14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (3417)

175. mál, heyrnleysingjaskóli

Auður Auðuns:

Herra forseti. Það þarf engan að furða, þó að málefni Heyrnleysingjaskólans beri hér á góma, eftir að nemendafjöldi þar hefur tvöfaldazt, meira en tvöfaldazt og aðstæður allar hinar erfiðustu. Það má segja, að skólinn sé nú á tímamótum og það þarf að ráða fram úr vandanum og ég hef áður látið í ljós í umr., sem urðu í sambandi við fsp. um málefni Heyrnleysingjaskólans, að það væri nauðsynlegt að gera sér nú grein fyrir, hvaða stefnu á að hafa í þessum málum. Það þolir enga bið. Það hefur svo margt gerzt einmitt á þessu sviði annars staðar og hjá okkar nágrannaþjóðum nú á síðustu 1–2 áratugum, að það væri gersamlega óforsvaranlegt, ef við ættum ekki að hyggja að því og læra af reynslu, sem annars staðar er fengin og aðhæfa hana okkar íslenzku aðstæðum.

Ég verð að segja, að síðan við samþ. lög hér á hv. Alþ. um Heyrnleysingjaskólann, árið 1962 að ég ætla, hefur sett að mér meiri og meiri efasemdir um, að ýmis ákvæði þeirra laga hafi verið skynsamleg. Ég á fyrst og fremst við þá breytingu, sem þá var gerð á lögum um Málleysingjaskólann, eins og hann hét áður, að færa skólaskyldu úr 8 árum niður í 4 ár. En ég hlýt að segja, eins og ég geri ráð fyrir, að margir hv. þm. geti tekið undir með mér, maður vissi ekki um aðrar aðferðir til þess að endurhæfa þessi börn en láta þau inn í Heyrnleysingjaskóla. Og ég er ekki að mælast undan þeirri ábyrgð, sem á mér hvílir ásamt öðrum þm., sem þá sátu á hv. Alþ., en ný stefna og nýjar raddir, sem ryðja sér æ meir til rúms, fara einmitt í þá átt að færa kennslu barnanna sem mest inn í eðlilegt umhverfi og með nútímatækni er ótrúlegt, hvað hægt er að komast langt í því. Og það er alveg sérstök áherzla á það lögð af öllum, sem til þekkja, að byrja endurhæfinguna nógu snemma, jafnvel svo snemma, að börn á fyrsta aldursári séu látin fá heyrnartæki.

Ég vil, vegna þess að borið hefur á góma hér í umr. og ennfremur í nál., sem hv. þm. hefur verið sent, hlutur kvenfélags hér í borg, sem heitir Zontaklúbbur Reykjavíkur, sá hlutur, sem það hefur átt að því að vekja athygli á nýjum og breyttum viðborfum um kennslu heyrnskertra. Þetta félag hefur ötullega beitt sér fyrir ýmsum úrbótum í málefnum heyrnarskertra og ég vil fullyrða, að það hafi beitt sér fyrir hlutum, sem eru beinlínis það merkasta, sem hefur gerzt í þessum málum á síðari árum.

Við höfum fengið sent nál. frá þeirri n., sem hæstv. menntmrh. skipaði, og ég kemst ekki hjá því að víkja þar að mjög ómaklegum og beinlínis villandi ummælum, sem þar koma fram og í fskj.

Ég vil þá fyrst víkja að því bréfi, sem skólastjóri Heyrnleysingjaskólans hefur sent ýmsum erlendum aðilum til þess að fá staðfestingu þeirra á því, að heyrnleysingjaskólar þurfi að vera til og er þar í því sambandi nefndur danskur læknir, en hv. síðasti ræðumaður varði verulegum tíma af ræðu sinni til þess að sýna fram á eða gerði tilraun til að sýna fram á, að ekki væru kenningar hans allar uppbyggilegar. Ég þarf ekki að svara fyrir dr. Bentsen. Hann er maður, sem nýtur slíks álits, að ég held, að þetta nart skaði hann satt að segja lítið. En í þessu bréfi segir, að þessi ágæti læknir hafi tilkynnt konunum í þessu tiltekna kvenfélagi, — tilkynnt konunum í klúbbnum, að sérskólar fyrir heyrnleysingja væru algerlega ónauðsynlegir, ættu raunar ekki að vera til. Og svo, að Zontaklúbburinn hafi haldið uppi áróðri fyrir þessari kenningu meðal foreldra barna í Heyrnleysingjaskólanum.

Ég vil fyrst og fremst mótmæla þeim niðrandi ummælum, að þetta félag taki á móti einhverjum tilkynningum og gerist síðan talsmaður og útbreiðslutæki þess, sem einhver lætur sér detta í hug að tilkynna því. Mér finnst þetta vera beinlínis meiðandi. Og svo vil ég mótmæla því, sem sagt er, að þessi félagsskapur hafi haldið uppi áróðri fyrir því, að heyrnleysingjaskólar væru gersamlega ónauðsynlegir. Hann hefur ekki gert það.

