18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (3455)

196. mál, Landnám ríkisins

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. á þskj. 394, sem ég hef leyft mér ásamt hv. meðflm. mínum að flytja, felur í sér ályktun um að fela landbrh. að skipa 5 manna n. til að endurskoða lagaákvæði um starfssvið Landnáms ríkisins, en þau er að finna í lögum um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Lagt er til, að n. verði skipuð 4 mönnum, sem tilnefndir eru einn af hverjum eftirtalinna aðila: Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, nýbýlastjórn og Framleiðsluráði landbúnaðarins, en ráðh. skipi formann n. án tilnefningar. Þau atriði, sem bent er á, að n. hafi sérstaklega til athugunar eru þessi:

Aukinn stuðningur Landnámsins til félagsræktunar, þar sem hennar er sérstaklega þörf, enda sé hún á vegum sveitarfélaga, búnaðarfélaga, búnaðarsambanda eða sérstakra ræktunarfélaga.

Aðild ríkisins og/eða stuðningur við heykögglagerð og aðra fóðurvinnslu úr hinu innlenda hráefni, sem hér er hægt að rækta.

N. verði falið að kanna möguleika á því að koma upp fóðurbirgðastöðvum í sambandi við félagsræktun og heykögglagerð. Þá yrði n. falið að hlutast til um, að nauðsynlegar faglegar athuganir verði gerðar á þessu sviði og rannsóknum á því hraðað.

Bent er á það í grg., að eðlilegt sé að endurskoða landnámslögin, sem að stofni til eru frá 1946, með tilliti til breyttra aðstæðna og viðhorfa í þjóðfélaginu. Landnámið hefur gegnt mikilvægu hlutverki og gerir það enn, þó að nú sé að miklu leyti horfið frá þeirri nýbýla– og landnámsstefnu, sem áður birtist í stofnun nýbýlahverfa. Það hefur ætíð unnið og vinnur enn að hagræðingu byggðar í landinu. Stutt er að stofnun nýbýla, þar sem búskaparskilyrði eru góð og landrými er nægt.

Þrátt fyrir stofnun fjölmargra nýbýla með stuðningi Landnámsins á síðustu 20 árum, hefur býlum ekki fjölgað í landinu, þvert á móti hefur þeim fækkað. Fáir, sem til þekkja og skyn bera á málin, munu telja, að sú fækkun hefði mátt vera meiri. Nýbýlastofnanir eru færri en áður, en meira er horfið að því að koma upp félagsrekstri á jörðum, sem geta borið meira en einnar fjölskyldubú. Slíkur félagsrekstur þykir hafa augljósa kosti og hefur þegar sýnt mjög góðan árangur víða um landið. Nokkuð hefur því létt á verkefnum Landnámsins og er því eðlilegt, að því verði fengin ný verkefni, jafnframt því sem það sinnir hinum fyrri, þar sem hin nýju verkefni eru augljóslega mjög brýn, bæði fyrir landbúnaðinn og þjóðarheildina.

Þessir hlutir, sem hér eru lagðir til, eru líklegir til að verða til enn meiri hagræðingar og til að auka mjög á öryggi landbúnaðarins og þar með að firra hann og ríkið slíkum áföllum, sem dunið hafa yfir á undanförnum árum. Stefnt er að því að hjálpa héruðunum til að hjálpa sér sjálfum, að þeim sé gert kleift að tryggja sig gegn því, að það þurfi að koma til geysidýrra fóðurflutninga á milli fjarlægra landshluta.

Félagsræktun hefur verið framkvæmd á allmörgum stöðum á landinu í allmismunandi formi þó og með mismunandi stuðningi. Hún hefur alls staðar orðið lyftistöng, víða heilla sveita og héraða og má þar tilnefna ræktun á Skógasandi í Rangárvallasýslu og Sólheimasandi í V.-Skaftafellssýslu og félagsræktun hefur verið framkvæmd í öllum sveitum A.-Skaftafellssýslu og lánazt mjög vel. Auk þessa er mér kunnugt um félagsræktun á nokkrum stöðum í Þingeyjarsýslum.

Vitað er, að mikill áhugi er fyrir félagsræktun í mörgum þeim sveitum, sem fyrir mestum áföllum hafa orðið að undanförnu vegna kalsins. Það er vitanlega ekki einhlítt, að ekki kali á landi, sem ræktað er í félagsræktun, síður en svo. En það má benda á mörg rök fyrir því, að félagsræktunin geti orðið til bjargar í kalári. Sjaldan eða aldrei kelur svo illa yfir heil héruð, að ekki séu nokkrir hlutar þeirra, heilar sveitir eða sveitarhlutar, sem betur sleppa. Velja má félagsræktun stað, þar sem minnst kalhætta er talin í hverri sveit eða í hverju héraði. Minni kalhætta er á túnum, sem aðeins eru slegin, en aldrei beitt, en þannig yrði í flestum tilfellum með félagsræktunina. Við félagsræktun á samfelldum stórum svæðum nýtast betur tæki, girðingarkostnaður verður minni, heyskapur verður ódýrari á slíkum samfelldum lendum og auðvelt og hagkvæmt er að vinna að honum í samvinnu. Þannig mundi stuðningur við félagsræktun nýtast vel og auka á hagkvæmni framleiðslunnar. Ræktun þessi yrði gerð og nýtt undir eftirliti og á ábyrgð þeirra félaga, sem að henni stæðu. Bændur mundu sjálfir vinna að heyskap.

