06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

30. mál, fjárfesting ríkisbankanna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hér er um mjög umfangsmikla fsp. að ræða. Ef ég ætti að svara henni út í æsar, eins og efni hennar og orðalag gefur tilefni til, mundi það eflaust taka mig 20–25 mínútur. En ég minnist þess, að fyrir örfáum dögum gagnrýndi hv. formaður þingflokks framsóknarmanna það, að óeðlilega miklum tíma væri eytt í fsp. og svör við þeim á hinu háa Alþ. Og ég er honum sammála um það, að æskilegra væri að komast af með minni tíma til þessara fsp. og svara við þeim en átt hefur sér stað á undanförnum þingum. Eina ráðið, til þess að ekki sé eytt óeðlilega miklum tíma í fsp. og svör við þeim, er, að ekki séu bornar fram fsp., sem krefjast mjög langs tíma til svara. Ég mun því freistast til að svara þessari spurningu nokkru stuttaralegar en orðalag hennar og efni gefur beinlínis tilefni til, en það er velkomið að láta hv. fyrirspyrjanda, sem og hverjum öðrum þm., sem þess óskar, í té allar þær upplýsingar, sem viðskrn. hefur fengið frá ríkisbönkunum varðandi þetta mál, þannig að upplýsingar í einstökum atriðum geta legið fyrir öllum hv. þm., þó að ég eyði ekki tíma þeirra í að lesa þær nákvæmlega hér. En hjá því verður samt ekki komizt, að svar við svona mikilvægri og víðtækri fsp. taki nokkurn tíma.

Ég hef hér fyrir framan mig mjög ýtarleg svör frá ríkisbönkunum öllum við þessum fsp. Einum lið hefur þó enginn þeirra treyst sér til þess að svara með þeim fyrirvara, sem þeir hafa fengið til svaranna, þ.e. hverju fjárfesting bankanna hvers um sig á hverju einstöku ári frá 1960 til þessa tíma hafi numið í byggingarlóðum, húsbyggingum, tækjum og búnaði bankahúsa á núverandi verðlagi. Það væri mikið verk að framkvæma þessa útreikninga og til þess hafa bankarnir ekki talið sig hafa tíma, enda vafasamt með ýmsum hætti, hvernig það verk ætti að vinnast. Þær tölur, sem ég mun nefna úr heimildum bankanna, eru því um verðlag hvers einstaks árs. Ég geng þá á bankana eftir röð.

Fyrst eru upplýsingar um fjárfestingu Seðlabankans. Frá 1960 hefur Seðlabankinn keypt fasteignirnar Lækjargötu 4 og Fríkirkjuveg 13 fyrir samtals 19 millj. kr. Verulegar endurbætur hafa farið fram og breytingar hafa farið fram á húseign Landsbankans, Edinborgarhúsi, sem Seðlabankinn hefur afnot af að verulegu leyti. Hefur Seðlabankinn fjárfest í afgreiðslu, geymslum og innréttingum fyrir samtals 4.8 millj. kr., en sú fjárfesting kemur Landsbankanum til góða, þegar Seðlabankinn flytur á burt úr húsinu. Til endurnýjunar og viðhalds skrifstofuáhöldum, þar með vélum, tækjum og húsbúnaði, hefur Seðlabankinn varið 5.3 millj. kr. frá 1960 til þessa. Um aðrar fjárfestingar í byggingarlóðum, húsum, tækjum og búnaði hefur ekki verið að ræða á tímabilinu. Fjárfestingarframkvæmdum í Edinborgarhúsinu af hálfu Seðlabankans er sem næst lokið og engar fjárfestingar á döfinni á næstunni.

Seðlabankinn hefur gert makaskiptasamning við Reykjavíkurborg um skipti á Lækjargötu 4 og Fríkirkjuvegi 11. Er hann bundinn því skilyrði, að almenningsgarður haldist óskertur og um húsbygginguna liggi fyrir lausn um útlit, stærð og staðsetningu hennar, sem byggingaryfirvöld samþykkja. Engin ákvörðun hefur verið tekin um, hvort og hvenær framkvæmdir hefjast. Þetta var um Seðlabankann.

