði ég í febrúarmánuði 1965. — „Þá er mér ekki heldur kunnugt um, að sú hugmynd hafi nokkurn tíma skotið upp kollinum, að byggja ætti séreldhús fyrir Fæðingardeildina eða aðrar einstakar deildir Landsspítalans. Þessi hugmynd fær heldur ekki staðizt, þegar litið er á þróun á nútímatækni á þessu starfssviði. Í Svíþjóð, Bandaríkjunum og víðar er sú þróun í örum vexti, að byggt er eitt eldhús fyrir mörg sjúkrahús og maturinn fluttur marga tugi kílómetra frá eldhúsi til sjúkrahúsanna. Má því gera ráð fyrir þeirri þróun hér innan ekki langs tíma, að ríkisspítalarnir starfræki aðeins eitt eldhús fyrir sínar stofnanir og jafnvel, að fleiri aðilar sameinist um slíka lausn í þessu máli.“

Hér lýkur bréfi skrifstofustjórans, en áfram heldur bréf mitt:

„Ennfremur leyfi ég mér að senda yður afrit af yfirliti verkfræðingsins, hr. Rögnvalds Þorkelssonar, um þær endurbætur á Fæðingardeild Landsspítalans, sem nýlega hafa verið framkvæmdar og væntanlega hafa haft nokkurt gildi og ekki mundi hafa sakað að geta í umvöndunarbréfi yðar. Loks sendi ég yður til viðbótar eftirfarandi gögn: Í fyrsta lagi grg. landlæknis um þróun sjúkrahúsabygginga, sjúkrarúmafjölda og sjúkrarúmaþörf í landinu. Í öðru lagi grg. húsameistara ríkisins um athugun á Landsspítalalóð á árunum 1967—1968.

Ekki teldi ég skaða, þótt eitthvað af með undirriturum yðar kynnti sér þessi gögn, ef þeir skyldu hafa einhvern áhuga á því.

Að lokum vil ég taka fram, svo sem ég hef sagt í viðtölum við yður og fleiri, að það hefur lengi verið ákvörðun heilbrigðisstjórnar landsins, að forgangsframkvæmdir á eftir því, sem nú er verið að ljúka við af byggingu Landsspítalans, væru stækkun Fæðingardeildarinnar og ný geislalækningadeild, ásamt sérstakri kvensjúkdómadeild og byggingu geðsjúkdómadeildar.“

Þetta er nú þetta umtalaða bréf, og skal ég svo ekki hafa fleiri orð um það, en ég vildi láta það heyrast hér í þingsölunum. Geta menn þá metið það hver og einn fyrir sig.

Ég ritaði einnig Bandalagi kvenna bréf af því tilefni, að nafn þess hafði nokkuð af misgáningi hjá mér blandazt inn í umr. hér í fsp.–tímanum áður á þinginu og bað ég afsökunar á því, enda hafði ég gert ráðstafanir til þess, að það væri leiðrétt í frásögnum þingfrétta og blaða. Ég lýk bréfinu þannig, en það er m.a. um kvensjúkdómadeild:

„Geislalækningar eru í samræmi við áform heilbrigðisstjórnarinnar. Vér munum kappkosta hinn ýtrasta hraða í framkvæmdum og þökkum yður fyrir áherzlu og brautargengi í málinu.“

Hv. 11. þm. Reykv. vék að því, að borizt hefðu mörg bréf frá kvennasamtökum og þá væntanlega einnig til heilbrmrh. eða heilbrigðisstjórnarinnar. Af því tilefni vil ég geta þess, að mér hafa borizt tvö bréf um þetta mál, annað frá Kvenfélagasambandi Kópavogs og hitt frá stjórn Sambands austfirzkra kvenna, en báðir aðilarnir leggja áherzlu á, að hraðað verði byggingu nýrrar fæðingardeildar og kvensjúkdómadeildar. Þessum tveimur bréfum, sem mér hafa borizt, hef ég svarað og ég hef ítrekað þar margendurteknar yfirlýsingar, að það er staðfastur vilji heilbrigðisstjórnarinnar, að byggt verði húsnæði fyrir kvensjúkdómadeild hið fyrsta með stækkun Fæðingardeildar Landsspítalans og það verði sú sjúkradeild, sem forgang hefur, er tekið verður til við frekari nýbyggingar á Landsspítalalóðinni að skipulagi hennar frágengnu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um það, en eins og ég sagði áðan, er auðvitað aðalatriðið að sameina öll beztu öfl til aðgerða í þessu máli, bæði að framtíðarskipulagi, framtíðarbyggingu og til þeirra úrræða, sem þegar er hægt að taka til við, til þess að bæta úr því, sem aflaga hefur farið og því, sem er ekki í því ástandi, sem það ætti að vera, en væri hægt að bæta úr.

Ég átti um það viðræður við landlækni og bað hann að gangast fyrir því að athuga gaumgæfilega, hvort virkilega væri ekki hægt að hagnýta betur það húsnæði Landsspítalans, sem nú er fyrir kvensjúkdóma. Landlæknir tjáði mér um árangurinn af þessu starfi sínu með bréfi 16. apríl, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarið hefur landlæknir ásamt framkvæmdastjóra ríkisspítalanna unnið að því að tryggja enn frekar en verið hefur sjúkrarými í Landsspítala fyrir þá sjúklinga með kvensjúkdóma, sem ekki þola bið. Hefur samkomulag náðst um, að handlæknisdeild sjúkrahússins taki að sér að annast nokkurn hluta þessara sjúklinga fyrst um sinn ásamt læknum kvensjúkdómadeildarinnar. Er fyrirhugað, að þetta samstarf deildanna haldist, unz upp hefur verið komið nýrri kvensjúkdómadeild. Að sjálfsögðu má gera ráð fyrir, að biðtími ýmissa annarra sjúklinga aukist hlutfallslega, unz þær sjúkradeildir, sem nú eru í smíðum, verða teknar í notkun.“

