08.05.1969
Sameinað þing: 48. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

171. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hafði ekki búizt við því að þurfa að taka þátt í deilum um þetta mál með líkum hætti eða það yrði stofnað til deilna um þetta mál með líkum hætti og ræða hv. síðasta ræðumanns var. Meginefni ræðu hans gekk allt saman út á það — og mér þykir mjög leitt að þurfa að segja það, — að undirstrika, að menn eru óánægðir með þetta, sem gert hefur verið, menn eru óánægðir með það, sem áformað er, menn verða meira óánægðir, óánægjan skal ekki hverfa. Þetta var inntakið í ræðu hv. þm. (Gripið fram í.) Það var inntakið, það var hið negatíva inntak í ræðu hv. þm.: Óánægjan má ekki hverfa.

Hv. 9. þm. Reykv. segir, að málið hafi gleymzt, það hafi verið sofið á því í áratug. Að vísu hafa þá einhverjir aðrir ráðh. sofið heldur en ég. Hann segir, að það hafi verið fullkomnar teikningar til 1956. (Gripið fram í.) Ja, það voru frumteikningar til þá. Hver var heilbrmrh. þá? (Gripið fram í.) Já, það var Hannibal Valdimarsson. Hann var þá að byrja sína ráðherratíð og hann lauk henni sennilega án þess að hafa nokkurn tíma litið á teikningarnar. (Gripið fram í.) Nei, ég spyr. En það er a.m.k. ætlazt til af mér, af því að það eru frumteikningar, sem eru mjög svipaðar þessum frumteikningum, sem þá voru, nema þær eru stærri í dag og það eru engar byggingarteikningar, það eru engin mál á þessu, þetta eru bara grunnteikningar á blaði, ekkert nema grunnteikningar. Þær voru ekki öðru vísi 1956. Hann aðhafðist ekkert í málinu alla sína ráðherratíð. Hún var 21/2 ár, var það ekki? Það hefði mátt vera búið að grafa t.d. grunninn á þessum tíma, ef hv. þm. hefði verið jafnröskur og hann virðist ætlast til núna af mér. En sannleikurinn er sá, að þessar frumteikningar, sem eru núna til, eru ekki lengra komnar en þetta. Það er m.a. af því, að það hefur verið gert ráð fyrir því af heilbrigðisstjórninni, og það hefur heldur ekki verið lagt neitt annað til af hálfu fyrirsvarsmanna sjálfrar deildarinnar á þessum síðustu árum. Það var leitað eftir umsögn þeirra 1967 af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar, hvað þeir teldu, að Fæðingardeildin, þegar hún yrði byggð, þyrfti að stækka. Þá gáfu þeir upp þessa stærð, sem við miðum við og síðan var það á þessu ári, 1967, þegar verið var að vinna að skipulagi og staðsetningu húsa á lóðinni, að byrjuðu aftur frumteikningar, sem aðallega fólust í því að stækka og gera ráð fyrir meira rými í þessu húsi heldur en gert hafði verið i frumteikningum eða uppköstum 1956.

Það er vitnað til þess, að ég telji, að það taki nokkur ár að byggja slíkt hús. Ég hef aðeins vitnað í álit sérfræðinga um, að það muni taka nokkur ár, þó að allt væri fyrir hendi. En það er ekki mín áætlun, sem þar er um að ræða.

