30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3551)

254. mál, lánsfé vegna jarðakaupa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til landbrh.:

„Hverjar ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til þess að stuðla að því, að veðdeild Búnaðarbankans geti sinnt eðlilegri lánsfjáreftirspurn vegna jarðakaupa?“

Undanfarin ár befur verið mikill vöxtur í bankakerfinu hér á landi. Nýir bankar hafa risið upp, útibú hafa verið sett á stofn, innlán hafa vaxið, útlán hafa vaxið, starfsmönnum hefur fjölgað og byggingar hafa verið byggðar. Þessi gróandi hefur ekki farið fram hjá Búnaðarbankanum. Starfsemi hans hefur blómgazt. Það er ánægjulegt. En ein er sú starfsgrein Búnaðarbankans, sem hefur orðið olnbogabarn. Það er veðdeildin.

Veðdeildin hefur um langa tíð átt við fjárskort að búa og hefur átt erfitt með að gegna því hlutverki, sem henni er ætlað. Þó má segja, að steininn hafi tekið úr á þessu ári, þar sem mér er tjáð, að á þessu ári hafi alls engin lán verið afgreidd úr veðdeild Búnaðarbankans. Á s.l. ári voru hins vegar afgreidd allmörg lán úr veðdeild Búnaðarbankans. En þó er það svo, að samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá bankanum, eru enn 46 lánbeiðnir frá fyrra ári óafgreiddar. Til viðbótar því hafa svo borizt umsóknir á mánuðunum janúar og júní þetta ár og þær eru 43 að tölu. Eftir júlilok og til dagsins í dag hafa borizt 18 umsóknir eða alls eru rúmlega 100 umsóknir, nákvæmlega 107 umsóknir óafgreiddar í veðdeild Búnaðarbankans.

Ég geri ráð fyrir, að til þess að fullnægja þessum lánsumsóknum muni þurfa ca. 15–16 millj. kr. En til þess að fullnægja þeim lánsumsóknum, sem liggja óafgreiddar frá fyrra ári, geri ég ráð fyrir, að þurfi um 6–7 millj. kr. Þetta, að ekki hafa verið afgreidd lán á þessu ári, er mér tjáð, að stafi af fjárskorti veðdeildarinnar og slæmum fjárhag hennar. Á s.l. ári hafi orðið nokkur rekstrarhalli á henni, eins og reyndar reikningar bankans bera með sér og hún sé nú í skuld við sparisjóðsdeild Búnaðarbankans, sem nemur um 17 millj. kr., sem að vísu er nokkur upphæð, en mér sýnist þó ekki óskapleg miðað við þær tölur, sem fjallað er um í bankanum að öðru leyti.

Mér er tjáð, að s.l. sumar, að ég ætla í ágúst og skal ég þó ekki alveg fullyrða um mánuðinn, hafi verið send beiðni til ríkisstj. um það, að hún útvegaði um 20 millj. kr. lán til veðdeildarinnar til þess að standa undir lánum og til þess að hægt væri að afgreiða umbeðin lán og að auki 2 millj. í framlag til þess að mæta rekstrarhalla deildarinnar. Mér er tjáð, að við þessari málaleitun hafi alls engin svör borizt og þess vegna er þessi fsp., sem hér er um að tefla, borin fram og ég vonast til þess, að hæstv. landbrh. gefi við henni greið svör.

Það, sem vantar til þess að fullnægja eðlilegri lánsfjárþörf veðdeildar Búnaðarbankans, er ekki mikið. Það er ekki mikið, þegar litið er á allt peningaflóðið. Það er ekki mikið, þegar litið er til veltu Búnaðarbankans. Það er ekki mikið, þegar litið er til þeirra fjármuna, sem fara um hendur ríkissjóðs og ríkisstj. Og þetta er þess vegna ekki stórmál, þegar litið er á það frá því sjónarmiði.

En það er stórmál, það er stórkostlegt stórmál fyrir hvern einstakling, sem hér á hlut að máli, vegna þess að menn hafa stofnað til jarðakaupa í trausti þess að fá þessi lán og það er auðvitað algerlega óviðunandi ástand, að það sé ekki hægt að greiða fyrir því með nokkurn veginn eðlilegum hætti, að menn geti fengið þau lán til jarðakaupa, sem til er ætlazt. Þau eru hvort eð er skorin svo við nögl, að í raun og veru eru þau allsendis ófullnægjandi og þyrftu að hækka. En þó er ekki um það að ræða hér, heldur er óskin aðeins sú, að gerðar séu ráðstafanir til þess að veðdeildin geti sinnt þeim umsóknum, sem fyrir liggja og hafa legið fyrir óafgreiddar óhæfilega lengi. En það kalla ég, að umsóknir liggi fyrir óafgreiddar óeðlilega lengi, ef þær hafa legið frá fyrra ári.