Hér lýkur þessu bréfi. Nú er eðlilegt, að menn kynnu að spyrja: Hvaða þýðingu hefur þetta samstarf? Reyndar gætum við líka spurt: Þurfti ráðh. að hafa afskipti til þess að koma svona samkomulagi á milli lækna innan Landsspítalans? Ég læt þeirri spurningu ósvarað. En því miður hef ég orðið var við og heyrt það, að þetta hafi reyndar litla sem enga þýðingu. M.a. er því haldið fram, að aðrar aðgerðir hafi flutzt frá handlæknisdeildinni til Fæðingardeildarinnar eða kvensjúkdómadeildarinnar, sem uppvegi þetta. Við könnun á því hefur þó komið í ljós, að þær aðgerðir gera ekki kröfur nema til eins til eins og hálfs rúms, en það hafa þegar verið tekin i notkun í handlæknisdeildinni sex rúm fyrir þessa kvensjúkdóma, sem ekki þola bið, og það er ásetningur heilbrigðisstjórnarinnar, að sá biðlisti sem hefur verið af þessum sjúklingum og sem er, eftir því sem mér er tjáð í dag, 20 sjúklingar, að hann hverfi innan tíðar og á ég þar við innan nokkurra vikna. Ef þetta nægir ekki, þá verður bætt við fleiri rúmum í handlæknisdeildinni. Það er svo einnig framundan að hraða byggingarframkvæmdum við Landsspítalann og þar er um að ræða þrjár hæðir, sem hægt er að ljúka á mjög skömmum tíma. Þar er bæklunardeild, heil hæð, sem kemur til afnota, en margir slíkir sjúklingar liggja á handlæknisdeildinni. Með því að hraða framkvæmd hennar væri hægt að skapa töluvert mikið meira rúm á handlæknisdeildinni fyrir kvensjúkdóma, meðan fullkomin kvensjúkdómadeild í sérdeild eða sérstakri Fæðingardeild hefur ekki verið komið upp. Þetta eru því að mínum dómi verulegar úrbætur.

Ég fór þess á leit við atvinnumálanefnd ríkisins, hvort hún gæti lánað 10 millj. kr., sem talið var þurfa til þess að ljúka þessum þremur hæðum í Landsspítalanum og hvort það gæti samrýmzt hennar lánveitingum frá því sjónarmiði, að það væri um verulega mikla vinnu fyrir iðnaðarmenn að ræða, sem ella hefðu þurft að hætta vinnu þar. Við þessu hefur efnislega verið orðið og þetta 10 millj. kr. lán mun verulega greiða fyrir byggingarframkvæmdum og auka hraðann á því, sem enn á eftir að ljúka við Landsspítalabyggingarnar og kemur einmitt nú í sérstaklega góðar þarfir.

Í sambandi við biðtíma sjúklinga á kvensjúkdómadeildinni, sem ég vék að áðan, endurtek ég það, sem mestu máli skiptir, og ég tel ekki, að neinn þurfi að véengja það, að séð verður til þess, að þessum biðlista, sem þarna er um að ræða, verði eytt. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga og sumir hafa furðað sig á því, hvernig stendur á, að þetta mál kemur allt í einu upp núna með jafnmiklum krafti og afli eins og er og sumir gætu ályktað sem svo, að þetta væri, eins og heyrzt hefur, sofandahætti og sinnuleysi heilbrigðisstjórnarinnar að kenna. En ég held, að þar hafi fleirum farið eins og mér, að það kom nokkuð á óvart ástand okkar í þessum málum í sambandi við sérstaklega krabbamein í leghálsi kvenna og skýrist nokkuð af þeirri umfangsmiklu leit að þessum sjúkdómi, sem Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur beitt sér fyrir. Vildi ég sjálfur mega álykta sem svo, að það sé einmitt vegna þess mikilvæga og við skulum segja merka starfs, sem ég vona að beri sem mestan árangur, að við höfum í bili fengið á skömmum tíma fleiri sjúklinga — í sumum tilfellum mundi ég segja sem betur fer, — á fyrra stígi heldur en ella hefði orðið. Þessum biðlista, sem er biðlisti sjúklinga, sem ekki þola bið, hefur stundum verið blandað saman við annan biðlista á Fæðingardeildinni, og það hefur verið talað um það hef ég heyrt, að það væru hundrað á biðlista. Ég hygg, að á þessum öðrum biðlista, þar sem ekki er um bráðatilfelli að ræða, muni vera um 80 konur. Það voru, er mér var gefið það upp 7. maí af Gunnlaugi Snædal, lækni deildarinnar, 84 sjúklingar, en þeir eru sundurliðaðir. 10 eru tilbúnir, en liggur ekki á, 11 eru reiðubúnir að koma, þegar kallað er, en ekki aðkallandi. Sama gildir um aðra 10, en 15 vilja komast sem fyrst. Á biðlistanum frá því í apríl byrjun segir læknirinn, að ekki sé aðkallandi um 13, 21 vill koma sem fyrst, en aðkallandi 4. Ég hef hér verið að lesa skýrslu frá Gunnlaugi Snædal, sem er sérfræðingur í kvensjúkdómum og er á kvensjúkdómadeildinni. Þetta eru ekki tölur, sem koma frá mínu brjósti. (Gripið fram í.) Já, það er eðlilegt, að hv. þm. spyrji, þeir eru sundurliðaðir sjúklingar á biðlista frá síðasta ári. Það var fyrsti biðlistinn og sjúklingar, sem beðið hafa frá áramótum, er sundurliðunin, sem er frá apríl byrjun. Ég bið afsökunar, þessu hefði ég átt að gera grein fyrir, það skýrir þessa sundurliðun.

En það mætti þess vegna leggja saman. Þeir, sem læknirinn telur, að liggi ekki á, eru þá 33. Hinir sjúklingar, tilbúnir að koma, þegar kallað er, eru 11. Þeir, sem vilja komast sem fyrst, eru 36 og aðkallandi sjúklingar. Þannig mætti einnig skilgreina þetta.

