23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (3539)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hv. síðasti ræðumaður gat um hér, að það er margt, sem þyrfti að ræða í sambandi við þessa skýrslu hæstv. ráðh. og framkvæmdir þær, sem hún fjallar um. Það er vitanlega lítill tími til þess í fsp.–tíma og verður lítið eitt af því gert af mér. En mér finnst þó ástæða til þess að vekja athygli á því í sambandi við svör hæstv, ráðh. við síðustu fsp. á þskj. 17, að ennþá hefur ekkert verið gert af því af hálfu hæstv. ríkisstj. að útvega það fjármagn, sem ríkisstj. lofaði að útvega í sambandi við samkomulagið við verkalýðsfélögin 1965 og átti að gera þessar byggingar í Breiðholti færar og mögulegar. Þar stendur allt við það sama, eins og hér upplýstist í fyrra, þegar fsp. um sama efni var borin fram. Það hefur svo til ekkert miðað í áttina. Einar 30 millj. eða tæplega það úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafa þó verið útvegaðar. En samkomulagið var, eins og allir muna, á því byggt að ég held, að hæstv. ríkisstj. lofaði að útvega Byggingarsjóði það fjármagn, sem á vantaði venjuleg húsnæðismálastjórnarlán; til þess að þessar byggingar mættu rísa.

Nú kom það fram af máli hæstv. ráðh., að þær íbúðir, sem byggingaráætlunin hefur byggt fyrir aðra en Reykjavíkurborg, eru 283 og það fjármagn, sem framkvæmdaáætlunin hefur lagt til þeirra, verður eitthvað nálægt 1/2 millj. kr. umfram venjuleg húsnæðismálastjórnarlán til hverrar fyrir sig. Þá sjá menn það, hversu gífurlegt fjármagn það er, sem Byggingarsjóði hefur verið gert að leggja til þessara framkvæmda og ég vil ennþá ítreka það, sem ég sagði hér í fyrra, að ég tel þetta slælega framkvæmd á þessu margrómaða samkomulagi.

Þá var annað atriði sem mig langar til þess að víkja að í örstuttu máli og bið hæstv. ráðh. að upplýsa, og það er, hvort í þeim tölum, sem hann nefndi um byggingarkostnað íbúðanna, sé allur kostnaður við byggingarframkvæmdirnar talinn. Það er nefnilega talað um það hér í borginni, — ég vil ekki bera neina ábyrgð á því, en maður hefur heyrt það, – að nokkur hluti af byggingarkostnaðinum væri fluttur á seinni áfanga. Ég er ekkert að segja, að þetta geti ekki átt fullan rétt á sér, því að vissulega er nokkur hluti af byggingarkostnaði í Breiðholti áreiðanlega þannig vaxinn, að hann kemur til góða fleiri framkvæmdum en þeim, sem gerðar hafa verið í 1. áfanga, en það er náttúrlega ákaflega þýðingarmikið, finnst mér, þegar verið er að gefa tæmandi upplýsingar upp á kr. um það, hvað hver íbúð kosti, að menn viti og geri sér grein fyrir því um leið, hvort einhver hluti kostnaðarins hefur verið fluttur áfram og þá hve mikill og ég vænti þess að hægt sé að upplýsa þetta hér.

Um einbýlishúsin, sem hér var rætt um áðan, ætla ég ekkert að segja. Ég hef svo oft gagnrýnt þá ráðstöfun, að vera að bjóða þetta út á erlendum vettvangi, að ég tel ástæðulaust að endurtaka þá gagnrýni hér. En þýðingarmesta málið í sambandi við þessa framkvæmdaáætlun er þó væntanlega það, sem ekki hefur verið minnzt á hér enn, hvað verði með áframhaldið. Í fyrra, þegar ég bar fram fsp. um þessi mál á hv. Alþ., upplýsti hæstv. félmrh., að engar ráðstafanir hefðu enn verið gerðar til að tryggja framhald þessara framkvæmda. Nú eru liðnir 8–9 mánuðir síðan þessari fsp. var svarað hér á hv. Alþ. Má vera, að einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar síðan og væri væntanlega ánægjulegt og forvitnilegt fyrir hv. alþm., — ég a.m.k. segi það fyrir mitt leyti — að fá að heyra um það, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja áframhaldandi framkvæmdir í þessum stíl, bæði hér í Reykjavík og þá eins annars staðar, þar sem byggingarnefndir hafa verið settar á stofn.