Þá vík ég að Landsbanka Íslands. Ég hef hér fyrir mér yfirlit um allar fjárfestingar Landsbanka Íslands í lóðum, byggingum, öryggisbúnaði, vélum, tækjum og húsbúnaði á árunum 1960—1968. Landsbankinn hefur sundurliðað þessar fjárfestingar mjög rækilega og vandlega. Það mundi taka of mikinn tíma að gera grein fyrir því öllu, en ég endurtek, að þær upplýsingar eru til reiðu fyrir þá, sem áhuga kunna að hafa á þeim.

1960 nam þessi fjárfesting 7.1 millj. kr., 1961 4.7 millj., 1962 5 millj., 1963 0.3 millj., 1964 31.3 millj., og er þar langstærsta talan húseignin Hafnarstræti 10–12, 18 millj., og síðari áfangi byggingarinnar að Laugavegi 77, 9.5 millj., 1965 18.5 millj., og er þar langstærsta talan húseignin að Laugavegi 77, 11.1 millj., 1966 32.2 millj., og er þar enn langstærsta talan húseignin að Laugavegi 77, 16.8 millj., 1967 39.2 millj., og eru þar stærstu tölurnar viðbyggingin við Hafnarstræti 10–12, 8 millj. og enn Laugavegur 77, 8.6 millj. og að síðustu 1968 15.7 millj. og er þar stærsta talan viðbygging og endurbætur að Hafnarstræti 10–12, 6.1 millj. Á þessu öllu tímabili, 1960–1968, að báðum árum meðtöldum, hefur heildarfjárfestingin numið 154 millj. kr.

Í þessu yfirliti eru tilfærðar greiðslur eins og þær hafa verið á hverjum tíma. Á þessu tímabili hefur bankinn stofnað 12 útibú og afgreiðsluskrifstofur, þar af 8 utan Reykjavíkur. Þess ber ennfremur að geta, að nokkrar opinberar stofnanir hafa aðsetur í húsakynnum bankans, má þar t.d. nefna Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Húseignirnar Austurstræti 11 og Hafnarstræti 14 eða Ingólfshvoll eru sameign Landsbankans og Seðlabankans. Bankarnir hafa sameiginleg afnot af Austurstræti 11, en auk þess hefur Seðlabankinn veruleg afnot at Hafnarstræti 10–12, sem er eign Landsbankans.

Áætlaður kostnaður við að ljúka þeim fjárfestingarframkvæmdum, sem nú er unnið að hjá bankanum, nemur 4–5 millj. kr. Fyrirhugaðar fjárfestingarframkvæmdir, sem þegar er hafinn undirbúningur að, eru að endurbyggja Hafnarstræti 14, Ingólfshvol. Húsið tengir saman aðalbyggingu bankans og Hafnarstræti 12. Mikil eldhætta er talin stafa af húsinu, en það er að öllu leyti innréttað með timbri, stigar, loft og skilrúm. Af öryggisástæðum hefur húsið nú verið rýmt að mestu leyti. Þá býr útibúið á Akranesi við mjög þröng og ófullkomin húsakynni og undirbúningur að byggingu þar er þegar hafinn. Ennfremur er ráðgert að byggja yfir útibúið í Grindavík í samvinnu við Póst og síma. Undirbúningur þessara framkvæmda er kominn á lokastig, en kostnaðaráætlanir liggja þó ekki fyrir.