Um þennan biðlista tel ég, að gegni allt öðru máli en um hinn akútbiðlistann, sem ég hef áður vikið að og menn verða auðvitað að gera sér grein fyrir því, að það eru sennilega ævinlega biðlistar sjúklinga á öllum öðrum deildum Landsspítalans og ég hygg öllum góðum sjúkrahúsum. Í því sambandi skiptir mestu máli að aðgreina biðlistana og leggja kapp á, að í hverri mynd, sem þeir eru, fái akútsjúkdómar eða sjúkdómstilfelli þá meðferð strax, sem nauðsynleg er, þar sem hún kann að geta skipt öllu máli fyrir velferð og framtíð sjúklingsins.

Þá vil ég aðeins víkja nokkrum orðum að þörf þeirri, sem ætla mætti, að væri hér fyrir pláss fyrir kvensjúkdómasjúklinga, — hvað það ætti að vera mikið, — en það, sem m.a. mér hefur fundizt vera dregið mjög villandi inn í umr. um þetta mál, bæði hér i þinginu, í blöðum og annars staðar, er, hversu mikil áherzla er lögð á, að það sé sérdeild, kvensjúkdómadeild, ein út af fyrir sig. Og t.d. í þessu viðtali, sem hv. 11. þm. Reykv. vitnaði til, við læknana í Tímanum 16. apríl, þá er því haldið fram, að 16 rúm séu einu rúmin á landinu fyrir kvensjúkdóma. Það stendur berum orðum. Það er í innganginum að viðtalinu við þá í blaðinu, ef ég man rétt. Það er talað um, að 16 rúm séu á Fæðingardeildinni fyrir sjúklinga með kvensjúkdóma, þau einu á öllu landinu. Þetta er auðvitað alrangt og ákaflega villandi að segja þannig frá málum og líklegt til þess að skapa mikinn óróa og óánægju hjá fólki, sem eðlilegt er. Um þörf sjúkrarúma fyrir kvensjúkdómasjúklinga er mér tjáð af sérfræðingum á því sviði, að á Norðurlöndum séu áætluð um 30–40 rúm fyrir 100 þús. íbúa. Í þessu sambandi er miðað við meðferð sjúklinganna á sérdeildum, en hún tekur venjulega talsvert styttri tíma en í almennum handlæknisdeildum. Hér ættu því samsvarandi tölur að vera 60–80 rúm miðað við íbúafjölda landsins með þessum fyrirvara, sem ég greindi. Hér er hins vegar ástandið í dag þannig, að 22 rúm eru í sérdeild. Það eru 45 rúm í handlæknisdeildum, þar sem kvensjúkdómalæknar starfa og það eru 15 rúm á öðrum sjúkrahúsum, eða 82 rúm samtals. Ég skal, til að fyrirbyggja allan misskilning, endurtaka, að það verður að gæta þess, að aðeins um 1/4 hluti rúmanna er á sérdeild og þá nýtast þau í heild ekki eins vel, þar sem verður að gera ráð fyrir, að legutíminn sé að jafnaði lengri, ef ekki er um sérdeild að ræða. Vistun kvensjúkdómasjúklinga í sjúkrahúsum landsins, talið í rúmafjölda, mundi vera þannig, þar sem eru deildaskipt sjúkrahús: Það er kvensjúkdómadeildin 16 og Landsspítali — handlæknisdeild — 6. Þetta eru þau 22 rúm, sem ég taldi í fyrstu upptalningu minni. Landakotsspítali 9, Borgarspítali 6, Hafnarfjarðarsjúkrahúsið Sólvangur, sem er að langmestu leyti kvensjúkdómasjúkrahús og fæðingardeild 19 og ég held, að læknirinn þar sé búinn að starfa í ein 15 ár eða meira og er mjög rómaður og eftirsóttur. Akureyrarsjúkrahús 11. Á þessum sjúkrahúsum eru kvensjúkdómasjúklingar vistaðir, sem svarar því, að það eru til 67 rúm. Svo eru önnur sjúkrahús, svo sem á Akranesi, Selfossi, Keflavík, Stykkishólmi, Ísafirði og Sauðárkróki. Þau eru alls 15 og samtals gerir þetta 82 rúm. Þessar tölur breyta í engu áformum heilbrigðisstjórnarinnar, sem tekin hafa verið, eins og ég sagði, fyrir löngu, að kvensjúkdómadeild, Fæðingardeild með kvensjúkdómadeild og geislalækningadeild skyldu hafa forgang. Og það er því, þegar líður að lokum byggingarframkvæmda við Landsspítalann, alvarlega að því stefnt. Til þess að taka af allan vafa um þetta, vil ég lesa fundargerð byggingarnefndar Landsspítalans 6. maí s.l., en þar segir svo, — eftirfarandi ályktun var gerð, — með leyfi hæstv. forseta:

„l. Nefndin ályktar, að stækkun þessarar deildar sé aðkallandi og telur hæfilegt, að sú stækkun nemi ekki minna en 50 rúmum“, þ.e. um það bil tvöföldun frá því, sem nú er, og það, sem ég hygg, að menn séu nokkuð sammála um, að gæti verið hæfilegt í bili.

„Með þessari stækkun verður deildin fær um að annast þá sjúklinga, sem sérstaklega eru í þörf fyrir sérhæfðustu meðferð í þessum greinum og ætti að verða fullnægjandi sem kennslustofnun fyrir lækna, ljósmæður og hjúkrunarlið.

Byggingarnefndin tekur fram, að stækkun á sjúkradeildum spítalans krefst aukinnar starfsemi allra þjónustudeilda spítalans, svo sem allra rannsóknadeilda, röntgen– og geislalækningadeilda, þvottahúss, eldhúss o.fl.

2. Þá vekur nefndin athygli á því, að nauðsynlegt er, að till. þær um heildarskipulag lóðarinnar, sem nú liggja hjá rn. og Reykjavíkurborg, fáist samþykktar hið fyrsta. Hefur ekki verið unnt að gera áætlanir um frekari byggingar á lóðinni, með því að ekki hefur verið gengið frá heildarskipulagi.“

Hér lýkur þessu. Um heildarskipulagið, sem ég kannske vík að svolítið nánar síðar, vil ég segja, að ég tel mig hafa fyllstu ástæðu til þess að ætla, að þess sé mjög skammt að bíða, að við getum fengið samþykkt endanlegt framtíðarskipulag á Landsspítalalóðinni. Ég mundi verða fyrir sárum vonbrigðum, ef á þessu stæði lengur, svo að nokkru nemi, hjá borgaryfirvöldum að veita samþykki sitt fyrir þeim till. um framtíðarskipulag Landsspítalalóðarinnar, sem nú liggja fyrir, og ég tel mig ekki hafa neina ástæðu til þess að ætla annað en gott samkomulag náist um það milli heilbrigðisstjórnarinnar og borgaryfirvalda.

