19.12.1968
Neðri deild: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hafði nú gert mér vonir um, að ríkisstj. og hennar flokkar mundu sjá að sér og sækja þetta mál ekki af slíku ofurkappi og raun er á orðin og þess vegna mundu þeir fallast á þá dagskrártillögu, sem hér var flutt við 2. umr. málsins. Sú hefur því miður ekki orðið raunin á, en mér finnst þetta mál vera þannig vaxið, að það sé ekki hægt að láta það fara frá þinginu umræðulaust við 3. umr. og tel því rétt að víkja að því nokkrum orðum.

Það væri sérstök ástæða til þess, ef um rýmri tíma væri .að ræða, að ræða um tilefni þess, að þetta frv. er fram komið eða ástæðuna til þess, að þetta frv. er fram komið. Það tilefni sýnir nefnilega, að hér á landi er fylgt allt annarri stefnu í efnahagsmálum heldur en í þeim löndum, sem eru næst okkur og yfirleitt í þeim löndum, sem talin eru vestræn lönd. Í öllum þessum löndum er það talið grundvallaratriði heilbrigðs efnahagslífs að tryggja sem stöðugast gildi gjaldmiðilsins. Þess vegna eru engar ráðstafanir látnar ógerðar til þess að ná þessu takmarki. Hér á landi hefur hins vegar verið ríkjandi sú stefna um skeið, að stöðugt verðgildi gjaldmiðilsins skipti ákaflega litlu máli og eiginlega væri það eina úrræði og allsherjarráð við öllum vanda í efnahagsmálum að beita gengisfellingunni. Þess vegna hefur reyndin orðið sú, að á tæpum 9 árum hafa orðið hér 4 gengisfellingar. Hliðstætt dæmi er hvergi hægt að finna í nálægum löndum. Ástæðan til þess, að annars staðar hefur verið fylgt annarri stefnu í þessum málum heldur en hér hefur verið gert um skeið, er sú, að það hefur hvarvetna gefizt illa að hafa tíðar gengisfellingar. Það hefur verið vísasti vegurinn til algers öngþveitis í efnahagsmálum þjóðarinnar. Glöggt dæmi um þetta er það, sem gerðist í Þýzkalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar gengið var stöðugt látið falla með þeim afleiðingum, að þar skapaðist algert öngþveiti. Annað dæmi um þetta gerðist í Frakklandi eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar frankinn var felldur ekki sjaldnar en 6 sinnum á árunum 1945–1958 með þeim afleiðingum, að það stjórnarkerfi, sem Frakkland bjó við, hrundi í raun og veru vegna efnahagserfiðleika og sett var á þar hálfgerð einræðisstjórn á tímabili. Ég held, að þó að það sé ekki ástæða til þess, að það verði ekki hægt að ræða þetta mál nánar að sinni, þá sé mikil ástæða til þess að gera sér vel grein fyrir þeim mikla mun, sem er á fjármálastefnu þeirri, sem hefur ríkt hér á landi, og því, sem á sér stað í öðrum löndum. Þess vegna er í raun og veru komið til sögunnar það öngþveiti, sem við búum nú við.

Ég sé, að hæstv. bankamálaráðh. er hér viðstaddur, en hann á að hafa það fyrir eitt af sínum aðalverkefnum að vera verndari sparifjárins í landinu, og það er fróðlegt að athuga það, hvernig gengisfellingarnar hafa leikið sparifjáreigendur og það er alveg nóg í því sambandi að nefna allra seinasta dæmið. Samkv. skýrslum Seðlabankans nam sparifjáreign landsmanna 1. nóvember s.l. um 10 milljörðum og 100 millj. kr., þegar lögð eru saman bæði spariinnlán og veltiinnlán. Miðað við það gildi eða það gengi, sem þá var á bandarískum dollar, nam þetta 177 millj. dollara. Núna eftir gengisfellinguna nemur þessi sparifjáreign Íslendinga í dollurum ekki nema 115 millj. M.ö.o., gagnvart bandarískum dollar hefur sparifjáreign landsmanna með þessu eina pennastriki, gengisfellingunni, verið rýrð eða verðskert um hvorki meira né minna en 62 millj. dollara. Þetta er tvímælalaust sú langstærsta eignataka eða ég vil segja eignarán, sem hefur átt sér stað á Íslandi. Ég minnist þess ekki, að nokkru sinni hafi ein stétt manna verið eins harðlega leikin í efnahagsmálum eins og sparifjáreigendur í sambandi við seinustu gengisfellingu, eins og þessar tölur, sem ég nú nefndi, bera vott um.