Þá vík ég að Útvegsbanka Íslands, fyrst að aðalbankanum. Árið 1963 var hafizt handa um að byggja ofan á hús Útvegsbankans, gamla Íslandsbankahúsið, sem byggt var árið 1905. Jafnframt var byggður viðbótar afgreiðslusalur bak við og gamla bankahúsinu breytt og það lagfært. Þetta var orðin aðkallandi nauðsyn, enda svo komið, að bankinn þurfti að hafa á leigu hæð í Hafnarhvoli fyrir starfsemi sína, sem fór ört vaxandi frá ári til árs, en þar unnu um 30 manns. Er augljóst, að þetta var orðið óviðunandi ástand, ekki sízt fyrir viðskiptamenn bankans. Yfirlit yfir kostnað við byggingarframkvæmdir, kaup á vélum, húsbúnaði og öðrum tækjum frá 1963 til 30. sept. s. l., er eins og ég nú mun segja frá, en frá ársbyrjun 1960 til ársloka 1962 var enginn kostnaður hjá Útvegsbankanum vegna byggingarframkvæmda. Skýrsla hans tekur því aðeins til áranna 1963—1968. Þær upplýsingar eru þannig:

1963 9.7 millj., 1964 11.6 millj., 1965 16.3 millj., 1966 14.0 millj., 1967 10.0 millj. og 1968 250 þús. eða samtals 61.9 millj. kr. Það ber að hafa í huga, að verulegur hluti þessarar fjárhæðar er viðhald og nauðsynlegar endurbætur á eldra húsnæði bankans og kaup á bókhaldsvélum, húsgögnum og öðrum tækjum. Lætur nærri, að í þetta hafi farið 1/3 hluti þessarar fjárhæðar, en 2/3 hlutar hennar í sjálfa nýbygginguna.

Þá vík ég að útibúunum og þá fyrst að útibúi í Reykjavík og Kópavogi. Á þessu ári fékk bankinn leyfi til þess að stofna útibú í Kópavogi og að Grensásvegi 12 í Reykjavík. Kópavogsútibúið var opnað í sumar, en Grensásútibúið verður opnað bráðlega. Bankinn telur stofnun þessara útibúa hafa verið orðna aðkallandi nauðsyn, enda hafði hann áður aðeins eitt útibú í Reykjavík, að Laugavegi 105, sem stofnað var 1956, en aðrir bankar komnir með útibú víðs vegar um borgina. Þessi útibú Útvegsbankans eru í leiguhúsnæði, en kostnaður við innréttingar og kaup á vélum og húsbúnaði hefur orðið sem hér segir: Á Laugavegi 105 2.3 millj., á Grensásvegi 12 0.9 millj. og á Álfhólsvegi 7 í Kópavogi 2 millj., eða samtals 5.2 millj. kr.

Þá kemur að útibúunum úti á landi. Útibúið á Akureyri hafði í fjölda ára starfað í ófullgerðu húsnæði og var nú ekki lengur hægt að komast hjá að ljúka byggingunni, þótt útibúið sjálft hafi ekki haft þörf nema fyrir nokkurn hluta hennar, en hún kemur sér vel fyrir ýmsar aðrar opinberar stofnanir, t.d. eru skrifstofur bæjarfógetaembættisins á Akureyri og umboð Tryggingastofnunarinnar í húsnæði Útvegsbankans þar í bæ. Kostnaður við að fullgera bygginguna hefur orðið 7.4 millj. kr.

Þá telur bankinn útibúið á Ísafirði hafa þurft nauðsynlegra endurbóta við. Kostnaður við þær framkvæmdir hefur numið 3.6 millj. kr.

Útibúið í Keflavík var stofnað vegna eindreginna óska útgerðarmanna o.fl. þar 1963. Útibúið er í leiguhúsnæði, en kostnaður við innréttingar, vélar og húsbúnað hefur numið 2.2 millj. kr.

Útibúið á Seyðisfirði hefur um áratugi verið í gömlu timburhúsi og var óhjákvæmilegt að framkvæma lagfæringar á því og breytingar til hagræðingar. Kostnaður við það hefur orðið 3.2 millj. kr. á árunum 1964—1967.