Ég vil svo í þessu sambandi loks leiðrétta einn misskilninginn enn, sem fram hefur komið og kom hér fram áðan, að beðið hefði verið í 12 ár eftir einhverjum framkvæmdum á áformum og teikningum, sem þá höfðu verið samþykktar. Þetta er allt misskilningur. Árið 1956 gerist það, að Fæðingardeildin er þá of lítil og því miður verð ég að segja, — ég ætla ekki að fara að álasa neinum öðrum í þeirra verkum, — að hún hefur frá upphafi að því er fróðustu menn telja, ekki verið nægjanlega fullkomin bygging, jafnvel miðað við þær aðstæður, þegar hún var reist. Ég tel þess vegna, að það skipti ákaflega miklu máli að vanda vel til þeirrar byggingar, sem nú er talað um að ráðast í. En það er misskilningur, að hér hafi verið nokkur 12 ára bið. Það voru hugmyndir um að stækka deildina. Ég hygg, að úrlausn þess máls og þeirra hugmynda hafi fengizt á því stígi málsins 1956 með þeim hætti, að Reykjavíkurborg og ríkið slitu sínum félagsskap um rekstur Fæðingardeildarinnar, sem hafði verið byggð og rekin í félagi af borg og ríki. Reykjavíkurborg snýr sér þá að því að koma upp sínu fæðingarheimili. Og það hefur þá í bili leyst að sjálfsögðu verulega úr vanda, enda heyrðum við það m.a. í sjónvarpsviðtali, að það hafi verið eitthvað um 1.000 fæðingar þar, ef ég man rétt, á móti eitthvað 1.200—1.300 fæðingum á Fæðingardeildinni, svoleiðis að þarna hefur orðið allt að því tvöföldun á aðstöðu til fæðinga við fæðingarhjálpina út af fyrir sig á þessum tíma. Ég veit ekki, hvað hefur gerzt, — hef ekki kynnt mér það sérstaklega, — hvort það hafa einhvern tíma á þessu tímabili komið upp hugmyndir um tengiálmu, en eftir því, sem skrifstofustjóri ríkisspítalanna segir í bréfinu, sem ég vitnaði til áðan, telur hann, að þær hafi ekki komið til umr. fyrr en eftir að núv. byggingarnefnd hóf starfsemi sína í febrúarmánuði 1965. Sú fæðingardeild eða þær teikningar, sem menn tala um frá árinu 1956, voru engar byggingarteikningar. Þetta eru lausleg frumriss með engum málum eða nokkurri útfærslu, en gera hins vegar ráð fyrir þriggja hæða húsi, 600 fermetra gólffleti á hverri hæð og 42 rúmum á tveimur hæðum og svo 3. hæðin fyrir skurðstofur, fæðingarstofur og annað, sem tilheyrir. Í þessum frumteikningum frá 1956 eru engar frumteikningar til og engar frumhugmyndir eru sagðar hafa verið til um tengiálmu milli Fæðingardeildarinnar og Landsspítalans, sem geislalækningadeild yrði þá komið í. Eftir því, sem Bárður Ísleifsson arkitekt hjá húsameistara ríkisins tjáði mér, hafa þá verið punktaðar niður óljósar hugmyndir um jarðgöng milli Fæðingardeildarinnar þessarar nýju og Landsspítalabyggingarinnar. En það einmitt staðfestir, að þá voru engar hugmyndir um geislalækningabyggingu eða tengibyggingu á milli þessara tveggja álma, svo að það hafa ekki verið lögð á hilluna nein föst áform eða hætt við að byggja eftir einhverjum byggingarteikningum, sem fyrir lágu 1956 og mér liggur við að segja guði sé lof, því að þær hugmyndir, sem nú er verið að vinna að og frumteikningar eru á svipaðan hátt og ég hef lýst þessum teikningum. Frumteikningar eru nú til af húsi, en ekki með 600 fermetra gólffleti, heldur 1.000 fermetra og á þremur hæðum með 53 rúmum í staðinn fyrir 42 og þriðja hæðin þá auðvitað miklu rúmbetri, því að það munar allverulega á 600 og þúsund fermetrum, en þar yrðu skurðstofur Fæðingardeildarinnar og annað, sem slíkum deildum tilheyrir, svo að jafnvel þó að illt sé að hafa þurft að bíða eftir þessari Fæðingardeild, nýrri byggingu, þá er það þó alveg ljóst, að hún verður allt önnur og veglegri bygging, þegar hún ris af grunni, en þær frumhugmyndir, sem voru fyrir hendi á árinu 1956.