Þessi ráðstöfun virðist hafa verið gerð fullkomlega án þess, að nokkuð væri hugsað um það, hvaða áhrif það hefði á hag sparifjáreigenda og sparifjársöfnunina í landinu og menn hafa ekki heldur gert sér grein fyrir því, hversu stórfelldan fjárhagslegan vanda þetta hefur skapað, því að af þessu leiðir það, að verðgildi sparifjárins, sérstaklega þegar þarf að miða við erlendan gjaldeyri, hefur stórkostlega lækkað, jafnframt því sem þörf atvinnuveganna og verzlunarfyrirtækja fyrir lánsfé hefur stórkostlega aukizt. Enda standa stjórnarvöldin hér frammi fyrir vanda, sem er vafasamt, að þeim takist að ráða fram úr, því að lánsfjárskorturinn hjá fyrirtækjunum er að verða svo mikill, að atvinnureksturinn er í mörgum tilfellum að stöðvast. Hitt er þó enn alvarlegast í þessum efnum, hve grálega sparifjáreigendur hafa verið hér leiknir, þannig að með einu pennastriki hefur eign þeirra verið verðrýrð sem nemur 62 millj. dollara og án þess að þeim sé séð fyrir nokkrum bótum í staðinn. Það er rétt, að það er mjög harkalega gengið að launþegum með þessari ráðstöfun, allt of harkalega, en þó verð ég að segja það, að meðferðin á sparifjáreigendum er enn þá verri. Og það sorglega í þessu er það, að þessi framkvæmd er framin af þeim aðila, sem öðrum fremur á að bera hagsmuni sparifjáreigenda og sparifjársöfnunina fyrir brjósti, Seðlabankanum. Ég tel, að með þessum hætti hafi ríkisstj. og Seðlabankinn framið mesta ránsverk, sem hægt er að finna dæmi um í íslenzkri sögu, — ránsverk, sem á eftir að hefna sín með margvíslegum hætti á komandi árum, ekki aðeins á þann hátt, að það skapist stórkostlega aukin spenna í lánsfjármálum þjóðarinnar, eins og ég hef bent hér á, heldur hlýtur þetta að vekja stórkostlega ótrú á sparifjársöfnun manna í framtíðinni, a.m.k. meðan þeir menn fara með völd, sem nú ráða ríkisstj. og Seðlabankanum, því að það er auðséð, að ef eitthvað á bjátar að nýju í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem eru miklar líkur á, svo að ekki sé meira sagt, miðað við þá stefnu, sem nú er fylgt, er þess ekki langt að bíða, að framin verði fimmta gengisfellingin. Þetta er afleiðing þess, að hér á landi hefur seinustu 10 árin verið fylgt allt annarri stefnu í efnahagsmálum en í öðrum vestrænum löndum. Hér hefur það verið úrlausnaratriðið við öllum vanda að fella krónuna, en annars staðar hefur það verið höfuðmarkmið að tryggja verðgildi gjaldmiðilsins.

Það þarf áreiðanlega ekki að lýsa því fyrir hv. þm. hvaða annmarkar fylgja gengisfellingu. Margir fleiri og stórfelldari heldur en þeir, sem ég nú nefndi, verðrýrnun sparifjárins og lífskjararýrnun hjá launamönnum. Þess vegna er það, sem allir ábyrgir fjármálamenn forðast gengisfellingar í lengstu lög en hafa það ekki fyrir sport, eins og núverandi valdhafar virðast hafa hafi krónuna með því að vera að fella hana sí og æ. Sannleikurinn er sá, ef menn vilja gera sér fulla grein fyrir þessum málum, þá er það í raun og veru tvennt, sem við getum sagt, að séu megineinkenni og megintákn íslenzks þjóðarsjálfstæðis og okkur ber að bera jafna virðingu fyrir og sýna sömu umhyggju. Þessi tákn eru fáninn og krónan. En að því leyti er kannske krónan enn þá þýðingarmeira tákn fyrir okkar sjálfstæði, okkar álit út á við, að það er enn þá meira tekið eftir því á erlendum vettvangi, hvernig með hana er farið, heldur en þó að menn taki eftir íslenzka fánanum á þeim stöðum, sem þeir kunna að sjá. Þær fréttir berast hins vegar um víða veröld, þegar verið er að fella gengi krónunnar og þykja sönnun um það, hér eins og annars staðar, að það sé meira en lítið að í efnahagsmálum og stjórnmálum þeirrar þjóðar, sem þannig hagar sér.

