23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3547)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég held nú, út af því, sem hæstv. ráðh. sagði síðast, að hann verði að hafa í huga við rannsókn sína á fortíðinni, að verðgildi krónunnar er töluvert annað, en það var hér á fyrri áratugum.

Ég vona, að það rætist, sem hæstv. ráðh. lét í ljós sem sína skoðun, að reynslan í Breiðholti verði allri landsbyggðinni til góðs. Og þetta skildist mér, að hann setti fram, — þessa skoðun eða spá, — því til styrktar, að þeir, sem afskiptir eru annars staðar á landinu og jafnvel hér, muni þó á nokkurn hátt græða á því, sem þarna hefur verið gert. Ég vil taka undir það, að ég vonast eftir þessu líka, að reynslan hér í Breiðholti verði til góðs allri landsbyggð. En þó getur hún því aðeins orðið það, að við þessa byggingarstarfsemi hafi mönnum tekizt að tileinka sér byggingaraðferðir og vinnubrögð, sem horfa til framfara og má vera, að það hafi líka skeð. En ég hlýt í þessu sambandi að benda hæstv. ráðh. á, að það er þó nokkuð takmarkað, sem hægt er að hafa gagn af slíkri reynslu úti um landsbyggðina, sem hér er um að ræða. Þarna í Breiðholti er sem sé verið að byggja yfir miklu fleira fólk, heldur en svarar öllum íbúafjölda í fjölmörgum þorpum og minni bæjum þessa lands, þannig að það er ekki um það að ræða á svo fámennum stöðum, þótt þéttbýlir séu, að hægt sé að koma við þvílíkri stórframleiðslu á húsum, sem þarna á sér stað og getur átt sér stað hér í höfuðborginni. Reynsla við stór framleiðslu á steinsteypuhúsum kemur aldrei nema að takmörkuðu gagni sem fyrirmynd fyrir þá, sem þurfa á íbúðaframkvæmdum að halda í miklu minna mæli, vegna þess að fólk er þar miklu færra.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið ákveðið í júní samkomulaginu, hvaða kjör þeir skyldu fá, sem fengju Breiðholtsíbúðirnar. Með því vildi hann segja, að sú mismunun, sem þarna væri á mönnum gerð, væri ekki ríkisstj. að kenna sérstaklega, en um það ræddi ég ekkert í minni ræðu. En þeir, sem bera ábyrgð á misræminu, sem þarna er um að ræða, eru þá væntanlega stjórnin og aðrir, sem að þessu margnefnda júní samkomulagi stóðu og ég vil biðja þá ágætu menn, sem þarna komu við sögu, að athuga það, að hér þyrfti að ráða bót á. Þeirra verk eru ekki nógu góð. Það er að vísu ágætt, að 300 eða 600 menn í Reykjavík, a.m.k. ef rétt er talið í íbúðirnar, njóti slíkra kjara sem þessara, en um gervalla landsbyggðina er líka fjöldi af fjölskyldum, sem þurfa þak yfir höfuðið og eru álíka illa staddar og þeir, sem verst eru stæðir hér. Það segir sig sjálft, og þetta hefur sína galla þar af leiðandi.

Mig minnir, að það standi einhvers staðar í mannkynssögunni, að Napóleon hafi sagt á sínum tíma, þegar þjóðin hafði samþ., að hann yrði einvaldur þar: „Það sem Frakkar óska eftir, er ekki fyrst og fremst frelsi. Þeir óska fyrst og fremst eftir réttlæti.“ Og hann sagðist ætla að verða réttlátur. Þess vegna hefði líka þjóðin kosið sig, að hún hefði gengið út frá því, að hann mundi verða réttlátur, þó að allir fengju kannske ekki það frelsi, sem þeir hefðu óskað eftir. Ég segi þessa sögu, sem hefur verið talin það merkileg, að hún hefur verið tekin upp í sögukennslubækur, til þess að undirstrika, að við megum ekki gleyma réttlætinu. Það er nokkuð mikils virði. Það er líka nokkuð mikið á það litið af þjóðinni, hvort þeir, sem með mál fara, reynast réttlátir eða ekki. Og þeim, sem að þessum ráðstöfunum stóðu, sem kallað hefur verið júní samkomulag, ríkisstj. og öðrum, virðist a.m.k. ekki með þessum samningi sínum hafa tekizt að tryggja frambúðarréttlæti í húsnæðismálum fyrir alla landsmenn.