Í grg. er nokkuð greint frá þeim grasmjölsverksmiðjum, sem í landinu eru nú. Af þeim er ein í eigu ríkisins. Það er Fóður– og fræframleiðslan í Gunnarsholti. Henni hefur verið komið upp án sérstakrar fjárveitingar og án sérstakrar lagaheimildar, en mjög í skjóli Landnámssins. Starfsmenn hennar hafa þegar nokkra reynslu í slíkri framleiðslu. Eðlilegast virðist því, að þessi stofnun verði með lögum bundin Landnámi ríkisins og því verði falin áframhaldandi forusta um þetta af hálfu ríkisvaldsins.

Framleiðslan frá Gunnarsholti og hinum grasmjölsverksmiðjunum hefur reynzt mjög góð og er mikil ánægja með hana hjá þeim bændum, sem hana hafa reynt. Efnagreiningar sýna, að hraðþurrkað fóður úr íslenzku grasi nálgast erlent kjarnfóður að fóðurstyrkleika. Það liggur á mörkum þess, sem nefnt er gróffóður og kraftfóður. Því mundi geta orðið af því verulegur gjaldeyrissparnaður að framleiða hér meira af graskögglum. Mikill áhugi er á því víða um héruð norðanlands, að þar verði komið upp hraðþurrkunarstöðvum og fóðurvinnslu og er ekki ólíklegt, að þar geti orðið að nokkru um samvinnufélög að ræða með stuðningi ríkisvaldsins eða samvinnu milli Landnámsins og ræktunarfélaga.

Raktar eru í grg. með till. helztu niðurstöður n., sem kannað hefur þessi mál á vegum Búnaðarþings og skilaði skýrslu til Búnaðarþings 1968. Þar kemur m.a. eftirfarandi í ljós:

Að hraðþurrkun varðveitir fóðurgildi jurtanna svo vel, að fóðrið liggur á mörkum þess að vera talið gróffóður og kraftfóður. Að meðaltali þurfti 1.4 kg af graskögglum í fóðureiningu af framleiðslu í Gunnarsholti 1968. Með þessari framleiðslu má því spara kraftfóður verulega.

Á Norðurlöndum eru menn farnir að gera sér vonir um, að hraðþurrkun á kögglum geti leyst af hólmi aðrar verkunaraðferðir á fóðri, svo sem útiþurrkun eða votheysgerð. Kostnaður við hana er ekki meiri fram yfir hinar eldri aðferðir en það, sem sparast kynni með ódýrari fóðrun á hinu vélþurrkaða fóðri.

Rúmþyngd köggla er miklu meiri, en annars fóðurs úr grasi og eru þeir því bæði betur fallnir til geymslu og flutninga, vegna þess hve lítið rými þeir taka miðað við fóðurmagn.

Nýjar verksmiðjur hafa yfirleitt farið stækkandi á undanförnum árum og reynast þær hagkvæmari. Eftir yfirlýsingum frá Danmörku og norskum áætlunum virtust þær verksmiðjur hagkvæmastar, sem voru með 8.5 smálesta vatnseimingargetu á klst., en það er u.þ.b. fjórföld stærð verksmiðjunnar í Gunnarsholti. Slíkar verksmiðjur þyrftu mikið land til umráða, eða frá 500-600 hektara.

Framleiðslutími virðist geta orðið svipaður á Suðurlandi og áætlað hefur verið í Noregi, eða um 2.000 stundir á ári, en litlu færri yrðu þær á Norðurlandi, en það mundi sennilega vinnast upp, vegna þess að þurrviðrasamara er í þeim landshluta.

Olíukostnaður reyndist ekki vera meiri hér, en á Norðurlöndum, en hann er eða var frá 38—49 aurum á hvert kg framleiðslunnar á árunum 1964—67 miðað við framleiðslu í Gunnarsbolti og á Stórólfshvolsvelli. Raforka til framleiðslunnar virtist aftur á móti vera þrisvar til fjórum sinnum dýrari hér en á Norðurlöndum, og má það sannarlega merkilegt teljast.

Fjármagnskostnaðurinn virtist allt að því helmingi hærri hér en á Norðurlöndunum, en rök voru leidd að því, að hann gæti lækkað mikið með hagkvæmari verksmiðjustærðum og betri nýtingu þeirra.