Um útibúið í Vestmannaeyjum segir bankinn, að nauðsynlegt hafi verið að kaupa vélar fyrir bókhald útibúsins vegna aukinnar starfsemi og hefur kostnaður við það orðið 0.4 millj. kr.

Bankinn vekur athygli á því, að í framangreindum kostnaðartölum séu verulegar fjárhæðir, sem beinlínis hafi gengið til viðhalds á húsnæði aðalbankans og útibúa hans og endurnýjunar á vélakosti. Framkvæmdum þeim, sem ég hef sagt frá, er að fullu lokið, nema rishæð aðalbankans, sem beðið verður með um sinn. Bankinn segir engar aðrar fjárfestingarframkvæmdir ráðnar á næstunni.

Að síðustu kem ég að Búnaðarbanka Íslands. Í umsögn sinni bendir Búnaðarbankinn á, að það tímabil, sem hér er spurt um, hafi verið langörasta vaxtarskeið í sögu bankans bæði að því er snertir inn– og útlán, veltu og afgreiðslufjölda, og hafi bankinn þess vegna orðið að ráðast í margar, nauðsynlegar framkvæmdir til þess að mæta þessari öru þróun, einkanlega úti á landi, þar sem bankinn hefur tekið við rekstri fjölmargra sparisjóða og stofnsett útibú. Bankinn segir sparisjóðina ýmist hafa verið húsnæðislausa eða hafa búið við allsendis ófullnægjandi starfsskilyrði. Bankinn bendir á, að á þessum tæpum 9 árum, sem eftirfarandi tölur taka til, hafi heildarútlán bankans vaxið úr 317.5 millj. kr. um áramótin 1959–1960 í 1.727 millj. kr. 31. ágúst 1968. Hafi útlánin sem sé vaxið um 1.410 millj. kr. eða um 444%. Jafnframt hafi hundraðstala bankans í heildarútlánum ríkisbankanna aukizt úr 17.5% í 25.7% og heildarvelta bankans hækkað úr 15 milljörðum í 111 milljarða kr. En upplýsingar Búnaðarbankans um fjárfestingu hans eru þessar:

Útibúið á Akureyri var stofnað 1930, en til þess hefur verið varið 5.4 millj. kr. Til útibúsins á Egilsstöðum, stofnað 1960, hefur verið varið 2 millj. kr. Til útibúsins á Blönduósi, stofnsett 1963, hefur verið varið 1.8 millj. kr. Til útibúsins á Hellu, stofnað 1964, hefur verið varið 3.4 millj. kr. Til útibús á Sauðárkróki, stofnað 1964, hefur verið varið 11.4 millj. kr. Til útibús í Stykkishólmi, stofnað 1964, hefur verið varið 5.2 millj. kr. Til útibús í Búðardal, stofnað 1966, hefur verið varið 890 þús. kr. Til útibús í Hveragerði, stofnað 1967, hefur verið varið 3 millj. kr.

