23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (3543)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykja þær tölur mjög fróðlegar, sem lesnar hafa verið upp á þessum fundi af hæstv. félmrh. Það kemur fram í þessum tölum, að byggt hefur verið hér í Reykjavíkurborg samkvæmt svokallaðri Breiðholtsáætlun, sem mun vera þáttur í margumtöluðu júní samkomulagi, sem einu sinni var gert, ef ég man rétt, eða einhverju slíku samkomulagi, nokkuð hátt á þriðja hundrað íbúða á vegum hins opinbera.

Hæstv. ráðh. og hv. formaður byggingarnefndarinnar hafa nú gefið ýmsar upplýsingar um þessar íbúðir, um kostnað við þær, stærð þeirra og gerð og þess háttar, og tel ég mig ekki að svo stöddu bæran um að kveða upp dóm um það, hversu hagstætt verð íbúðanna muni vera, miðað við það, sem almennt gerist, nema hvað mér þykir, eins og fleirum, kjallararnir undir einbýlishúsunum hafa orðið nokkuð dýrir. Einnig kom þarna fram hjá hæstv. ráðh. mikið af tölum, sem ég hafði ekki tíma til að skrifa hjá mér eða átta mig á, meðan hann las þær upp og geymi ég mér rétt til þess að athuga þær nánar síðar. En mér skilst þó, að til þessara íbúða, fyrsta áfanga, sem hann nefndi svo, hátt á þriðja hundrað íbúða eða tæplega 300 íbúða, sé búið að verja 331 millj. kr. og ef ég tók rétt eftir hjá honum, er framlag þeirra, sem eiga að fá íbúðirnar, 21 millj. 770 þús. kr. eða tæpar 22 millj. kr. Nú vildi ég í sambandi við þetta spyrjast fyrir um það, hvað liði ráðstöfun þessara íbúða. Það var ekki upplýst hér, hvort þegar sé búið að ráðstafa þessum íbúðum í fyrsta áfanga og hvort þar af leiðandi sé þegar kunnugt um það, hverjir eiga að leggja fram það, sem væntanlegum kaupendum ber að leggja fram í íbúðirnar. Að öðru leyti skilst mér, að Byggingarsjóðurinn hafi lagt fram á einhvern hátt 243.5 millj. kr. Svo hafi komið úr Atvinnuleysistryggingasjóði 52.5 millj. kr. og frá Reykjavíkurborg rúmlega 13 millj. kr., ef ég hef tekið rétt eftir. Ef þetta væri endanlegt framlag þeirra, sem eiga að fá íbúðirnar, svona milli 12 og 15% af íbúðarverðinu, eins og það er nú á þessu stigi, virðist mér um mjög lágt framlag að ræða til eigin íbúðar, miðað víð það, sem yfirleitt tíðkast. Og miða ég t.d. við ýmsa, sem hafa verið að byggja íbúðir á Norðurlandi og hafa fengið lán til þess úr Byggingarsjóði. Mér sýnist, að þau lán, sem þeir menn hafa fengið, séu ákaflega langt frá því að nálgast 80–90% af íbúðarverðinu, ákaflega langt frá því og sumir hafa fengið miklu minna en venjulegt er, en aðrir ekki neitt, sem þó eru komnir nokkuð áleiðis með íbúðir sínar. En þetta er nú ekki nema gott og blessað, að menn geti fengið há lán út á íbúðir og ber að gleðjast yfir því, svo framarlega sem verðið á íbúðunum er þá líka sambærilegt við annað, sem maður vill ganga út frá að sé. En í sambandi við þetta langar mig til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., ef hann hefði tök á að svara því, hvort það séu líkur til þess, að nú verði stefnt að því á næstunni að auka lánveitingar til annarra, sem íbúðir fá, eitthvað í líkingu við þetta, sem hér virðist eiga sér stað. Ef þessar tölur, sem ég nú er að nefna, gefa rétta hugmynd um þá fyrirgreiðslu, sem Breiðholtsmenn hafa fengið hjá Byggingarsjóði og hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, virðist fyrirgreiðslan hjá Reykjavíkurborg vera lítil, þó að hún standi á bak við áætlunina, en ef þessar tölur gefa rétta hugmynd um hlutfallið, sem þarna er á milli fyrirgreiðslunnar og eigin framlags og ef ekki verða á komandi árum gerðar ráðstafanir til þess, að aðrir geti, hvar sem þeir eru á landinu, notið eitthvað líkrar fyrirgreiðslu við að koma sér upp heimilum, sýnist mér, að við úthlutun íbúða með svona kjörum sé í raun og veru um nokkuð mikla mismunun að ræða gagnvart öðru fólki í landinu. Skiptir þá miklu máli, að þessum íbúðum sé úthlutað til þeirra, sem raunverulega þurfa þeirra mest með. En því réttlæti verður þó ekki náð, þó að menn vilji ná því, nema í því byggðarlagi, sem íbúðirnar standa, því að þær ná ekki til annars illa stæðs fólks í landinu.

Mér væri kært, ef hæstv. ráðh. sæi sér fært að upplýsa eitthvað um þetta, sem ég hef rætt, í þessum umr. eða síðar, því að hér er áreiðanlega nokkuð mikið umhugsunarefni á ferðinni fyrir marga víðsvegar á landinu.