30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (3558)

254. mál, lánsfé vegna jarðakaupa

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það var skömmu fyrir síðustu áramót, að ég sótti um lán í Búnaðarbankanum handa bónda á Vestfjörðum til að kaupa ábýlisjörð sína. Ég fékk þau svör hjá bankastjóranum, að hann mundi fá þetta lán, en hann mundi ekki fá það fyrr en í marz eða apríl.

Þegar apríl var liðinn fór ég í bankann og spurði eftir láninu. Nú er veðdeildin peningalaus og ekki hægt að afgreiða lánið, var mér svarað. Ég kvaðst vilja fá að vita, hvenær bóndinn fengi þetta lán, því að hann hefði gert kaupsamning um jörðina og ætti að borga andvirðið til seljandans fyrir áramót og hann þyrfti að vita þetta. Hann sagðist ekki geta svarað þessu, bankastjórinn, en hann vonaði fastlega, að veðdeildin fengi fé. Síðan talaði ég við bankastjórann í maí, júní og júlí og fékk þau svör, að það hafi ekki eitt einasta lán verið veitt úr veðdeildinni á þessu ári. Síðan kom ég í bankann í sept. og aftur í okt., talaði ekki við bankastjóra, heldur spurði starfsmann í veðdeildinni, hvort það væri farið að veita lán úr henni. Ekki eitt einasta lán, var svarið. Það lítur helzt út fyrir, að þessi 5.1 millj. hafi verið veitt núna síðustu dagana. (Gripið fram í: Kannske í gær.) Eða kannske í gær. Ég verð að harma, að bændur verði fyrir þeirri meðferð að fá loforð um lán, gera kaupsamninga og geta svo ekki staðið við þá, vegna þess að það stendur ekki, sem bankinn hefur sagt.