Hv. 9. þm. Reykv. leggur mjög mikið upp úr því, að ég, sem ekki er sérfræðingur, hafi tekið ráðin af læknunum, sem auðvitað hefðu átt að vita miklu betur en ég, hvort átt hefði að byrja á geislalækningadeild í tengiálmu eða byggja það hús, sem nú er byggt á skömmum tíma yfir kóbalttækið. Ég tók það fram í minni frumræðu, — það hefur sennilega farið framhjá hv. þm., — að auðvitað hefði ég haft sérfræðinga mins embættis mér til ráðuneytis. Og ég skal geta þess hér, að einmitt vegna viðtals, sem Gunnlaugur Snædal átti við mig og ég hef ekki ásakað hann neitt fyrir stefnu hans í málinu, en reynt að gera grein fyrir mínum viðhorfum og talið, að það væri heppilegri lausn, — vegna viðtals, sem hann átti við mig hér rétt fyrir jólin, sagði ég honum, að ég skyldi taka málið til endurskoðunar upp úr áramótum. Af því tilefni var haldinn fundur í rn. 28. jan. s.l., einmitt til þess að ræða um, hvort ástæða þætti til að endurskoða þessa ákvörðun, sem þá hafði verið tekin, að byggja yfir kóbalttækið í bráðabirgðabyggingunni. Þennan fund sátu Baldur Möller ráðuneytisstjóri, dr. Sigurður Sigurðsson landlæknir, Jón Thors, sem er deildarstjóri heilbrigðismála, Kolbeinn Kristófersson yfirlæknir, Guðmundur S. Jónsson eðlisfræðingur, Bárður Ísleifsson yfirarkitekt, Gústaf Pálsson borgarverkfræðingur, Bjarni Bjarnason læknir, formaður Krabbameinsfélags Íslands, Hjörtur Hjartarson gjaldkeri Krabbameinsfélags Íslands, Jónas Hallgrímsson læknir, stjórnarmaður Krabbameinsfélags Íslands, og Gunnlaugur Snædal læknir, formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur, í fundargerð, sem rituð var á þessum fundi, kemur það fram, að það er aðeins einn af þessum mönnum, sem er verulega andvígur þessu máli, sem er Gunnlaugur Snædal, sem ég hef áður vitnað til, og einnig tekur Guðmundur Jónsson eðlisfræðingur fram, að þótt þetta bráðabirgðahúsnæði fengist, væri jafnóleyst eftir sem áður almenn húsnæðisþörf geislalækningadeildarinnar og lausn á húsnæðisþörf hennar fengist ekki fyrr en byggt yrði nýtt húsnæði fyrir deildina. Hann hefur tekið þátt í þessu viðtali, sem vitnað var í, í Tímanum og þeir verða því báðir að teljast þeirrar skoðunar, að þessi lausn, sem nú er verið að vinna að, sé óheppileg. Hinir allir eru annaðhvort beinlínis ákveðið með þessari lausn eða þeir fella sig við hana eftir atvikum og Bjarni Bjarnason, formaður Krabbameinsfélags Íslands, tekur sérstaklega fram, að málið hefði verið rætt í félaginu og menn hefðu ekki verið alls kostar ánægðir með þessa lausn, en þeir vildu una henni og felldu sig við hana, eins og nú væri komið. Hjörtur Hjartarson, gjaldkeri Krabbameinsfélagsins, sagði, að markmið félagsins væri, að kóbalttækið kæmi sem fyrst að notum og spurði þá Kolbein Kristófersson og Guðmund S. Jónsson, hvort tækið kæmi ekki að gagni í þessari byggingu og játuðu þeir því báðir. Og það er í samræmi við yfirlýsingar Guðmundar Jóhannessonar í sjónvarpinu, að í þessari byggingu sé hægt að hafa full not kóbalttækisins. Ég skal svo ekki fara að elta úlar við það, en það stendur enn óhaggað, þrátt fyrir fullyrðingar hv. síðasta ræðumanns, og menn verða að gera sér grein fyrir því, að ef þessi bráðabirgðabygging hefði ekki verið byggð og byrjað hefði verið á byggingu, sem síðar hefði orðið partur af tengiálmu og tengiálman síðan reist við Landsspítalann, þá hefði fengizt fullkomnari starfsaðstaða, en tækið hefur sáma lækningagildi þarna og í slíkri álmu. En við þetta hefði bygging kvensjúkdómadeildarinnar óhjákvæmilega dregizt. Nú er áformað að byrja byggingu kvensjúkdómadeildarinnar og Fæðingardeildarinnar fyrst og það er í mínum huga brýnna mál að byggja hana fyrr, árum fyrr, leyfi ég mér að segja, heldur en ella og hafa kóbalttækið í bráðabirgðahúsnæðinu, heldur en byrja á hluta af geislalækningadeildinni og halda svo þeirri byggingu áfram, sem væntanlega hefði verið óhjákvæmilegt og láta kvensjúkdómadeildina og Fæðingardeildina bíða á meðan. Auðvitað, eins og ég sagði í minni ræðu, geta verið nokkuð skiptar skoðanir um þetta. Við þurfum ekki, finnst mér, að fara í hita eða deilur þess vegna. Það sýnist nokkuð sitt hverjum, en ég vil aðeins undirstrika, að á bak við mína ákvörðun, sem ég tala um og ég gerði grein fyrir, standa auðvitað sérfræðingar alveg á borð við þessa sérfræðinga, sem þarna er um að ræða, og sérstaklega hafa læknar geislalækningadeildarinnar fullyrt, að tækið komi að fullum notum í því húsnæði, sem því nú er búið.