Það mætti kannske segja í sambandi við gengisfellingar, að þær geti undir einum kringumstæðum átt nokkurn rétt á sér og það væri það, ef kaupgjaldið í landinu væri orðið mjög óeðlilega hátt í samanburði við það, sem væri í öðrum löndum, og þess vegna þyrfti að jafna þarna bilið til þess að auka samkeppnishæfni atvinnuveganna með því að breyta skráningu krónunnar. En slík forsenda hefur aldrei verið fyrir hendi hér á landi, vegna þess að á undanförnum árum hefur kaupgjaldið hér yfirleitt verið mun lægra heldur en í þeim löndum, sem við höfum þurft að keppa við á heimsmörkuðunum. En ríkisstj. virðist hafa frá upphafi verið þeirrar skoðunar, að atvinnuvegirnir ættu ekki við nema einn vanda að stríða og það væri ekki nema eitt að í þeirra rekstri, sem væri athugunarvert og þyrfti að ráða bót á, og það væri það, að kaupið væri of hátt. Þess vegna hefur hún alltaf verið að höggva í þennan eina og sama knérunn. Þess vegna er nú komið svo, að í dag er kaupgjald á Íslandi um það bil helmingi lægra heldur en það er í nágrannalöndum okkar og lífskjörin koma til með að verða, ef engin breyting verður á þessu, allt að helmingi lakari heldur en þau eru víða annars staðar hér í nágrannalöndum okkar. Hver heldur nú, að þegar kaupgjald er nærri helmingi lægra heldur en það er í þeim löndum, sem við keppum við, að það sé því að kenna, að þannig er ástatt í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem nú ber raun vitni? Það hlýtur hver og einn að geta sagt sér það sjálfur, að þegar svona er ástatt með samanburð á kaupgjaldi hér og annars staðar, hljóta allt aðrar orsakir að valda þeim erfiðleikum, sem við er glímt, heldur en þær, að kaupgjaldið sé of hátt. Og það hafa líka ýmsir stjórnarsinnar orðið til að játa það í umræðunum hér, m.a. í dag, þegar hv. 10. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson játaði það, að það væri mörgu ábótavant í stjórn og starfsháttum ýmissa fyrirtækja og það hefðu ekki fengizt fram aðgerðir af hálfu stjórnarflokkanna eða ríkisstj. til að ráða nokkra bót þar á.

Því er ekki síður ábótavant, hvernig búið hefur verið að atvinnufyrirtækjunum í lánsfjármálum. Íslenzkir atvinnurekendur hafa á undanförnum árum verið látnir búa við stöðugan stofnlánaskort og rekstrarfjárskort, og það hefur háð atvinnurekstrinum svo stórkostlega, að það á sinn mikla þátt í því, að hann er á mörgum sviðum miklu lélegri hér heldur en í þeim löndum, sem við þurfum að keppa við. En ríkisstj. hefur alveg skort skilning á þetta. Hún hefur ekki séð neinn vanda annan en þann, að kaupið væri of hátt og þess vegna væri ekki um annað að ræða en lækka gengið, þrátt fyrir alla þá ókosti, sem því hafa fylgt og ég hef nú minnzt á, og þó sérstaklega, hvaða áhrif þetta hefur á gildi sparifjárins.

Það hefur verið sagt einmitt í sambandi við þessa gengisfellingu eins og reyndar alltaf áður, að með henni mætti leysa allan vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það hefur verið boðskapur ríkisstj. En hvað er þá hægt að lesa út úr því frv., sem hér liggur fyrir? Ber þetta frv. vott um það, að gengisfelling ein leysi allan vanda og það þurfi ekki annað heldur en gera þetta eina pennastrik til þess að allt sé komið i lag? Nei, þetta frv. fjallar einmitt um það, að gengisfellingin ein leysi alls ekki vandann. Það er meginefni þessa frv. í raun og veru að lýsa því yfir, að gengisfellingin leysi ekki vandann og þess vegna verði að gera hér nýja ráðstöfun til að hjálpa útgerðinni, það verði að taka mjög stóran hlut af því, sem sjómönnum ber, og færa það yfir til útgerðarinnar, annars verði rekstur hennar ekki tryggður. M.ö.o., þrátt fyrir þessa miklu gengisfellingu leysir hún ekki vandann meira heldur en það, að það verður að leggja nýjar álögur á sjómannastéttina sérstaklega, til þess að hægt sé að halda skipunum úti. Meiri er nú árangurinn af gengisfellingunni ekki samkv. því frv., sem ríkisstj. sjálf flytur og hér er nú til umræðu.

