26.11.1968
Neðri deild: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

76. mál, kaup og útgerð verksmiðjutogara

Flm. (Haraldur Henrýsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér er til umr. og flutt er af mér og hv. 1. þm. Norðurl. e., 4. þm. Vestf., 9. landsk. þm. og 4. landsk. þm., fjallar um það, að ríkisstj. taki þátt í athugunum á hugsanlegum kaupum og útgerð verksmiðjutogara. Hún er fram komin af því tilefni, að frá því hefur verið skýrt opinberlega, að stjórn Farmanna– og fiskimannasambands Íslands hafi að undanförnu gert athuganir á þessu sviði og telji einsýnt, að útgerð verksmiðjuskuttogara yrði fjárhagslega öruggt fyrirtæki og mikil tekjulind þjóðarbúinu. Ég tel, að álit þessara samtaka sjómanna um þessi mál skipti miklu og algert ábyrgðarleysi væri að láta það sem vind um eyru þjóta einmitt nú, þegar okkur ríður mikið á að finna nýjar leiðir til gjaldeyrisöflunar og til nýrrar uppbyggingar í landinu. Hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, að það er tvímælalaust skylda ríkisvaldsins að fylgjast með því og kanna til hlítar. Hér er einnig um svo fjárhagslega stórar ákvarðanir að ræða, að ljóst er, að án einhvers konar aðildar eða ábyrgðar ríkissjóðs gæti tæplega orðið úr framkvæmd málsins.

Hér verður ekki farið út í það að bollaleggja um, hvaða leiðir væru hugsanlegar í þessum efnum, ef til kæmi, en óneitanlega væri það ánægjulegt, ef samtök sjómanna og ríkisvaldið gætu sameinazt um framkvæmd þess máls. Eitt er víst, að farmannasambandinu er hér full alvara og til marks um það má geta þess, að það hefur þegar boðað til undirbúningsstofnfundar hlutafélags til að vinna að framkvæmd þess máls.

Það er tæpast þörf að rekja fyrir hv. þm., hve mikilvægur þáttur togaraútgerð hefur verið í íslenzkum þjóðarbúskap í áratugi, en vafasamt er, að nokkur fjárfesting hafi reynzt þjóðinni arðbærari eða varanlegri en togarakaup. Það er því undrunarefni og slæmur vitnisburður árvekni okkar, hve mjög við höfum látið þennan þátt sjávarútvegsins afskiptan á undanförnum árum. Togaraútgerð hefur vissulega átt sína erfiðu tíma, einkum nú á síðari árum, aðallega vegna þess, að tækin eru orðin gömul og aðferðirnar úreltar. Við höfum á engan hátt hagnýtt okkur þá tækni, sem gerir útgerð stærri fiskiskipa, einkum á fjarlæg mið, hagkvæma. Við höfum einblínt um of á eina grein fiskveiða og beint þangað mest allri okkar fjárfestingu í sjávarútvegi meira og minna skipulagslaust. Þetta er reyndar og hefur lengi verið einkennandi fyrir alla okkar fjárfestingarpólitík. Hún hefur ætíð miðazt um of við gróðasjónarmið, gróðavon líðandi stundar, án tillits til heildarþarfa yfir lengri tíma. Á þetta án vafa sinn stóra þátt í því, hvernig nú er komið málum og efnahag þjóðarinnar.

Þrátt fyrir allt okkar tal um einhæfni í þjóðarbúskap okkar og að við þurfum að auka fjölbreytni atvinnulífsins, höfum við sáralítið gert til að hagnýta þá möguleika til fjölbreytni, sem höfuðatvinnuvegur okkar býður upp á. Það heyrist oft, að það sé erfitt og nær vonlaust fyrir okkur Íslendinga að byggja afkomu okkar á einni atvinnugrein, sem sé ákaflega stopul. Það er áreiðanlega rétt, að ef við ætlum að halda áfram að reka sjávarútveg okkar eins og hingað til með það eitt fyrir augum að moka upp fiski án tillits til þess, hvaða vinnslu hann fær og hvaða verð fæst fyrir hann, munum við fljótlega komast í þrot og það svo harkalega, að við verðum að leita á annarra náðir með uppbyggingu atvinnuvega í landinu.