Hv. 9. þm. Reykv. fannst það fruntalegt, sem ég sagði í því bréfi, sem ég las upp hér áðan og það væri ekki ráðherralegt. Ég hef þá skoðun; að það sé í fyllsta máta ráðherralegt að leiðrétta missagnir í bréfum, sem berast rn. og benda á í viðkomandi svari, að ef þeir, sem undirrituðu, hefðu kynnt sér aðstæðurnar, hefðu þeir ekki skrifað undir þetta bréf. Ég verð að segja, að það var svo fjarri mér að vera með nokkurn fruntaskap í þessu sambandi og mér þykir mjög leitt, að hv. þm. skuli vera að ýta undir það, að ég hafi með þessu verið með einhvern fruntaskap í garð starfsfólksins. Það er ákaflega fjarri mér að vera með fruntaskap í garð fólks og ég hef þá viðkynningu af starfsfólki á Landsspítalanum, bæði læknum, hjúkrunarkonum og öðrum, að það sæti sízt á mér að vera með nokkurn fruntaskap í garð þessa fólks.

Hv. þm. spurði mig, hvort grafið hefði verið fyrir of lítilli byggingu. Það hef ég ekki bugmynd um. Það hefur enginn tjáð mér eða mér hafa ekki borizt neinar sagnir af því. Síðan spurði hv. 9. þm. Reykv., sem skiptir máli: Um hvað er samkomulagið milli Fæðingardeildarinnar og handlækningadeildarinnar? Meginefni þess samkomulags er að koma úr vegi því, sem hv. 9. þm. Reykv. þótti uggvænlegast, að þurrka burt biðlistann. Það er efni málsins. Með því samkomulagi verður hann þurrkaður út. (Gripið fram í: Eru það þessi 6 rúm?) Það eru 6 rúm eins og stendur og það var álit prófessors Snorra Hallgrímssonar og sérfræðinga Fæðingardeildarinnar, að það ætti að vera nægjanlegt. Hitt er svo rétt, að eftir að þetta byrjaði 26. síðasta mánaðar, komu það margir sjúklingar, að það er enn jafnstór biðlistinn, þessir 20 á akútbiðlista, en það er jafnframt ákvörðun yfirlæknis handlæknisdeildaiinnar, að við þessi rúm verði aukið, ef þörf krefur, þannig að biðlistinn hverfi innan tíðar, eins og ég sagði áðan — innan nokkurra vikna. Þetta er meginefnið. En þessi ráðstöfun hefur hins vegar engin áhrif á sjálft meginmálið, uppbyggingu kvensjúkdómadeildarinnar og fæðingardeildarinnar og er engan veginn hugsað til þess að koma nokkuð í staðinn fyrir það. Það vil ég, að sé alveg ljóst. Það hefur aldrei verið, enda væri ég þá ekki að tala um, að það væri hægt að hefja byggingu á næsta vori á þeirri deild.

Varðandi fsp. hv. 1. þm. Vestf., var ég búinn að svara henni í fyrri ræðu minni.

