30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3552)

254. mál, lánsfé vegna jarðakaupa

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr, hverjar ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera til þess að stuðla að því, að veðdeild Búnaðarbankans geti sinnt eðlilegri lánsfjáreftirspurn vegna jarðakaupa. Hv. þm. sagði, að það hefði tekið steininn úr á þessu ári, af því að á þessu ári hefðu engin lán verið veitt úr deildinni. Ég er með bréf frá Búnaðarbankanum dags. í dag, þar sem segir: Það, sem af er árinu, hefur deildin lánað 5.1 millj. kr. (Gripið fram í.) Já, en þá upplýsi ég það, sem sannara reynist. 5.1 millj. kr. er náttúrlega ekki há upphæð, en samt sem áður eru þetta lán, sem veitt hafa verið. Og það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að veðdeild Búnaðarbankans hefur oft átt við fjárhagsörðugleika að stríða. Hún hefur ekki, hvorki nú né fyrr, fullnægt þeim lánabeiðnum, sem legið hafa fyrir, og verður að segja það alveg ádeilulaust, að þetta hefur skeð, hverjir sem hafa farið með þessi mál. Ég er t.d. alveg sannfærður um það, að þegar hv. framsóknarmenn fóru með landbúnaðarmálin og höfðu sérstaklega yfir Búnaðarbankanum að segja, t.d. 1958, vildu þeir gera veðdeildinni mögulegt að lána meira heldur en 640 þús. og þá lágu fyrir margar lánsbeiðnir, sem ekki var unnt að veita, þrátt fyrir góðan vilja þeirra, sem með þessi mál fóru. Og rétt er, að það hefur orðið vöxtur í bankakerfinu. Búnaðarbankinn hefur blómgazt og aukizt. Árið 1957 lánaði veðdeild Búnaðarbankans 12 millj. 515 þús. og það er náttúrlega há upphæð, miðað við það, sem var fyrir 10 árum. En eigi að síður geta menn verið sammála um það, að það hefði verið æskilegt, að það væri meira.

Í bréfi sem Búnaðarbankinn skrifaði mér í ágústmánuði s.l., er þess farið á leit, að ríkisstj. útvegi veðdeildinni 20 millj. kr. lánsfé til þess að fullnægja þeim beiðnum, sem þá lágu fyrir og væntanlega kæmu seinni hluta þessa árs. Það var einnig farið fram á, að deildinni væri útvegað óafturkræft framlag, 2 millj. kr., til þess að bera uppi reksturshallann, sem verður, vegna þess að veðdeildin lánar með 8% vöxtum, en verður undir mörgum kringumstæðum að borga hærri vexti eða allt að 9% af því fé, sem deildin tekur að láni og það væri þess vegna eðlilegt, að deildin fengi eitthvert óafturkræft framlag til þess að bera þennan halla uppi, því að til lengdar er vitanlega ekki hægt og eðlilegt að reka hana með halla, sem verður því meiri, sem hún fær meira fjármagn, ef vaxtamismunurinn er öfugur.

Í sambandi við fsp. vil ég upplýsa það í sambandi við þetta bréf, sem Búnaðarbankinn sendi í ágúst, að þá var ekki unnt að útvega það á þessu ári. Það var ekki á framkvæmdaáætlun þessa árs. Nú mun ríkisstj. taka til meðferðar í haust eins og undanfarin ár fjáröflunaráætlun fjárfestingarsjóðanna fyrir árið 1969, og þá verður tekið til athugunar, hvort mögulegt er að afla veðdeildinni nauðsynlegs fjár.

Í ágústmánuði lágu fyrir 60 umsóknir og ef þeim hefði öllum verið fullnægt með t.d. 180 þús. kr. láni, væru það 9 millj., en nú er vitað, að það berast ýmsar umsóknir til bankans, sem ekki er talið rétt að sinna. En það er vitanlega meiri hl. af þeim, sem er eðlilegt að sinna og sjálfsagt að sinna. En 20 millj. t.d. á næsta ári mundu leysa þann vanda, sem nú liggur fyrir og þá þarf að athuga, hvort mögulegt er að taka það á fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun fyrir næsta ár, þegar tekið er fyrir og athugað um fjáröflun til fjárfestingarsjóðanna yfirleitt.