Nú hef ég innt húsameistaraembættið eftir því, hvenær fullkomnar byggingarteikningar geti verið til og ég hef falið þeim að leggja á það ýtrustu áherzlu að reyna að hafa þessar byggingarteikningar til, en hins vegar flaustra ekki að þeim, engan veginn að flaustra að þeim, heldur að hafa þær vandaðar til þess að tryggja gott hús, þegar það verður byggt. Bárður Ísleifsson arkitekt hjá embættinu tjáði mér, að hann teldi, að þær ættu að geta verið fullbúnar fyrir vorið 1970. Nú finnst kannske sumum þetta langur tími. Ég greini hér aðeins frá svörum sérfræðinga, sem um þessi mál eiga að fjalla og ég vara við því, að það sé hlaupið til að byggja slíka byggingu í flaustri og án vandaðs undirbúnings. Um kostnaðinn af þessari byggingu er ég hræddur um, að verði farið töluvert mikið fram úr þessum 60 millj., sem hér hafa verið áætlaðar, en við getum auðvitað látið það liggja á milli hluta. Mér þætti ekkert ólíklegt, að hann yrði nær 100 millj. Þetta munu vera um 12 þús. kúbikmetrar. Það var fyrir tveimur árum, ef ég man rétt eftir. Nú fer ég með minnisatriði, og menn geta leiðrétt mig, ef það er rangt, en mig minnir, að talið hafi verið, að í sjúkrahúsi kostaði 5.000 kr. kúbikmetrinn. Og síðan hafa orðið miklar verðhækkanir, því að það eru mikil og dýr tæki í þessum húsum, sem öll þarf að kaupa frá útlöndum og þau ein hafa hækkað um 100% vegna gengisfellingar. Hvenær á þá að byrja að byggja Fæðingardeildina? Eðlilegt er, að menn spyrji svo. Ja, ég sagði hér í umr. fyrr í vetur, að ég teldi hæpið — og hafði það eftir mínum sérfræðingum í rn., — að það væri hæpið, að hægt yrði að búast við, að byggingar gætu hafizt fyrr en um það bil, sem væri að ljúka framkvæmdunum við Landsspítalann, sem nú er unnið að og unnið með auknum hraða við að ljúka. Og það er eftir tvö ár og þegar ég sagði þetta í marzmánuði, þá átti ég við 1971. Teikningar geta verið til á næsta vori, þegar venjulegar byggingarframkvæmdir hefjast. Ég tel alveg öruggt, að skipulagsástæður eða ákvörðun um skipulag muni ekki standa í vegi, svoleiðis að af þessum tveimur ástæðum gæti því bygging Fæðingardeildar með kvensjúkdómadeild hafizt á næsta vori, 1970. Þá er aðeins eftir eitt og það er, hvaða fjár er hægt að afla til byggingarframkvæmdanna. Þegar ég svaraði hér eftir beztu vitund og hreinskilnislega, að ég teldi hæpið, að þessi bygging gæti hafizt fyrr en um það bil, sem hinum byggingunum lýkur, 1971, þá varð heilbrigðismálastjórnin við slíka ákvörðun eða áætlun í svari við spurningu að hafa í huga eftirfarandi um fjármálin:

Við höfum reynt að gera lauslega áætlun um, hvernig standi 1. jan. 1970, hvað þá sé eftir mikill kostnaður við þær byggingarframkvæmdir, sem nú er verið að vinna að við Landsspítalann, þ.e. austurálman. 1., 2. og 3. hæð er áætluð 12 millj., kjallari 2 millj., svo kölluð „rotunda“ eða inngangur, — þeir sem hafa komið þarna, skilja þetta furðulega orð, — 4 millj. kr., sundlaug og æfingadeild, — það er í endurhæfingardeildinni, sem er talin mjög brýn þörf á, — 5 millj., ýmis tæki og búnaður 15 millj., þ.e. 38 millj. kr. Endurgreiðsla láns 1969 10 millj., svoleiðis að þetta verða samtals 48 millj., eldhúsbygging 35—40 millj. kr. Framkvæmdir alls 80–90 millj. kr., eins og líklegt er, að staðan verði 1. jan. 1970. Nú hefur verið veitt mjög aukið fé og verulega mikið fé til þessara byggingarframkvæmda á síðustu árum, þannig að 3 síðustu ár, 1967, 1968 og 1969, eru þarna til ráðstöfunar að meðaltali 50 millj. kr. á ári, svo að þetta svaraði nokkurn veginn því, sem verið hefur til þessara framkvæmda næstu tvö árin, 1970 og 1971. Peningagildið er hins vegar annað, svo að mér finnst eðlilegt, að við getum reiknað með hærri fjárupphæð í krónutölu og þá tala ég til fjárveitingavaldsins, sem hv. þm. eru líka. Ég held, að ég hafi einhvern tíma sagt, að ef menn ekki geta hjálpað þeim sjúku, þá getum við ekki heldur hjálpað þeim beilbrigðu og ef við ekki getum hjálpað þeim sjúku, mundum við samkv. þessu kannske heldur ekki geta lagt eins mikið og við vildum í vegi og brýr og hafnir og skóla og svo fleira o.fl. og ef við karlmennirnir sameinuðumst allir um þennan hugsunarhátt, ætti kannske að vera hægt að hnika svolítið til fjárveitingum á fjárl., þó að fjárráðin væru kannske ekki meiri og jafnvel minni en áður og sérstaklega þegar um svona veigamikil mál er að ræða sem hér er og allir virðast hafa jafnríkan áhuga fyrir.

Ég er ekki að kvarta undan afgreiðslu Alþ. á till. frá mér sem heilbrmrh. á undanförnum árum, síður en svo. Mér finnst, að það hafi verið á ýmsan hátt örlæti í því. Ég get minnt á, að á árunum 1953–1962, á því 10 ára tímabili, er meðaltal til bygginga Landsspítalans á hverju ári 16.5 millj. kr. og þá er ég búinn að reikna það til verðlags ársins 1968, svo að þetta eru allt sambærilegar tölur, sem ég fer með núna. Á 10 ára tímabilinu frá 1953–1962 er fjárveitingin að meðaltali 16.5 millj. kr. á ári. Á næstu 4 árum, 1963, 1964, 1965 og 1966, er meðaltalið 30 millj. kr. á ári og á síðustu undanförnum tveimur árum og á árinu í ár er fjárveiting og fjárreiður 50 millj. kr. á ári. Ég vil svo loksins bæta því við, að um leið og það ber að leggja á það áherzlu fyrst og fremst við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1970 að mínum dómi að ætla sérstaka fjárveitingu til Fæðingardeildar og kvensjúkdómadeildar, ef fallizt verður á þessi tímamörk, sem ég tala um, þá ber einnig að leggja áherzlu á framkvæmda– og fjáröflunaráætlun ríkisstj. fyrir árið 1970. Það er tilgangslaust að tala um fjáröflun á framkvæmdaáætlun 1969, ef ekki er hægt að hefja framkvæmdir á árinu 1969, því að fé til framkvæmda frá ári til árs á framkvæmdaáætlun fyrir þetta og annað ár á að notast á því ári, geymist ekki til annarra ára og það er sannast að segja svo þröngt um framkvæmdafé, að mönnum fyndist það líka óeðlilegt, en fé á framkvæmdaáætlun er fyrst og fremst miðað við framkvæmdir á því tiltekna ári. Og ég fæ ekki með nokkru móti séð, að menn gætu hafið byggingarframkvæmdir á þessu ári, þótt þeir hefðu fullar hendur fjár, m.a. vegna þess, að undirbúningsstörf, fyrst og fremst vandaðar teikningar og annað, sem þar að lýtur og ég vék að áðan, eru ekki það langt komin, að það sé hægt.