Ég vil engan veginn afskrifa það, að við Íslendingar eigum samvinnu við erlent fjármagn og aðrar þjóðir, ekki sízt þær, sem skyldar okkur eru og við treystum, um uppbyggingu fyrirtækja í landi okkar. En ég tel, að okkur sé það nauðsynlegt fyrst að treysta svo grundvöll þjóðarbúskaparins með innlendri iðju í smærri og stærri stíl, að hið erlenda fjármagn gæti aldrei haft neina lykilaðstöðu eða úrslitaáhrif í efnahagslífi okkar.

Það er rétt, að atvinnulíf okkar er nú einhæft, en það er okkar eigin sök. Við höfum látið undir höfuð leggjast að nýta möguleika þess og með því höfum við vanrækt að leggja þann grundvöll að sjálfstæði okkar, stjórnarfarslegu, efnahagslegu og menningarlegu, sem varanlegastur er. Án þess að sá grundvöllur sé lagður, getum við ekki boðið hingað erlendum aðilum auðugum að fjármagni, nema við viljum eiga það á hættu, að efnahagslíf okkar bíði stórfellt tjón af og geta okkar til að standa á eigin fótum minnki.

Hingað til má segja, að sjávarútvegur okkar hafi fyrst og fremst miðazt við veiðimennsku án tillits til verðmætissköpunar úr þeim afla, sem dreginn hefur verið á land. Við höfum flutt mikinn hluta afla okkar úr landi óunninn eða hálfunninn. Þessu verðum við að breyta. Við þurfum að einbeita okkur að því verkefni að verða færir um að vinna allan þann afla, sem á land berst, til fulls og fá fyrir hann það verð, sem bezt er. Þar eigum við gífurlegt verk óunnið, en ég held, að allir geri sér ljóst, sem um þessi mál hugsa að við getum ekki lengur haldið áfram á sömu braut — að moka upp öllum þeim fiski, sem við getum fundið á hverjum tíma og flytja hann síðan sem óunnið hráefni til annarra landa. Slíkt er að stela úr sjálfs hendi. Íslenzkir sjómenn hafa sýnt ótrúlegan dugnað við fiskveiðar og hlutfallslega hafa sjómenn engrar annarrar þjóðar fært eins mikinn afla á land. Þeir hafa og manna bezt kunnað að hagnýta fullkomnustu tækni til fiskveiða. Það er því hryggilegt til þess að vita, að verðmæti afla þeirra er ekki í réttu hlutfalli við magnið, samanborið við aflaverðmæti erlendra starfsbræðra þeirra.

Ég hygg, að enginn ágreiningur ríki um það, að endurnýjunar togaraflota landsmanna sé nú brýn þörf. En þrátt fyrir ábendingar og áskoranir til hæstv. núv. ríkisstj., bæði hér á hinu háa Alþ. og utan þess, hefur hún sýnt þessu mikilvæga máli vítavert tómlæti og látið dragast lengur, en verjandi er, að hefja aðgerðir. En áður en endurnýjun togaraflotans er hafin, verðum við fyrst af öllu að gera okkur grein fyrir því á hvaða grundvelli við viljum standa, hvað okkur sé nú brýnast og hvaða vinnubrögð séu hagkvæmust.

Ég tel, að þegar rætt er um togara nú, eigi menn fyrst og fremst við stór fiskiskip, sem geti sótt á hvaða fjarlægu fiskimið sem er, enda má segja, að vettvangur togaranna hafi á undanförnum árum verið djúpmið og fjarlæg fiskimið, svo sem við Grænland og Nýfundnaland. Má og búast við því í ríkara mæli, að stærri fiskiskip okkar þurfi að leita á æ fjarlægari mið, ef við ætlum okkur á annað borð að stunda alhliða fiskveiðar. Það er og ljóst, að okkur vanhagar nú fyrst og fremst um slík skip, sem geta leitað á fjarlægari mið. Hér skal þó ekki dregið úr þeirri þörf, sem á því er, að smíðuð verði smærri, hentug fiskiskip. Á undanförnum árum hefur mest áherzla verið lögð á vélbáta af stærri gerð, sem stundað hafa síldveiðar, en hafa takmarkaða getu til annarra veiða. Í því sambandi verðum við einnig að hafa í huga, hvað fiskistofnarnir við landið þola og er mikilvægt, að frá því verði gengið hið fyrsta að setja reglur um nýtingu fiskveiðilandhelginnar.

