18.03.1969
Sameinað þing: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (3505)

154. mál, rannsókn á kalkþörf jarðvegs

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni yfir því, að hv. 3. þm. Austf., sem jafnframt er formaður stjórnar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, skuli þó virða þessa till. mína svo mikils að koma og taka til máls. Hins vegar fannst mér gæta allmikils misskilnings hjá honum í sambandi við þetta. Ég gæti reynt að leiðrétta eitthvað af honum, þó er það sennilega ofætlun að leiðrétta hann allan.

Í fyrsta lagi er það algjör misskilningur, að í þáltill. þeirri, sem ég talaði fyrir, héldi ég því fram, að kalkskortur ætti mikinn þátt í kalvandamálinu. Ég reyndi að forðast það eftir megni að blanda því saman, vegna þess að maður er orðinn verulega þreyttur á því, hafi maður fengizt við þessi mál, hvað þetta rím, sem kemur fram í kalk og kal, virðist oft verða orsök þess, að menn rugla þarna saman hugmyndum. Ég vil mega endurtaka það, sem ég sagði um þetta í minni framsöguræðu.

Það kemur fram hjá flestum fræðimönnum, sem um þessi mál rita, að kalþol grasa verði sennilega ætíð minna, þar sem einhvers kalkskorts gætir, jafnvel þó að hann komi ekki fram í rýrnandi uppskeru. Þó er hér alls ekki verið að segja, að kalkskortur sé ein aðalorsök kalsins, þvert á móti. Þetta gæti verið ein meðorsök.

Um tilgang minn með þessari þáltill. vil ég taka fram, að hún er alls ekki til þess að gagnrýna þá stofnun, sem hv. þm. er formaður stjórnar fyrir. Það er fyrst og fremst til að styrkja hana og mér virtist virkilega þörf á að styrkja hana í hlutverki sínu. Ég var ekki að gagnrýna stofnunina. Þó gæti ég vel gert það í einstökum atriðum, vegna þess að það er ekki hægt að segja, að hún hafi sinnt þessu hlutverki vel, miðað við það, hvað brýnt það er. Ég vil því til sönnunar vitna aftur til endurtekinna ályktana Búnaðarþings, sem er þekkt að því að vanda sínar ályktanir vel og kynna sér málin vel, en þar segir í ályktun síðasta Búnaðarþings, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing átelur, hve hægt miðar rannsóknum á kalkþörf, þar sem m.a. er upplýst, að uppgjör á þeim tilraunum og rannsóknum, sem hafa verið framkvæmdar, er að verulegu leyti óunnið.“

Ég vil taka fram í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Austf. sagði, að bændur hefðu ekki keypt eins mikið kalk og vænta mátti, ef það væri svo útbreidd skoðun hjá þeim, að kalk vantaði í jarðveginn. Ég vil benda á, að kalkið er dýrara í stofnkostnaði. Þar er um 8–10 ára fjárfestingu að ræða, en með notkun kalkríks áburðar, sem að vísu yrði nokkru dýrari til lengdar, yrði tekinn aðeins 1/8 eða 1/10 fjárfestingarinnar í einu. Þá hefur líka verið bent á, að það fylgir hætta á ofkölkun, bæði fjárhagsleg áhætta og einnig hætta á snefilefnaskorti og sérfræðingarnir hafa ekki treyst sér til að ráðleggja, hvað væri hið hæfilega magn af kalki. Ég vil einnig benda á, að í grein, sem dr. Bjarni Helgason skrifaði í Frey nýverið og einnig í Búnaðarblaðið, þá er það hans ályktun, að meðan málin eru svo lítið rannsökuð, eins og hann bendir á að þau séu, — þá er það ályktun hans, að það sé réttast að nota kalkríkan áburð, en ekki að fara út í að kalka. Meginefnið er, að þetta þarf að rannsaka betur, vegna þess að fáfræðin er svo dýr, svo hættuleg. Það getur verið jafndýrt að ofkalka og vankalka.

Ræðumaður vék hér allmikið að kaltilraunum og ég verð í fyrsta lagi að þakka hv. þm., að hann skyldi virða greinina í Búnaðarblaðinu svo mikils, að hann skyldi fara að lesa upp úr henni, svo að hún festist í þingtíðindum, en þar var ég að tala um kal. Þar var hann enn að blanda saman kali og Kjarna. Ég get vel svarað því, að það er rétt og verður aldrei dæmt annað en rétt, að það fara engar skipulegar kalrannsóknir fram á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Þess vegna hef ég m.a. leyft mér að flytja aðra þáltill., sem vonandi kemur seinna til umr., — og er þar aftur verið að styrkja hv. þm. í hans baráttu fyrir auknum landbúnaðarrannsóknum, — þáltill. um auknar kalrannsóknir. Væntanlega hefði ég slengt þessu öllu saman, ef ég hefði verið sömu skoðunar og hv. þm. Ég vil aðeins benda á, að hann nefnir, að einn maður fáist við kalrannsóknir, þ.e. einn námsmaður, sem fæst við þær og hefur hlotið til þess nokkurn styrk. Ég vil mega geta þess í sambandi við kal– og kannske kalkrannsóknir, að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur mjög lítið gert að því að undanförnu að leggja út í slíkar tilraunir. Það eru nokkrar dreifðar tilraunir, en þær eru mjög litlar og hlutfallslega minni nú heldur en að undanförnu.

Þegar mest kól á Austurlandi 1965, þá var miklum rannsóknum lofað og sérfræðingur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins fór þangað austur, kannske fyrir áeggjan 3. þm. Austf., lagði út nokkrar tilraunir, þrjár tilraunir og m.a. með kalk til að vita, hvort kalk geti verið þáttur í því að geta valdið kali. Þessar tilraunir hafa verið slegnar og hirtar, en ekki af þessum sérfræðingi Rannsóknastofnunarinnar. Mér er ekki kunnugt, að hann hafi komið í þann landsfjórðung síðan, en frekar, að hv. 3. þm. Austf. hafi sjálfur orðið að hirða um þessar tilraunir.

Ég vil þá endurtaka að lokum, að þessi þáltill. er ekki flutt sem gagnrýni á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, þvert á móti sem stuðningur við hennar starfsemi og hugsuð þannig, að hún geti rækt sitt hlutverk betur og fái meiri fjárveitingar. Þá vil ég benda á, að þarna er lagt til, að fram fari rannsóknir á hlut, sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins ætti óhægt með að rannsaka, en það er leit að kalki í kringum landið og rannsókn á því, hvernig ódýrast og hagkvæmast er að vinna það.