Ég hef reynt að gera ýmsum þáttum þessa máls skil, skýra afstöðu heilbrigðisstjórnarinnar og reynt að leiðrétta misskilning og gera grein fyrir því, sem ég tel, að rétt væri að stefna að. Ég vil bæta því við í sambandi við fjárreiðurnar, að ég tel eðlilegt, að leitað væri sérstaks lánsfjár til þess að hraða byggingarframkvæmdum, eins og hér er um að ræða, umfram það, sem ég hef nú greint og ég hef látið þá skoðun mína í ljós áður, að hér væri um svo brýna nauðsyn að ræða, að það gæti verið mjög æskilegt að freista þess að fá lánsfé til þess að flýta framkvæmdunum, sem mundi þá verða greitt af fjárframlögum frá ríkissjóði síðar, sem ekki væri hægt að hafa nógu há í bili og ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn til þess, þegar til kemur, að vinna að slíkri lánsfjárútvegun til þess að hraða þessu máli.

Ég kem þá að geislalækningunum nokkrum orðum. Um þær hefur einnig ríkt verulegur misskilningur.

Ég vil aðeins vitna til þess, að landlæknir hefur leiðrétt verulegan misskilning, sem fram hefur komið um hið svokallaða kóbalttæki og hvernig staðið hefur verið að því að koma því upp og þiggja þá gjöf. Sú grein birtist í Tímanum ekki alls fyrir löngu vegna missagna, sem fram höfðu komið í því blaði. Landlæknirinn segir í sinni leiðréttingu, að formenn Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur hafi ritað formanni stjórnarnefndar ríkisspítalanna bréf 26. júlí 1966 þar sem félögin buðust til að útvega Landsspítalanum kóbalttæki að gjöf, ef slíks væri óskað. Engar óskir höfðu áður borizt um kaup á slíku tæki til sjúkrahúss eða heilbrigðismálastjórnarinnar. Er boð þetta hafði verið athugað, var síðar á sama ári tilkynnt, að því mundi verða tekið. Nú hefur því verið haldið á lofti, að þetta tæki hafi verið gefið fyrir þremur árum og síðan sé þar eingöngu um að kenna hirðuleysi, að það hafi ekki verið flutt til landsins. En landlæknir segir orðrétt um þetta í sinni leiðréttingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Varð samkomulag um það af báðum aðilum, af spítalans hálfu og Krabbameinsfélaganna, að tækið kæmi hingað til landsins á síðari helmingi ársins 1969. Það er því rangt að gefa í skyn, að þetta tæki hafi átt að vera hér miklu fyrr.“

Hér lýkur tilvitnun í bréf landlæknis. Þegar um þetta var rætt, að tækið kæmi 1969, var einnig gert ráð fyrir því, að því yrði komið fyrir í gamla eldhúsinu í Landsspítalanum, sem þá mundi verða búið að rýma, þar sem nýtt eldhús, sem verið er að byggja, mundi þá vera komið í notkun. Nú hefur dregizt lengur en skyldi um nýja eldhúsið. Það er ekki komið í notkun, en í annan stað hefur það verið talið, að gamla eldhúsið mundi ekki henta fyrir þetta tæki.

Það er rétt, sem tekið hefur verið fram, að það þarf að byggja vandlega utan um það og ganga vel frá þeirri byggingu, sem tækið yrði sett í. Það var núna fyrir skömmu, að Oddfellowar kvöddu mig til fundar við sig ásamt landlækni. Það var 26. apríl og afhentu þá formlegt gjafabréf fyrir þessu tæki í tilefni 150 ára afmælis Oddfellowreglunnar. Ég sé ástæðu til þess á þessum vettvangi að þakka Oddfellowreglunni fyrir hina höfðinglegu gjöf, en þeir félagar hafa, eins og kunnugt er, konur og karlar í þessari reglu, unnið mikið að líknarmálum og áður lyft stórátökum í sambandi við heilbrigðismál okkar Íslendinga.

Þegar málin lágu þannig fyrir og þegar ég sá fyrst, sem ég hef áður sagt hér í þingsölunum, hina alvarlegu skýrslu í sambandi við krabbameinsleitina á s.l. sumri, – þegar ég fyrst sá þær niðurstöður, sem hér hefur verið vitnað til, hófst ég þegar handa um, að án undandráttar yrði þessu tæki komið fyrir sem allra fyrst og það er talið eitt fullkomnasta tæki til þeirra lækninga, sem hér er um að ræða, sem nú er völ á. Ég athugaði þá þann möguleika eða lét athuga þann möguleika, að byggður yrði hluti af væntanlegri geislalækningadeild eða tengiálmu milli væntanlegrar nýrrar Fæðingardeildar og Landsspítalans. Að því máli athuguðu og eftir að gerð höfðu verið frumriss að því og rætt við ráðamenn borgarinnar, reyndist sú leið algerlega ófær. Það var ekki með skjótu bragði hægt að koma kóbalttækinu til afnota með þessum hætti. Það var þá, sem leitað var þeirra leiða að byggja það bráðabirgðahúsnæði, sem nú er verið að byggja yfir þetta tæki við hlíðina á geisladeildinni og við Landsspítalann, eins og mönnum er kunnugt um. Það kom til minna ákvarðana að skera á hnútinn, hvað gera skyldi í þessu efni og ég skal gjarnan viðurkenna það, að sú ákvörðun varð mér nokkuð erfið, einkum og sér í lagi vegna þess, að góður vinur minn og sérfræðingur á þessu sviði, Gunnlaugur Snædal og reyndar fleiri, lögðu að mér að taka ekki þá ákvörðun að byggja þetta bráðabirgðahúsnæði og þeir hafa heldur ekki farið dult með sínar skoðanir, að þeir telja þetta ekki heppilega leið. Engu að síður varð það mín niðurstaða og ákvörðun að láta hefjast handa strax upp úr áramótum eða fljótt upp úr áramótum, þegar veður leyfðu um byggingu þessa bráðabirgðahúsnæðis fyrir kóbalttækið, því að ég sá enga aðra leið en þessa til þess að koma því með skjótu bragði í gagnið til þess að lækna fólk og forða lífi fjölmargra. En með þessu móti átti að vera tryggt, að það sé hægt að taka þetta tæki til afnota á þessu ári, þessu hausti.

