30.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

256. mál, landhelgissektir

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Á þessum fundi hefur með fsp. verið hreyft máli, sem mjög er umrætt í landinu. Ég minnist í því sambandi fréttar, sem alveg nýlega kom í dagblöðunum í Reykjavík, um atvik, sem skeði norður við Þistilfjörð. Lögregluþjónninn á Þórshöfn, sem er aðeins einn, hafði gert Landhelgisgæzlunni aðvart um það, að bátur væri að ólöglegum veiðum þar inni í firði. Svo liðu, eftir því sem lögreglumaðurinn skýrði frá, 27 klst., þannig að ekki varð vart við, að Landhelgisgæzlan kæmi á vettvang. Þá fór lögreglumaðurinn af stað á trillu, tók bátinn og færði hann til hafnar og það var viðurkennt, að brotið hefði verið framið. Ég minnist þess í sambandi við þetta mál, að undir lok síðasta Alþ. var ráðið, eftir að ýmsar till. höfðu fram komið í þingi, að sett yrði á laggirnar sérstök n. milli þinga, til þess að rannsaka þessi mál og gera till. um hagnýtingu veiðisvæða innan fiskveiðilandhelginnar. Það vakti athygli mína, eftir að ég kom hingað suður til Reykjavíkur og nokkra undrun, að það var ekki fyrr en í septembermánuði að ég ætla, sem þessi n. var skipuð eða jafnvel ekki fyrr en í okt., — það er upplýst hér, að það hefur verið 2. okt., sem n. var skipuð og sýnist mér satt að segja hafa dregizt nokkuð lengi að framkvæma þennan vilja Alþ.

Hæstv. sjútvrh. mun hafa þetta mál á sínum vegum og hefur skipað þessa n. Hann er ekki viðstaddur hér á fundi, svo að ég sjái, en ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. dómsmrh., sem hér verður fyrir svörum í málinu, hvort honum sé kunnugt um það eða þá öðrum hæstv. ráðh., hvenær líklegt sé, að þessi n., sem var að vísu nokkuð seint skipuð, muni ljúka starfi.