06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3576)

30. mál, fjárfesting ríkisbankanna

Fyrirspyrjandi (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. á þskj. 30 um fjárfestingu ríkisbankanna. Fsp. er í þremur liðum og í fyrsta lagi spyr ég, hver fjárfesting ríkisbankanna, hvers um sig, hafi orðið frá og með 1960 til þessa tíma í byggingarlóðum, húsbyggingum, tækjum og búnaði bankahúsa, annars vegar á verðlagi hvers árs fyrir sig, hins vegar á núverandi verðlagi.

Í öðru lagi spyr ég, hversu mikill sé áætlaður kostnaður ríkisbankanna, hvers um sig, af þeim hluta yfirstandandi fjárfestingarframkvæmda, sem nú er ólokið.

Og í þriðja lagi spyr ég, hvort ráðgerðar séu einhverjar fjárfestingarframkvæmdir hjá ríkisbönkunum og ef svo er, hverjar þær séu og hversu mikið þær muni kosta.