Ég hef sagt það hér, ég held við fyrri umr., að ég treysti mér ekki til að bera ábyrgð á þeim mannslífum, sem fyrirfarast kynnu, ef önnur leið væri farin og ef sú leið væri farin, sem læknarnir vildu fara, þeir, sem ég hef til vitnað. Það er ennfremur að athuga við þá leið — að byrja að byggja tengiálmuna, — að þá mundu líka kvensjúkdómadeildin og Fæðingardeildin þurfa að bíða mörgum árum lengur. Það hafði líka sín áhrif á mínar ákvarðanir, því að nú er áformað að byrja á Fæðingardeildinni og kvensjúkdómadeildinni og byggja síðar tengiálmuna með fullkomnustu geislalækningadeild, en nota í bili kóbalttækið í því húsnæði, sem nú er verið að byggja undir það og stækka að öðru leyti geisladeildina í gamla eldhúsi Landsspítalans, sem liggur inn af geislalækningadeildinni. Þetta er að mínum dómi skjótvirkasta og bezta leiðin, eins og á stóð. Mér dettur ekki í hug að vera með neinar ásakanir í garð annarra, þó að þeim hafi sýnzt, að réttara væri að fara aðrar leiðir. En ég hef sannfærzt ennþá betur um það nú heldur en þegar til minna kasta kom að taka þessa ákvörðun, að þetta var rétta leiðin. Hún tryggði skjótustu aðgerðir til fullkominna geislalækninga hér á landi og þess vænti ég, að þar sem hv. 11. þm. Reykv. vitnaði í sjónvarpsviðtalið, að menn hafi líka tekið eftir, að sérfræðingurinn, sem var þar frá Fæðingardeildinni, taldi, að það væri hægt að hafa full not kóbalttækisins til geislalækninga í því húsnæði, sem því er núna ætlað. Og ég get líka látið þess getið hér að formaður Krabbameinsfélags Íslands, Bjarni Bjarnason læknir, hefur tjáð mér, að það húsnæði, sem nú er verið að búa kóbalttækinu, þar sem það á að notast, sé töluvert umfangsmeira en það húsnæði, þar sem kóbalttæki er komið fyrir í geislalækningasjúkrahúsi Oslóborgar.

Ég hef ekki gert að umtalsefni viðtalið við lækninn og eðlisfræðinginn í Tímanum; látið það liggja á milli hluta. Við höfum verið þarna nokkuð á öndverðum meiði og það er ekkert nema eðlilegt við það. Það er hins vegar um það, hvaða leið ætti að fara, að ég tel mig hafa nokkuð góða samvizku um, að heppilega hafi verið ákvarðað, enda verð ég að segja, að ég hafði að sjálfsögðu, eins og gefur að skilja, mér til ráðuneytis þá sérfræðinga, sem embætti mitt hefur yfir að ráða. En það er sitthvað, sem ég hef að athuga við þetta viðtal frá 16. apríl í blöðunum við dr. Gunnlaug Snædal og Guðmund Jónsson eðlisfræðing. Það eru því miður villandi ummæli í þessu viðtali og skekkjur. Þær skipta kannske ekki svo miklu máli og eins og ég sagði, hefði ég látið þær liggja milli hluta, ef hv. 11. þm. Reykv. hefði ekki sérstaklega að þeim vikið. Þá vil ég minna á, að þetta viðtal bar fyrirsögnina: „Er nauðsynlegt að bíða?“ Og svo var birt þriggja dálka mynd af jarðraski við Landsspítalann, sem ég get ekki skilið, að hafi haft neinn annan tilgang en að hæðast að þessari framkvæmd að byggja á skjótvirkastan hátt yfir nútíma geislalækningatæki til þess að koma því sem fyrst í gagnið til þess að lækna þá sjúku. Dr. Gunnlaugur Snædal og fleiri vildu fara þá leið að byrja á tengiálmunni og geislalækningadeildinni, hluta af henni. Hún reyndist ófær, við skulum segja af skipulagsástæðum og kannske af öðrum ástæðum, a.m.k. að mínum dómi líka af þeim ástæðum, að þá hlaut Fæðingardeildin og kvensjúkdómadeildin nýja að bíða eftir þeirri byggingu og verða miklu síðbúnari en ella. Mín skoðun var sú, að það mætti ekki bíða og þess vegna réði það úrslitum um ákvörðun mína um byggingu þeirrar byggingar, sem nú er í smíðum yfir kóbalttækið, ella hefði þurft að bíða miklu lengur, ég veit ekki hvað lengi, en það hefði skipt árum og skal ég ekki spá um það, en örugglega hefði það verið árabil.

Ég get vel skilið, að þeir, sem eru fyrirsvarsmenn geislalækningadeildarinnar hafi eygt þann möguleika að ráðast ekki í alla bygginguna, heldur byrja fyrst, því að þá var þó alltaf byrjað, á tengiálmunni og geislalækningaálmunni, á undan Fæðingardeildinni sjálfri. En út af niðurlagi þessa viðtals, sem var vitnað til hér af hv. 11. þm. Reykv., vil ég segja, að höfuðágreiningurinn í dag, eins og þeir segja, er ekki sá, sem þarna segir. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég endurtaka það, sem áðan var lesið:

„Höfuðágreiningurinn í dag er um það, hvort nauðsynlegt er að bíða eftir heildarskipulagi Landsspítalalóðarinnar og læknadeildarhúsnæðis sunnan Hringbrautar, eins og nú er rætt um, eða hvort unnt sé að hefjast þegar handa um framtíðarlausn þessara deilda vegna þess sérstaka vanda, sem þær eiga við að stríða og gerir alla bið óréttlætanlega.“

