30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (3556)

254. mál, lánsfé vegna jarðakaupa

Stefán Valgeirsson:

Hæstv. landbrh. sagði áðan í sambandi við útvegun fjár í veðdeildina, að það væri, eins og 3. þm. Norðurl. v. vissi, ekki létt að útvega fjármuni á síðari hluta árs, þótt beiðni hefði komið um það. Ég verð nú að segja, að þetta er nokkuð einkennilegur málflutningur, því að ég man ekki betur en á árinu 1966, þegar landbrh. lofaði því í sambandi við lausn þeirra vandamála, sem þá voru, að hækka lánveitingarnar úr 100 þús. upp í 200 þús. til jarðakaupa, að þá væri lofað að útvega veðdeildinni fjármuni. Ég veit ekki til þess, að við þetta hafi verið staðið og það getur því ekki verið nein afsökun nú fyrir hæstv. landbrh., að hann hafi ekki vitað um, hvernig komið var fyrir veðdeildinni síðari hluta þessa árs. Ég veit, að hjá fjölmörgum bændum er þetta mjög bagalegt. Ég þekki þess dæmi, fleiri en eitt og fleiri en tvö, að þeir, sem hafa selt jarðir sínar og hafa keypt húseignir í trausti þess, að þessi lán fengjust, eru nú komnir í þrot, vegna þess að þessar lánabeiðnir hafa ekki verið afgreiddar. Það er hörmulegt til þess að vita, að hæstv. landbrh. skuli ekki sjá neina leið til þess að leysa þennan vanda nú. Ég er búinn að fara margar ferðir í veðdeildina og mér er þar tjáð, að það sé ekki von á neinum lánum úr veðdeildinni, nema ríkisstj. leysi þessi mál.