Um byggingar í þágu aðalbankans í Reykjavík er þetta að segja: Á árinu 1965 var svo komið, að afgreiðsluskilyrði í húsakynnum aðalbankans voru orðin ófullnægjandi, bæði fyrir starfsfólk og viðskiptamenn bankans. Var því gripið til þess ráðs á árinu 1966 að innrétta nýjan afgreiðslusal fyrir víxladeild, stofnlánasjóði og lánadeild á 2. hæð, sem þó reyndist vera bráðabirgðalausn, a.m.k. fyrir stofnlánadeild og lánadeild. Um sama leyti tók bankinn í notkun vélabókhald með IBM—skýrsluvélum fyrir víxladeild, stofnlánadeild og veðdeild á 3. hæð. Heildarkostnaður við þessar breytingar og aðrar á húsum bankans í Austurstræti og Hafnarstræti á síðustu 9 árum hefur orðið 3.2 millj. kr. Þær lagfæringar; sem gerðar hafa verið, nægja þó hvergi nærri að dómi bankans, þar sem ýmsar deildir eru enn á hrakhólum við óviðunandi vinnuskilyrði, aðallega lánadeild, verðbréfadeild, innheimtudeild og afurðalánadeild. Hér við bætist svo, segir bankinn, að Austurbæjarútibú, sem er stærsta útibú bankans í Reykjavík eða svipað og stærstu sparisjóðir utan Reykjavíkur, með tæplega 200 millj. kr. innstæðu, býr nú við þröngan húsakost hjá Tryggingastofnun ríkisins að Laugavegi 114 og leigutími senn á enda. Til þess að leysa húsnæðismál þessarar deildar var hafizt handa um nýbyggingu við Hlemm í Reykjavík, að Laugavegi 120, og keypti bankinn í því skyni tvær lóðir á þessu svæði, sem endurseldar hafa verið Reykjavíkurborg, jafnframt því sem borgin rýmdi og leigði bankanum nauðsynlegar lóðir til viðbótar. Í húsið er áformað að flytja fyrst og fremst Austurbæjarútibú og síðan Stofnlánadeild landbúnaðarins, veðdeild Búnaðarbankans, landnámsstjóra og Landnám ríkisins, Teiknistofu landbúnaðarins, lánadeild og e.t.v. fleiri deildir, eftir því sem nauðsyn krefur. Ennfremur verður nú loks flutt á einn stað allt skjalasafn bankans, sem margfaldazt hefur á síðustu árum og dreift hefur verið í geymslur víðs vegar í borginni sökum vöntunar á húsnæði. A.m.k. hluti hússins verður fullbúinn á næsta ári og tekur bankinn þá strax til afnota kjallara og tvær til þrjár hæðir, en 4. hæðin verður leigð út, unz hennar gerist þörf. Til byggingarinnar hafði verið ráðstafað hinn 24. okt. s.l. 19.3 millj. kr. Loks hefur Miðbæjarútibú nýlega skipt um húsnæði innan hússins nr. 3 við Laugaveg, sem er gamalt hús og krafðist töluverðra breytinga og viðgerða. Heildarkostnaður nam 1.2 millj. kr., en Miðbæjarútibú er annað stærsta útibú bankans í Reykjavík.

Niðurstaðan er sú, að heildarfjárfesting bankans í fasteignum, breytingum og lagfæringum á síðustu 9 árum nemur samtals 57 millj. kr. Á þessu tímabili hafa tekið til starfa 7 ný útibú úti á landi, sem öll eru orðin föst í sessi og hafa þegar sannað tilverurétt sinn og nytsemi fyrir allt atvinnulíf hvert í sínu héraði.

Fjárfesting Búnaðarbankans í tækjum og búnaði, sem færð er á innanstokksmuni í reikningum bankans, er ekki sundurliðuð sérstaklega, en hefur numið á umræddu tímabili í aðalbanka og öllum 13 útibúum bankans 13.3 millj. kr., sem bætist við fyrrgreinda tölu. Um fyrirhugaðar framkvæmdir, segir bankinn, að engar nýjar framkvæmdir séu í undirbúningi, eins og sakir standa.

Að síðustu vildi ég svo láta þess getið, að samanburður hefur verið gerður að gefnu þessu tilefni og öðrum á tölu banka og bankaútibúa í Danmörku og á Íslandi og tala banka og bankaútibúa borin saman við tölu íbúa í þessum tveim löndum. Niðurstaða þeirrar athugunar er sú, að í Danmörku voru í árslok 1967 starfandi 121 viðskiptabanki með 1.800 útibúum. Íbúar á hvern banka í Danmörku voru því samtals 2.473, miðað við tölu banka og bankaútibúa 1921. Á Íslandi voru hliðstæðar tölur þessar: Það voru í árslok 1967 starfandi 6 viðskiptabankar með 47 útibúum eða samtals 53 bankar. Íbúar á hvern banka á Íslandi voru því 3.774 eða um 1300 einstaklingum fleiri en koma á hvern banka og bankaútibú í Danmörku.