Efnt þessa frv. er um það, að gengisfellingin sé ófullnægjandi fyrir útgerðina og þess vegna verði að leggja nýjan, stórfelldan skatt á sjómannastéttina sérstaklega, til þess að hægt sé að koma útgerðinni af stað. Það viðhorf, sem kemur hér fram gagnvart sjómannastéttinni, er talsvert annað en menn heyra, þegar hæstv. sjútvmrh. eða fulltrúar útgerðarmanna stíga í stólinn á sjómannadaginn og lýsa því yfir, að þeir séu allir af vilja gerðir til þess að gera allt fyrir sjómennina, sem hægt er að gera fyrir þá. Í þessu frv. birtist þessi umhyggja á þann veg, að það skuli lagður sérskattur á sjómennina eina til þess að tryggja rekstur útgerðarinnar. Hingað til hefur það verið stefnan, að þegar útgerðin hefur búið við sérstakan vanda, hafa henni verið veittar uppbætur, sem hafa verið greiddar úr ríkissjóði eða með öðrum hætti sameiginlega af öllum landsmönnum. Hér er hins vegar tekin upp alveg ný stefna, sem er sú, að það skuli lagður sérskattur á sjómennina eina og þeir skuli bera þá byrði, en ekki heildin eins og áður hefur þó átt sér stað.

Ég held, að það sé mikilsvert fyrir sjómannastéttina að festa sér það vel í minni, hver er framkoma ríkisstj. og stjórnarflokkanna i þessu máli. Og ég held, að það sé sérstaklega mikilsvert fyrir sjómennina að festa sér vel í minni, hver er framkoma Alþfl. hér. því að hingað til hefur það verið svo, að verulegur hluti sjómanna hefur verið nokkuð tryggur Alþfl. og talið hann líklegastan og vænlegastan til að vera hag sinnar stéttar fyrir brjósti, enda hafa margir beztu og mestu verkalýðsforingjar Alþfl. komið úr röðum sjómannastéttarinnar. Nefni ég þá sérstaklega tvo, Sigurjón Á. Ólafsson og Jón Sigurðsson, sem hafa verið í hópi allra merkustu verkalýðsleiðtoga á undanförnum áratugum, og að mínum dómi er Jón Sigurðsson vafalítið einn skeleggasti og bezti verkalýðsleiðtogi, sem þjóðin hefur átt á undanförnum árum. Ég mundi þess vegna, ef ætti að framkvæma eitthvert mat á því, hver hefur verið einna skeleggastur í málum sinnar stéttar seinustu árin, þá mundi ég telja Jón Sigurðsson þar allra fremstan, enda veit ég það vel, að það er ekki farið að hans ráðum í þessu máli. Og ég er viss um það, að ef Jón Sigurðsson væri yngri og eins skeleggur og þegar hann var upp á sitt bezta, þá mundi sú ráðstöfun, sem felst í þessu frv., aldrei ná fram að ganga. En þetta frv. er þannig einnig yfirlýsing um það, að í Alþfl. er komin til valda ný stétt og aðrir menn heldur en réðu þar áður. Svona frv. hefði aldrei verið samþykkt hér á Alþ. á þeim tíma, þegar t.d. Haraldur Guðmundsson eða Stefán Jóhann Stefánsson sátu í ráðherrasæti. Og það hefði aldrei verið samþykkt einróma af þm. Alþfl., ef maður eins og Sigurjón Á. Ólafsson hefði átt hérna sæti. En því miður, slíka menn er ekki lengur að finna í forystusveit Alþfl. og þess vegna er svo komið, að það eru allar horfur á, að þetta frv. verði afgreitt eftir litla stund hér frá Alþ.