Búnaðarþing 1968 ályktaði í málinu og hvatti til áframhaldandi athugana og síðar til framkvæmda og á síðasta Búnaðarþingi var samþ. eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta.

„Búnaðarþing telur það þjóðarnauðsyn að efla framleiðslu landsmanna til útflutnings og gera hana fjölþættari. Enn fremur leggur Búnaðarþing sérstaka áherzlu á, að öll sú framleiðsla í landinu, sem dregur úr innflutningi, verði efld með öllum tiltækum ráðum. Búnaðarþing vill í þessu sambandi benda á eftirfarandi:

1. Að heykögglaverksmiðjan „Fóður og fræ“, sem rekin hefur verið í tengslum við Landnám ríkisins, verði efld, þar sem reynsla bendir ótvírætt til, að með notkun heyköggla megi spara erlenda fóðurvörur til verulegra muna.

2. Jafnframt lítur Búnaðarþing svo á, að nú þegar beri að gera áætlanir um staðsetningu kögglaverksmiðja, sem reistar væru með tilliti til hæfilegra flutningaleiða fyrir notendur framleiðslunnar og þess jafnframt gætt, að þeir staðir væru valdir, sem ætla má að verði áfallaminnstir í ræktun og árlegum rekstri. Þá skuli sérstaklega athuga leiðir til úrbóta, þar sem öflun heyfóðurs er erfið og kal hefur eyðilagt stórlega tún bænda undanfarin ár.

3. Þá telur Búnaðarþing nauðsynlegt, að hafnar verði á komandi hausti fóðurtilraunir með heyköggla, svo sýnt verði, að hve miklu leyti þeir geta komið í staðinn fyrir kolvetnisauðugan fóðurbæti.

4. Að Landnám ríkisins beiti sér fyrir ræktun á eignarlandi sínu sem víðast um landið og kaupi land í þessu skyni sem næst þeim byggðarlögum, sem hafa of lítið ræktanlegt land á jörðum sínum og yrði landið leigt til bænda á félagslegum grundvelli og gæti það síðar orðið undirstaða undir heykögglaframleiðslu.

5. Búnaðarþing felur því stjórn Búnaðarfélags Íslands að vinna að því við landbrh. og í fullu samráði við Landnám ríkisins, að útvegað verði nauðsynlegt fjármagn í þessu skyni og breytingar á lögum og setningu laga, ef þurfa þykir, sem geri Landnámi ríkisins kleift að annast þau verkefni, sem lúta að aukinni heykögglaframleiðslu.“

Með þessu kemur greinilega í ljós, hver vilji Búnaðarþings er í þessu máli.

Varðandi þá tilhögun, sem hér er lögð til að verði höfð á skipun n., ef till. nær fram að ganga, vil ég aðeins geta þess, að það er mjög í samræmi við það, sem áður hefur tíðkazt í sambandi við setningu landbúnaðarlöggjafar. Það er það almenna, að það hafa verið fulltrúar frá þessum samtökum bænda, sem að lagasamningu hafa unnið.

Um nauðsyn fóðurforðabúra er þess að geta, að það er ýmislegt, sem þar kemur til greina og sennilega er ekki búið að benda á hagkvæmustu lausnir varðandi fjármagnsþörf fyrir þau. En þetta er hugmynd, sem mjög hefur verið uppi og er því eðlilegt, að hún verði tekin til athugunar af n. Að sjálfsögðu koma fleiri atriði til greina við endurskoðun landnámslaganna, svo sem verulegar skipulagsbreytingar, ef þær þykja stefna til meiri hagkvæmni.

Ég vil að lokum draga hér saman aðalatriðin í þessu máli. Það er lagt til, að n. verði skipuð fulltrúum þeirra aðila, sem mestra hagsmuna hafa hér að gæta, bændanna og ríkisins og n. endurskoði landnámslögin. Lögð er áherzla á, að Landnáminu verði með lögum fengin ný verkefni, sem brýnt er, að unnið sé að, bæði frá hagsmunasjónarmiði bænda og þjóðarheildarinnar. Nefnd eru sérstaklega þessi verkefni:

Aukinn stuðningur við félagsræktun, þar sem hún er líkleg til að vera hagkvæm og til aukins öryggis í fóðuröflun og þar sem hennar er þörf.

Að Landnáminu verði falið að hafa forustu um að veita stuðning við heykögglaverksmiðjur og fóðurframleiðslu úr hráefni, sem hér má rækta eða vinna á annan hátt.

Loks verði stefnt að fóðurbirgðastöðvum, ef heppilegar leiðir finnast til að koma þeim upp.

Þessi atriði stefna að hagkvæmari og öruggari landbúnaðarframleiðslu, sem yrði í auknum mæli innlend, og þar með yrði þetta til gjaldeyrissparnaðar.

Herra forseti. Ég legg til, að till. þessari verði að umr. lokinni vísað til allshn.