10.03.1969
Neðri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (3512)

162. mál, lánskjör atvinnuveganna

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. þær undirtektir, sem komu fram í ræðu hans. Ég gat ekki skilið þær betur en hann væri því fylgjandi, að slík athugun færi fram, sem þessi till. fjallar um, en teldi hins vegar, að það kynni að vera rétt að láta fara fram athugun á fleiri atriðum til samanburðar á því, hvernig búið er að atvinnuvegum hér og í nágrannalöndum okkar. Ég get vel fallizt á það, ef samkomulag yrði um það í n., að þessi til. yrði ekki aðeins látin ná til samanburðar á lánskjörum og vaxakjörum atvinnuveganna, heldur líka til fleiri atriða, til þess að fram fengist sem réttastur samanburður á því, hvernig væri búið að atvinnuvegunum hér á landi og í þeim löndum, sem við þurfum helzt að keppa við, t.d. á fiskmörkuðunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við það, sem ráðh. sagði um ýmis atriði í sambandi við fiskverð og annað þess háttar. Ég held, að hann hafi ekki tekið alveg rétt eftir, þegar ég var að tala um aukinn rekstrarkostnað af völdum gengisfellinganna. Ég sagði, að rekstrarkostnaður hafi a.m.k. aukizt í krónutölu og með tilliti til þess hefði lánsfjárþörf þeirra aukizt. Hins vegar má náttúrlega deila um það fram og aftur, hvernig gengislækkanir verka í þessu sambandi. Það má vel vera, ef miðað er við þær tekjur, sem gengisfelling veitir sumum atvinnugreinum í aðra hönd, þá sé ekki um raunverulegan rekstrarkostnað að ræða. Aftur á móti kemur aukinn rekstrarkostnaður mjög greinilega fram hjá öðrum atvinnugreinum. Ég nefni t.d. landbúnaðinn. Af völdum gengisfellingarinnar eða –fellinganna hafa margir rekstrarkostnaðarliðir hans stórlega aukizt, án þess að hann hafi fengið það nema að sáralitlu bætt, því að eins og við vitum, þá er það ekki nema örlítill hluti af framleiðslu hans, sem er fluttur til útlanda og gengisfellingin verður til að hækka í verði. En ég sé ekki neina ástæðu til þess að vera að karpa við hæstv. ráðh. um þessi atriði. Þau skipta ekki miklu fyrir það mál, sem hér liggur fyrir, en ég fagna þeim undirtektum, að hann vill láta fara fram samanburð á lánskjörum atvinnuveganna hér og í nágrannalöndum okkar, og er ég fús til samkomulags við hann um það, að slík athugun verði einnig látin ná til fleiri rekstrarþátta.