30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (3469)

200. mál, flutningar afla af miðum og hafna á milli

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Við höfum hér 4 þm. Austfjarða flutt svo hljóðandi till. til þál. á þskj. 407:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka og gera till. um, hversu skipuleggja megi flutninga sjávarafla af fiskimiðum og hafna á milli með það fyrir augum að nýta sem bezt afkastagetu veiðiskipa og fiskvinnslustöðva og stuðla að betri meðferð aflans og jafnari atvinnu.“

Við Íslendingar, sem lengi höfum verið fiskveiðiþjóð og stundum í forustusæti, höfum að sjálfsögðu lagt mikla fjármuni í veiðiskip okkar og vinnslustöðvar sjávaraflans. Það er lýðum ljóst, að það varðar miklu fyrir alla, fyrir þjóðarhag og fyrir atvinnuna á hinum ýmsu stöðum og afkomu fólksins þar, að afkastageta þessara tækja, bæði fiskiskipanna og fiskvinnslustöðvanna, nýtist sem allra bezt. Rekstrarerfiðleikar hraðfrystihúsa eru t.d. taldir stafa að mjög miklu leyti af því, að þessar vinnslustöðvar hafa ekki fengið nægilegt hráefni, ekki nægileg verkefni. Árlegur starfstími þessara vinnslustöðva hefur verið allt of stuttur. Það er einnig augljóst og hefur komið ákaflega greinilega fram, eftir að farið var að stunda síldveiðar út í reginhafi, að það rýrir einnig stórkostlega afkastagetu og afköst veiðiskipanna að þurfa að sigla með aflann mjög langa vegu til hafnar. Það er og kunnara en frá þurfi að segja, að í mörgum sjávarplássum er tímabundið atvinnuleysi vel þekkt fyrirbrigði. En stundum hagar þannig til, að á þeim tíma, þegar lítið eða ekkert er að gera á tilteknum svæðum á landinu, þá er aftur á móti uppgripaafli og þar með yfirfljótanleg atvinna í öðrum landshlutum og það jafnvel að því marki, að varla hefst undan og dýrmætt hráefni skemmist og verður að verðminni vöru, heldur en þyrfti að vera, ef nægir möguleikar væru til þess að vinna það nægilega hratt.

Hér við land hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til þess að bæta úr þessu með rekstri flutningaskipa. Þær tilraunir hafa að ég held eingöngu verið bundnar við síldveiðarnar. Þetta hafa verið stakar tilraunir gerðar af einstökum aðilum, en það hefur ekki verið um að ræða neinar samræmdar heildaraðgerðir á þessum sviðum. Mér er ekki kunnugt um, að veruleg athugun hafi farið fram á því, hvort hagkvæmt kynni að vera að taka upp flutninga af miðum og milli hafna í stærri stíl, heldur en gert hefur verið til þessa.

Það er vitað, að Norðmenn, sem einnig eru mikil fiskveiðiþjóð og hafa um sumt líkar aðstæður og við, hafa komið á hjá sér skipulegum aðgerðum í þessu efni. Þeirra flutningar eru ekki eingöngu miðaðir við að flytja bræðslufisk eins og hér, en þó eru þeir flutningar framkvæmdir þar í mjög stórum stíl. T.d. mun hafa verið beitt við flutninga á loðnu suður á bóginn frá aðalveiðisvæðunum eitthvað 7—8 þús. lesta flutningaskipastóli á þessu ári. En þeir hafa einnig framkvæmt flutninga á bolfiski, á vinnslufiski, t.d. þorski og makríl.

Nú má vel vera, að við höfum hér ekki aðstöðu til þess að koma við slíkum flutningum á sama hátt og Norðmenn, vegna þess að ekki sé um að ræða nægilega mikið magn, sem æskilegt væri eða eðlilegt að flytja til með sérstökum flutningaskipum, ég skal ekkert um það fullyrða. En mér sýnist einsætt með tilliti til þess, hvað þarna er um mikið hagsmunamál að tefla varðandi atvinnu fólksins og nýtingu vinnslustöðva og skipaflotans og hins vegar það, ef takast mætti að bæta meðferð hráefnisins, að hér sé um svo stórt mál að ræða, að það væri a.m.k. mjög eðlilegt, að fram yrði látin fara heildarathugun á þessum málum og þá m.a. með hliðsjón af þeirri takmörkuðu reynslu, sem hér hefur fengizt og einnig þeirri reynslu, sem fengizt hefur hjá nálægum þjóðum og þá fyrst og fremst Norðmönnum.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.