En svo að við höldum okkur við endurnýjun togaraflotans, sem gera verður ráð fyrir, að leiti á fjarlæg mið, þá er komið að þeirri spurningu, hvað við ætlum að gera við þann fisk, sem þessi skip veiða. Eigum við að flytja hann til lands til vinnslu eða til sölu óunninn á erlendum markaði, eins og við höfum látið gömlu togarana gera? Með því móti héldum við óbreyttri fyrri stefnu, að veiða sem mest án tillits til verðmætis aflans. Eða viljum við taka upp stefnu í samræmi við nýja tíma og nýja tækni? Við vitum, að ef við ætlum okkur að verða gjaldgengir í hinni hörðu samkeppni um fiskmarkaði, þurfum við að vera vakandi og sofandi í því að nýta allar tiltækar leiðir til að vinna sem bezta vöru með sem lægstum tilkostnaði. Það getur engum dulizt, að togarafiskur okkar getur enga samkeppni staðizt, hvorki að því er gæði eða verð snertir, ef siglt er með hann í mörg dægur af miðum til vinnslu í landi, en á þeirri leið yrði hann fyrir mörgu hnjaski, sem stórlega drægi úr verðmæti hans. Við stæðum þá höllum fæti gagnvart þeim þjóðum, sem í vaxandi mæli senda fljótandi verksmiðjur á miðin til að vinna úr fiskinum nýjum. Um árabil hefur fjöldi slíkra skipa frá mörgum þjóðum verið hér á miðunum við Ísland, Grænland, Nýfundnaland og víðar og náð góðum árangri. Heyrt hef ég, að hásetahlutur á norskum verksmiðjutogara hafi farið upp í 480 þús. kr. á ári miðað við eldra gengi og sífellt muni vera fyrir hendi biðlisti manna, sem vilji fá pláss á þessum skipum. Mun rekstur þeirra gefa góðan arð.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að þarna liggja stórkostlegir möguleikar, sem við höfum allt of lengi látið ónotaða og höfum ekki efni á að horfa framhjá lengur. En nú munu eflaust margir segja, að tímar séu erfiðir hér á landi og skuldir út á við svo miklar, að á þær sé ekki bætandi. Víst er það rétt, að nú verðum við að hafa alla gát á og hefðum fyrr mátt gera það. Hitt væri hættulegt, ef við legðum hendur í skaut, þegar um er að ræða endurnýjun þeirra tækja, sem drýgst hafa reynzt í gjaldeyrisöflun, ekki sízt þegar ástæða er til að ætla að með nýtingu nútímatækni geti gjaldeyrisöflun þessara tækja orðið enn meiri.

Ég hef ekki haft aðgang að tölulegum útreikningum og áætlunum þeirra, sem í þessum athugunum hafa staðið til þessa, en mér er tjáð, að það sé ekki ýkja mikil bjartsýni að búast við, að verðmæti afla slíks verksmiðjutogara, sem hér um ræðir, á einu ári, nálgist allt kaupverð skipsins. Sé þetta rétt, sem hlýtur að koma í ljós við þær athuganir, sem hér er lagt til að gerðar verði, þá getur tæpast verið um áhorfsmál að ræða að leggja í slíkt fyrirtæki. Okkur er það mikilvægast nú að finna leiðir til gjaldeyrisöflunar, og við það verðum við fyrst og fremst að miða allar okkar fjárfestingar. Hygg ég, að fátt geti reynzt okkur drýgra að þessu leyti en einmitt verksmiðjutogari, einn eða fleiri.