Þetta er algerlega að snúa við hlutunum. Með þeirri leið, sem ég er búinn að gera grein fyrir, sem læknarnir vildu fara, hefði þurft að bíða eftir geislalækningunum lengur og eftir kvensjúkdómadeild og Fæðingardeild, og höfuðágreiningurinn er ekki þetta. Bygging læknahúss, læknadeildarhúsnæðis, sunnan Hringbrautar kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við. Að ágreiningur í sambandi við byggingu þess og um heildarskipulag lóðarinnar sé svo mikill eða vandinn við að leysa hann svo stór, er ekki rétt. Ég er búinn að segja áður, að hann muni ekki standa í vegi fyrir því, að hægt verði að hefja byggingarframkvæmdir á næsta vori og ég er bjartsýnn á það og geri mér vonir um, að samkomulag geti orðið hið fyrsta milli borgaryfirvalda og heilbrigðisstjórnarinnar um það mál. Nei, það er ekki það, sem réði úrslitum og ágreiningurinn var um. Er einhver, sem treystir sér til þess að bíða eitt, tvö eða þrjú ár og að vissu leyti taka þar með óbeina ábyrgð á meiri sjúkdómum og jafnvel hærri dánartölum? Ég treysti mér ekki til þess, og á þessu var mín ákvörðun grundvölluð.

Herra forseti. Ég hef nú því miður tekið langan tíma til þess að reyna að skýra mál mitt, en get nú stytt mál mitt úr þessu.

Mér er alveg fullljóst og met það mikils, að það voru íslenzkar konur, sem reistu merkið með stofnun Landsspítalasjóðs Íslands 1916 og fjársöfnun til hans til minningar um stjórnmálaréttindi kvenna sem áunnust 19. júní 1915. Ég tel, að það hafi skýrt komið fram af mínu máli, að þær deildir, sem hér er um að ræða, eru ekki gleymdar deildir og hafa ekki verið það, þó að menn hefðu kannske óskað meiri hraða.

Það var vitnað til þess, að lítið samband væri á milli heilbrigðisstjórnarinnar og lækna af þessum sérfræðingi Fæðingardeildarinnar. Ég viðurkenni, að þeir hafi aldrei beðið um viðtal við mig þessir yfirlæknar eða undirlæknar eða hverjir sem það nú eru á Fæðingardeildinni. En ég held, að ég hafi ekki haft meira samband við nokkra stétt manna, þann tíma, sem ég hef verið í ráðherraembætti, heldur en lækna. Ég hef verið á tveimur læknaráðstefnum, haustið 1967 og í haust. Á hvorugri þessari ráðstefnu var nokkur áherzla lögð á þessi mál, sem nú er lögð svo rík áherzla á. En sé hægt að kenna mér um, að lítið samband hafi verið við lækna Fæðingardeildarinnar, þá stendur sannarlega ekki á mér og ég vil gera mitt bezta til að bæta úr því og teldi kannske, að betur hefði farið, ef samband hefði verið meira, en ég veit ekki til þess, að nokkurn tíma hafi í því sambandi á mér staðið. Ég hef lagt á það áherzlu, að rétt væri að reyna að sameina sem bezt alla krafta í þessu máli og ég skil auðvitað fullvel viðkvæmni kvenna í máli eins og þessu. Ég hef þess vegna m.a. ákveðið af því að ég held, að það gæti verið til góðs í sambandi við þetta mál, sem nú verður bygging Fæðingardeildar, sem hlýtur óhjákvæmilega í nánustu framtíð að vera eitt af viðfangsefnum byggingarnefndar Landsspítalans, — þá hef ég ákveðið að gefa Hjúkrunarfélagi Íslands kost á því að skipa kvenfulltrúa í byggingarnefnd Landsspítalans.

Helztu niðurstöður mínar, ef ég mætti ljúka máli mínu með því, mundu vera þessar:

Það er og hefur verið staðfastur vilji heilbrigðisstjórnarinnar, að byggt verði húsnæði fyrir kvensjúkdómadeild hið fyrsta með stækkun Fæðingardeildar Landsspítalans. Sú stefna hefur verið mörkuð, að þegar hafizt verður handa um nýjar byggingar á lóð Landsspítalans, njóti stækkun Fæðingardeildar og geðsjúkdómadeildar forgangs.

Teikningum að stækkun Fæðingardeildar og öðrum undirbúningi á að geta lokið fyrir næsta vor. Til þess að hraða byggingarframkvæmdum við austurálmu Landsspítalans hefur nú verið aflað 10 millj. kr. lánsfjár umfram ca. 40 millj. kr., sem veittar eru á fjárl. þessa árs til þessara byggingarframkvæmda, byggingu nýs eldhúss og annarra þjónustudeilda, en ég hef gert grein fyrir því, að hraðari bygging þessara deilda, þar sem er m.a. bæklunardeild, mundi geta haft veruleg áhrif á aukna aðstoð handlæknisdeildarinnar, meðan beðið er eftir nýrri kvensjúkdómadeild.

Stofnað hefur verið til samstarfs milli Fæðingardeildar og handlæknisdeildar Landsspítalans, sem í felst, að handlæknisdeild tekur að sér ásamt læknum kvensjúkdómadeildarinnar að annast þá sjúklinga með kvensjúkdóma, sem ekki þola bið. Verður séð til þess, að mjög bráðlega þurfi engir slíkir sjúklingar að vera á biðlista.

Við skjótari uppbyggingu austurálmu Landsspítalans skapast ný aðstaða til betri hagnýtingar húsnæðis sjúkrahússins, einnig fyrir kvensjúkdóma, meðan ný fæðingardeild hefur ekki verið byggð.

Nýtt kóbalt geislalækningatæki verður tekið í notkun á hausti komandi í húsnæði, sem nú er verið að byggja yfir það við geislalækningadeild Landsspítalans.

Að framtíðarskipulagi Landsspítalalóðar hefur verið unnið frá því í byrjun árs 1965 og standa vonir til þess, að lokaákvarðanir um það geti verið teknar innan tíðar.