10.03.1969
Neðri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (3510)

162. mál, lánskjör atvinnuveganna

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessi till. fjallar um það, að Nd. Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að afla upplýsinga um lánskjör atvinnuveganna hjá þeim þjóðum, sem Íslendingar keppa við á erlendum mörkuðum og á heimamarkaði. Upplýsingar þessar skulu bæði ná til stofnlána og rekstrarlána og greina frá lánsmöguleikum, afborgunarskilmálum, vöxtum og öðru því, sem máli skiptir. Að fengnum þessum upplýsingum skal gerður samanburður á lánskjörum þessara atvinnuvega og íslenzkra atvinnuvega og sá samanburður birtur opinberlega.

Ég held, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, hver er tilgangurinn með þessari till., svo að ég tel mig ekki þurfa að faramörgum orðum um hana. Það vita það allir, sem til þekkja, að miklu máli skiptir fyrir atvinnuvegina við hvaða lánskjör þeir búa og raunar á þetta við í sívaxandi mæli. Það er að nokkru leyti vegna aukinnar vélvæðingar, sem hefur það í för með sér, að atvinnufyrirtækin þurfa alltaf á meira og meira fjármagni að halda. Auk þess hefur sú þróun orðið hjá okkur hin síðustu ár, að rekstrarkostnaður hefur stórkostlega aukizt, a.m.k. í krónutölu, vegna þeirra gengisfellinga, sem hér hafa verið gerðar.

Nú er rætt um eða fer fram athugun á því, hvort við eigum að ganga í Fríverzlunarbandalag Evrópu, sem þýðir, að ýmsar atvinnugreinar hér, sem njóta nú tollverndar og ýmissar annarrar verndar, yrðu í framtíðinni, ef af þessu yrði, að heyja samkeppni við erlendar iðnaðarvörur án þess að hafa nokkra slíka vernd. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli, þegar svo er komið, að þær atvinnugreinar okkar, sem eiga í slíkri samkeppni, búi ekki við lakari lánskjör, en hinir erlendu keppinautar. M.a. af þeirri ástæðu tel ég nauðsynlegt einmitt nú, að slík athugun sem hér ræðir um, fari fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að þessu sinni að fara um þessa till. fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til að, að lokinni þessari umr. gangi hún til fjhn.