Fyrir um það bil 11/2 ári skipaði hæstv. ríkisstj. n. til að undirbúa till. um nýja togara, en þar eð kosningar voru í nánd, þegar þessi n. var skipuð, fannst mönnum, sem þar væri ekki full alvara á bak við. Á s.l. sumri eftir rúmlega árs tilvist n., lét einn nm. í ljósi óánægju sína með störf hennar og kvað hana ekkert hafa gert. Nú í haust var hins vegar tilkynnt, að hún væri búin að láta teikna togara. Kom í ljós , að hér var um ca. 800— 1.100 tonna togara að ræða, sem ekki yrði búinn neinum tækjum til fiskvinnslu og hefði það eitt fram yfir eldri togarana, að varpan væri tekin inn um skutinn. Þessi niðurstaða n. vakti mikla reiði þeirra, sem um þessi mál hafa hugsað á undanförnum árum og varð m.a. til þess, að stjórn Farmanna– og fiskimannasambands Íslands gerði ályktun, þar sem svo segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Farmanna– og fiskimannasambands Íslands harmar þann litla árangur, sem orðið hefur af störfum togaran., sem skipuð var af ríkisstj. til að skila till. um stærð og gerð nýrra togara. Í fyrsta lagi telur stjórnin vítavert, hversu mál þetta hefur dregizt á langinn á sama tíma og togarafloti landsmanna hefur stórminnkað og endurnýjunar er brýn þörf. Í öðru lagi mótmælir stjórnin þeirri skammsýni, sem í till. n. felst og telur þær á engan hátt fullnægja þörfum og kröfum framtíðarinnar. Það er ófrávíkjanleg krafa stjórnar FFSÍ, að nú þegar verði hafizt handa um smíði á fullkomnum verksmiðjutogara, er sótt geti afla á fjarlægari mið og skilað í land fullunninni vöru, þar sem þegar er fyrir í landinu all álitlegur floti til að veiða fyrir vinnslustöðvar í landi og sýnt, að varla má ganga nær fiskistofnunum á grunnmiðum og íslenzkar skipasmíðastöðvar eru fullfærar að halda við og endurnýja þann flota.“

Í framhaldi af þessu skipaði síðan stjórn sambandsins nefnd til athugunar á útgerð verksmiðjutogara. Þá hafa fróðir menn tjáð mér, að stærð þeirra togara, sem n. gerir ráð fyrir, sé algerlega í ósamræmi við reynslu annarra þjóða um rekstur skipa, sem séu ekki búin neinum tækjum til fiskvinnslu. Hafi reynslan sýnt, að hagkvæmasta stærð slíkra skipa sé 500–700 smál. Um þetta vil ég ekki né get fellt dóm, en óneitanlega finnst mér allt benda til þess, að n. eða meiri hl. hennar hafi ekki tekið hlutverk sitt alvarlega, miðað við það mikla nauðsynjamál, sem hún átti að fjalla um. Enda sýnist mér einnig á öllu, að af hálfu hæstv. ríkisstj. hafi skipun hennar verið við það eitt miðuð að draga málið á langinn. Það er reyndar ákaflega áberandi í öllum okkar málum, að þegar raddir eru orðnar háværar um, að framkvæma þurfi einhverja ákveðna hluti, eru settar á fót stjórnskipaðar n., oftast launaðar, en um síðir kemur oft í ljós, að hlutverk þessara n. virðist það eitt að draga úr opinberum umr. um málin, draga þau á langinn og stundum tekst þeim jafnvel að svæfa þau alveg.