Guðmundur Jóhannesson, sérfræðingur Fæðingardeildarinnar, sem talað hefur verið um og vitnað til, segir í grein í síðasta blaði Húsfreyjunnar, sem er vitnað til hérna — ég sá það í dag. — Hann segir: „Hér þarf skjótra aðgerða við, sem varða öll þrjú áðurnefnd grundvallaratriði.“ Hann talar um 3 grundvallaratriði í sambandi við málið. Það fyrsta er aukin útfærsla leitarstöðvanna, krabbameinsleitarstöðvanna. Um það get ég ekki tjáð mig. Annað er fjölgun rúma og bætt aðstaða til meðferðar kvensjúkdóma. Á þetta hefur verið lögð áherzla, að fullkomnum byggingarteikningum geti verið lokið hið fyrsta, og það er ekki vegna þess, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að verkið þurfi að bíða vegna annars annríkis, heldur vegna þess, að sérfræðingarnir, sem ég talaði við, Bárður Ísleifsson yfirarkitekt o.fl., töldu, að hér væri um svo vandasamt verk að ræða, að það mætti varla búast við, að það gætu orðið tilbúnar teikningar, sem þeir vildu endanlega skila frá sér, fyrr en næsta vor. Hann sagði, að það gæti verið, að þær yrðu tilbúnar fyrri hluta vetrar. Við byrjum venjulega ekki að byggja á þeim tíma og að öllum jafnaði ekki fyrr en dregur að vori. En ég hef einmitt lagt áherzlu á við þá, að þeir hraði eftir föngum þessum fullkomnu byggingarteikningum.

Það er sárt, að við skulum þurfa að vera að tala um það núna, 20 árum eftir að Fæðingardeildin gamla tók til starfa, að hún hafi e.t.v. frá öndverðu verið hús, eins og kom fram í sjónvarpsþættinum, sem var kannske frá upphafi meira og minna ónothæft. Ég óska ekki eftir, að sú nýja Fæðingardeild verði hús af slíkri gerð. Það þarf að vanda undirbúning til slíkra bygginga. Og þegar spurt er um, hvenær verður henni lokið, eins og spurt var um hér áðan, því treysti ég mér ekki til að svara, en ég vil leggja áherzlu á, að því betur sem málið er undirbúið, því fyrr verður líka byggingunni lokið, því betur sem allt er búið í haginn, áður en byrjað er. Og það er ekki nóg að byrja svona byggingu, hvort sem það er með 10 millj., 20 millj. eða eitthvað því um líkt. Það þarf að sjá fyrir allri fjárþörfinni þegar í upphafi. Þá fyrst er hægt að hugsa sér nokkurn byggingarhraða, að undirbúningur sé góður og fyrir fram sé séð fyrir fjáröfluninni.

Þegar ég talaði um eða minnti á, hvílíkan tíma það mundi taka að reisa svona byggingu, þá hafði ég það, eins og ég sagði áðan, eftir sérfræðingum og í þeirri fundargerð frá 28. janúar með sérfræðingum og öðrum, sem ég las áðan, þá segir yfir arkitekt húsameistaraembættisins:

„Þó að hægt væri af skipulagslegum ástæðum að byggja strax á svæðinu milli Landsspítalans og Fæðingardeildarinnar“, þ.e. tengiálmuna, þá er hann bara að tala um tengiálmuna, „tæki a.m.k. 4 ár að koma slíkri byggingu í ástand til að taka við kóbalttækinu.“

Þetta eru ekki mín orð. Menn geta véfengt þetta, en þetta eru orð yfir arkitektsins. Nú skulum við segja, að það væri hægt að byggja þetta eitthvað fyrr, segjum 3 ár, segjum jafnvel 2 ár, en ég efast um, að við getum gert það allt í einu og ég sé ekki, hvernig við getum gert það allt í einu. Það mundi leiða til þess, að þá biði bara hin byggingin á meðan, sjálf Fæðingardeildin. Þess vegna held ég, að það sé heppilegra, sem við höfum stefnt að núna, að efna til þess að geta hafið byggingu hennar sem allra fyrst, verandi búnir að gera bráðabirgðaráðstafanir með byggingu yfir kóbalttækið, þar sem það getur komið að fullum notum og bráðabirgðaráðstafanir í samkomulagi milli Fæðingardeildar og handlæknisdeildar, sem a.m.k. á að hafa þann megintilgang — og það er undirstöðuatriði, — að sjúklingar sem þurfa bráðrar aðgerðar við, þurfi ekki að þola nokkra bið.