23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér neitt sérstaklega í þessar umr., enda heyrði ég alls ekki allar umr. því að ég fylgdist ekki með svörunum við þeim fsp., er hér voru gerðar. En ég vil aðeins lýsa yfir því í sambandi við þessa Breiðholtsáætlun, að ég tel, að sú hugmynd sé góð, sem þar um ræðir. Ég tel, að það sé góð hugmynd að byggja íbúðir handa láglaunafólki í fjöldaframleiðslu og með hagstæðum kjörum. Það er alveg áreiðanlega það, sem við eigum að stefna að, Íslendingar, í sambandi við okkar húsnæðismál og því miður hefur of lítið verið gert af því að vinna að slíku. En hins vegar kann framkvæmd þessarar hugmyndar að hafa verið eitthvað misheppnuð og öðruvísi, en búizt var við. Ég skal ekkert um það segja eða gagnrýna það frekar, því að ég er ekki undir það búinn. En það virðist þó koma fram, að íbúðirnar hafi orðið allmiklu dýrari en menn höfðu vænzt. En það, sem ég vil sérstaklega minna á í þessu sambandi og það hafa líklega aðrir gert, en mér finnst ástæða til að það komi fram frá fleirum, það er, að ég hef grun um, en það leiðréttist þá, ef það er rangt, að fjármögnunin hafi orðið á kostnað annarra húsbyggjenda. Hún hefur orðið á kostnað annarra húsbyggjenda. Hæstv. ráðh. var e.t.v. að reyna að draga úr þessu hér áðan. Það mátti e.t.v. skilja orð hans þannig, þau sem hann sagði hér seinast. En ég held, að það sé ekki hægt að mótmæla því, að fjármögnunin til Breiðholts hefur orðið á kostnað annarra húsbyggjenda og það finnst mér gagnrýnisvert. Það er sérstaklega gagnrýnisvert vegna húsbyggjenda úti um land, þar sem er sjálfsagt alveg jafnmikil ástæða til þess að veita fjármagni til húsbygginga, eins og hér syðra. Og mér finnst þetta sérstaklega athugunarvert og ástæða til að minna á það, þegar þetta er til umr.

Ég hygg, að eftir að Breiðholtsáætlunin kom til sögunnar, hafi biðtími umsækjenda lengzt mjög, þannig að hann var um skeið kominn jafnvel í 2 ár og er það e.t.v. enn og slíkt er óhæfilegur tími, því að óvissan um lánsútvegunina er líklega það versta í sambandi við byggingarmálin, eins og nú er. Menn vita aldrei, eiginlega, hvar þeir standa í sambandi við lán sín. Það er þessi eilífa óvissa og henni verður að eyða.

Ég skal svo ekki segja meira um þetta, en aðeins í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. var að minnast á hér áðan. Hann sagði sem svo, að það hefði ekki verið áður, þegar hann var starfsmaður húsnæðismálastjórnar einhvern tímann í fyrndinni, — að þá hafi ekki verið mikið um kröfur af okkar hálfu, sem hér sitjum, um fjármagn til húsbygginga. En ég vil nú segja hæstv. ráðh. það, að í fyrsta lagi áttum við nú margir hverjir ekki sæti á Alþ. á þeim árum og höfðum þess vegna ekkert sérstakt til málanna að leggja um það. Það er löngu fyrir þann tíma. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á það, eins og raunar margir hafa gert áður, að það er ekki til neins að vera sífellt að rifja upp fortíðina, að lifa sífellt í fortíðinni. Ég kalla það fortíðarmálefni, þegar verið er að ræða um það, sem gerðist fyrir 10 árum, slíkt er fortíðarmálefni, a.m.k. í stjórnmálum.