Hæstv. ríkisstj. segir okkur, að nýafstaðin gengislækkun muni bæta mjög stöðu útflutningsatvinnuvega okkar. Við höfum þó reynt annað af öðrum gengislækkunum og samkeppnisaðilar okkar segja, að áhrif þessara gengislækkana séu þau, að Íslendingar komi fram með lægri verðtilboð og stuðli þannig að lækkandi verði á fiskmörkuðum. Vil ég í þessu sambandi vísa til ummæla formanns í norsku freðfisksölusamtökunum, Frionor, Kristofers Holst, en hann segir, að gengislækkanir fiskiðnaðarþjóðanna í árslok 1967 hafi orsakað enn frekara verðfall, en orðið var á freðfiskmörkuðum, bæði í austri og vestri. Í Austur-Evrópu hafi ástandið einkennzt af lágum verðtilboðum frá Íslandi, Englandi og Danmörku, sem öll voru nýbúin að lækka gengið. Og við höfum lesið og heyrt um það að undanförnu, að Bretar búist nú við því, að Íslendingar fari að bjóða þangað fisk á lægra verði. Hér er því engan veginn um varanlega lækningu að ræða. Ef við ætlum ekki að fara sífellt niður á við, verðum við nú strax að grípa til varanlegra lækningaráða. Þau eru fyrst og fremst fólgin í stórbættri vinnslu og meðferð fiskafla okkar, ekki einungis úthafsfiskiskipa eins og hér er fjallað um, heldur alls þess afla, sem veiddur er hér við land. Það er nauðsynlegt, að þegar fyrir næstu vetrarvertíð verði gripið til ráðstafana, sem stuðla að bættri aflameðferð og um það verður ríkisvaldið að hafa forystu. Eins og nú er ástatt kemur fiskurinn að landi meira og minna kraminn, vegna þess að hann hefur verið látinn liggja ýmist ísaður eða íslaus í allt of þykkum bingjum. Síðan tekur við uppskipun, en þá er fiskinum hent í losunartrog, en úr því er hann látinn detta niður á bílpalla. Síðan er bifreið, oft með 7–8 tonna þunga, ekið um misjafnan veg til fiskvinnslustöðvar, en þar er þessu þunga hlassi sturtað af bílpallinum líkt og verið væri að flyta ofan í burð í veg. Það hljóta allir að sjá, þótt þeir séu ekki sérfróðir á þessu sviði, að slík meðferð á viðkvæmu hráefni, sem vinna á úr útflutningsvöru til matar, er ekki sæmandi menningarþjóð og veldur auk þess svo miklum skaða, að við erum ekki menn til að standa þar undir. Hér er reyndar ekki öll sagan sögð enn. Eftir þessa meðferð á fiskinum er hann svo látinn bíða vinnslunnar í fiskmóttökum, sem á engan hátt svara kröfum nútímans, og þar verður fiskurinn oft og iðulega fyrir skemmdum, áður en hann kemst í vinnslu. Við því er þess vegna ekki að búast, að nýting hins góða hráefnis, sem hér um ræðir, verði góð og er staðreyndin sú, að ástandið hér í fiskvinnslumálum, hvað viðkemur meðferð á hráefninu og nýtingu þess, þolir engan samanburð við stærstu keppinauta okkar á fiskmörkuðunum, t.d. Norðmenn og Dani. Þeir setja fiskinn strax í kassa á miðunum og þaðan er hann ekki hreyfður fyrr en hann fer í vinnslu. Það er einnig ljóst, að fiskur, sem veiddur er á fjarlægum miðum, t.d. við Grænland eða Nýfundnaland, er orðinn miklu verra hráefni og verðminna eftir langa siglingu hingað. Því er mikilvægt, að þau skip, sem þangað leita, geti unnið strax úr afla sínum og skilað honum sem fullunninni markaðsvöru. Með því eru gæði og lægsti mögulegi framleiðslukostnaður tryggður.

Hér að framan hef ég reynt að leiða nokkur rök að því, að við Íslendingar eigum geysimikið óunnið verk til uppbyggingar undirstöðuatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. Ég álít, að sú uppbygging mundi leiða til öruggari og traustari þjóðarbúskapar, sem gerði okkur kleift að búa hér við aukna velferð og hagsæld, sem mundi standa af sér alla tímabundna erfiðleika. Ég tel, að þáltill. sú, sem hér er til umr., bendi á eina stórvirkustu leiðina til verðmætasköpunar og gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið og geti myndað grundvöllinn að þeirri alhlða uppbyggingu, sem fram þarf að fara. Því sé það skylda Alþ. og ríkisstj. að kanna þessa leið og hefja hið fyrsta undirbúning þess að hrinda málinu í framkvæmd, ef niðurstöður verða jákvæðar.

Leyfi ég mér síðan að leggja til, að umr. verði hér á eftir frestað og málinu vísað til hv. sjútvn.