19.12.1968
Neðri deild: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður úr því sem nú er komið. Ég hafði hugsað mér að flytja hér tvær litlar brtt. við frv. nú við 3. umr., en þær eru við 3. gr. frv. um það, að síðasti málsl. gr., sem byrjar þannig: „Kostnaðarhlutdeild“ o.s.frv., falli niður. Og 2. brtt. er við 4. gr. um það, að 3. málsl. gr., sem er þannig: „Þessi greiðsla kemur ekki“ o. s. frv., falli niður.

Það, sem felst í þessum tveimur till., er einungis það, að þau ákvæði í þessum tveimur greinum, sem mæla svo fyrir, að það gjald, sem lagt er til að taka af óskiptum aflahlut, verði lagt í stofnfjársjóð m.a., það falli niður, þ.e. þau ákvæði, sem segi, að þessi hluti af fiskverðinu komi ekki til hlutaskipta.

Við 2. umr. fór hér fram atkvgr. um það að vísa frv. sem heild frá, en með atkvgr. um þessa till. fengist úr því skorið, hvort þm. séu í raun og veru á því, að það sé óhjákvæmilegt að samþykkja hér frv. um það að skerða á þann hátt launakjör sjómanna, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel, að það sé hægt að samþykkja frv. út af fyrir sig, þó að þetta úr frv. yrði fellt niður. En þar sem þessar till. mínar koma nú fram of seint, þá bið ég hæstv. forseta að leita eftir afbrigðum fyrir till., svo að þær geti komið hér til atkv.