En það er ekki þar með sagt, að þó að málið verði afgreitt hér á Alþ., að þar með séu komnar fullar málalyktir. Sjómennirnir eiga enn eftir að segja sitt seinasta orð um þetta mál og það finnst mér vera ömurlegt dæmi um getuleysi núv. ríkisstj., hvernig hún heldur á þessu máli. Það má vel vera, að hlutaskiptum sé á þann veg háttað núna, að rétt sé að gera einhverja breytingu þar á. Ég skal ekki fella neinn endanlegan dóm um það, en ef svo er, álít ég, að það hefði verið rétta leiðin af ríkisstj. og útgerðarmönnum að snúa sér til sjómanna sjálfra og samtaka þeirra, leggja á borðið hvernig þeir teldu ástatt í þessum málum og reyna að fá þá til samninga á þeim grundvelli. Og ég er næstum viss um það, að ef sú leið hefði verið valin, hefði því verið sæmilega tekið af sjómönnum. En málið liggur allt öðru vísi fyrir, þegar farið er af stað með slíku ofbeldi og offorsi eins og hér er gert. Þá er eðlilegt, að sjómannastéttin snúist til harðari andspyrnu en ella.

Ég sagði áðan, að þetta frv. væri lærdómsríkt fyrir sjómannastéttina, því að svo að segja öll meginákvæði þess fela það í sér að skerða hag og aðstöðu sjómannastéttarinnar, en bæta aðstöðu atvinnurekandans og láta sjómennina hvergi fá bætur fyrir það, sem af þeim er tekið. Nú er það hins vegar vel ljóst, að sjómenn hafa þörf fyrir margs konar endurbætur á sínum starfskjörum. Ég nefni það t.d., að sjómennirnir eru eina stéttin, sem vinnur fjarri heimilum sínum, og þeir verða sjálfir að borga fæðiskostnað sinn. Allar aðrar vinnandi stéttir, sem vinna fjarri heimilum sínum, fá fæðiskostnað sinn greiddan. Og ef það hefði nú t.d. í þess frv verið eitthvað gengið til móts við sjómenn í þessum efnum og tekin upp sú regla, að þeir fengju fæðiskostnað sinn að fullu greiddan, þá hefði málið strax horft nokkuð öðruvísi við. En það er líka augljóst mál, að sjómenn þurfa að fá aflatryggingar- og verðtryggingarsjóð sinn stórlega aukinn, því að margir þeirra bera mjög litinn hlut frá borði af þeim ástæðum, að aflinn er rýr eða þá verðið hefur fallið og þess vegna er það eitt mikilvægasta mál þeirra að fá stórkostlega efldan Aflatryggingar- og Verðtryggingarsjóð. Þetta mál hefði horfi öðruvísi við, ef t.d. það ákvæði hefði verið í frv., að þessum 17%, sem á að taka af óskiptum afla, hefði verið skipt þannig, að útgerðarmenn hefðu fengið helminginn og sjómenn svo fengið hinn helminginn, t.d. til þess að efla Aflatryggingarsjóð og Verðtryggingarsjóð. En slíku er ekki að heilsa. Það mun vera búið að lofa því fyrir alllöngu hér af hæstv. ríkisstj. að gera endurbætur á lögum um Aflatryggingarsjóð, en það bólar ekki neitt á því. Þetta mál, sem skerðir hagsmuni sjómannanna, er látið ganga fyrir. Og það sýnir viðhorf ríkisstj. til sjómannastéttarinnar.

Mér virðist margt benda til þess, að ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hér á Alþ. séu að leika sama háskaleikinn og þeir léku á seinasta þingi. Þá var ráðizt í það þrátt fyrir gerða samninga við verkalýðshreyfinguna að fella úr lögum verðtryggingu á launin. Þetta var gert á fáum dögum hér á Alþ. án þess að ræða nokkuð um það við verkalýðshreyfinguna. Og það vissu allir, hverjar afleiðingarnar yrðu. Afleiðingarnar urðu allsherjarverkfall, stærsta verkfall, sem verið hefur á Íslandi og stóð á þriðju viku og hafði stórkostlegt tjón í för með sér fyrir alla aðila, fyrir atvinnurekendur, fyrir þjóðina og fyrir launþega. Mér sýnist flest benda til þess, ef ríkisstj. víkur ekki frá þeirri stefnu, sem mörkuð er í þessu frv. að einhverju leyti, þá sé hún að framkalla eitthvað svipað og það, sem gerðist á s.l. ári. Ég vil því, áður en ég lýk máli mínu, beina þeim áskorunum eindregið til ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, að þó að þeir þrjózkist nú við og þó að þeir samþykki þetta frv. og afgreiði það frá Alþ., taki þeir með sanngirni á málum sjómanna, þegar samningar hljóta að hefjast um þeirra kjör nú næstu daga. Og þeir geri svo vel við sjómennina, þessir aðilar, að sjómennirnir geti unað vel sínu hlutskipti og þurfi ekki að láta koma til verkfalls, því að nógar eru þær skaðsamlegu afleiðingar, sem hljótast af gengisfellingunni, þó að því verði ekki bætt við, að það verði langvinn stöðvun á aðalatvinnuvegi landsmanna, þegar hann á að hefjast eftir áramótin. En það þýðir ekki að vera að bjóða sjómönnum neinar smánarbætur. Það verður að bjóða þeim heiðarlegar bætur, sem eru jafngildar því, sem útgerðarmönnum er ætlað í því frv., sem hér liggur fyrir. Sjómenn geta ekki og mega ekki sætta sig við minna en halda þeim hlut, sem þeir hafa haft, þó að það verði kannske í einhverju öðru formi heldur en verið hefur.