Hv. ræðumaður sagði, að félagið hefði gert það og ég vil þá biðja hann að finna orðum sínum stað, ef hann vill, að þau séu tekin alvarlega.

Ég skal ekki fara að telja upp það, sem þessi félagsskapur hefur gert til þess að bæta aðstöðu heyrnarskertra hér á Íslandi og greiða fyrir úrbótum í þeirra málum. Það mætti svo margt annað upp telja en það, sem hv. þm. nefndi áðan og ég vissulega virði það við hann, að hann lét þess þó að einhverju getið. En ég vil vegna þess, sem hann las hér upp úr bréfum, sem ég einnig hef í afriti, annars vegar frá danska menntmrn. og hins vegar frá yfirstjórn sænsku skólanna, „Kungliga skolöverstyrelsen“, vekja athygli á því, að það, sem hann las úr þessum bréfum, staðfestir einmitt það, að þróunin gengur í þá átt að færa þessi börn inn í talandi umhverfi, sem hafa verið einangruð í heyrnleysingjaskólum, því að þar er um verulega einangrun að ræða. Ég held, að það geti enginn mótmælt því, sérstaklega þegar þau eru þar að auki í heimavist og sem betur fer vil ég segja um börnin, sem búa hérna í Reykjavík og líklega í nágrannabæjunum, að eftir að þrengdist í skólanum í haust, voru þau send heim til sín og búa þar og ég ætla að vona, að ekki komi til þess aftur, að þau þurfi að einangrast það mikið, að þau eigi aftur eftir að fara í heimavist í heyrnleysingjaskóla. Varðandi börnin utan af landi er úr vöndu að ráða, og maður auðvitað getur ekki bent á aðra möguleika fyrir þau.

En það var eitt, sem kemur fram í þessum báðum bréfum frá skólayfirvöldum í Danmörku og Svíþjóð, að það er eftir því sem unnt er, verið að flytja kennsluna inn í almenna skóla. Og þá vil ég leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. þm., að hann talar eins og það ætti bara að setja þessi börn inn í venjulega barnaskóla með því kennaraliði, sem þar er. Hverjum mundi nú detta annað eins í hug? Vitanlega er það ætlunin, að þar geti þau notið aðstoðar og kennslu hjá sérfróðum kennurum. Það dettur engum annað í hug. Það, að flytja þau inn í almenna skóla, er til þess að rjúfa einangrunina, til þess að koma börnunum í talandi umhverfi og með tækni nútímans er hægt að ná gríðarlega langt í því að láta þau stunda nám í bekkjum með heilbrigðum börnum.

Það lýkur nú senn þingfundi, þannig að ég verð að stytta mjög mitt mál. Það, sem ég vil leggja áherzlu á, er, að byggingarframkvæmdir, sem mér skilst, að séu þá miðaðar við þær teikningar, sem fyrir hendi eru, sem gera ráð fyrir milli 50 og 60 barna skóla, að þær verði ekki til þess að fyrirbyggja, að það sé hægt að fara inn á aðrar brautir í kennslunni og flytja hana meira inn í barnaskólana, þá almennu barnaskóla, heldur en nú er. Það er það, sem ég óttast. Hitt held ég, að við getum öll verið sammála um hv. þm., að það þurfi að búa betur að Heyrnleysingjaskólanum. En, eins og ég segi, ég óttast, að með slíkri byggingu sé verið að festa allt í gamla kerfinu, sem a.m.k. ég tel mjög vafasamt að svari lengur kröfum tímans eða sé það heppilegasta. Hitt er annað, að það húsnæði má að sjálfsögðu nota til annars seinna, ef frá því yrði horfið að hafa Heyrnleysingjaskólann eins fjölmennan og hann er nú, þó að hann verði til áfram.

Það var að vísu ýmislegt fleira, sem ég hefði viljað segja í sambandi við þetta mál, en til þess vinnst naumast tími úr þessu. Ég vil aðeins nefna, að við höfum 4 þm. úr öllum flokkum flutt þáltill. um skipun n. sérfræðinga til þess að gera till. um framtíðarskipulag á endurhæfingu og kennslu heyrnarskertra barna. Sú till. á sjálfsagt ekki eftir að koma til umr. á þessu þingi, vegna þess hve liðið er á þingtímann, en ég ætla, að hún gefi nokkra hugmynd um, að það eru margir farnir að leggja eyrun við, þegar talað er um breytta stefnu í þessum efnum. Ég vona, að hæstv. menntmrh. taki þessa þáltill. til gaumgæfilegrar athugunar, enda þótt hún hljóti ekki afgreiðslu á þessu þingi.