Ég vil svo að seinustu víkja að þeim mikla barlómi og þeirri vantrú á framtíð þjóðarinnar og aðstöðu þjóðarinnar, sem mér virðist nú einkenna allan málflutning ríkisstj. og hennar stuðningsmanna. Það er rétt, að þjóðin hefur orðið fyrir nokkru áfalli miðað við það þegar árferði hefur verið bezt hér á landi og viðskiptakjörin bezt. En þrátt fyrir það er engan veginn hægt að kalla ástandið i dag slæmt. Það má fullkomlega segja, að það hafi verið meðalárferði hjá okkur á undanförnum áratug og vel það. Og þó að þær tölur kunni að vera réttar, að þjóðartekjurnar í ár verði eitthvað 10–15% minni heldur en þær urðu árið 1966, þá eru meðaltekjurnar á mann, þ.e. þegar máður deilir þjóðartekjunum á hvern íbúa, þá eru þær þrátt fyrir þetta hærri heldur en í mjög mörgum löndum öðrum, meira að segja sumum nágrannalöndum okkar. Það hefur ekki orðið neitt það áfall, að það sé hægt að tala um, að það sé raunverulega neyðarástand hjá þjóðinni, þó að það sé verið að reyna að búa það til í áróðri ríkisstj. og stuðningsmanna hennar. Og þess vegna, ef rétt er tekið á þessum málum og rétt er skipt, þá er engin þörf fyrir það, að þjóðin sætti sig við einhver sultarkjör. Það er ekki hægt að hafa þessa röksemd þannig, að réttlæta það með því ástandi sem nú er, að þjóðin þurfi að skerða lífskjör sín um 20%, t.d. láglaunastéttirnar. Það fer fjarri því. En ég held, að ríkisstj. sé með þessum sultarsöng að vinna mjög vont verk. Ríkisstj. og flokkar hennar eru með þessum áróðri að veikja trú manna á framtíð þjóðarinnar og framtíð landsins og það kemur fram hjá ýmsu ungu fólki í dag miklu meiri óhugur og miklu meiri vantrú heldur en ég hef nokkru sinni áður orðið var við, a.m.k. um langt skeið. Og þetta birtist m.a. á þann veg, að það hefur aldrei eins margt af ungu fólki verið að hugsa um það að flytja til annarra landa heldur en um þessar mundir. Og því miður er að finna í hópi þess fólks margt af því fólki, sem væri líklegt til mjög nytsamra starfa hér á landi, bæði sakir dugnaðar og menntunar. Sá eymdaráróður, sem er rekinn af stjórnarflokkunum og sem er að miklu leyti rangur, ýtir áreiðanlega mjög undir slíkan landflótta um þessar mundir. Mér finnst ástandið vera þannig, þrátt fyrir það að það sé ekki sami gróði hér nú og var, þegar hann var mestur um skeið, að við þurfum ekki að líta neitt dökkum augum á ástandið. Það er ekki neitt slæmt, ef við bara miðum við það, sem við erum vanir að búa við upp og ofan á undanförnum árum. Og ef við tökum með manndómi á málunum og beitum öðrum úrræðum og manndómsmeiri heldur en gengisfellingum.

Á okkur að vera auðvelt að sigrast á þessum erfiðleikum. Og þá eigum við að starfa þannig og tala þannig, að fólkið geti haft fulla trú á góðri framtíð hér á landi, að það þurfi ekki að sætta sig við mikið lakari lífskjör heldur en annars staðar eru og þess vegna getum við gengið fram a leiksviðið með bjartsýni og atorku. En þetta verður hins vegar því aðeins, að það verði skipt um stjórn og skipt um stefnu, því að undir þeirri forystu, sem nú er, og sé þeirri stefnu fylgt áfram, sem nú er fylgt, hlýtur að stefna áfram í öfuga átt.